Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w22 desember bls. 16-21
  • Þú getur fundið frið þrátt fyrir erfiðleika

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þú getur fundið frið þrátt fyrir erfiðleika
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • AÐ FINNA FRIÐ ÞEGAR SJÚKDÓMAR GEISA
  • AÐ FINNA FRIÐ ÞEGAR NÁTTÚRUHAMFARIR VERÐA
  • AÐ FINNA FRIÐ Í OFSÓKNUM
  • GUÐ FRIÐARINS VERÐUR MEÐ OKKUR
  • Hjálpum öðrum að halda út í erfiðleikum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Hvernig þú getur notið friðar Guðs í fyllri mæli
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Megi „friður Guðs“ varðveita hjarta þitt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
  • Geturðu fundið frið í þessum hrjáða heimi?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
w22 desember bls. 16-21

NÁMSGREIN 51

Þú getur fundið frið þrátt fyrir erfiðleika

„Verið ekki áhyggjufullir né óttaslegnir.“ – JÓH. 14:27.

SÖNGUR 112 Jehóva, Guð friðarins

YFIRLITa

1. Hvað er „friður Guðs“ og hvernig nýtist hann okkur? (Filippíbréfið 4:6, 7)

TIL er friður sem fólk almennt þekkir ekki. Þetta er „friður Guðs“, sú ró sem hlýst af dýrmætu sambandi við föður okkar á himnum. Þegar við höfum frið Guðs finnum við til öryggiskenndar. (Lestu Filippíbréfið 4:6, 7.) Við eigum góða vini sem elska Jehóva líka. Og við eigum hlýlegt samband við „Guð friðarins“. (1. Þess. 5:23) Þegar við þekkjum, hlýðum og treystum föður okkar róar friður hans okkur ef við erum áhyggjufull í erfiðum aðstæðum.

2. Hvers vegna getum við verið viss um að það er hægt að hafa frið Guðs?

2 Er mögulegt að fá frið Guðs þegar við mætum erfiðleikum eins og þegar sjúkdómar geisa eða við stöndum frammi fyrir náttúruhamförum, þjóðfélagsólgu eða ofsóknum? Þessar alvarlegu aðstæður geta fyllt okkur kvíða. En Jesús sagði fylgjendum sínum: „Verið ekki áhyggjufullir né óttaslegnir.“ (Jóh. 14:27) Bræður og systur hafa fylgt ráði Jesú. Með hjálp Jehóva hafa þau getað fundið frið þegar þau takast á við erfiðar prófraunir.

AÐ FINNA FRIÐ ÞEGAR SJÚKDÓMAR GEISA

3. Hvernig getur faraldur raskað friði okkar?

3 Faraldur getur umturnað næstum öllu í lífinu. Skoðum hvaða áhrif COVID-19 hefur haft á marga. Könnun var gerð þar sem meira en helmingur viðmælenda sagðist eiga erfitt með svefn í faraldrinum. Þeim fjölgaði umtalsvert sem fundu fyrir kvíða eða þunglyndi, misnotuðu vín eða lyf, urðu fyrir heimilisofbeldi eða reyndu að taka eigið líf. Hvernig geturðu sefað áhyggjur þínar og notið friðar Guðs ef þú býrð á svæði þar sem sjúkdómur geisar?

4. Hvers vegna veitir það okkur frið að þekkja spádóm Jesú um hina síðustu daga?

4 Jesús sagði fyrir að á hinum síðustu dögum myndu verða drepsóttir, eða útbreiddir sjúkdómar, „á einum stað eftir annan“. (Lúk. 21:11) Hvernig getur sú vitneskja veitt okkur frið? Það kemur okkur ekki á óvart þegar sjúkdómar geisa. Við áttum okkur á því að þetta er í samræmi við það sem Jesús sagði. Við fylgjum því ráðleggingunni sem hann gefur þeim sem lifa á tímum endalokanna: „Gætið þess að skelfast ekki.“ – Matt. 24:6.

Systir með heyrnartól og snjalltæki hlustar á hljóðupptökur.

Að hlusta á hljóðupptökur af Biblíunni getur hjálpað þér að hafa hugarfrið þegar sjúkdómur geisar. (Sjá 5. grein.)

5. (a) Hvað ættum við að biðja um þegar sjúkdómar geisa samkvæmt Filippíbréfinu 4:8, 9? (b) Hvernig getur það gagnast okkur að hlusta á hljóðupptökur af Biblíunni?

5 Faraldur getur auðveldlega valdið óvissu og ótta. Það var það sem gerðist hjá systur okkar Desi.b Eftir að tveir frændur hennar og læknirinn hennar dóu allir úr COVID-19 var hún hrædd um að fá vírusinn sjálf og smita aldraða móður sína. Vegna faraldursins var hún líka hrædd um að missa vinnuna. Hún hafði áhyggjur af því að eiga ekki fyrir mat og húsnæði. Þessar áhyggjur heltóku hana og fóru að halda fyrir henni vöku. En Desi endurheimti frið sinn. Hvernig? Hún bað Jehóva að hjálpa sér að vera róleg og hugsa jákvætt. (Lestu Filippíbréfið 4:8, 9.) Hún hlustaði á Jehóva „tala“ við sig þegar hún hlustaði á hljóðupptökur af Biblíunni. Hún segir: „Róandi rödd lesaranna dró úr kvíðanum og minnti mig á að Jehóva er annt um mig.“ – Sálm. 94:19.

6. Hvaða gagn geturðu haft af sjálfsnámi og samkomum?

6 Þegar sjúkdómar geisa er ekki hægt að gera allt sem við erum vön að gera. En við ættum ekki að láta það raska sjálfsnámi okkar eða samkomusókn. Reynslusögur í ritum okkar og myndböndum geta minnt okkur á að bræður og systur þjóna Jehóva trúföst þrátt fyrir svipaða erfiðleika. (1. Pét. 5:9) Samkomurnar hjálpa okkur að fylla hugann með uppbyggjandi biblíulegum hugsunum. Þær gefa okkur líka tækifæri til að uppörva aðra og fá uppörvun. (Rómv. 1:11, 12) Þegar þú hugleiðir hvernig Jehóva hefur stutt tilbiðjendur sína þegar þeir voru veikir, hræddir eða einmana styrkist trú þín og þú verður sannfærður um að hann muni líka styrkja þig.

7. Hvað geturðu lært af Jóhannesi postula?

7 Leggðu þig fram um að eiga samskipti við bræður og systur. Þegar sjúkdómur geisar gætum við þurft að virða fjarlægðarmörk, jafnvel þegar við hittum trúsystkini okkar. Við slíkar aðstæður gæti þér liðið eins og Jóhannesi postula. Hann langaði að hitta Gajus vin sinn augliti til auglitis en hann gerði sér grein fyrir því að það væri ekki hægt um tíma. (3. Jóh. 13, 14) Hann gerði því það sem hann gat og skrifaði Gajusi bréf. Ef það er ekki alltaf hægt að hitta bræður og systur augliti til auglitis reyndu þá að hafa samband við þau í síma, með fjarfundabúnaði eða með því að senda smáskilaboð. Þú verður rólegri og síður einmana þegar þú heldur góðu sambandi við trúsystkini þín. Hafðu samband við öldungana ef þú verður mjög kvíðafullur og þiggðu hvatninguna sem þeir veita af kærleika. – Jes. 32:1, 2.

AÐ FINNA FRIÐ ÞEGAR NÁTTÚRUHAMFARIR VERÐA

8. Hvernig gætu hamfarir raskað friði þínum?

8 Ef þú hefur einhvern tíma upplifað flóð, jarðskjálfta eða elda má vera að þú hafir fundið fyrir miklum kvíða í langan tíma á eftir. Ef þú misstir ástvin eða eigur þínar eyðilögðust má vera að þú hafir upplifað sorg, vonleysi eða jafnvel reiði. Þetta þýðir ekki að þú sért efnishyggjumaður eða að þig skorti trú. Þú fórst í gegnum erfiða prófraun og sumir gerðu kannski ráð fyrir að þú brygðist neikvætt við. (Job. 1:11) En þú getur samt fundið frið þrátt fyrir erfiðar kringumstæður. Hvernig?

9. Hvernig bjó Jesús okkur undir válega atburði?

9 Gleymum ekki því sem Jesús spáði. Ólíkt sumum sem ímynda sér að hamfarir muni aldrei snerta þá sjálfa gerum við ráð fyrir aukningu þeirra og að þær geti haft áhrif á okkur. Jesús sagði fylgjendum sínum að miklir jarðskjálftar og aðrar hamfarir yrðu áður en endirinn kæmi. (Lúk. 21:11) Hann sagði líka að illskan myndi magnast sem sést á glæpum, ofbeldi og hryðjuverkaárásum nú á dögum. (Matt. 24:12) Jesús sagði aldrei að þessar hörmungar myndu aðeins hafa áhrif á þá sem Jehóva hefur hafnað. Reyndar hafa margir trúfastir þjónar Jehóva orðið fórnarlömb hamfara. (Jes. 57:1; 2. Kor. 11:25) Þótt Jehóva verndi okkur ekki með kraftaverki fyrir öllum hörmungum gefur hann okkur það sem við þurfum til að halda ró okkar.

10. Hvers vegna er það merki um trú að búa okkur undir hamfarir? (Orðskviðirnir 22:3)

10 Ef við höfum gert ráðstafanir til að vera viðbúin er auðveldara fyrir okkur að halda ró okkar þegar neyðartilfelli kemur upp. En er það merki um að okkur skorti trú ef við undirbúum okkur? Alls ekki. Að búa okkur undir hamfarir sýnir að við höfum trú á getu Jehóva til að annast okkur. Hvernig þá? Orð Guðs hvetur okkur til að búa okkur undir mögulegar hörmungar. (Lestu Orðskviðina 22:3.) Í tímaritum okkar, á safnaðarsamkomum og í tímabærum tilkynningum hefur söfnuður Guðs ítrekað hvatt okkur til að búa okkur undir neyðartilfelli.c Treystum við Jehóva? Þá fylgjum við þessum leiðbeiningum núna – áður en hörmungar dynja yfir.

Systir með götukort í bílnum sínum. Hún er með vatnsflöskur og aðrar vistir.

Undirbúningur getur bjargað lífi þínu þegar hamfarir verða. (Sjá 11. grein.)d

11. Hvað getum við lært af Margaret?

11 Skoðum reynslu systur að nafni Margaret. Henni var sagt að yfirgefa heimili sitt þegar eldar brutust út þar sem hún bjó. Vegna þess að margir reyndu að flýja á sama tíma var umferðaröngþveiti og umferðin stöðvaðist. Loftið varð svart af reyk og Margaret var innilokuð í bílnum sínum um tíma. En hún komst lífs af vegna þess að hún var undirbúin. Hún geymdi vegakort í veskinu sínu sem hjálpaði henni að finna flóttaleið. Hún hafði jafnvel keyrt hana áður til að geta fundið hana auðveldlega í neyðartilfelli. Það var undirbúningi Margaretar að þakka að hún komst lífs af.

12. Hvers vegna fylgjum við öryggisráðstöfunum?

12 Til að vernda okkur og viðhalda reglu geta yfirvöld fyrirskipað útgöngubann, að svæði sé rýmt eða að einhverjum öðrum leiðbeiningum sé fylgt. Sumir eru tregir að hlýða eða slá því á frest vegna þess að þeir vilja ekki yfirgefa eigur sínar. Hvernig bregðast þjónar Guðs við? Biblían segir: „Verið undirgefin allri mannlegri skipan vegna Drottins, hvort heldur konungi, sem er yfir öðrum, eða landstjórum sem hann sendir.“ (1. Pétursbréf 2:13, 14) Söfnuður Guðs gefur okkur líka leiðbeiningar til að tryggja öryggi okkar. Við erum reglulega minnt á að láta öldungana fá samskiptaupplýsingar okkar svo að þeir geti haft samband við okkur í neyðartilfelli. Ert þú búinn að því? Við gætum einnig fengið leiðbeiningar um að halda kyrru fyrir, yfirgefa svæðið, safna neyðarbirgðum eða leiðbeiningar um hvernig og hvenær við gætum aðstoðað aðra. Ef við hlýðum ekki gætum við stofnað lífi okkar og lífi öldunganna í hættu. Gleymum ekki að þessir trúföstu menn gæta okkar. (Hebr. 13:17) Margaret segir: „Ég trúi því staðfastlega að það hafi bjargað lífi mínu að fylgja leiðbeiningum öldunganna og safnaðarins.“

13. Hvað hefur gefið mörgum þjónum Guðs sem hafa þurft að yfirgefa heimili sitt gleði og innri ró?

13 Mörg trúsystkini okkar sem hafa þurft að yfirgefa heimili sitt vegna hamfara, styrjalda eða þjóðfélagsólgu hafa gert sitt besta til að aðlagast nýjum aðstæðum og koma strax reglu á þjónustuna við Jehóva. Þannig líkja þau eftir þjónum Guðs á fyrstu öld sem héldu áfram að ,boða fagnaðarboðskap Guðs‘ eftir að hafa dreifst vegna ofsókna. (Post. 8:4) Boðunin hjálpar trúsystkinum okkar að einbeita sér að Guðsríki frekar en erfiðum kringumstæðum. Fyrir vikið hafa þau haldið gleði sinni og innri ró.

AÐ FINNA FRIÐ Í OFSÓKNUM

14. Hvernig geta ofsóknir raskað friði okkar?

14 Ofsóknir geta rænt okkur mörgu sem stuðlar venjulega að innri friði. Við erum glöð og ánægð þegar við höfum frelsi til að sækja samkomur, boða trúna fyrir opnum tjöldum og lifa daglegu lífi án þess að vera hrædd við að vera handtekin. Ef þetta frelsi er ekki lengur fyrir hendi gætum við orðið kvíðin og óttast hvað gerðist næst. Þetta eru eðlilegar tilfinningar. En við þurfum að gæta okkar. Jesús gaf til kynna að ofsóknir gætu orðið til þess að við hrösuðum og féllum. (Jóh. 16:1, 2) Hvernig getum við viðhaldið innri ró þegar við verðum fyrir ofsóknum?

15. Hvers vegna ættum við ekki að óttast ofsóknir? (Jóhannes 15:20; 16:33)

15 Orð Guðs segir okkur: „Allir sem vilja lifa guðrækilegu lífi sem lærisveinar Krists Jesú verða ofsóttir.“ (2. Tím. 3:12) Bróðir að nafni Andrei átti erfitt með að skilja þetta þegar starfsemin var bönnuð í landinu þar sem hann býr. Hann hugsaði: ,Það eru of margir vottar hérna. Hvernig gætu yfirvöld handtekið okkur öll?‘ En þessi hugsun gaf honum ekki frið heldur gerði hann stöðugt kvíðinn. Önnur trúsystkini létu málið í hendur Jehóva og reyndu ekki að telja sér trú um að þau yrðu aldrei handtekin. Þau gerðu sér grein fyrir að þau gætu verið handtekin en voru ekki jafn kvíðafull og Andrei. Hann ákvað því að tileinka sér viðhorf þeirra og setja allt sitt traust á Guð. Hann fann fljótlega fyrir innri ró og er núna glaður þrátt fyrir erfiðleika. Við getum gert slíkt hið sama. Jesús sagði að við gætum átt von á ofsóknum, en hann fullvissaði okkur líka um að við gætum verið trúföst. – Lestu Jóhannes 15:20; 16:33.

16. Hvaða leiðbeiningum þurfum við að hlýða þegar við sætum ofsóknum?

16 Þegar miklar hömlur eru á starfi okkar eða það bannað fáum við ef til vill leiðbeiningar frá deildarskrifstofunni og öldungunum. Þær eru okkur til verndar, til að tryggja að við fáum áfram andlega fæðu og hjálpa okkur að boða trúna eftir því sem hægt er. Gerðu þitt besta til að hlýða leiðbeiningunum, jafnvel þótt þú skiljir ekki alveg af hverju þær eru gefnar. (Jak. 3:17) Og gættu þess að gefa ekki upplýsingar um bræður og systur eða um starfsemi safnaðarins þeim sem eiga ekki rétt á því. – Préd. 3:7.

Bróðir notar Biblíuna í símanum þegar hann talar við vinnufélaga í matartímanum.

Hvað getur hjálpað þér að varðveita hugarfrið á erfiðum tímum? (Sjá 17. grein.)e

17. Hvað erum við ákveðin í að gera rétt eins og postularnir á fyrstu öldinni?

17 Ein meginástæðan fyrir því að Satan heyr stríð við fólk Guðs er að það hefur það „verkefni að vitna um Jesú“. (Opinb. 12:17) Ekki láta Satan eða heim hans hræða þig. Boðunin og kennslustarfið færa okkur gleði og frið þrátt fyrir andstöðu. Á fyrstu öld þegar valdamenn Gyðinga fyrirskipuðu postulunum að hætta að boða trúna kusu þessir trúföstu menn að hlýða Guði. Þeir héldu boðuninni áfram og það veitti þeim gleði. (Post. 5:27–29, 41, 42) Við þurfum að sjálfsögðu að vera varkár í boðuninni þegar hömlur eru á starfsemi okkar. (Matt. 10:16) En ef við gerum okkar besta höfum við frið sem kemur af því að gleðja Jehóva og færa fólki boðskap sem getur bjargað lífi þess.

GUÐ FRIÐARINS VERÐUR MEÐ OKKUR

18. Hver getur gefið okkur sannan frið?

18 Við megum vera viss um að við getum haft innri frið jafnvel við erfiðustu aðstæður. Við slíkar aðstæður verðum við að muna að friðurinn sem við þurfum er friður Guðs, það er að segja friður sem aðeins Jehóva getur gefið okkur. Reiðum okkur á hann þegar sjúkdómar geisa, hamfarir verða eða við sætum ofsóknum. Höldum okkur fast við söfnuð hans. Horfum til þeirrar dásamlegu framtíðar sem bíður okkar. Þá verður Guð friðarins með okkur. (Fil. 4:9) Í næstu námsgrein skoðum við hvernig við getum hjálpað trúsystkinum okkar sem standa andspænis erfiðleikum að hafa frið Guðs.

HVERNIG GETURÐU FUNDIÐ FRIÐ …

  • þegar sjúkdómar geisa?

  • þegar hamfarir verða?

  • þegar ofsóknir verða?

SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig

a Jehóva lofar að gefa þeim frið sem elska hann. Hvaða frið gefur Guð og hvernig getum við eignast hann? Hvernig getur það að hafa ,frið Guðs‘ hjálpað okkur þegar sjúkdómar geisa, náttúruhamfarir verða eða við þurfum að þola ofsóknir? Þessum spurningum verður svarað í þessari námsgrein.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.

c Sjá greinina „Þegar hamfarir verða – hvað getur bjargað lífum?“ í Vaknið! nr. 5 2017.

d MYND: Systir bjó sig undir að yfirgefa heimili sitt.

e MYND: Bróðir á svæði þar sem hömlur eru á boðuninni boðar trúna svo lítið beri á.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila