Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w24 október bls. 2-5
  • 1924 – fyrir hundrað árum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • 1924 – fyrir hundrað árum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ÞEIR BYGGÐU ÚTVARPSSTÖÐ
  • HUGRÖKK YFIRLÝSING GAGNVART TRÚARLEIÐTOGUM
  • BOÐUN AF HUGREKKI Í ÖÐRUM LÖNDUM
  • HORFT TIL FRAMTÍÐAR
  • 1925 – fyrir hundrað árum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • 1922 – fyrir hundrað árum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • 1919 – fyrir hundrað árum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
  • Boðunaraðferðir – allar leiðir notaðar til að ná til fólks
    Ríki Guðs stjórnar
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
w24 október bls. 2-5

1924 – fyrir hundrað árum

„Í UPPHAFI árs er gott fyrir hvert Drottins barn sem er vígt honum … að leita leiða til að gera meira í þjónustu Jehóva,“ sagði í Bulletina í janúar 1924. Biblíunemendurnir fylgdu þessum ráðum, sýndu kjark og boðuðu trúna óttalaust.

ÞEIR BYGGÐU ÚTVARPSSTÖÐ

Bræðurnir á Betel unnu að því í meira en ár að byggja útvarpsstöðina WBBR á Staten Island í New York-borg. Eftir að hafa rutt lóðina reistu þeir byggingu fyrir starfsfólk útvarpsstöðvarinnar og aðra fyrir hljóðver og tækjabúnað. Þegar því var lokið útveguðu bræðurnir tækin sem voru nauðsynleg til að hefja útvarpsútsendingar. En það voru mörg ljón á veginum.

Það reyndist erfitt að setja upp aðalmastrið. Það þurfti að festa 91 metra hátt mastur milli tveggja staura sem voru 61 metri á hæð. Það tókst ekki í fyrstu tilraun. En bræðurnir treystu á hjálp Jehóva og að lokum tókst þeim að reisa það. Calvin Prosser var einn þeirra sem vann við verkið. Hann sagði: „Ef þetta hefði gengið upp í fyrstu tilraun hefðum við eignað okkur heiðurinn og sagt: ‚Sjáið hvað við gátum.‘“ Bræðurnir þökkuðu Jehóva árangurinn. En vandamálin voru þó ekki úr sögunni.

Eitt af útvarpsmöstrunum við útvarpsstöðina reist.

Þetta var á þeim tíma sem útvarpssendingar voru rétt að hefjast og það var ekki hlaupið að því að útvega nauðsynlegan tækjabúnað. En bræðurnir fundu heimatilbúinn búnað í nágrenninu. Í staðinn fyrir að kaupa hljóðnema notuðu þeir hljóðnema úr venjulegu símtæki. Kvöld eitt í febrúar ákváðu þeir að prófa þennan einfalda tækjabúnað. Þá vantaði dagskrárefni og þeir sungu því ríkissöng. Ernest Lowe rifjar upp broslegt atvik þegar bræðurnir sungu. Rutherford dómarib heyrði þá syngja í úrvarpinu í Brooklyn í um 25 kílómetra fjarlægð og sló strax á þráðinn til þeirra.

„Hættið þessum óhljóðum,“ sagði hann. „Þið hljómið eins og skrækjandi kettir!“ Bræðurnir urðu svolítið vandræðalegir en slökktu snarlega á senditækinu. Þeir voru samt sannfærðir um að þeir væru tilbúnir í fyrstu útsendinguna.

Þegar fyrsta útsendingin fór í loftið 24. febrúar 1924 greindi bróðir Rutherford frá hlutverki útvarpsstöðvarinnar – að styðja það verkefni sem konungur þeirra, Kristur, hafði falið lærisveinum sínum. Rutherford sagði að tilgangur útvarpsstöðvarinnar væri „að gera fólki, óháð hverrar trúar það væri, kleift að skilja Biblíuna og þá mikilvægu tíma sem við lifum á“.

Til vinstri: Bróðir Rutherford í fyrsta hljóðverinu.

Til hægri: Tæki til útsendinga.

Fyrsta útsendingin tókst mjög vel. Útvarpsstöðin var starfrækt í 33 ár til að útvarpa efni safnaðarins.

HUGRÖKK YFIRLÝSING GAGNVART TRÚARLEIÐTOGUM

Í júlí 1924 komu biblíunemendurnir saman á móti í Columbus í Ohio. Gestir komu hvaðanæva að úr heiminum og hlustuðu á ræður á arabísku, ensku, frönsku, þýsku, grísku, ungversku, ítölsku, litháísku, pólsku, rússnesku, skandinavísku tungumálunum og úkraínsku. Hluta dagskrárinnar var útvarpað og bræðurnir buðu dagblaði á staðnum að skrifa blaðagreinar um mótsdagskrána á hverjum degi.

Mótið árið 1924 í Columbus í Ohio.

Fimmtudaginn 24. júlí tóku meira en 5.000 mótsgestir þátt í boðuninni. Þeir dreifðu næstum 30.000 bókum og komu af stað þúsundum biblíunámskeiða. Varðturninn kallaði þennan dag „ánægjulegasta hluta mótsins“.

Annar hápunktur mótsins var föstudaginn 25. júlí þegar bróðir Rutherford las hugrakka yfirlýsingu sem fordæmdi prestastéttina. Í henni sagði að stjórnmálaleiðtogar, trúarleiðtogar og forystumenn viðskiptalífsins kæmu í veg fyrir að fólk lærði sannleikann um Guðsríki, leið Guðs til að blessa mannkynið. Þar sagði líka að þessir menn hefðu rangt fyrir sér vegna þess að þeir styddu Þjóðabandalagið og héldu því fram að það væri fulltrúi stjórnar Guðs á jörðinni. Biblíunemendurnir þurftu að vera hugrakkir og þrautseigir til að flytja fólki þennan boðskap.

Varðturninn lýsir áhrifum mótsins þannig: „Þessi litli her Drottins sem kom saman á mótinu í Columbus fór heim með sterkari trú … ósigrandi móti þeim logandi skeytum sem óvinurinn kann að senda honum.“ Leo Claus var á mótinu og segir: „Við héldum heim af mótinu full eldmóðs að segja fólki á okkar svæði frá þessum boðskap.“

Smáritið sem fordæmdi prestastéttina.

Í október byrjuðu biblíunemendurnir að dreifa milljónum eintaka af smáriti með skilaboðunum gegn prestastéttinni sem bróðir Rutherford hafði lesið. Í litlum bæ í Oklahoma í Bandaríkjunum var Frank Johnson búinn með starfssvæði sitt og þurfti að bíða í 20 mínútur eftir hinum bræðrunum og systrunum í hópnum. Nokkrir reiðir bæjarbúar leituðu hans og því þorði hann ekki að bíða á áberandi stað. Þeir voru ósáttir við það sem hann var að gera. Hann ákvað að fela sig í kirkju í nágrenninu. Þar sem kirkjan var mannlaus skildi hann eftir rit í biblíu prestsins og hverju sæti. Hann flýtti sér að yfirgefa svæðið um leið og hann var búinn. Hann hafði enn tíma svo að hann fór í tvær aðrar kirkjur og skildi líka eftir rit þar.

Frank flýtti sér því næst þangað sem hann átti að hitta bræður og systur. Hann faldi sig á bak við bensínstöð og fylgdist með hvort mennirnir sem leituðu hans kæmu. Þeir keyrðu fram hjá án þess að taka eftir honum. Um leið og þeir voru úr augsýn komu bræður og systur, sem höfðu verið í boðuninni í nágrenninu, tóku hann upp í og keyrðu burt.

Einn bræðranna rifjar upp: „Við keyrðum fram hjá kirkjunum þrem þegar við fórum úr bænum. Um 50 manns voru fyrir utan hverja þeirra. Sumir lásu í ritinu en aðrir sýndu prestinum það. Þar skall hurð nærri hælum! En við þökkuðum Jehóva Guði okkar fyrir vernd hans og hjálp við að koma þessum skilaboðum klakklaust áleiðis.“

BOÐUN AF HUGREKKI Í ÖÐRUM LÖNDUM

Józef Krett

Biblíunemendur í öðrum löndum fylgdu í fótspor þessara hugrökku bræðra og systra. Í norðanverðu Frakklandi boðaði Józef Krett pólskum námuverkamönnum trúna. Hann átti að flytja ræðu sem bar heitið „Innan stundar rísa hinir dánu upp“. Þegar bræður og systur dreifðu boðsmiðum meðal bæjarbúa varaði presturinn í bænum sóknarbörn sín við því að mæta. Þetta hafði þveröfug áhrif. Meira en 5.000 manns komu til að hlusta á ræðuna, þar á meðal presturinn sjálfur! Bróðir Krett bauð prestinum að verja trúarskoðanir sínar en hann afþakkaði. Eftir ræðuna gaf bróðir Krett fólkinu öll ritin sem hann hafði meðferðis þar sem það þyrsti mjög í orð Guðs. – Amos 8:11.

Claude Brown

Í Afríku flutti Claude Brown fagnaðarboðskapinn á Gullströndinni, nú þekkt sem Gana. Ræður hans og ritin sem hann dreifði stuðluðu að því að sannleikurinn dreifðist hratt um landið. John Blankson, sem var þá að læra lyfjafræði, kom til að hlusta á eina af ræðum bróður Browns. Hann var fljótur að átta sig á því að hann hefði fundið sannleikann. „Ég hreifst af sannleikanum,“ segir John, „og ég talaði frjálslega um hann í skólanum.“

John Blankson

Dag einn fór John í biskupakirkjuna til að spyrja prestinn út í þrenningarkenninguna þar sem hann hafði komist að því að Biblían kennir ekki að Guð sé hluti af þrenningu. Presturinn rak hann á dyr og hrópaði: „Þú ert ekki kristinn, þú tilheyrir Djöflinum. Snáfaðu burt!“

Þegar John kom heim skrifaði hann prestinum bréf og bauð honum að verja þrenningarkenninguna á opinberri samkomu. Presturinn sendi John til lektors skólans sem hann sótti. Lektorinn spurði hann hvort hann hefði virkilega skrifað prestinum.

„Já, herra,“ svaraði John.

Lektorinn skipaði John þá að skrifa prestinum afsökunarbeiðni. John skrifaði:

„Herra, lektorinn sagði mér að skrifa þér afsökunarbeiðni og ég skal gera það svo framarlega sem þú viðurkennir að þú kennir falskenningar.“

Lektorinn var hneykslaður og spurði: „Blankson, ætlarðu að skrifa þetta?“

„Já, herra. Ég get ekki skrifað neitt annað.“

„Þú verður rekinn úr skólanum ef þú talar gegn presti ríkistrúar landsins.“

„En herra, … spyrjum við þig ekki spurninga þegar þú ert að kenna eitthvað sem við skiljum ekki?“

„Að sjálfsögðu gerið þið það.“

„Það er það sem gerðist, herra. Herramaðurinn var að kenna okkur það sem segir í Biblíunni og ég spurði hann spurningar. Hvers vegna ætti ég að þurfa að senda honum afsökunarbeiðni þegar hann getur ekki svarað spurningunni?“

Blankson var ekki rekinn úr skólanum. Hann þurfti ekki að skrifa afsökunarbeiðni.

HORFT TIL FRAMTÍÐAR

Varðturninn dró saman það sem hafði verið gert á árinu: „Við getum sannarlega tekið undir með Davíð þegar hann sagði: ‚Þú gefur mér styrk til bardaga.‘ (Sálm. 18:39) Árið hefur verið einstaklega hvetjandi því að við höfum séð hönd Drottins … Trúfastir þjónar hans … hafa boðað fagnaðarboðskapinn með gleði.“

Síðar þetta ár áformuðu bræðurnir að koma á fót annarri útvarpsstöð. Hún var reist nálægt Chicago og var kölluð ORÐIÐ. Boðskapnum um Guðsríki var dreift með 5.000 vatta útvarpssendi langar leiðir, jafnvel alla leið til Norður-Kanada.

Árið 1925 fengu bræðurnir gleggri skilning á 12. kafla Opinberunarbókarinnar. Þetta varð til þess að sumir hættu að þjóna Jehóva. En margir voru þakklátir fyrir að skilja betur það sem gerðist á himnum og hvaða áhrif það hefði á þjóna Guðs á jörðinni.

a Núna vinnubókin Líf okkar og boðun.

b J. F. Rutherford veitti biblíunemendunum forystu á þessum tíma. Hann var þekktur sem Rutherford dómari. Áður en hann hóf þjónustu á Betel hafði hann starfað við sérstök tækifæri sem dómari í undirrétti í Missouri.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila