Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 febrúar bls. 2-7
  • Fyrirgefning Jehóva er okkur mjög dýrmæt

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Fyrirgefning Jehóva er okkur mjög dýrmæt
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • MARKMIÐIÐ: AÐ KOMA Á SÁTTUM
  • LEIÐIN: FRIÐÞÆGING
  • GJALDIÐ: LAUSNARGJALD
  • ÁRANGURINN: AÐ FÁ ENDURLAUSN OG VERA LÝST RÉTTLÁT
  • Hvað lærum við af lausnargjaldinu?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Kærleikur Jehóva er okkur til góðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Hvaða þýðingu hefur fyrirgefning Jehóva fyrir þig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Hvað hefur Jehóva gert til að bjarga syndugum mönnum?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 febrúar bls. 2-7

NÁMSGREIN 6

SÖNGUR 18 Þakkir fyrir lausnargjaldið

Fyrirgefning Jehóva er okkur mjög dýrmæt

„Guð elskaði heiminn svo heitt að hann gaf einkason sinn.“ – JÓH. 3:16.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvernig við getum dýpkað þakklæti okkar fyrir það sem Jehóva hefur gert til að fyrirgefa syndir okkar.

1, 2. Hvernig er mannkynið í svipuðum sporum og ungi maðurinn sem minnst er á í grein 1?

ÍMYNDAÐU þér ungan mann sem hefur alist upp í ríkri fjölskyldu. Dag einn verður hann fyrir miklu áfalli þegar foreldrar hans deyja af slysförum. Hann er niðurbrotinn. Og ekki nóg með það heldur kemst hann að því að foreldrar hans hafa sólundað fjölskylduauðnum og skilið hann eftir skuldum vafinn. Í stað þess að erfa auðinn situr hann uppi með skuldir og lánadrottnar krefja hann um greiðslu. Hann sér fram á að geta aldrei borgað þær.

2 Við erum að mörgu leyti í sömu sporum og þessi ungi maður. Adam og Eva, foreldrar mannkynsins, voru fullkomin og bjuggu í fallegri paradís. (1. Mós. 1:27; 2:7–9) Þau höfðu möguleika á að lifa hamingjusöm að eilífu. En þá gerðist nokkuð hræðilegt. Þau glötuðu paradísarheimilinu ásamt tækifærinu til að lifa að eilífu. Hvaða arf gátu þau gefið ófæddum börnum sínum? Biblían segir: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni [Adam] og dauðinn með syndinni. Þannig barst dauðinn til allra manna því að þeir höfðu allir syndgað.“ (Rómv. 5:12) Við erfðum synd frá Adam sem leiðir af sér dauða. Þessi arfgenga synd er eins og risastór skuld sem enginn okkar getur greitt. – Sálm. 49:8.

3. Hvers vegna er hægt að líkja syndum okkar við skuldir?

3 Jesús líkti syndum okkar við „skuldir“. (Matt. 6:12; Lúk. 11:4) Þegar við syndgum er eins og við stofnum til skulda við Jehóva. Hann gæti krafist þess að við greiddum skuldina fyrir syndirnar. Ef hann hefði ekki gert ráðstöfun til að fyrirgefa syndir værum við dauðadæmd að eilífu, án vonar. – Rómv. 6:7, 23.

4. (a) Hvað yrði um alla syndara ef okkur stæði ekki til boða hjálp? (Sálm. 49:7–9) (b) Hvað merkir orðið synd í Biblíunni (Sjá rammann „Synd“.)

4 Getum við endurheimt allt sem Adam og Eva glötuðu? Ekki í eigin mætti. (Lestu Sálm 49:7–9.) Við hefðum enga von um líf í framtíðinni eða upprisu ef okkur stæði ekki til boða hjálp. Við værum engu betur sett en dýrin. – Préd. 3:19; 2. Pét. 2:12.

Synd

Orðið synd í Biblíunni vísar til eftirfarandi:

  • Í fyrsta lagi syndar Adams gegn Jehóva Guði. – 1. Mós. 3:17–19; Rómv. 5:14, 17.

  • Í öðru lagi ófullkominnar tilhneigingar sem við höfum fengið í arf vegna syndar Adams. – Sálm. 51:5.

  • Í þriðja lagi alls þess ranga sem við gerum (hvort sem það er vísvitandi eða ekki) vegna ófullkomleikans sem við fengum í arf. – Jóh. 8:34; Jak. 1:14, 15.

5. Hvernig hefur kærleiksríkur faðir okkar leyst okkur undan skuldinni sem syndin er? (Sjá mynd.)

5 Hvernig hefði unga manninum í upphafi námsgreinarinnar liðið ef ríkur maður hefði boðist til að greiða upp allar skuldir hans? Hann hefði án efa verið innilega þakklátur fyrir þessa örlátu gjöf. Kærleiksríkur faðir okkar, Jehóva, hefur á líkan hátt gefið okkur gjöf með því að greiða syndaskuldina sem við fengum í arf frá Adam. Jesús útskýrði það með þessum hætti: „Guð elskaði heiminn svo heitt að hann gaf einkason sinn til þess að þeir sem trúa á hann farist ekki heldur hljóti eilíft líf.“ (Jóh. 3:16) Þessi gjöf gerir okkur líka mögulegt að eignast gott samband við Jehóva.

Samsett mynd: 1. Jesús talar að kvöldi til. 2. Rómverskir hermenn taka lífvana líkama Jesú af kvalastaurnum.

Jesús boðaði fagnaðarboðskap um fyrirgefningu Jehóva sem byggðist á lausnargjaldinu. (Jóh. 3:16) Síðan fórnaði hann lífi sínu fúslega til að sjá fyrir lausnargjaldinu. (Sjá 5. grein.)


6. Hvaða orðalag Biblíunnar skoðum við í þessari námsgrein og hvers vegna?

6 Hvernig getum við notið góðs af þessari stórkostlegu gjöf og fengið syndir okkar eða „skuldir“ fyrirgefnar? Til að fá svar við því skulum við skoða orð og orðasambönd sem Biblían notar og hvað þau merkja, eins og til dæmis: að koma á sáttum, friðþæging, lausnargjald, endurlausn og að vera lýstur réttlátur. Þegar við hugleiðum merkingu þessara orða verðum við þakklátari fyrir það sem Jehóva hefur gert til að fyrirgefa okkur.

MARKMIÐIÐ: AÐ KOMA Á SÁTTUM

7. (a) Hverju glötuðu Adam og Eva líka? (b) Hvers þörfnumst við sárlega af því að við erum afkomendur Adams og Evu? (Rómverjabréfið 5:10, 11)

7 Adam og Eva glötuðu dýrmætu sambandi við föður sinn, Jehóva, auk þess að fara á mis við eilíft líf. Adam og Eva voru upphaflega í fjölskyldu Guðs. (Lúk. 3:38) En þegar þau óhlýðnuðust Jehóva voru þau rekin úr fjölskyldu hans. Og það gerðist áður en þau eignuðust börn. (1. Mós. 3:23, 24; 4:1) Sem afkomendur þeirra höfum við því þörf á að Jehóva taki okkur í sátt. (Lestu Rómverjabréfið 5:10, 11.) Við þurfum með öðrum orðum að eignast gott samband við hann. Samkvæmt uppsláttarriti getur gríska orðið sem er þýtt „að sætta“ merkt ‚að gera óvin að vini‘. Og það var Jehóva sem tók frumkvæðið að þessum sáttum. Hvernig gerði hann það?

LEIÐIN: FRIÐÞÆGING

8. Hvað er (a) friðþæging? (b) sáttarfórn?

8 Friðþæging er leið Jehóva til að koma aftur á góðu sambandi milli hans og syndugra manna. Hann sá til þess að við gætum endurheimt það sem Adam glataði með því að sjá fyrir andvirði þess sem glataðist. Í Grísku ritningunum er líka notað orðið „sáttarfórn“ um þessa leið. (Rómv. 3:25, neðanmáls) Sáttarfórn er sú ráðstöfun sem gerir okkur kleift að eiga frið við Guð og hafa gott samband við hann.

9. Hvað gerði Jehóva tímabundið til að Ísraelsmenn gætu fengið syndir sínar fyrirgefnar?

9 Jehóva sá Ísraelsmönnum fyrir leið til að fá syndir sínar fyrirgefnar svo að þeir gætu átt gott samband við hann. Friðþægingardagurinn var haldinn árlega í Ísrael. Þá bar æðstipresturinn fram dýrafórnir fyrir þjóðina. Þessar dýrafórnir gátu að sjálfsögðu ekki friðþægt algerlega fyrir syndir Ísraelsmanna vegna þess að dýr eru óæðri mönnum. Jehóva var fús til að fyrirgefa iðrunarfullum Ísraelsmönnum svo framarlega sem þeir færðu þær fórnir sem hann krafðist. (Hebr. 10:1–4) En þessar fórnir, ásamt öðrum reglubundnum fórnum, minntu Ísraelsmenn á syndugt eðli þeirra og brýna þörf fyrir varanlega lausn.

10. Hvað gerði Jehóva til að fyrirgefa syndir mannkynsins?

10 Jehóva sá fyrir varanlegri lausn til að fyrirgefa syndir mannkynsins. Hann sá til þess að elskuðum syni sínum var „fórnað í eitt skipti fyrir öll til að bera syndir margra“. (Hebr. 9:28) Jesús gaf „líf sitt sem lausnargjald fyrir marga“. (Matt. 20:28) Hvað er lausnargjald?

GJALDIÐ: LAUSNARGJALD

11. (a) Hvað er lausnargjald samkvæmt Biblíunni? (b) Hver gat greitt lausnargjaldið?

11 Samkvæmt Biblíunni er lausnargjald það gjald sem þarf til að friðþægja fyrir syndir mannkynsins og koma á sáttum milli Guðs og manna. Frá sjónarhóli Jehóva er það grunnurinn að því að endurheimta það sem glataðist. Hvernig þá? Við vitum að Adam og Eva misstu fullkomleikann og möguleikann á að lifa að eilífu. Lausnargjaldið þurfti því að vera jafngildi þess sem glataðist. (1. Tím. 2:6) Til þess þurfti fullorðinn mann sem (1) var fullkominn, (2) hafði möguleika á að lifa að eilífu á jörðinni og (3) var fús til að fórna fullkomnu lífi sínu fyrir okkur. Allt þetta þurfti að vera fyrir hendi til að bæta fyrir það líf sem glataðist.

12. Hvers vegna gat Jesús séð fyrir lausnargjaldinu?

12 Skoðum þrjár ástæður fyrir því að Jesús gat greitt lausnargjaldið: (1) Hann var fullkominn, „hann syndgaði aldrei“. (1. Pét. 2:22) (2) Hann hafði möguleika á að lifa að eilífu á jörðinni þar sem hann var fullkominn. (3) Hann var fús til að deyja og fórna lífi sínu fyrir okkur. (Hebr. 10:9, 10) Jesús var fullkominn maður og því jafningi Adams áður en hann syndgaði. (1. Kor. 15:45) Með dauða sínum gat Jesús bætt fyrir synd Adams og endurheimt það sem hafði glatast. (Rómv. 5:19) Þannig varð Jesús „hinn síðari Adam“. Það er engin þörf fyrir annan fullkominn mann til að borga skuld Adams. Jesús dó „í eitt skipti fyrir öll“. – Hebr. 7:27; 10:12.

13. Hver er munurinn á friðþægingu og lausnargjaldi?

13 Hver er munurinn á friðþægingu og lausnargjaldi? Friðþægingin er sú leið sem Guð fer til að koma aftur á góðu sambandi milli hans og mannkynsins. Lausnargjaldið er það gjald sem var greitt til að hægt væri að friðþægja fyrir syndugt mannkyn. Þetta gjald er dýrmætt blóð Jesú sem var úthellt í okkar þágu. – Ef. 1:7; Hebr. 9:14.

ÁRANGURINN: AÐ FÁ ENDURLAUSN OG VERA LÝST RÉTTLÁT

14. Hvað skoðum við núna og hvers vegna?

14 Hvaða blessun hlýst af friðþægingunni? Biblían lýsir því með ýmsum hætti. Þótt hugtökin sem hún notar skarist hjálpa þau okkur að skilja betur hvernig við njótum góðs af fyrirgefningu Jehóva.

15, 16. (a) Hvað merkir orðið endurlausn í Biblíunni? (b) Hvaða áhrif hefur það á okkur?

15 Endurlausn þýðir það að vera leystur eða sýknaður á grundvelli lausnargjaldsins. Pétur postuli útskýrði þetta: „Þið vitið að þið voruð ekki frelsuð [orðrétt ‚endurleyst; keypt laus‘] með forgengilegum hlutum, með silfri eða gulli, frá innantómu líferni sem þið tókuð í arf frá forfeðrum ykkar, heldur með dýrmætu blóði Krists sem er eins og blóð lýtalauss og óflekkaðs lambs.“ – 1. Pét. 1:18, 19, neðanmáls.

16 Vegna lausnarfórnarinnar getum við fengið frelsi frá synd og dauða sem hefur orsakað miklar þjáningar. (Rómv. 5:21) Við stöndum í þakkarskuld við Jehóva og Jesú fyrir endurlausnina sem fæst fyrir dýrmætt blóð Jesú. – 1. Kor. 15:22.

17, 18. (a) Hvað merkir að vera lýstur réttlátur? (b) Hvernig snertir það okkur?

17 Að vera lýstur réttlátur merkir að vera sýknaður og hreinsaður af öllum ákærum. Með því brýtur Jehóva ekki gegn réttlátum mælikvarða sínum. Við erum ekki lýst réttlát vegna eigin verðleika og hann horfir ekki heldur fram hjá syndum okkar. En hann hefur gefið okkur upp skuldina vegna þess að við trúum á leið hans til að friðþægja fyrir syndir okkar með lausnargjaldinu. – Rómv. 3:24; Gal. 2:16.

18 Hvað þýðir þetta fyrir okkur? Þeir sem hafa verið valdir til að stjórna með Jesú á himni hafa verið lýstir réttlátir sem börn Guðs. (Tít. 3:7; 1. Jóh. 3:1) Syndir þeirra hafa verið fyrirgefnar. Þeir eru ekki lengur á sakaskrá ef svo mætti að orði komast og þess vegna hæfir til að vera í Guðsríki. (Rómv. 8:1, 2, 30) Þeir sem eru með jarðneska von eru lýstir réttlátir sem vinir Guðs og syndir þeirra hafa verið fyrirgefnar. (Jak. 2:21–23) Hinn mikli múgur sem lifir af Harmagedón hefur möguleika á að þurfa aldrei að deyja. (Jóh. 11:26) „Réttlátir“ og „ranglátir“ sem eru dánir bíða upprisu. (Post. 24:15; Jóh. 5:28, 29) Allir þjónar Jehóva á jörð munu að lokum njóta ‚dýrlegs frelsis barna Guðs‘. (Rómv. 8:21) Friðþægingin hefur í för með sér stórkostlega blessun – fullkomna sátt milli okkar og Jehóva föður okkar.

19. Hvernig hefur staða okkar batnað? (Sjá einnig rammann „Fyrirgefning Jehóva“.)

19 Við vorum vissulega í vonlausri stöðu eins og ungi maðurinn sem missti allt og sat uppi með skuldir sem hann hefði aldrei getað borgað. En Jehóva er bjargvættur okkar. Staða okkar hefur gjörbreyst vegna friðþægingarinnar og lausnargjaldsins. Trú okkar á Jesú Krist frelsar okkur, endurleysir okkur frá synd og dauða. Þegar Jehóva fyrirgefur syndir okkar er eins og við höfum aldrei drýgt þær. En það sem mestu skiptir er að nú getum við átt gott samband við Jehóva, kærleiksríkan föður okkar á himnum.

Samsett mynd: 1. Fólk af ólíkum menningarlegum bakgrunni. 2. Jesús heldur á kvalastaur sínum.

Fyrirgefning Jehóva

AÐ KOMA Á SÁTTUM: Markmið Jehóva að koma á góðu sambandi við ófullkomið mannkyn.

FRIÐÞÆGING: Leið Jehóva til að koma aftur á friðsömu sambandi milli hans og syndugs mannkyns.

LAUSNARGJALD: Gjaldið – úthellt blóð Jesú sem friðþægir fyrir syndir okkar.

ENDURLAUSN: Vegna friðþægingarinnar erum við sýknuð og laus undan skuldinni.

LÝST RÉTTLÁT: Vegna friðþægingarinnar erum við líka lýst réttlát og tekin af sakaskrá ef svo má að orði komast.

20. Hvað ræðum við í næstu námsgrein?

20 Hjörtu okkar eru full þakklætis þegar við hugleiðum allt sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir okkur. (2. Kor. 5:15) Án þeirra værum við án vonar. En hvað þýðir fyrirgefning Jehóva fyrir okkur sem einstaklinga? Um það verður rætt í næstu námsgrein.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvers vegna vill Jehóva fyrirgefa syndir okkar?

  • Hvaða grunn hefur Jehóva lagt að því að fyrirgefa syndir?

  • Hvaða blessun hefur það í för með sér að Jehóva fyrirgefur syndir okkar?

SÖNGUR 10 Lofum Jehóva

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila