NÁMSGREIN 10
SÖNGUR 31 Göngum með Guði
Lærum að hugsa eins og Jehóva og Jesús
„Þar sem Kristur þjáðist líkamlega skuluð þið herklæðast sama hugarfari.“ – 1. PÉT. 4:1.
Í HNOTSKURN
Pétur postuli lærði að hugsa eins og Jesús. Við skoðum hvernig við getum gert það líka.
1, 2. Hvað felur það í sér að elska Jehóva og hvernig sýndi Jesús að hann elskaði hann af öllum huga?
„ÞÚ SKALT elska Jehóva Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum.“ (Lúk. 10:27) Jesús leit á það að elska Jehóva sem mikilvægasta boð Móselaganna. Við tökum eftir að kærleikur til hans tengist hjarta okkar, sem hefur meðal annars að geyma langanir okkar og tilfinningar. Hann felur líka í sér heils hugar hollustu okkar og krafta. En að elska Jehóva snertir líka huga okkar, það hvernig við hugsum. Við getum að sjálfsögðu aldrei skilið til fulls hvernig Jehóva hugsar. En við eigum auðveldara með það þegar við kynnum okkur „huga Krists“ þar sem Jesús endurspeglar fullkomlega hvernig faðir hans hugsar. – 1. Kor. 2:16.
2 Jesús elskaði Jehóva af öllum huga sínum. Hann vissi hver vilji Guðs var með hann og var ákveðinn í að breyta í samræmi við það, jafnvel þótt það þýddi að hann þyrfti að þjást. Jesús var einbeittur í að gera vilja föður síns og lét ekkert trufla sig.
3. Hvað lærði Pétur postuli af Jesú og hvað hvatti hann trúsystkini sín til að gera? (1. Pétursbréf 4:1)
3 Pétur og hinir postularnir fengu að vera með Jesú og kynntust milliliðalaust hvernig hann hugsaði. Þegar hann skrifaði fyrra innblásna bréfið hvatti hann kristna menn til að herklæðast sama hugarfari og Kristur gerði. (Lestu 1. Pétursbréf 4:1.) Hér notar Pétur hernaðarlegt hugtak. Ef þjónar Jehóva líkja eftir hugarfari Jesú hafa þeir yfir öflugu vopni að ráða í stríðinu við syndugar tilhneigingar og heim sem er stjórnað af Satan. – 2. Kor. 10:3–5; Ef. 6:12.
4. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?
4 Við munum skoða hvernig Jesús hugsar og hvernig við getum líkt eftir honum. Við lærum hvernig við getum (1) líkt eftir því hvernig Jehóva hugsar en það hjálpar okkur að vera samhuga, (2) verið auðmjúk og (3) verið skynsöm með því að leita stöðugt til Jehóva í bæn.
LÍKJUM EFTIR ÞVÍ HVERNIG JEHÓVA HUGSAR
5. Hvernig mistókst Pétri eitt sinn að hugsa eins og Jehóva?
5 Eitt sinn mistókst Pétri að endurspegla viðhorf Jehóva. Jesús hafði sagt postulunum að hann þyrfti að fara til Jerúsalem, yrði framseldur trúarleiðtogunum þar, myndi þola þjáningar og síðan vera tekinn af lífi. (Matt. 16:21) Pétur átti ef til vill erfitt með að sætta sig við að Jehóva myndi leyfa að hinn fyrirheitni Messías sem ætti að frelsa þjóð Guðs yrði tekinn af lífi. (Matt. 16:16) Pétur tók Jesú afsíðis og sagði: „Hlífðu þér, Drottinn. Þetta mun aldrei koma fyrir þig.“ (Matt. 16:22) Jesús og Pétur voru ekki á sama máli vegna þess að Pétur hugsaði ekki eins og Jehóva.
6. Hvernig sýndi Jesús að hann hugsaði eins og Jehóva?
6 Jesús þekkti viðhorf föður síns og endurspeglaði það fullkomlega. Hann sagði við Pétur: „Farðu burt frá mér, Satan! Þú leggur stein í götu mína því að þú hugsar ekki eins og Guð heldur eins og menn.“ (Matt. 16:23) Pétur meinti kannski vel en Jesús hafnaði ráði hans. Við getum lært af þessu. Jehóva vildi ekki að Jesús væri sérhlífinn. Pétur lærði dýrmæta lexíu – að hann þyrfti að hugsa eins og Guð.
7. Hvernig sýndi Pétur síðar að hann vildi hugsa eins og Jehóva? (Sjá mynd.)
7 Með tímanum sýndi Pétur að hann vildi læra að hugsa eins og Jehóva. Tíminn var runninn upp fyrir fólk af öðrum þjóðum að verða hluti af þjóð Guðs. Pétur fékk það verkefni að boða Kornelíusi fagnaðarboðskapinn en hann var meðal þeirra fyrstu af þessum hóp til að taka kristna trú. Gyðingar voru vanir að forðast samskipti við fólk af þjóðunum þannig að Pétur þurfti að breyta hugarfari sínu til að sinna þessu verkefni. Þegar hann skildi viðhorf Guðs í þessu máli lagaði hann sig að því. Hann fór því „mótmælalaust“ þegar sent var eftir honum. (Post. 10:28, 29) Hann boðaði Kornelíusi og fjölskyldu hans trúna og þau létu skírast. – Post. 10:21–23, 34, 35, 44–48.
Pétur kemur á heimili Kornelíusar. (Sjá 7. grein.)
8. Hvernig sýnum við að hugarfar okkar er í samræmi við hugarfar Jehóva? (1. Pétursbréf 3:8)
8 Mörgum árum síðar hvatti Pétur trúsystkini sín til að vera „samhuga“. (Lestu 1. Pétursbréf 3:8.) Við getum verið samhuga bræðrum okkar og systrum ef við líkjum eftir hugarfari Jehóva sem við kynnumst í Biblíunni. Jesús hvatti til dæmis fylgjendur sína til að setja Guðsríki í forgang í lífinu. (Matt. 6:33) Boðberi í söfnuðinum þínum gæti því ákveðið að gerast brautryðjandi eða þjóna í fullu starfi á öðrum vettvangi. Við ættum að vera jákvæð og bjóða fram aðstoð í stað þess að leggja til að hann hlífi sér.
VERUM AUÐMJÚK
9, 10. Hvernig sýndi Jesús einstaka auðmýkt?
9 Kvöldið áður en Jesús var tekinn af lífi kenndi hann Pétri og hinum postulunum mikilvæga lexíu í auðmýkt. Jesús hafði sent Pétur og Jóhannes til að undirbúa síðustu máltíðina sem hann myndi borða með þeim. Þeir þurftu trúlega að útvega vatnsfat og handklæði svo að gestirnir fengju fæturna þvegna fyrir máltíðina. En hver myndi sýna auðmýkt þegar til kæmi og þvo fætur þeirra?
10 Jesús sýndi einstaka auðmýkt og hikaði ekki við að ganga í þetta verk. Postulunum til undrunar tók hann að sér verk sem þjónustufólk sinnti vanalega. Hann fór úr yfirhöfninni, batt handklæði um mittið, hellti vatni í fat og þvoði fætur þeirra. (Jóh. 13:4, 5) Það gæti hafa tekið töluverða stund að þvo fætur allra 12 postulanna, þar á meðal Júdasar sem átti eftir að svíkja hann. En Jesús lét það ekki koma í veg fyrir að hann kláraði verkið. Síðan útskýrði hann þolinmóður: „Skiljið þið hvað ég hef gert fyrir ykkur? Þið kallið mig ‚kennara‘ og ‚Drottin‘ og það er rétt hjá ykkur því að ég er það. Fyrst ég, sem er Drottinn og kennari, hef þvegið ykkur um fæturna ættuð þið líka að þvo fætur hver annars.“ – Jóh. 13:12–14.
Sönn auðmýkt felur í sér hvernig við lítum á sjálf okkur og aðra.
11. Hvernig sýndi Pétur að hann hafði lært að sýna auðmýkt? (1. Pétursbréf 5:5) (Sjá einnig mynd.)
11 Pétur lærði af Jesú að sýna auðmýkt. Eftir að Jesús sneri til himna gerði Pétur kraftaverk með því að lækna mann sem hafði verið lamaður frá fæðingu. (Post. 1:8, 9; 3:2, 6–8) Þessi stórkostlegi atburður vakti eðlilega athygli fjölda fólks. (Post. 3:11) Pétur kom úr samfélagi þar sem mikil áhersla var lögð á stöðu og frama. Myndi hann baða sig í dýrðarljóma augnabliksins? Nei, Pétur beindi auðmjúkur athyglinni frá sjálfum sér. Hann gaf Jehóva og Jesú heiðurinn og sagði: „Í nafni Jesú og vegna þess að við trúum á nafn hans hefur þessi maður, sem þið sjáið og þekkið, fengið mátt í fæturna.“ (Post. 3:12–16) Þegar Pétur talar um að íklæðast auðmýkt í bréfi sínu til kristinna manna gæti það minnt okkur á það þegar Jesús vafði handklæði um mittið og þvoði fætur postulanna. – Lestu 1. Pétursbréf 5:5.
Þegar Pétur gerði kraftaverk sýndi hann auðmýkt og gaf Jehóva og Jesú heiðurinn. Við getum líka sýnt auðmýkt með því að vænta þess ekki að fá athygli eða umbun fyrir það góða sem við gerum. (Sjá 11. og 12. grein.)
12. Hvernig getum við líkt eftir Pétri og sýnt auðmýkt?
12 Við getum líkt eftir Pétri og þroskað með okkur auðmýkt. Gleymum ekki að sönn auðmýkt felur meira í sér en að segja réttu orðin. Orðið sem Pétur notaði og er þýtt „auðmýkt“ eða „lítillæti“ felur í sér hvernig við lítum á sjálf okkur og aðra. Við gerum öðrum gott vegna þess að við elskum Jehóva og við elskum fólk en ekki vegna þess að við þráum aðdáun. Við sýnum sanna auðmýkt ef við þjónum Jehóva og trúsystkinum okkar eins vel og við getum, hvort sem aðrir taka eftir því eða ekki. – Matt. 6:1–4.
VERUM SKYNSÖM
13. Útskýrðu hvað felst í því að ‚vera skynsamur‘.
13 Hvað felur það í sér að ‚vera skynsamur‘? (1. Pét. 4:7) Skynsamur þjónn Jehóva gerir sitt besta til að taka góðar ákvarðanir sem endurspegla viðhorf Jehóva. Hann veit að ekkert er eins mikilvægt í lífinu og samband hans við Jehóva. Hann þekkir takmörk sín og viðurkennir að hann viti ekki allt. Og hann sýnir að hann treystir á Jehóva með því að leita oft til hans í bæn.
14. Hvernig mistókst Pétri við eitt tækifæri að treysta á Jehóva?
14 Síðasta kvöldið fyrir dauða sinn varaði Jesús lærisveina sína við og sagði: „Í nótt munuð þið allir hrasa og falla vegna þess sem kemur fyrir mig.“ Pétur svaraði fullur sjálfstrausts: „Þó að allir hinir hrasi og falli vegna þess sem kemur fyrir þig geri ég það aldrei!“ Sama kvöld sagði Jesús við nokkra þeirra: „Vakið og biðjið stöðugt svo að þið fallið ekki í freistni.“ (Matt. 26:31, 33, 41) Ef Pétur hefði hlustað á þetta ráð hefði hann ef til vill haft hugrekki til að játa síðar að hann væri lærisveinn Jesú. Þess í stað afneitaði hann meistara sínum og iðraðist þess sáran eftir á. – Matt. 26:69–75.
15. Hvernig sýndi Jesús skynsemi síðasta kvöldið hér á jörð?
15 Jesús treysti algerlega á Jehóva. Þótt hann væri fullkominn bað hann aftur og aftur til Jehóva kvöldið áður en hann dó. Það veitti honum hugrekki til að gera það sem Jehóva vildi að hann gerði. (Matt. 26:39, 42, 44; Jóh. 18:4, 5) Pétur hefur örugglega aldrei gleymt því hversu mikið Jesús bað til Jehóva þetta kvöld.
16. Hvernig sýndi Pétur að hann hafði þroskað með sér skynsemi? (1. Pétursbréf 4:7)
16 Með tímanum lærði Pétur að treysta betur á Jehóva og leita hjálpar hans í bæn. Hinn upprisni Jesús fullvissaði Pétur og hina postulana um að þeir myndu fá heilagan anda svo að þeir gætu boðað trúna. En hann bað þá að bíða í Jerúsalem þangað til. (Lúk. 24:49; Post. 1:4, 5) Hvað gerði Pétur meðan hann beið? Hann og önnur trúsystkini ‚báðu öll stöðugt‘. (Post. 1:13, 14) Síðar hvatti hann trúsystkini sín í fyrra bréfi sínu til að vera skynsöm og sýna traust sitt til Jehóva með því að vera vakandi fyrir því að biðja til hans. (Lestu 1. Pétursbréf 4:7.) Pétur lærði að treysta á Jehóva og varð máttarstólpi í söfnuðinum. – Gal. 2:9.
17. Hvað þurfum við að halda áfram að gera óháð þeim hæfileikum sem við kunnum að hafa? (Sjá einnig mynd.)
17 Við þurfum að tala oft við Jehóva í bæn til að vera skynsöm. Við gerum okkur ljóst að við þurfum að biðja Jehóva um hjálp, þótt við séum góð í því sem við erum að gera. Og við biðjum Jehóva um leiðsögn þegar við stöndum frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum og treystum því að hann viti best hvað við eigum að gera.
Pétur lærði að treysta betur á Jehóva og leita til hans í bæn. Við getum líka verið skynsöm ef við biðjum Jehóva um hjálp. Það er sérstaklega áríðandi þegar við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir. (Sjá 17. grein.)a
18. Hvernig getum við samstillt viðhorf okkar viðhorfum Jehóva?
18 Við erum Jehóva innilega þakklát að hann gerði okkur þannig úr garði að við getum endurspeglað eiginleika hans. (1. Mós. 1:26) Við getum að sjálfsögðu ekki líkt fullkomlega eftir honum. (Jes. 55:9) En við getum lagt okkur fram við að samstilla viðhorf okkar viðhorfum Jehóva, líkt og Pétur gerði. Höldum öll áfram að líkja eftir því hvernig Jehóva hugsar og verum auðmjúk og skynsöm.
SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir
a MYND: Systir fer með bæn í hljóði meðan hún bíður eftir því að fara í atvinnuviðtal.