NÁMSGREIN 11
SÖNGUR 57 Vitnum fyrir alls konar fólki
Sýnum brennandi áhuga á boðuninni eins og Jesús
„Drottinn … sendi þá tvo og tvo á undan sér til allra borga og staða sem hann ætlaði sjálfur að koma til.“ – LÚK. 10:1.
Í HNOTSKURN
Við skoðum fernt sem getur hjálpað okkur að líkja eftir Jesú svo að við getum boðað trúna af brennandi áhuga.
1. Hvernig eru þjónar Jehóva ólíkir öðrum sem segjast vera kristnir?
ÞJÓNAR Jehóva finna hjá sér brennandi áhuga á því að boða fagnaðarboðskapinn. Þetta gerir þá ólíka öðrum sem segjast vera kristnir. (Tít. 2:14) Þér gæti samt stundum fundist erfitt að boða trúna af brennandi áhuga. Þér líður kannski stundum eins og duglegum öldungi sem viðurkenndi: „Stundum langar mig bara ekki að fara í boðunina.“
2. Hvers vegna gæti stundum verið erfitt að boða trúna af brennandi áhuga?
2 Okkur gæti þótt skemmtilegra að taka þátt í öðrum verkefnum í þjónustu Jehóva en boðuninni. Við sjáum ef til vill strax árangur þegar við tökum þátt í að byggja ríkissali eða viðhalda þeim, hjálpum til við neyðaraðstoð eða uppörvum trúsystkini. Þegar við vinnum með trúsystkinum njótum við kærleika og friðar og vitum að þau kunna að meta það sem við gerum fyrir þau. Á hinn bóginn höfum við kannski boðað trúna árum saman á sama starfssvæði og fáir hlusta á boðskap Biblíunnar. Við vitum líka að eftir því sem endirinn nálgast getum við átt von á meiri andstöðu. (Matt. 10:22) Hvað getur hjálpað okkur að vera kappsamari í boðuninni?
3. Hvað lærum við um Jesú af dæmisögunni í Lúkasi 13:6–9?
3 Við getum lært af Jesú að hafa brennandi áhuga á boðuninni. Áhugi hans á að boða fólki trúna dalaði aldrei meðan hann var á jörðinni. Hann lagði harðar að sér því lengur sem hann boðaði trúna. (Lestu Lúkas 13:6–9.) Jesús boðaði Gyðingum trúna í um þrjú ár en fæstir brugðust vel við, rétt eins og garðyrkjumaðurinn notaði þrjú ár til að rækta fíkjutré sem bar ekki ávöxt. Jesús gafst ekki upp á fólki eða hægði á þjónustu sinni líkt og garðyrkjumaðurinn missti ekki vonina um að fíkjutréð bæri ávöxt. Þvert á móti lagði hann sig enn meira fram við að ná til hjarta fólks.
4. Nefndu fernt sem við getum lært af Jesú í þessari námsgrein.
4 Í þessari námsgrein tökum við til athugunar hvernig Jesús sýndi brennandi áhuga á boðuninni, sérstaklega sex síðustu mánuði þjónustu sinnar. Við getum haft eldmóð með því að læra af honum og tileinka okkur það sem hann gerði. Skoðum fernt sem við getum lært af honum: (1) vilji Jehóva skipti hann mestu máli, (2) hann vann í samræmi við spádóma Biblíunnar, (3) hann reiddi sig á stuðning Jehóva og (4) hann gaf aldrei upp vonina um að einhverjir myndu hlusta á hann.
VILJI JEHÓVA SKIPTI HANN MESTU MÁLI
5. Hvernig sýndi Jesús að vilji Guðs skipti hann mestu máli?
5 Jesús boðaði „fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs“ af brennandi áhuga vegna þess að hann vissi að þetta starf væri mikilvægt í augum Guðs. (Lúk. 4:43) Boðunin var þungamiðjan í lífi Jesú. Hann hélt ótrauður áfram síðustu mánuðina í þjónustu sinni og fór „borg úr borg og þorp úr þorpi“ til að kenna öðrum. (Lúk. 13:22) Hann þjálfaði líka fleiri lærisveina til að boða fagnaðarboðskapinn eins og hann. – Lúk. 10:1.
6. Hvaða vægi hefur boðunin miðað við önnur verkefni í þjónustu Jehóva? (Sjá einnig mynd.)
6 Boðun fagnaðarboðskaparins er eftir sem áður mikilvægasta verkefnið sem Jehóva og Jesús hafa falið okkur. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Öll önnur verkefni sem við vinnum fyrir Jehóva tengjast boðuninni. Við byggjum til dæmis ríkissali svo að þeir sem við boðum trúna geti komið þangað til að kynnast Jehóva betur. Og vinnan á Betel og önnur verkefni á vegum safnaðarins efla boðunina. Þegar náttúruhamfarir verða sjáum við bræðrum okkar og systrum ekki bara fyrir nauðsynlegri neyðaraðstoð. Við hjálpum þeim líka að koma aftur á andlegum venjum, eins og að fara í boðunina. Ef við munum að boðunin er mikilvægasta verkefnið sem Jehóva vill að við sinnum hvetur það okkur til að taka reglulega þátt í henni. János, öldungur í Ungverjalandi, segir: „Ég minni mig á að ekkert annað verkefni kemur í staðinn fyrir boðunina, hún er mikilvægasta verkefni okkar í þjónustu Jehóva.“
Boðun fagnaðarboðskaparins er mikilvægasta verkefnið sem Jehóva og Jesús hafa falið okkur að sinna nú á dögum. (Sjá 6. grein.)
7. Hvers vegna vill Jehóva að við höldum áfram að boða trúna? (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4)
7 Áhugi á boðuninni eykst ef okkur er jafn umhugað um fólk og Jehóva er. Hann vill að sem flestir fái að heyra fagnaðarboðskapinn og taki við sannleikanum. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.) Með það fyrir augum þjálfar hann okkur til að segja öðrum frá boðskapnum sem er fólki til björgunar. Í bæklingnum Elskum fólk og gerum það að lærisveinum er að finna hugmyndir um það hvernig við getum hafið samræður með það að markmiði að gera fólk að lærisveinum. Og þótt fólk fari ekki að þjóna Jehóva núna fær það mögulega tækifæri til að taka afstöðu allt þar til þrengingunni miklu lýkur. Það sem við segjum núna getur knúið fólk til að taka við sér í framtíðinni. En til þess að svo verði þurfum við að halda áfram að boða trúna.
HANN VANN Í SAMRÆMI VIÐ SPÁDÓMA BIBLÍUNNAR
8. Hvaða biblíuspádómar hjálpuðu Jesú að nota tíma sinn skynsamlega?
8 Jesús skildi hvernig biblíuspádómarnir myndu uppfyllast. Hann vissi að þjónusta hans myndi standa í þrjú og hálft ár. (Dan. 9:26, 27) Hann vissi líka hverju hafði verið spáð um dauða hans, hvernig og hvenær hann myndi deyja. (Lúk. 18:31–34) Þar sem Jesús vissi allt þetta notaði hann tímann á besta mögulega hátt. Hann boðaði trúna af kappi til að ljúka verkefninu sem honum hafði verið falið.
9. Hvernig hvetja spádómar Biblíunnar okkur til að boða trúna af kappi?
9 Skilningur okkar á spádómum Biblíunnar getur hvatt okkur til að boða trúna af kappi. Við vitum að það er stutt í að endi verður bundinn á þennan illa heim. Við vitum að heimsatburðir og viðhorf fólks nú á dögum endurspegla það sem Biblían sagði fyrir að myndi einkenna síðustu daga. Við skiljum að átök milli ensk-ameríska heimsveldisins og Rússlands og bandamanna þess er uppfylling á spádómi um konung suðursins og konung norðursins „á tíma endalokanna“. (Dan. 11:40) Við vitum líka að ensk-ameríska heimsveldið er táknað með fótum líkneskisins í Daníel 2:43–45. Við erum fullviss um að Guðsríki muni fljótlega – mjög fljótlega – eyða stjórnum manna, rétt eins og spádómurinn gefur til kynna. Allir þessir spádómar sýna hvar við stöndum í tímans rás og minna okkur á hversu áríðandi það er að boða trúna.
10. Hvaða fleiri biblíuspádómar hjálpa okkur að vera kappsamari í boðuninni?
10 Biblíuspádómarnir hafa líka að geyma boðskap sem við viljum mjög gjarnan deila með öðrum. „Yndisleg loforð Jehóva um betri framtíð hvetja mig til að segja öðrum frá sannleikanum,“ segir Carrie, systir sem býr í Dóminíska lýðveldinu. Hún bætir við: „Þegar ég sé hvað fólk þarf að takast á við geri ég mér grein fyrir að þessi loforð eru ekki bara fyrir mig heldur líka fyrir aðra.“ Spádómar Biblíunnar hvetja okkur til að vera óhrædd að tala við fólk vegna þess að við vitum að Jehóva hjálpar okkur í þessu starfi. Leila býr í Ungverjalandi. Hún segir: „Jesaja 11:6–9 fær mig til að segja öðrum frá fagnaðarboðskapnum, jafnvel þeim sem líta ekki út fyrir að hafa áhuga. Ég veit að hver sem er getur breyst með hjálp Jehóva.“ Og Christopher frá Sambíu segir: „Fagnaðarboðskapurinn breiðist út eins og segir í Markúsi 13:10 og mér finnst mjög dýrmætt að taka þátt í að uppfylla þennan spádóm.“ Hvaða biblíuspádómur hvetur þig til að halda áfram að boða trúna?
HANN TREYSTI Á STUÐNING JEHÓVA
11. Hvers vegna þurfti Jesús að treysta á hjálp Jehóva til að halda áfram að boða trúna af kappi? (Lúkas 12:49, 53)
11 Jesús treysti að Jehóva myndi styðja sig til að halda áfram að boða trúna af kappi. Jesús sýndi háttvísi þegar hann boðaði trúna en hann gerði sér samt grein fyrir að margir yrðu á móti fagnaðarboðskapnum og sumir yrðu reiðir. (Lestu Lúkas 12:49, 53.) Trúarleiðtogarnir reyndu hvað eftir annað að drepa Jesú vegna boðunar hans. (Jóh. 8:59; 10:31, 39) En hann hélt áfram að boða trúna vegna þess að hann vissi að Jehóva var með honum. Hann sagði: „Ég er ekki einn heldur er faðirinn sem sendi mig með mér … Hann hefur ekki skilið mig eftir einan því að ég geri alltaf það sem hann hefur velþóknun á.“ – Jóh. 8:16, 29.
12. Hvernig bjó Jesús lærisveina sína undir að boða hugrakkir trúna þrátt fyrir andstöðu?
12 Jesús minnti lærisveina sína á að þeir gætu reitt sig á stuðning Jehóva. Hann sagði þeim aftur og aftur að Jehóva myndi hjálpa þeim jafnvel þótt þeir yrðu ofsóttir. (Matt. 10:18–20; Lúk. 12:11, 12) Hann hvatti þá til að vera varkárir sökum þess. (Matt. 10:16; Lúk. 10:3) Hann sagði þeim að þröngva ekki boðskapnum upp á þá sem vildu ekki hlusta. (Lúk. 10:10, 11) Og hann sagði þeim að flýja ef þeir yrðu fyrir ofsóknum. (Matt. 10:23) Jesús forðaðist að setja sig í óþarfa hættu þótt hann hefði brennandi áhuga á boðuninni og treysti Jehóva. – Jóh. 11:53, 54.
13. Hvers vegna geturðu verið viss um að Jehóva hjálpi þér?
13 Margir eru á móti boðun okkar nú á dögum og við þurfum því á hjálp Jehóva að halda til að segja fólki ótrauð frá fagnaðarboðskapnum. (Opinb. 12:17) Hvers vegna geturðu verið viss um að Jehóva styðji þig? Lítum á bæn Jesú í Jóhannesi 17. kafla. Hann bað Jehóva um að gæta postulanna og hann varð við bón hans. Í Postulasögunni kemur fram hvernig hann hjálpaði postulunum að boða trúna af brennandi áhuga þrátt fyrir ofsóknir. Jesús bað Jehóva líka að gæta þeirra sem tryðu á hann vegna orða postulanna. Þú ert þar á meðal. Jehóva er ekki hættur að svara bæn Jesú. Hann mun hjálpa þér rétt eins og hann hjálpaði postulunum. – Jóh. 17:11, 15, 20.
14. Hvernig vitum við að við getum boðað trúna áfram af kappi? (Sjá einnig mynd.)
14 Eftir því sem endirinn nálgast gæti orðið erfiðara að boða fagnaðarboðskapinn af kappi. En við fáum allan þann stuðning sem við þurfum. (Lúk. 21:12–15) Við leyfum fólki að ákveða hvort það vill hlusta eða ekki og forðumst óþarfa ágreining rétt eins og Jesús og lærisveinar hans. Bræður og systur okkar halda áfram að boða fagnaðarboðskapinn jafnvel þar sem hömlur eru á starfi okkar vegna þess að þau treysta á Jehóva en ekki eigin styrk. Rétt eins og á fyrstu öldinni gefur Jehóva þjónum sínum kraft til ‚gera boðuninni full skil‘ þangað til hann segir að verkinu sé lokið. (2. Tím. 4:17) Ef þú treystir á Jehóva máttu vera viss um að þú getir boðað trúna af kappi.
Boðberar sem hafa brennandi áhuga á boðuninni finna leiðir til að ræða um trúna af háttvísi, jafnvel þar sem eru hömlur á starfsemi okkar. (Sjá 14. grein.)a
HANN GAF EKKI UPP VONINA
15. Hvernig vitum við að Jesús var viss um að boðunin skilaði góðum árangri?
15 Jesús var viss um að sumir myndu hlusta á fagnaðarboðskapinn. Það hjálpaði honum að vera jákvæður og halda áfram að boða fólki trúna. Síðla árið 30 sá hann til dæmis að margir voru tilbúnir að hlusta á boðskapinn og hann líkti þeim við akur sem var tilbúinn til uppskeru. (Jóh. 4:35) Um ári síðar sagði hann við lærisveina sína: „Uppskeran er mikil.“ (Matt. 9:37, 38) Og síðar lagði hann aftur áherslu á það og sagði: „Uppskeran er mikil … Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Lúk. 10:2) Jesús missti aldrei trú á að sumir myndu hlusta á fagnaðarboðskapinn og var mjög glaður þegar það gerðist. – Lúk. 10:21.
16. Hvernig endurspegla líkingar Jesú jákvætt viðhorf hans til boðunarinnar? (Lúkas 13:18–21) (Sjá einnig mynd.)
16 Lærisveinarnir smituðust af brennandi áhuga Jesú þegar hann sýndi þeim fram á hversu kröftugur boðskapurinn væri. Skoðum tvær líkingar sem hann notaði. (Lestu Lúkas 13:18–21.) Jesús notaði sinnepsfræ til að kenna að fagnaðarboðskapurinn um ríkið breiddist út með ótrúlegum hætti og ekkert gæti stöðvað það. Og í annarri líkingu notaði hann súrdeig til að lýsa því hvernig fagnaðarboðskapurinn dreifðist víða og ylli breytingum sem væru ekki strax sýnilegar. Jesús gerði lærisveinunum þannig grein fyrir að boðskapurinn sem þeir fluttu myndi sannarlega hjálpa mörgum.
Eins og Jesús erum við vongóð um að einhverjir taki við boðskapnum sem við flytjum. (Sjá 16. grein.)
17. Hvaða ástæður höfum við til að halda áfram að vera jákvæð gagnvart boðuninni?
17 Það gefur okkur byr undir báða vængi að velta fyrir okkur hvernig boðunin hjálpar fólki um allan heim. Milljónir áhugasamra sækja minningarhátíðina á hverju ári og kynna sér Biblíuna með hjálp okkar. Hundruð þúsunda láta skírast og slást í lið með okkur í boðuninni. Við vitum ekki hversu margir eiga enn eftir að taka við boðskapnum en við vitum að Jehóva er að safna saman miklum múg sem kemst lifandi í gegnum þrenginguna miklu. (Opinb. 7:9, 14) Jehóva er herra uppskerunnar og hann sér möguleikann á að fleiri taki við boðskapnum. Við höfum því góða ástæðu til að halda boðuninni áfram.
18. Hverju viljum við að aðrir taki eftir?
18 Lærisveinar Jesú hafa alltaf þekkst af því hvað þeir eru duglegir að boða trúna. Þegar aðrir sáu hversu djarfmæltir postularnir voru „rann upp fyrir þeim að þeir höfðu verið með Jesú“. (Post. 4:13) Og þegar við boðum trúna hugrökk og af kappi áttar fólk sig kannski á því að við líkjum líka eftir Jesú.
SÖNGUR 58 Leitum að friðarins vinum
a MYND: Bróðir talar um trúna af háttvísi við mann á bensínstöð.