Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 apríl bls. 26-31
  • Ungu bræður – líkið eftir Markúsi og Tímóteusi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ungu bræður – líkið eftir Markúsi og Tímóteusi
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • LÍKTU EFTIR MARKÚSI – VERTU FÚS TIL AÐ ÞJÓNA
  • LÍKTU EFTIR TÍMÓTEUSI – LÁTTU ÞÉR ANNT UM AÐRA
  • NÝTTU ÞÉR FÖÐURLEG RÁÐ PÁLS
  • AÐ ÞJÓNA ÖÐRUM VEITIR BLESSUN
  • Þeir ‚styrktu söfnuðina‘
    Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Ákvarðanir sem sýna að við reiðum okkur á Jehóva
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
  • Bræður – sækist þið eftir að verða safnaðarþjónar?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Mundu að Jehóva er „lifandi Guð“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 apríl bls. 26-31

NÁMSGREIN 18

SÖNGUR 65 Sækjum fram

Ungu bræður – líkið eftir Markúsi og Tímóteusi

„Taktu Markús með þér því að hann er mér mikil hjálp í þjónustunni.“ – 2. TÍM. 4:11.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvernig fordæmi Markúsar og Tímóteusar geta hjálpað ungum bræðrum að þroska með sér eiginleika sem eru nauðsynlegir til að gera meira fyrir Jehóva og bræður og systur í söfnuðinum.

1, 2. Hvað hefði getað hindrað Markús og Tímóteus í að þjóna öðrum meira í söfnuðinum?

LANGAR ykkur ungu bræður að gera betur í þjónustu Jehóva og við að aðstoða bræður og systur í söfnuðinum? Örugglega. Það er mjög ánægjulegt að sjá svo marga unga menn sem eru tilbúnir að þjóna öðrum. (Sálm. 110:3) En það er kannski ekki alltaf auðvelt. Hikarðu við að gera meira í þjónustu Jehóva vegna þess að þú veist ekki hvernig líf þitt verður? Hefurðu afþakkað verkefni vegna þess að þig skortir sjálfstraust? Ef svo er ertu ekki einn um það.

2 Markús og Tímóteus voru í svipuðum sporum. En þeir létu ekki ótta við hið óþekkta eða reynsluleysi halda aftur af sér í að þjóna öðrum. Ef til vill bjó Markús hjá mömmu sinni og hafði það bara þægilegt þar þegar honum var boðið að fara með Páli postula og Barnabasi í fyrstu trúboðsferðina þeirra. (Post. 12:12, 13, 25) En Markús fór að heiman til að gera meira í þjónustu Jehóva. Fyrst flutti hann til Antíokkíu. Síðan slóst hann í hópinn með Páli og Barnabasi þegar þeir fóru til annarra fjarlægra staða. (Post. 13:1–5) Tímóteus bjó trúlega líka í foreldrahúsum þegar Páll bauð honum með sér í boðunarferðir. Tímóteus hefði getað látið það halda aftur af sér að hann var ungur og reynslulítill. (Berðu saman 1. Korintubréf 16:10, 11; og 1. Tímóteusarbréf 4:12.) En hann sló til og þáði boð Páls og naut fyrir vikið mikillar blessunar. – Post. 16:3–5.

3. (a) Hversu mikils virði voru Markús og Tímóteus Páli? (2. Tímóteusarbréf 4:6, 9, 11) (Sjá einnig myndir.) (b) Hvaða spurningar skoðum við í þessari námsgrein?

3 Markús og Tímóteus öðluðust dýrmæta reynslu og lærðu að axla mikla ábyrgð meðan þeir voru enn ungir. Páll kunni svo vel að meta þessa ungu menn að síðar þegar hann vissi að hann átti stutt eftir ólifað vildi hann hafa þá hjá sér. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 4:6, 9, 11.) Hvaða eiginleika kunni Páll vel að meta í fari Markúsar og Tímóteusar? Hvernig geta ungir menn líkt eftir þeim? Og hvaða gagn geta ungir menn haft af föðurlegum ráðum Páls?

Myndir: 1. Markús finnur til mat og drykk handa Páli og Barnabasi. 2. Tímóteus les bréf fyrir hóp öldunga. Þeir hlusta af athygli.

Páli þótti sérstaklega vænt um Markús og Tímóteus af því að þeir öxluðu ábyrgð þegar þeir voru ungir. (Sjá 3. grein.)b


LÍKTU EFTIR MARKÚSI – VERTU FÚS TIL AÐ ÞJÓNA

4, 5. Hvernig sýndi Markús að hann var fús að þjóna öðrum?

4 Að þjóna öðrum getur þýtt að leggja hart að sér til að hjálpa þeim – og halda því áfram þótt það sé erfitt. Það er einmitt það sem Markús gerði. Hann var líklega sár og vonsvikinn þegar Páll neitaði að taka hann með í aðra trúboðsferð sína. (Post. 15:37, 38) En hann lét það ekki hindra sig í að þjóna bræðrum sínum og systrum.

5 Markús fór með Barnabasi frænda sínum á annað starfssvæði. Um 11 árum síðar var Markús meðal þeirra sem aðstoðuðu Pál þegar hann var í fangelsi í Róm í fyrra skiptið. (Fílem. 23, 24) Páll var reyndar svo þakklátur fyrir stuðning Markúsar að hann sagði að hann hefði verið honum „til mikillar hughreystingar“. – Kól. 4:10, 11.

6. Hvaða gagn hafði Markús af félagsskap við þroskaða bræður? (Sjá neðanmáls.)

6 Markús naut góðs af því að vinna náið með þroskuðum bræðrum. Eftir að hann hafði verið um tíma með Páli í Róm fór hann til Babýlonar til að aðstoða Pétur postula. Þeir urðu svo nánir félagar að Pétur kallaði Markús son sinn. (1. Pét. 5:13) Pétur sagði líklega þessum unga vini sínum margt af lífi og starfi Jesú. Síðar gat Markús skrifað um það í guðspjalli sínu.a

7. Hvernig líkti bróðir að nafni Seung-Woo eftir Markúsi? (Sjá einnig mynd.)

7 Markús var upptekinn í þjónustunni og vann náið með þroskuðum bræðrum. Hvernig geturðu líkt eftir honum? Þig langar ef til vill að gera meira í þjónustu Jehóva. Vertu þolinmóður ef þú hefur ekki enn þá uppfyllt hæfniskröfurnar til að vera safnaðarþjónn eða öldungur og leitaðu leiða til að þjóna Jehóva og söfnuðinum með öðrum hætti. Tökum Seung-Woo sem dæmi en hann þjónar núna sem öldungur. Þegar hann var yngri bar hann sig saman við aðra unga bræður. Sumir þeirra fengu verkefni í söfnuðinum á undan honum. Honum fannst gengið fram hjá sér og að lokum talaði hann við öldungana um það. Einn þeirra hvatti hann til að gera það sem hann gæti til að þjóna öðrum jafnvel þótt það bæri ekki mikið á því. Það varð til þess að Seung-Woo bauðst til að hjálpa hinum öldruðu og þeim sem þurftu far á samkomur. Þegar hann hugsar til baka segir hann: „Þetta varð til þess að ég skildi betur hvað það þýðir að þjóna öðrum. Ég uppgötvaði hversu gefandi það er að rétta öðrum hjálparhönd.“

Ungur bróðir gefur eldri bróður far á samkomu.

Hvers vegna er gott fyrir unga bræður að njóta félagsskapar þroskaðra bræðra? (Sjá 7. grein.)


LÍKTU EFTIR TÍMÓTEUSI – LÁTTU ÞÉR ANNT UM AÐRA

8. Hvers vegna valdi Páll Tímóteus sem ferðafélaga? (Filippíbréfið 2:19–22)

8 Páll þurfti á hugrökkum ferðafélögum að halda þegar hann fór aftur til borga þar sem hann hafði mætt andstöðu. Fyrst valdi hann Sílas sem var reyndur bróður. (Post. 15:22, 40) Seinna bað Páll Tímóteus að fara með sér. Hvað hafði Tímóteus til að bera? Hann hafði til dæmis gott orð á sér. (Post. 16:1, 2) Honum var líka einlæglega annt um fólk. – Lestu Filippíbréfið 2:19–22.

9. Hvernig sýndi Tímóteus að honum var innilega annt um bræður og systur?

9 Tímóteus sýndi allt frá þeim tíma sem hann byrjaði að starfa með Páli að hann tók hag annarra fram yfir sinn eigin. Páll gat því rólegur skilið hann eftir í Beroju til að uppörva nýju lærisveinana þar. (Post. 17:13, 14) Tímóteus hefur að öllum líkindum líka lært mikið af Sílasi sem var líka á þessum tíma í Beroju. Síðar sendi Páll Tímóteus einan til Þessaloníku til að styrkja bræður og systur þar. (1. Þess. 3:2) Næstu 15 árin lærði Tímóteus að ‚gráta með þeim sem grétu‘, það er að segja sýna samúð með þeim sem þjáðust. (Rómv. 12:15; 2. Tím. 1:4) Hvernig geta ungir bræður líkt eftir Tímóteusi?

10. Hvernig lærði Woo Jae að sýna öðrum meiri persónulegan áhuga?

10 Bróðir sem heitir Woo Jae lærði að sýna öðrum meiri persónulegan áhuga. Þegar hann var ungur maður fannst honum erfitt að eiga samræður við eldri bræður og systur í söfnuðinum. Hann heilsaði þeim þegar hann hitti þau í ríkissalnum og gekk síðan í burtu. Öldungur stakk upp á því að Woo Jae hæfi samræður við trúsystkini sín með því að segja þeim hvað hann kynni að meta í fari þeirra. Öldungurinn hvatti hann til að velta fyrir sér hverju þau gætu haft áhuga á. Woo Jae fór eftir þessum ráðum. Hann er núna öldungur og segir: „Núna finnst mér auðveldara að eiga samræður við fólk á öllum aldri. Það er gott að skilja betur hvað aðrir eru að takast á við. Það hefur auðveldað mér að aðstoða trúsystkini mín.“

11. Hvernig geta ungir bræður lært að láta sér annara um aðra í söfnuðinum? (Sjá einnig mynd.)

11 Þið ungu bræður getið líka lært að láta ykkur annt um aðra í söfnuðinum. Reyndu á samkomum að sýna einstaklingum á mismunandi aldri og með ólíkan bakgrunn áhuga. Spyrðu hvernig þeir hafi það og hlustaðu síðan. Þannig geturðu séð betur hvernig þú getur aðstoðað þá. Þú kemst kannski að því að eldri hjón þurfa hjálp til að nýta sér JW Library-appið. Eða þá að þau vantar að fá einhvern með sér í boðunina. Gætirðu veitt þeim aðstoð við að nota snjalltækin eða farið með þeim í boðunina? Þú ert góð fyrirmynd í söfnuðinum ef þú tekur frumkvæðið og hjálpar öðrum.

Ungur bróðir með eldri bróður í boðuninni hús úr húsi. Eldri bróðirinn talar við mann og ungi bróðirinn heldur á spjaldtölvu og spilar myndband.

Ungir bræður geta hjálpað söfnuðinum á marga vegu. (Sjá 11. grein.)


NÝTTU ÞÉR FÖÐURLEG RÁÐ PÁLS

12. Hvernig geta ungir menn nýtt sér ráðin sem Páll gaf Tímóteusi?

12 Páll gaf Tímóteusi góð ráð til að ná árangri í lífinu og í boðuninni. (1. Tím. 1:18; 2. Tím. 4:5) Þið ungu bræður getið líka nýtt ykkur föðurleg ráð Páls. Lesið bréfin tvö sem Páll skrifaði Tímóteusi eins og þau væru skrifuð til ykkar og sjáið hvaða ráð þið getið nýtt ykkur. Skoðum fáein dæmi.

13. Hvernig geturðu eignast nánara samband við Jehóva?

13 ‚Æfðu þig markvisst í að vera guðrækinn.‘ (1. Tím. 4:7b) Hvað er guðrækni? Hún er það að vera trúfastur Jehóva og langa til að gleðja hann. Við þurfum að rækta þennan eiginleika vegna þess að hann er ekki meðfæddur. Gríska orðið sem er þýtt „æfðu þig“ var oft notað til að lýsa ströngum æfingum íþróttamanna sem bjuggu sig undir keppni. Þessir íþróttamenn þurftu að hafa sjálfsaga. Við þurfum líka að hafa sjálfsaga til að temja okkur venjur sem styrkja sambandið við Jehóva.

14. Hvert ætti markmið okkar með biblíulestri að vera? Lýstu með dæmi.

14 Það er mikilvægt að venja sig á að lesa í Biblíunni á hverjum degi. Það er líka mikilvægt að muna ástæðuna fyrir því að við gerum það – að verða nánari Jehóva. Hvað geturðu til dæmis lært um Jehóva þegar þú lest frásögu Jesú um ríka unga manninn? (Mark. 10:17–22) Hann trúði að Jesús væri Messías en skorti trú til að fylgja honum. Samt sem áður bar Jesús kærleika til hans. Hann talaði hlýlega við þennan unga mann. Jesús vildi greinilega að hann tæki skynsamlega ákvörðun. Hann endurspeglaði líka kærleika Jehóva til unga mannsins. (Jóh. 14:9) Þegar þú hugleiðir þessa frásögu og aðstæður þínar skaltu spyrja þig: Hvað þarf ég að gera til að nálgast Jehóva og þjóna öðrum enn betur?

15. Hvers vegna ætti ungur bróðir að gefa gaum að því hvaða fordæmi hann setur öðrum? Lýstu með dæmi. (1. Tímóteusarbréf 4:12, 13)

15 ‚Vertu fyrirmynd hinna trúföstu.‘ (Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:12, 13.) Páll lagði ekki bara áherslu á það við Tímóteus að leggja sig fram við lestur og kennslu – heldur líka að rækta eiginleika eins og kærleika, trú og hreinleika. Hvers vegna? Verk hafa meiri áhrif heldur en orð. Segjum að þér sé úthlutuð ræða sem fjallar um að vera kappsamari í boðuninni. Ef þú gerir eins vel og þú getur í boðuninni áttu auðveldara með að fjalla um þetta efni. Fordæmi þitt gefur þá orðum þínum aukið vægi. – 1. Tím. 3:13.

16. (a) Á hvaða fimm sviðum geta ungir þjónar Jehóva verið öðrum til fyrirmyndar? (b) Hvernig getur ungur bróðir verið öðrum til fyrirmyndar „í tali“?

16 Páll nefnir í 1. Tímóteusarbréfi 4:12 hvernig ungur bróðir getur verið öðrum til fyrirmyndar á fimm sviðum. Það er upplagt að skoða hvert og eitt þeirra í sjálfsnáminu. Segjum til dæmis að þú viljir vera til fyrirmyndar „í tali“. Hugleiddu hvað þú gætir sagt uppbyggilegt við aðra. Ef þú býrð enn þá heima gætirðu þá sagt foreldrum þínum oftar hversu þakklátur þú ert fyrir það sem þau gera fyrir þig? Gætirðu sagt bróður eða systur sem voru með verkefni á samkomu hvað þér fannst áhugavert við ræðuna? Þú gætir líka reynt að svara á samkomum með eigin orðum. Þegar þú leggur hart að þér að vera til fyrirmyndar í tali sjá aðrir að þú tekur framförum í trúnni. – 1. Tím. 4:15.

17. Hvað getur hjálpað ungum bróður að ná andlegum markmiðum sínum? (2. Tímóteusarbréf 2:22)

17 ‚Þú skalt flýja girndir æskunnar og keppa eftir réttlæti.‘ (Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:22.) Páll hvatti Tímóteus til að berjast gegn löngunum sem drægju athyglina frá andlegum markmiðum og gætu skaðað samband hans við Jehóva. Sumt sem er í sjálfu sér ekki rangt getur tekið of mikið af tíma þínum. Þá er lítill tími eftir fyrir þjónustuna við Jehóva. Veltu því til dæmis fyrir þér hversu mikinn tíma þú notar í að stunda íþróttir, vafra á netinu eða spila tölvuleiki. Gætirðu notað eitthvað af þeim tíma til að leggja meira af mörkum í þjónustu Jehóva? Þú gætir til dæmis boðist til að hjálpa til við viðhald á ríkissalnum eða tekið þátt í trillustarfi. Þegar þú tekur þátt í slíkum verkefnum eignastu trúlega nýja vini sem hjálpa þér að setja þér andleg markmið og ná þeim.

AÐ ÞJÓNA ÖÐRUM VEITIR BLESSUN

18. Hvers vegna getum við sagt að Markús og Tímóteus hafi lifað innihaldsríku og ánægjulegu lífi?

18 Markús og Tímóteus færðu fórnir til að þjóna öðrum betur og líf þeirra var innihaldsríkt og ánægjulegt. (Post. 20:35) Markús ferðaðist víða til að þjóna trúsystkinum sínum. Hann skrifaði líka líflega frásögu um þjónustu Jesú og líf. Tímóteus aðstoðaði Pál við að koma á fót söfnuðum og byggja upp bræður og systur. Jehóva var augljóslega ánægður með fórnfýsi Markúsar og Tímóteusar.

19. Hvers vegna ættu ungir bræður að gefa gaum að ráðum Páls til Tímóteusar og hvaða gagn hafa þeir af því?

19 Það er greinilegt af bréfunum sem Páll sendi Tímóteusi að honum þótti innilega vænt um þennan unga vin sinn. Þessi innblásnu bréf gefa líka til kynna að Jehóva elski ykkur ungu menn mjög mikið. Hann vill að þið náið árangri í lífinu. Takið því til ykkar föðurleg ráð Páls og ræktið með ykkur löngun til að þjóna öðrum enn betur. Þegar þið gerið það eigið þið gott líf núna og getið „haldið fast í vonina um hið sanna líf“. – 1. Tím. 6:18, 19.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvað hefurðu lært af Markúsi?

  • Hvernig geturðu líkt eftir Tímóteusi í samskiptum þínum við aðra?

  • Hvaða ráð frá Páli geta nýst ungum bróður til að gera meira fyrir Jehóva?

SÖNGUR 80 Finnið og sjáið að Jehóva er góður

a Pétur var tilfinningaríkur maður og átti því auðvelt með að útskýra fyrir Markúsi bæði hvað Jesús sagði og gerði við mismunandi aðstæður en líka hvernig honum leið. Þetta er ef til vill skýringin á því að Markús lýsir oft tilfinningum og verkum Jesú í skrifum sínum. – Mark. 3:5; 7:34; 8:12.

b MYND: Markús annast þarfir Páls og Barnabasar á trúboðsferð þeirra. Tímóteus er fús að heimsækja söfnuð til að styrkja og hvetja trúsystkinin.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila