NÁMSGREIN 19
SÖNGUR 6 Himnarnir segja frá dýrð Guðs
Líkjum eftir trúföstum englum
„Lofið Jehóva, þið voldugu englar.“ – SÁLM. 103:20.
Í HNOTSKURN
Í þessari námsgrein skoðum við ýmislegt sem við getum lært af trúföstum englum.
1, 2. (a) Á hvaða vegu erum við ólík englum? (b) Hvað eigum við sameiginlegt með englum?
ÞEGAR Jehóva dró okkur til sannleikans urðum við hluti af samheldinni fjölskyldu tilbiðjenda hans. Í henni eru bræður og systur frá öllum heimshornum og milljónir engla. (Dan. 7:9, 10) Þegar við hugsum um englana upplifum við þá trúlega mjög ólíka okkur. Ævi okkar er örstutt í samanburði við hversu lengi þeir hafa verið til. (Job. 38:4, 7) Þeir eru langtum máttugri en við. Og þeir eru heilagari og réttlátari en við vegna þess að við erum ófullkomin. – Lúk. 9:26.
2 En þrátt fyrir þetta eigum við margt sameiginlegt með englunum. Við getum til dæmis endurspeglað fallega eiginleika Jehóva líkt og þeir. Við höfum frjálsan vilja, eiginnöfn og mismunandi persónuleika eins og þeir. Við höfum líka ólík verkefni í þjónustu Jehóva eins og þeir og þörf fyrir að tilbiðja skapara okkar. – 1. Pét. 1:12.
3. Hvað getum við lært af trúföstum englum?
3 Þar sem við eigum ýmislegt sameiginlegt með englunum getur fordæmi þeirra hvatt og kennt okkur margt. Í þessari námsgrein skoðum við hvernig við getum líkt eftir auðmýkt trúfastra engla, kærleika þeirra til fólks, þolgæði og brennandi áhuga á að halda söfnuðinum hreinum.
ENGLARNIR ERU AUÐMJÚKIR
4. (a) Hvernig sýna englarnir auðmýkt? (b) Hvers vegna eru englarnir auðmjúkir? (Sálmur 89:7)
4 Trúfastir englar eru auðmjúkir. Þeir hlýða leiðbeiningum Jehóva þótt þeir séu mjög reyndir, máttugir og vitrir. (Sálm. 103:20) Þegar þeir sinna verkefnum sínum monta þeir sig aldrei af þeim eða reyna að draga athyglina að ofurmannlegum kröftum sínum. Þeir gera glaðir vilja Guðs jafnvel þótt þeir fái engan sérstakan heiður fyrir það.a (1. Mós. 32:24, 29; 2. Kon. 19:35) Þeir vilja ekki fá heiður sem Jehóva á skilið. Af hverju eru englarnir svona auðmjúkir? Af því að þeir elska Jehóva og bera djúpa virðingu fyrir honum. – Lestu Sálm 89:7.
5. Hvernig sýndi engill auðmýkt þegar hann þurfti að áminna Jóhannes postula? (Sjá einnig mynd.)
5 Skoðum dæmi sem sýnir hversu auðmjúkir englarnir eru. Um árið 96 fékk Jóhannes postuli að sjá mikilfenglega sýn fyrir milligöngu ónafngreinds engils. (Opinb. 1:1) Hvernig brást Jóhannes við sýninni? Hann féll fram til að tilbiðja engilinn. En þessi trúfasta andavera kom strax í veg fyrir það og sagði: „Ekki gera þetta! Ég er bara samþjónn þinn og bræðra þinna … Þú átt að tilbiðja Guð.“ (Opinb. 19:10) Hvílík auðmýkt! Engillinn hafði engan áhuga á upphefð eða aðdáun. Hann beindi athygli Jóhannesar samstundis að Jehóva Guði. En engillinn leit samt alls ekki niður á Jóhannes. Hann var auðmjúkur og kallaði Jóhannes samþjón sinn þótt hann hefði sjálfur þjónað Jehóva langtum lengur og væri miklu máttugri en Jóhannes. Og þótt engillinn þyrfti að leiðrétta hinn aldraða postula gerði hann það ekki hranalega. Hann talaði vingjarnlega við hann og gerði sér örugglega grein fyrir því að sýnin fyllti Jóhannes lotningu.
Engillinn sýndi auðmýkt þegar hann leiðrétti Jóhannes. (Sjá 5. grein.)
6. Hvernig getum við líkt eftir auðmýkt englanna?
6 Hvernig getum við líkt eftir auðmýkt englanna? Við ættum líka að vinna verkefni okkar án þess að grobba okkur eða reyna að fá heiðurinn af því sem við gerum. (1. Kor. 4:7) Auk þess ætti okkur ekki að finnast við yfir aðra hafin vegna þess að við höfum þjónað Jehóva lengur en þeir eða höfum fengið sérstök verkefni. Því meiri ábyrgð sem við höfum í söfnuðinum því mikilvægara er að við séum lítillát. (Lúk. 9:48) Eins og englarnir viljum við þjóna öðrum. Við viljum ekki upphefja sjálf okkur.
7. Hvernig getum við sýnt auðmýkt þegar við þurfum að leiðrétta einhvern?
7 Við getum líka sýnt auðmýkt ef við þurfum að leiðrétta einhvern, eins og til dæmis trúsystkini eða barnið okkar. Við gætum þurft að vera ákveðin þegar við gefum leiðbeiningar. En eins og engillinn sem leiðrétti Jóhannes getum við verið ákveðin án þess að viðkomandi missi kjarkinn. Ef við hugsum ekki að við séum merkilegri en aðrir getum við gefið leiðbeiningar frá Biblíunni af virðingu og samkennd. – Kól. 4:6.
ENGLARNIR ELSKA FÓLK
8. (a) Hvernig sýna englarnir að þeir elska fólk samkvæmt Lúkasi 15:10? (b) Hvaða hlutverki gegna englarnir í boðuninni? (Sjá einnig mynd.)
8 Englarnir eru hvorki afskiptalausir né áhugalausir gagnvart mannfólkinu. Þeir elska fólk. Þeir fagna því þegar syndari iðrast – þegar týndur sauður snýr aftur til Jehóva eða þegar einstaklingur gerir breytingar á lífi sínu og tekur við sannleikanum. (Lestu Lúkas 15:10.) Englarnir taka virkan þátt í boðun Guðsríkis. (Opinb. 14:6) Þótt þeir taki ekki beinan þátt í boðuninni geta þeir leitt boðbera til einstaklings sem langar til að kynnast Jehóva. Við getum að sjálfsögðu ekki fullyrt hvort englarnir hafi átt hlut að máli í ákveðnu tilfelli. Jehóva getur notað fleiri leiðir til að hjálpa fólki eða leiðbeina þjónum sínum, eins og til dæmis með heilögum anda sínum. (Post. 16:6, 7) En englarnir koma engu að síður mikið við sögu. Þegar við boðum fagnaðarboðskapinn getum við því treyst því að englarnir styðji okkur. – Sjá rammagreinina „Bænum þeirra var svarað“.b
Hjón eru búin að vera í boðuninni með ritatrillu. Á leiðinni heim kemur systirin auga á konu sem virðist niðurdregin. Systirin áttar sig á því að englarnir geta beint okkur til þeirra sem eru að leita að andlegri leiðsögn. Hún finnur sig knúna til að tala hughreystandi við konuna. (Sjá 8. grein.)
9. Hvernig getum við líkt eftir kærleika englanna til fólks?
9 Hvernig getum við líkt eftir kærleika englanna til fólks? Þegar við heyrum tilkynningu um að einhver hafi verið tekinn aftur inn í söfnuðinn getum við fagnað yfir því eins og englarnir. Við getum lagt okkur sérstaklega fram við að bjóða trúsystkini okkar velkomið og sýnt þannig hversu ánægð við erum. Það ber vitni um kærleika. (Lúk. 15:4–7; 2. Kor. 2:6–8) Við getum líka líkt eftir englunum með því að gera okkar besta í boðuninni. (Préd. 11:6) Við getum leitað leiða til að styðja bræður okkar og systur í boðuninni, rétt eins og englarnir styðja okkur þegar við tökum þátt í henni. Gætum við til dæmis farið í boðunina með þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref sem boðberar? Eða gætum við stutt eldri eða veikburða bræður og systur svo að þau geti tekið þátt í boðuninni?
10. Hvað getum við lært af Söru?
10 Hvað ef aðstæður okkar takmarka það sem við getum gert? Við getum samt fundið leiðir til að vinna í boðuninni með englunum. Skoðum hvað Sara,c systir á Indlandi, fékk að upplifa. Eftir að hafa verið brautryðjandi í um það bil 20 ár veiktist hún og varð rúmföst. Hún var skiljanlega mjög niðurdregin. En hún naut kærleiksríks stuðnings safnaðarins og las líka reglulega í Biblíunni og gat þannig tekið gleði sína á ný. Að sjálfsögðu þurfti hún að aðlaga boðun sína að breyttum aðstæðum. Hún gat ekki setið upprétt til að skrifa bréf þannig að boðun hennar takmarkaðist við símastarf. Hún hringdi í fólk sem hafði sýnt áhuga og það benti henni á aðra sem gætu verið áhugasamir. Hver var árangurinn? Eftir aðeins fáeina mánuði var Sara komin með 70 biblíunámskeið, langtum fleiri en hún gat séð um. Hún bað því aðra í söfnuðinum að sinna sumum þeirra. Margir nemendanna sækja núna samkomur. Englarnir hljóta að vera hæstánægðir að vinna með bræðrum og systrum eins og Söru sem gera sitt ýtrasta í boðuninni.
ENGLARNIR SÝNA ÞOLGÆÐI
11. Hvernig hafa trúfastir englar sýnt einstakt þolgæði?
11 Englarnir hafa sýnt ótrúlegt þolgæði. Þeir hafa þurft að horfa upp á ranglæti og illsku um þúsundir ára. Þeir sáu Satan og marga aðra engla sem höfðu verið með þeim í fjölskyldu Jehóva gera uppreisn gegn honum. (1. Mós. 3:1; 6:1, 2; Júd. 6) Biblían segir frá trúföstum engli sem þurfti að berjast við máttugan illan anda. (Dan. 10:13) Og englarnir hafa séð hvernig aðeins lítill hluti mannkyns hefur kosið að þjóna Jehóva í aldanna rás. En þrátt fyrir allt þetta halda þeir áfram að þjóna Jehóva með gleði og eldmóði. Þeir vita að sá tími kemur þegar Guð mun eyða öllu óréttlæti.
12. Hvað getur hjálpað okkur að vera þolgóð?
12 Hvernig getum við líkt eftir þolgæði englanna? Við getum orðið fyrir andstöðu eða þurft að horfa upp á óréttlæti rétt eins og englarnir. En við erum sannfærð, eins og þeir, um að Guð muni uppræta alla illsku á sínum tíma. Eins og trúföstu englarnir ‚gefumst við ekki upp að gera það sem er gott‘. (Gal. 6:9) Og Guð lofar að hjálpa okkur að halda út. (1. Kor. 10:13) Við getum beðið Jehóva um þolinmæði og gleði sem er ávöxtur anda hans. (Gal. 5:22; Kól. 1:11) En hvað ef þú stendur frammi fyrir andstöðu? Reiddu þig algerlega á Jehóva og vertu ekki hræddur. Jehóva mun alltaf styðja þig og styrkja. – Hebr. 13:6.
ENGLARNIR HJÁLPA TIL VIÐ AÐ HALDA SÖFNUÐINUM HREINUM
13. Hvaða sérstöku verkefni sinna englarnir á síðustu dögum? (Matteus 13:47–49)
13 Jehóva hefur falið englunum sérstakt verkefni nú á þessum síðustu dögum. (Lestu Matteus 13:47–49.) Milljónir manna frá öllum heimshornum sýna fagnaðarboðskapnum áhuga. Sumir þeirra breyta lífi sínu í samræmi við mælikvarða Jehóva og fara að þjóna honum en aðrir kjósa að gera það ekki. Englunum hefur verið falið að „aðgreina vonda frá réttlátum“. Þetta þýðir að þeir eigi að hjálpa til við að halda söfnuðinum hreinum. Þetta þýðir ekki að þeir sem hætta að hafa félagsskap við söfnuðinn, hver svo sem ástæðan er, geti ekki snúið aftur. Þetta merkir ekki heldur að engin vandamál komi upp í söfnuðinum. En við getum slegið því föstu að englarnir kappkosti að halda söfnuðinum hreinum.
14, 15. Hvernig getum við líkt eftir englunum og sýnt að við viljum halda söfnuðinum siðferðilega og andlega hreinum? (Sjá einnig myndir.)
14 Hvernig getum við eins og englarnir sýnt að okkur er umhugað um að halda söfnuðinum hreinum? Við gerum það með því að gera það sem í okkar valdi stendur til að halda söfnuðinum siðferðilega og andlega hreinum. Við verndum hjarta okkar með því að velja okkur góða vini og með því að forðast allt sem gæti spillt sambandi okkar við Jehóva. (Sálm. 101:3) Við getum líka hjálpað trúsystkinum okkar að varðveita trúfesti sína við Jehóva. Hvað ættum við til dæmis að gera ef við komumst að því að trúsystkini hefur drýgt alvarlega synd? Við myndum hvetja það til að tala við öldungana um málið af því að við elskum trúsystkini okkar. Ef það dregst á langinn ættum við að láta öldungana vita. Við viljum að trúsystkini sem er veikt í trúnni fái fljótt hjálp. – Jak. 5:14, 15.
15 Því miður þarf að vísa sumum sem drýgja alvarlegar syndir úr söfnuðinum. Þegar það gerist ættum við að „hætta að umgangast“ þá.d (1. Kor. 5:9–13) Þessi ráðstöfun stuðlar að því að söfnuðurinn haldist hreinn. Og við sýnum þeim sem hefur verið vísað úr söfnuðinum í raun kærleika með því að umgangast þá ekki. Ef við tökum skýra afstöðu getur það hjálpað þeim að sjá að sér. Þegar þeir gera það fögnum við ásamt Jehóva og englum hans. – Lúk. 15:7.
Hvað ættum við að gera ef við komumst að því að trúsystkini hefur drýgt alvarlega synd? (Sjá 14. grein.)e
16. Hvernig langar þig að líkja betur eftir englunum?
16 Það er mikill heiður að fá innsýn í andaheiminn og fá að vinna við hlið englanna. Líkjum eftir góðum eiginleikum þeirra, eins og auðmýkt, kærleika til fólks, þolgæði og brennandi áhuga á að halda söfnuðinum andlega og siðferðilega hreinum. Ef við líkjum eftir trúföstum englum getum við verið hluti af fjölskyldu Jehóva og tilbiðjenda hans um alla eilífð.
SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs
a Af þeim hundruð milljóna engla sem eru til samkvæmt Biblíunni eru aðeins tveir nafngreindir – Míkael og Gabríel. – Dan. 12:1; Lúk. 1:19.
b Hægt er að finna fleiri frásögur í Watch Tower Publications Index undir yfirskriftinni „Angels“ og „angelic direction (examples)“.
c Nafni hefur verið breytt.
d Eins og kom fram í Skilaboðum frá stjórnandi ráði (nr. 2, 2024) geta boðberar beitt biblíufræddri samvisku sinni þegar þeir ákveða hvort þeir heilsi einhverjum stuttlega sem hefur verið vísað úr söfnuðinum þegar hann kemur á samkomu og bjóði hann velkominn.
e MYND: Systir hvetur vinkonu sína til að tala við öldungana. Að einhverjum tíma liðnum talar hún sjálf við þá um málið þar sem vinkona hennar hefur ekki enn látið verða af því.