Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 júní bls. 2-7
  • Lærum af spádómi á dánarbeði – fyrri hluti

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Lærum af spádómi á dánarbeði – fyrri hluti
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • RÚBEN
  • SÍMEON OG LEVÍ
  • JÚDA
  • Lærum af spádómi á dánarbeði – seinni hluti
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Jakob og Esaú verða aftur vinir
    Lærum af sögum Biblíunnar
  • Jakob á stóra fjölskyldu
    Biblíusögubókin mín
  • Ákvarðanir sem sýna að við reiðum okkur á Jehóva
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 júní bls. 2-7

NÁMSGREIN 24

SÖNGUR 98 Ritningin er innblásin

Lærum af spádómi á dánarbeði – fyrri hluti

„Safnist saman svo að ég geti sagt ykkur hvernig ykkur mun farnast í framtíðinni.“ – 1. MÓS. 49:1.

Í HNOTSKURN

Við skoðum það sem við getum lært af spádómi Jakobs á dánarbeðinu varðandi Rúben, Símeon, Leví og Júda.

1, 2. Hvað gerði Jakob rétt áður en hann dó og hvers vegna? (Sjá einnig mynd.)

UM ÞAÐ bil 17 ár eru liðin síðan Jakob, hinn trúfasti þjónn Jehóva, ferðaðist frá Kanaanslandi til Egyptalands með fjölskyldu sína. (1. Mós. 47:28) Á þessum tíma hefur hann notið þess að vera aftur með kærum syni sínum, Jósef, og sjá fjölskyldu sína sameinaða á ný. En nú finnur Jakob að hann á stutt eftir ólifað. Hann kallar því syni sína saman á mikilvægan fjölskyldufund. – 1. Mós. 49:28.

2 Á þessum tíma var algengt að fjölskyldufaðir sem var kominn að ævilokum kallaði saman fjölskyldu sína til að veita henni mikilvægar upplýsingar. (Jes. 38:1) Við slíkt tækifæri gaf hann gjarnan til kynna hver myndi taka forystuna í fjölskyldunni eftir dauða hans.

Jakob flytur 12 sonum sínum spádóm á dánarbeðinu. (Sjá 1. og 2. grein.)


3. Af hverju hefur það sem Jakob sagði sérstaka merkingu samkvæmt 1. Mósebók 49:1, 2?

3 Lestu 1. Mósebók 49:1, 2. En þetta var enginn venjulegur fjölskyldufundur. Jakob var spámaður. Við þetta tækifæri innblés Jehóva þjóni sínum að segja fyrir mikilvæga atburði í framtíðinni sem myndu hafa mikil áhrif á afkomendur hans. Jakob var í raun að bera fram spádóm á dánarbeðinu.

4. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við skoðum spádóm Jakobs? (Sjá einnig rammann „Fjölskylda Jakobs“.)

4 Í þessari námsgrein skoðum við það sem Jakob sagði við fjóra af sonum sínum: Rúben, Símeon, Leví og Júda. Í næstu grein er svo rætt um það sem Jakob sagði við hina átta syni sína. Við munum sjá að Jakob var ekki bara að tala um syni sína heldur líka afkomendur þeirra sem áttu með tímanum eftir að mynda Ísraelsþjóðina. Þegar við skoðum sögu þjóðarinnar kemur í ljós hvernig spádómsorð Jakobs rættust. Og þegar við ígrundum það sem hann sagði lærum við ýmislegt sem getur hjálpað okkur að þóknast Jehóva, föður okkar á himnum.

Tafla sem sýnir ættartré fjölskyldu Jakobs. Hann á tvær eiginkonur, Leu og Rakel, auk tveggja hjákvenna, Bílu og Silpu. Börn hans með Leu eru Rúben, Símeon, Leví, Júda, Íssakar, Sebúlon og Dína. Börn hans með Rakel eru Jósef og Benjamín. Börn hans með Bílu eru Dan og Naftalí. Börn hans með Silpu eru Gað og Asser.

RÚBEN

5. Hvað bjóst Rúben trúlega við að fá eftir föður sinn?

5 Jakob ávarpar Rúben fyrst og segir: „Þú ert frumburður minn.“ (1. Mós. 49:3) Þar sem Rúben var frumburðurinn vænti hann þess trúlega að fá tvöfaldan hlut af eigum föður síns. Hann gæti líka hafa gert ráð fyrir að fá að taka forystuna í fjölskyldunni eftir dauða föður síns og að afkomendur hans myndu með tíð og tíma einnig fá þann heiður.

6. Hvers vegna fór Rúben á mis við frumburðarréttinn? (1. Mósebók 49:3, 4)

6 En Rúben fór á mis við frumburðarréttinn. (1. Kron. 5:1) Hvers vegna? Mörgum árum áður hafði hann sofið hjá Bílu hjákonu Jakobs. Hún hafði verið þjónustustúlka Rakelar, ástkærrar eiginkonu Jakobs, sem hafði dáið. (1. Mós. 35:19, 22) Rúben var sonur Leu, hinnar eiginkonu Jakobs. Kannski var það girnd sem fékk hann til að drýgja þessa synd. Það getur líka verið að hann hafi sofið hjá Bílu til þess að Jakob fengi óbeit á henni og færi að elska móður hans meira. Hvað sem því líður var það sem hann gerði mjög slæmt í augum Jehóva og í augum föður hans. – Lestu 1. Mósebók 49:3, 4.

7. Hvað rættist í sambandi við Rúben og afkomendur hans? (Sjá einnig rammann „Spádómur Jakobs á dánarbeðinu“.)

7 Jakob sagði við Rúben: ‚Þú skalt ekki vera fremstur.‘ Þessi orð rættust. Hvergi í Biblíunni er talað um að nokkur afkomandi Rúbens hafi orðið konungur, prestur eða spámaður. En Jakob hafnaði ekki syni sínum og afkomendur Rúbens urðu að ættkvísl í Ísrael. (Jós. 12:6) Rúben hafði sýnt góða eiginleika við aðrar aðstæður og það er ekkert sem bendir til þess að hann hafi nokkurn tíma framið kynferðislegt siðleysi aftur. – 1. Mós. 37:20–22; 42:37.

Spádómur Jakobs á dánarbeðinu

Rúben.

Sonur

Rúben

Spádómur

‚Þú skalt ekki vera fremstur.‘ – 1. Mós. 49:4.

Uppfylling

Ættkvísl Rúbens fór aldrei með forystuhlutverk í Ísrael. – 1. Kron. 5:1, 2.

8. Hvaða getum við lært af sögu Rúbens?

8 Hvað lærum við? Við þurfum að leggja eitthvað á okkur til að rækta með okkur sjálfsstjórn og berjast gegn kynferðislegu siðleysi. Ef eitthvað freistar okkar til að syndga ættum við að staldra við og hugleiða hvernig það myndi særa Jehóva, fjölskyldu okkar og aðra, ef við létum undan. Gleymum ekki heldur að „það sem maður sáir, það uppsker hann“. (Gal. 6:7) Saga Rúbens minnir okkur samt á hversu miskunnsamur Jehóva er. Þó að hann hlífi okkur ekki við afleiðingum synda okkar blessar hann okkur þegar við iðrumst og reynum að gera það sem er rétt.

SÍMEON OG LEVÍ

9. Hvers vegna var Jakob óánægður með Símeon og Leví? (1. Mósebók 49:5–7)

9 Lestu 1. Mósebók 49:5–7. Jakob ávarpaði því næst Símeon og Leví. Hann notaði sterk orð til að lýsa óánægju sinni með þá. Mörgum árum áður hafði kanverskur maður sem hét Síkem nauðgað Dínu dóttur Jakobs. Eins og gefur að skilja voru allir synir Jakobs í miklu uppnámi vegna þess sem kom fyrir systur þeirra en Símeon og Leví gáfu reiðinni lausan tauminn. Þeir lugu að Síkem og fólki hans og sögðu að ef menn þeirra létu umskerast myndu þeir friðmælast við fjölskyldu Jakobs. Mennirnir samþykktu þetta og létu umskerast. Á meðan þeir voru enn þjáðir af sárum sínum tóku Símeon og Leví „sitt sverðið hvor, fóru inn í borgina öllum að óvörum og drápu allt karlkyns“. – 1. Mós. 34:25–29.

10. Hvernig rættist spádómur Jakobs um Símeon og Leví? (Sjá einnig rammann „Spádómur Jakobs á dánarbeðinu“.)

10 Glæpaverk tveggja sona Jakobs ollu honum miklu hugarangri. Hann sagði fyrir að þeim yrði dreift um allt Ísraelsland. Þessi spádómur rættist meira en 200 árum síðar þegar Ísraelsmenn fóru inn í fyrirheitna landið. Ættkvísl Símeons fékk að erfðalandi einangruð svæði innan landamæra Júdaættkvíslarinnar. (Jós. 19:1) Erfðaland Leví samanstóð af 48 borgum víðs vegar um Ísrael. – Jós. 21:41.

Spádómur Jakobs á dánarbeðinu

Símeon.

Sonur

Símeon

Spádómur

„Ég mun dreifa þeim í Jakobi.“ – 1. Mós. 49:7.

Uppfylling

Ættkvísl Símeons fékk að erfðalandi einangruð svæði innan landamæra Júdaættkvíslarinnar. – Jós. 19:1–8.

Leví.

Sonur

Leví

Spádómur

‚Ég tvístra þeim í Ísrael.‘ – 1. Mós. 49:7.

Uppfylling

Ættkvísl Leví var dreifð um 48 borgir um allt Ísraelsland. – Jós. 21:41.

11. Hvað gott gerðu ættkvíslir Símeons og Leví?

11 Afkomendur Símeons og Leví gerðu ekki sömu mistök og forfeður þeirra. Ættkvísl Leví tilbað Jehóva af trúfesti. Þegar Móse fékk lögin frá Jehóva á Sínaífjalli fóru margir Ísraelsmenn að tilbiðja líkneski af kálfi. En Levítarnir stóðu með Móse og hjálpuðu honum að taka af lífi þá sem tóku þátt í kálfadýrkuninni. (2. Mós. 32:26–29) Jehóva valdi menn af ættkvísl Leví til að vera prestar í Ísrael. (2. Mós. 40:12–15; 4. Mós. 3:11, 12) Síðar meir, þegar þjóðin lagði undir sig fyrirheitna landið, börðust Símeonítar af hugrekki við hlið Júdamanna í samræmi við fyrirætlun Jehóva. – Dóm. 1:3, 17.

12. Hvaða getum við lært af sögu Símeons og Leví?

12 Hvað lærum við? Leyfum aldrei reiðinni að stjórna ákvörðunum okkar og verkum. Það er eðlilegt að við verðum reið ef við eða einhver sem okkur þykir vænt um er beittur órétti. (Sálm. 4:4) En við megum ekki gleyma að það væri á móti vilja Guðs ef við fengjum útrás fyrir reiði í orðum okkar og verkum. (Jak. 1:20) Við þurfum að takast á við óréttlæti – hvort heldur innan eða utan safnaðarins – í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Þannig komum við í veg fyrir að stjórnlaus reiði valdi skaða. (Rómv. 12:17, 19; 1. Pét. 3:9) Mundu líka að þú þarft ekki að fylgja fordæmi foreldra þinna ef þeir eru að gera eitthvað sem Jehóva hefur vanþóknun á. Ekki álíta að þér sé ekki viðbjargandi og að þú getir ekki öðlast blessun Jehóva. Þú getur treyst því að Jehóva launi viðleitni þína ef þú reynir að gera það sem er rétt.

JÚDA

13. Hvers vegna gæti Júda hafa haft áhyggjur þegar kom að honum að hlusta á föður sinn?

13 Jakob talaði þessu næst við Júda son sinn. Hann gæti hafa verið áhyggjufullur eftir að hafa heyrt Jakob ávarpa eldri bræður hans. Hann hafði sjálfur gert alvarleg mistök. Eftir að Símeon og Leví höfðu drepið mennina í Síkem fór Júda með hinum bræðrum sínum í borgina og rændi hana. (1. Mós. 34:27) Ásamt bræðrum sínum seldi hann Jósef sem þræl og blekkti föður sinn. (1. Mós. 37:31–33) Síðar hafði hann kynmök við Tamar tengdadóttur sína í þeirri trú að hún væri vændiskona. – 1. Mós. 38:15–18.

14. Hvað gott hafði Júda gert? (1. Mósebók 49:8, 9)

14 Þrátt fyrir þetta var Jakobi bara innblásið að hrósa Júda og blessa. (Lestu 1. Mósebók 49:8, 9.) Júda hafði sýnt að honum var innilega annt um aldraðan föður sinn. Og hann hafði líka sýnt Benjamín, yngsta bróður sínum, samúð. – 1. Mós. 44:18, 30–34.

15. Hvaða blessun hlaut Júda?

15 Jakob sagði fyrir að Júda myndi fara með forystuhlutverk meðal bræðra sinna. En 200 ár liðu áður en það varð að veruleika. Eftir brottför Ísraelsþjóðarinnar úr Egyptalandi er fyrst minnst á að ættkvísl Júda hafi verið í forystu þjóðarinnar þegar hún fór í gegnum óbyggðirnar og inn í fyrirheitna landið. (4. Mós. 10:14) Áratugum síðar tók Júda forystuna í að berjast við Kanverja til að vinna landið. (Dóm. 1:1, 2) Og Davíð, afkomandi Júda, var fyrsti konungurinn af mörgum sem var af ættkvísl hans. En þar með er ekki öll sagan sögð.

16. Hvernig rættist spádómurinn í 1. Mósebók 49:10? (Sjá einnig rammann „Spádómur Jakobs á dánarbeðinu“.)

16 Jakob sagði fyrir að stjórnandi alls mannkyns kæmi af ættkvísl Júda. (Lestu 1. Mósebók 49:10 og neðanmáls.) Stjórnandinn er Jesús Kristur sem Jakob kallar Síló. Engill sagði um hann: „Jehóva Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans.“ (Lúk. 1:32, 33) Jesús er líka kallaður „ljónið af ættkvísl Júda“. – Opinb. 5:5.

Spádómur Jakobs á dánarbeðinu

Júda.

Sonur

Júda

Spádómur

„Veldissprotinn hverfur ekki frá Júda … fyrr en Síló kemur.“ – 1. Mós. 49:10.

Uppfylling

Jesús, afkomandi Júda, yrði konungur í Guðsríki. – Lúk. 1:32, 33.

17. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva í því hvernig við lítum á aðra?

17 Hvað lærum við? Jehóva blessaði Júda enda þótt hann hefði gert alvarleg mistök. Kannski veltu bræður hans fyrir sér hvað Jehóva sæi gott í honum. Hvað sem þeir hugsuðu sá Jehóva gott í Júda og blessaði hann fyrir það. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva? Okkur gæti hætt til að horfa á ófullkomleika trúsystkinis þegar það fær sérstakt verkefni. En við megum ekki gleyma að Jehóva er ánægður með góða eiginleika þjóna sinna. Hann leitar að því góða í tilbiðjendum sínum. Reynum að líkja eftir honum.

18. Hvers vegna þurfum við að vera þolinmóð?

18 Annað sem við getum lært af sögu Júda er að við þurfum að sýna þolinmæði. Jehóva stendur alltaf við loforð sín en hann gerir það ekki alltaf í samræmi við væntingar okkar eða á þeim tíma sem við væntum þess. Afkomendur Júda tóku ekki strax forystu meðal þjóðar Guðs. En þeir studdu trúfastir þá sem Jehóva hafði útnefnt til að gera það, eins og Levítann Móse, Efraímítann Jósúa og Benjamínítann Sál konung. Við ættum líka að styðja hvern þann sem Jehóva velur til að taka forystuna meðal okkar. – Hebr. 6:12.

19. Hvað lærum við um Jehóva af þessari umfjöllun um spádóm Jakobs á dánarbeðinu?

19 Hvað höfum við lært af síðustu orðum Jakobs við elstu fjóra syni sína? Það er greinilegt að „menn sjá ekki það sem Guð sér“. (1. Sam. 16:7) Jehóva er mjög þolinmóður og fús til að fyrirgefa. Hann afsakar ekki ranga hegðun en hann væntir samt ekki fullkomleika af tilbiðjendum sínum. Hann getur jafnvel blessað þá sem hafa gert alvarleg mistök en iðrast í einlægni og breyta um stefnu. Í næstu námsgrein skoðum við hvað Jakob sagði við hina átta syni sína.

HVAÐ HEFURÐU LÆRT AF ÞVÍ SEM JAKOB SAGÐI VIÐ …

  • Rúben?

  • Símeon og Leví?

  • Júda?

SÖNGUR 124 Sýnum tryggð

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila