NÁMSGREIN 29
SÖNGUR 87 Komið og endurnærist
Lærum að gefa góð ráð
„Ég gef þér ráð og hef augun á þér.“ – SÁLM. 32:8.
Í HNOTSKURN
Við skoðum hvernig við getum gefið góð ráð.
1. Hverjir þurfa að gefa ráð, og hvers vegna?
ÁTTU auðvelt með að gefa ráð? Sumir gera það með ánægju. Aðrir hika við að gefa ráð og finnst það óþægilegt. Hvort heldur er þá þurfum við öll að gefa öðrum ráð við og við. Hvers vegna? Jesús sagði að sannir fylgjendur sínir þekktust af kærleikanum sem þeir bera hver til annars. (Jóh. 13:35) Og ein leið til að sýna að við elskum bræður okkar og systur er að gefa þeim ráð þegar þörf er á. Orð Guðs segir að ‚góður vinur gefi einlæg ráð‘, en það styrkir vináttuböndin. – Orðskv. 27:9.
2. Hvað þurfa öldungar að geta gert og hvers vegna? (Sjá einnig rammann „Leiðbeiningar á samkomunni í miðri viku“.)
2 Öldungar þurfa sérstaklega að geta gefið góð ráð. Jehóva og Jesús hafa falið þessum mönnum að annast söfnuðinn. (1. Pét. 5:2, 3) Öldungar gefa til dæmis ráð byggð á Biblíunni þegar þeir flytja ræður á samkomum. Þeir þurfa líka að gefa einstaklingum ráð þegar þörf er á. Og þeir hjálpa þeim sem hafa yfirgefið Jehóva að snúa aftur til safnaðarins. Hvernig geta öldungar, og við öll, gefið góð ráð?
3. (a) Hvernig getum við lært að gefa öðrum góð ráð? (Jesaja 9:6; sjá einnig rammann „Líktu eftir Jesú þegar þú gefur öðrum ráð“.) (b) Hvað skoðum við í þessari námsgrein?
3 Við getum lært að gefa góð ráð með því að hugleiða fordæmi fólks sem Biblían greinir frá, sérstaklega fordæmi Jesú. Einn titillinn sem honum hefur verið gefinn er „Undraráðgjafi“. (Lestu Jesaja 9:6.) Í þessari námsgrein fjöllum við um það sem við getum gert þegar við erum beðin um ráð og hvað við getum gert þegar við þurfum að gefa ráð óbeðin. Við skoðum einnig mikilvægi þess að gefa ráð á réttum tíma og á réttan hátt.
ÞEGAR VIÐ ERUM BEÐIN UM RÁÐ
4, 5. Hvað ættum við að spyrja okkur þegar einhver leitar ráða hjá okkur? Nefndu dæmi.
4 Hver ættu að vera viðbrögð okkar þegar við erum beðin um ráð? Við erum kannski ánægð að vinur sýni okkur traust og viljum koma strax til hjálpar. En fyrst ættum við að spyrja okkur hvort við höfum næga þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Stundum er best að vísa þeim sem spyr okkur á einhvern sem þekkir vel til.
5 Skoðum dæmi. Segjum að náinn vinur þinn veikist alvarlega. Hann segir þér frá möguleikum á læknismeðferð sem hann er byrjaður að skoða og spyr síðan hvaða kostur þér finnist bestur. Þú hefur ef til vill sterkar skoðanir varðandi málið en ert ekki læknir og hefur ekki fengið þjálfun á þessu sviði. Það besta sem þú getur gert er að aðstoða vin þinn við að finna einhvern sem hefur þekkinguna sem þarf til.
6. Hvers vegna gætum við kosið að bíða áður en við gefum ráð?
6 Enda þótt við álítum okkur hafa þekkingu til að gefa ráð á ákveðnu sviði gætum við kosið að bíða um stund áður en við svörum þeim sem biður um ráð. Hvers vegna? „Hinn réttláti hugsar sig um áður en hann svarar,“ segir í Orðskviðunum 15:28. En hvað ef okkur finnst við vita svarið? Við gætum samt tekið okkur tíma til að athuga málið betur, leita til Jehóva í bæn og ígrunda málið. Þá getum við verið öruggari um að svarið sé í samræmi við vilja Jehóva í málinu. Skoðum fordæmi spámannsins Natans.
7. Hvað lærum við af því sem Natan gerði?
7 Davíð konungur sagði Natan spámanni að hann vildi byggja musteri fyrir Jehóva. Natan ráðlagði honum samstundis að gera það. En hann hefði fyrst átt að athuga hver væri vilji Jehóva í málinu. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva vildi ekki að Davíð byggði musterið. (1. Kron. 17:1–4) Þetta dæmi sýnir að það er skynsamlegt að vera ‚sein til að tala‘ þegar við erum beðin um ráð. – Jak. 1:19.
8. Hvaða aðra ástæðu höfum við til að hugleiða málið vandlega áður en við gefum ráð?
8 Við höfum aðra ástæðu til að hugsa vandlega áður en við gefum ráð. Sökin gæti að einhverju leyti verið okkar ef ráðin sem við gefum hafa slæmar afleiðingar. Við höfum góða ástæðu til að hugleiða málið vel áður en við gefum ráð.
AÐ GEFA ÓUMBEÐIN RÁÐ
9. Um hvað þurfa öldungar að vera vissir áður en þeir gefa ráð? (Galatabréfið 6:1)
9 Stundum þurfa öldungar að hafa frumkvæði að því að gefa bróður eða systur sem hefur farið „út af sporinu“ ráð. (Lestu Galatabréfið 6:1.) Þjónn Jehóva getur tekið óskynsamlegar ákvarðanir sem geta síðar leitt til alvarlegrar syndar. Markmið öldunganna er að hjálpa honum að halda sig á veginum sem liggur til eilífa lífsins. (Jak. 5:19, 20) Til að ráðin séu áhrifarík þurfa þeir fyrst að ganga úr skugga um að bróðirinn eða systirin hafi raunverulega misstigið sig. Jehóva leyfir okkur að taka ákvarðanir í samræmi við eigin samvisku. (Rómv. 14:1–4) En hvað ef þjónn Jehóva hefur farið út af sporinu og öldungarnir ákveða að þeir þurfi að gefa honum ráð?
10–12. Hvað ættu öldungar að gera þegar þeir gefa óumbeðin ráð? Lýstu með dæmi. (Sjá einnig myndir.)
10 Það er ekki auðvelt fyrir öldunga að gefa óumbeðin ráð. Páll postuli sagði að maður gæti farið út af sporinu án þess að taka eftir því. Öldungarnir ættu því fyrst að búa einstaklinginn undir að taka við ráðum.
11 Að gefa öðrum óumbeðin ráð getur verið eins og að rækta plöntu í hörðum jarðvegi. Áður en bóndi sáir í jörð plægir hann jarðveginn til að mýkja hann svo að hann taki á móti fræinu. Síðan sáir hann fræinu. Að lokum vökvar hann það til að stuðla að vexti. Öldungur gerir vel að undirbúa jarðveginn, ef svo má að orði komast, áður en hann gefur óumbeðin ráð. Hann velur hentugan tíma og lætur einstaklinginn vita að sér sé annt um hann og langi að tala við hann. Ef sá sem gefur ráðin er þekktur fyrir góðvild og kærleika eiga aðrir auðveldara með að taka við ráðum hans.
12 Þegar öldungurinn ræðir við einstaklinginn getur hann mýkt jarðveginn með því að nefna að allir geri mistök og þurfi að fá leiðbeiningar öðru hvoru. (Rómv. 3:23) Með virðingu og mildri röddu sýnir öldungurinn honum frá Biblíunni hvernig hann hefur farið út af sporinu. Þegar einstaklingurinn áttar sig á að hann hefur gert mistök „sáir öldungurinn fræinu“, það er að segja útskýrir fyrir honum á einfaldan hátt hvað hann þurfi að gera til að leiðrétta sig. Að lokum „vökvar“ hann fræið með því að hrósa honum af einlægni og biðja til Jehóva með honum. – Jak. 5:15.
Það kallar á kærleika og færni að gefa óumbeðin ráð. (Sjá 10.–12. grein.)
13. Hvernig geta öldungar vitað hvort einstaklingur skilur ráðin?
13 Stundum er það sem ráðgjafinn segir og það sem þiggjandi ráðanna heyrir ekki það sama. Hvað geta öldungar gert til að fyrirbyggja það? Þeir geta dregið aðalatriðin fram með því að spyrja nærgætinna spurninga. (Préd. 12:11) Svörin hjálpa þeim sem gefur ráðin að ganga úr skugga um að einstaklingurinn skilji þau.
GEFUM RÁÐ Á RÉTTUM TÍMA OG Á RÉTTAN HÁTT
14. Ættum við að gefa öðrum ráð þegar við erum reið? Skýrðu svarið.
14 Við erum öll ófullkomin og segjum og gerum stundum eitthvað sem kemur öðrum í uppnám. (Kól. 3:13) Orð Guðs bendir á að við getum orðið reið út í hvort annað. (Ef. 4:26) En við þurfum að stilla okkur um að gefa ráð þegar við erum reið. Hvers vegna? Vegna þess að „reiði mannsins kemur ekki réttlæti Guðs til leiðar“. (Jak. 1:20) Ef við gefum öðrum ráð þegar við erum reið er okkur hættara við að gera meira illt en gott. Það þýðir ekki að við ættum aldrei að segja þeim sem reitti okkur til reiði hvað við hugsum og hvernig okkur líður. En við ættum að bíða með að tala við hann þangað til við erum orðin róleg. Við getum lært af Elíhú sem gaf Job góð ráð.
15. Hvað lærum við af Elíhú? (Sjá einnig mynd.)
15 Job reyndi í nokkra daga að leiðrétta það sem falskir huggararnir sögðu um hann en Elíhú tók sér tíma til að hlusta. Hann fann til með Job. En hann reiddist líka vegna þess að Job dró upp ranga mynd af Jehóva þegar hann reyndi að sýna fram á eigið sakleysi. En Elíhú beið samt með að tala og þegar hann gaf Job ráð var hann rólegur og sýndi honum virðingu. (Job. 32:2; 33:1–7) Við getum dregið dýrmætan lærdóm af því sem Elíhú gerði: Það er best að gefa öðrum ráð á réttum tíma og á réttan hátt – með virðingu og kærleika. – Préd. 3:1, 7.
Elíhú hafði reiðst en var rólegur og sýndi virðingu þegar hann gaf leiðbeiningar. (Sjá 15. grein.)
HÖLDUM ÁFRAM AÐ GEFA OG ÞIGGJA RÁÐ
16. Hvað getum við lært af Sálmi 32:8?
16 Titilvers þessarar námsgreinar segir að ‚Jehóva gefi ráð og hafi augun á okkur‘. (Lestu Sálm 32:8.) Það merkir að hann veiti okkur áframhaldandi stuðning. Hann gefur okkur ekki bara ráð heldur hjálpar okkur að fara eftir þeim. Við getum líkt eftir honum. Við getum haldið áfram að hvetja og hjálpa þeim sem við gefum ráð svo að þeir geti tekið skynsamlegar ákvarðanir.
17. Hvað reynast öldungar vera þegar þeir gefa ráð byggð á Biblíunni og hvaða áhrif hefur það á okkur? (Jesaja 32:1, 2)
17 Við þurfum meira en nokkru sinni fyrr að gefa og þiggja góð ráð. (2. Tím. 3:1) Öldungar sem gefa ráð byggð á Biblíunni eru eins og „lækir í vatnslausu landi“. (Lestu Jesaja 32:1, 2.) Vinir sem vita hvað við viljum heyra en segja okkur það sem við þurfum að heyra gefa okkur dýrmæta gjöf sem líkja má við „gullepli í silfurskálum“. (Orðskv. 25:11) Tileinkum okkur öll þá visku sem við þurfum á að halda til að geta gefið og þegið góð ráð.
SÖNGUR 109 Höfum brennandi kærleika hvert til annars