Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 júlí bls. 26-30
  • „Þetta er bardagi Jehóva“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Þetta er bardagi Jehóva“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • MÓTAÐUR AF TRÚBOÐSANDA
  • VERKEFNI Á AÐALSTÖÐVUNUM
  • LAGALEG BARÁTTA
  • FAGNAÐARBOÐSKAPURINN VARINN OG STAÐFESTUR MEÐ LÖGUM
  • VIÐ ÞÖKKUM ÞÉR, JEHÓVA
  • Baráttan fyrir trúfrelsi
    Ríki Guðs stjórnar
  • Þeir styðja stjórn Guðs og enga aðra
    Ríki Guðs stjórnar
  • Boðberar Guðsríkis verja rétt sinn fyrir dómstólum
    Ríki Guðs stjórnar
  • Ég hef bara gert það sem ég átti að gera
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 júlí bls. 26-30
Philip Brumley.

ÆVISAGA

„Þetta er bardagi Jehóva“

PHILIP BRUMLEY SEGIR FRÁ

Á KÖLDUM degi þann 28. janúar 2010 var ég staddur í hinni fögru Strassborg í Frakklandi. En ég var þar ekki sem ferðamaður. Ég var í lögfræðiteymi sem hafði það verkefni að verja réttindi Votta Jehóva fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Málið snerist um það hvort frönsk stjórnvöld hefðu rétt til að krefja trúsystkini okkar í Frakklandi um himinháa skatta sem voru næstum 64 milljón evrur. En mestu máli skipti að nafn Jehóva, orðstír þjóna hans og frelsi þeirra til að tilbiðja hann var í húfi. Það sem gerðist þegar málið var tekið fyrir staðfesti að ‚þetta var bardagi Jehóva‘. (1. Sam. 17:47) Ég skal útskýra það nánar.

Deilan hófst á seinni hluta tíunda áratugar síðustu aldar þegar stjórnvöld í Frakklandi lögðu óréttmætan skatt á fjárframlög sem deildarskrifstofan í Frakklandi hafði fengið á árunum 1993 til 1996. Við leituðum réttar okkar fyrir frönskum dómstólum en án árangurs. Eftir að við töpuðum málinu fyrir áfrýjunardómstóli tóku stjórnvöld fé á bankareikningi deildarskrifstofunnar eignarnámi. Upphæðin nam meira en fjórum og hálfri milljón evra. Okkar eina von að fá féð til baka var að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. En áður en dómstóllinn tæki málið fyrir fór hann fram á að við kæmum ásamt lögfræðiteymi franskra stjórnvalda á fund með fulltrúa dómstólsins til að reyna að ná sáttum.

Við gerðum ráð fyrir að fulltrúinn myndi þrýsta á okkur að leysa málið á þann veg að við greiddum hluta af þeirri upphæð sem frönsk yfirvöld færu fram á. En okkur var fyllilega ljóst að það stríddi gegn því sem Jesús sagði í Matteusi 22:21. Framlög bræðra og systra tilheyrðu ekki stjórnvöldum vegna þess að þau gáfu þau til að styðja hagsmuni Guðsríkis. En við mættum á fundinn til að sýna virðingu fyrir reglum Mannréttindadómstólsins.

Lögfræðiteymið okkar fyrir framan Mannréttindadómstól Evrópu árið 2010.

Við mættum á sáttafundinn sem var haldinn í einum af fallegum ráðstefnusölum dómstólsins. Fundurinn fór ekki vel af stað. Konan sem var fulltrúi dómstólsins tók til máls og sagði að hún vænti þess að Vottar Jehóva í Frakklandi borguðu hluta af sköttunum sem ríkið fór fram á. Andi Jehóva knúði okkur þá til að spyrja hana hvort henni væri kunnugt um að stjórnvöld hefðu þegar tekið meira en fjóra og hálfa milljón evra af bankareikningi okkar.

Henni brá augljóslega. Þegar lögfræðiteymi stjórnvalda staðfesti þetta breyttist viðhorf hennar til málsins algerlega. Hún ávítaði þá og sleit fundinum tafarlaust. Ég áttaði mig á að Jehóva hafði gjörbreytt stöðu mála á þann hátt sem við hefðum aldrei getað ímyndað okkur. Við vorum í sjöunda himni þegar við yfirgáfum fundinn og trúðum varla því sem hafði gerst.

Þann 30. júní 2011 kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp einróma úrskurð okkur í vil. Í honum kom fram að skatturinn væri ólöglegur og yfirvöldum var fyrirskipað að skila peningunum sem þau höfðu tekið, ásamt vöxtum. Þessi sögulegi dómur hefur fram á þennan dag varið hagsmuni sannrar tilbeiðslu í Frakklandi. Þessi eina óundirbúna spurning sem við vörpuðum fram var eins og steinninn sem felldi Golíat. Hún gjörbreytti stefnu málsins. Hvers vegna unnum við sigur? Vegna þess að ‚þetta var bardagi Jehóva‘ eins og Davíð sagði við Golíat. – 1. Sam. 17:45–47.

Þessi sigur er ekki einsdæmi. Þótt valdamiklar ríkisstjórnir og trúarstofnanir hafi staðið gegn okkur höfum við unnið 1.225 mál fyrir hæstarétti í 70 löndum og alþjóðlegum dómstólum. Þessir lagalegu sigrar tryggja grundvallarréttindi okkar eins og lagalegan rétt til að vera lögskráð félag, taka þátt í að boða trúna opinberlega, neita að taka þátt í þjóðernislegum athöfnum og hafna blóðgjöf.

Hvernig stóð á því að ég kom að málarekstri í Evrópu þótt ég starfaði við aðalstöðvar Votta Jehóva í New York í Bandaríkjunum?

MÓTAÐUR AF TRÚBOÐSANDA

Foreldrar mínir, George og Lucille, útskrifuðust frá 12. bekk Gíleaðsskólans og störfuðu í Eþíópíu þegar ég fæddist árið 1956. Þau gáfu mér nafnið Philip eftir trúboðanum á fyrstu öld. (Post. 21:8) Ári síðar bönnuðu yfirvöld landsins tilbeiðslu okkar. Ég man vel eftir því þegar fjölskyldan iðkaði trúna í leynum þótt ég væri bara smábarn. Mér fannst það spennandi. Því miður vorum við rekin úr landinu árið 1960.

Nathan H. Knorr (lengst til vinstri) í heimsókn hjá fjölskyldu minni í Addis Ababa í Eþíópíu, árið 1959.

Fjölskyldan flutti til Wichita í Kansas í Bandaríkjunum en foreldrar mínir höfðu áfram sama brennandi anda í boðuninni og þegar þau voru trúboðar. Sannleikurinn var þeirra líf og þau kenndu mér, Judy, eldri systur minni, og Leslie, yngri bróður mínum, að elska Jehóva og þjóna honum af öllu hjarta. Ég lét skírast þegar ég var 13 ára. Þrem árum síðar flutti fjölskyldan til Arequipa í Perú þar sem var meiri þörf fyrir boðbera.

Árið 1974, þegar ég var bara 18 ára, var ég útnefndur til að þjóna sem sérbrautryðjandi ásamt fjórum öðrum bræðrum. Við fengum starfssvæði sem enginn hafði starfað á í Mið-Andesfjöllum. Á þessu svæði býr fólk sem talar tungumál innfæddra, Quechua og Aymara. Við ferðuðumst í húsbíl sem við kölluðum örkina af því að hann var í laginu eins og kassi. Ég á góðar minningar frá því þegar ég sýndi innfæddum í Biblíunni að bráðlega mun Jehóva binda enda á fátækt, sjúkdóma og dauða. (Opinb. 21:3, 4) Margir þeirra tóku við sannleikanum.

Húsbíll fer yfir á.

„Örkin“ árið 1974.

VERKEFNI Á AÐALSTÖÐVUNUM

Árið 1977 kom Albert Schroeder, sem var í stjórnandi ráði Votta Jehóva, í heimsókn til Perú. Hann hvatti mig til að sækja um að þjóna á Betel við aðalstöðvarnar. Ég gerði það og fljótlega, eða 17. júní 1977, hóf ég störf á Betel í Brooklyn. Ég vann í ræstideildinni og viðhaldsdeildinni næstu fjögur árin.

Á brúðkaupsdaginn okkar árið 1979.

Í júní 1978 kynntist ég Elizabeth Avallone á alþjóðamóti í New Orleans í Louisiana. Foreldrar hennar þjónuðu Jehóva af öllu hjarta eins og mínir. Elizabeth hafði verið brautryðjandi í fjögur ár og vildi halda áfram að þjóna Jehóva í fullu starfi það sem eftir væri ævinnar. Við héldum sambandi og ekki leið á löngu áður en við kolféllum fyrir hvort öðru. Við giftum okkur 20. október 1979 og hófum Betelþjónustu sem hjón.

Bræður og systur í fyrsta söfnuðinum sem við tilheyrðum, spænska söfnuðinum í Brooklyn, sýndu okkur mikinn kærleika. Við höfum þjónað í þrem öðrum söfnuðum sem hafa líka sýnt okkur kærleika og stuðning til að halda áfram að þjóna á Betel. Við erum þakklát fyrir hjálp þeirra og stuðninginn sem vinir og fjölskylda hafa sýnt með því að hjálpa okkur að annast aldraða foreldra okkar.

Philip með öðrum Betelítum á samkomu.

Betelítar með spænska söfnuðinum í Brooklyn, árið 1986.

LAGALEG BARÁTTA

Það kom mér á óvart þegar ég var kallaður til starfa við lagadeildina á Betel í janúar 1982. Þrem árum síðar var ég sendur í háskóla til að læra lögfræði og fá réttindi sem lögfræðingur. Það kom mér skemmtilega á óvart að komast að því í náminu að grundvallarréttindi sem flestir taka sem sjálfsagðan hlut, bæði í Bandaríkjunum og annars staðar í heiminum, voru staðfest vegna þess að Vottar Jehóva unnu lagalega sigra fyrir dómstólum. Þessi mikilvægu mál voru rædd ítarlega í kennslustundum.

Árið 1986, þegar ég var þrítugur, var ég settur yfir lögfræðideildina. Mér fannst það heiður að vera treyst fyrir þessu þótt ég væri ungur. En mér fannst þetta líka yfirþyrmandi vegna þess að það var svo margt sem ég vissi ekki og ég skildi að þetta yrði ekki auðvelt.

Ég fékk réttindi sem lögfræðingur 1988 en ég áttaði mig ekki á því hversu mikil áhrif skólinn hafði haft á samband mitt við Jehóva. Æðri menntun getur nært löngun í að klífa metorðastigann og þá hugmynd að maður hafi sérstaka þekkingu sem upphefur mann yfir aðra sem hafa ekki sambærilega menntun. Elizabeth kom mér til hjálpar. Hún hjálpaði mér að endurskipuleggja andlega dagskrá mína. Það tók sinn tíma en smám saman styrktist samband mitt við Jehóva. Ég veit af reynslu að það að hafa mikla þekkingu á ákveðnu sviði er ekki það mikilvægasta í lífinu. Það sem gefur lífinu raunverulegt gildi er að eiga náið samband við Jehóva og elska hann og þjóna hans.

FAGNAÐARBOÐSKAPURINN VARINN OG STAÐFESTUR MEÐ LÖGUM

Eftir að ég lauk laganámi einbeitti ég mér að því að veita lagalega aðstoð á Betel og verja söfnuð Jehóva og rétt okkar til að boða fagnaðarboðskapinn. Þetta var spennandi vinna en líka krefjandi vegna þess að breytingarnar voru örar í söfnuðinum. Áður fyrr létum við fólk fá rit gegn framlagi en árið 1990 var lögfræðideildin beðin um leiðsögn um hvernig væri best að hætta því. Eftir það gáfu vottar Jehóva rit án endurgjalds. Þetta fyrirkomulag einfaldaði vinnuna á Betel og á starfsvæðinu og við komumst hjá vandamálum tengd skattlagningu. Sumir álitu að þessi breyting yrði svo kostnaðarsöm að við myndum ekki hafa nóg af ritum til að gefa áhugasömum og færra fólk fengi að læra um Jehóva. Hið gagnstæða gerðist. Fjöldi þeirra sem þjóna Jehóva hefur meira en tvöfaldast síðan 1990 og nú hefur fólk aðgang að ókeypis andlegri fæðu sem getur bjargað lífi þess. Ég hef séð að stórar breytingar í söfnuðinum hafa einungis haft í för með sér blessun vegna hjálpar Jehóva og leiðbeininga sem við fáum frá hinum trúa þjóni. – 2. Mós. 15:2; Matt. 24:45.

Við vinnum ekki lagalega sigra bara vegna þess að við erum með góða lögfræðinga. Það sem oft fær dómara og yfirvöld til að dæma okkur í hag er góð breytni þjóna Jehóva. Ég varð vitni að þessu árið 1998 þegar þrír bræður úr stjórnandi ráði sóttu mót á Kúbú ásamt eiginkonum sínum. Þeir sýndu góðvild og virðingu og það hafði meiri áhrif á embættismenn heldur en það sem var sagt á formlegum fundum og sýndi að við erum hlutlaus þegar kemur að stjórnmálum.

En stundum er eina leiðin til að leiðrétta óréttlæti að „verja fagnaðarboðskapinn og staðfesta með lögum réttinn til að boða hann“ fyrir dómstólum. (Fil. 1:7) Áratugum saman viðurkenndu til dæmis yfirvöld í Evrópu og Suður-Kóreu ekki rétt okkar til að neita að gegna herþjónustu. Fyrir vikið sátu um 18.000 bræður í Evrópu og meira en 19.000 í Suður-Kóreu í fangelsi vegna þess að þeir neituðu að gegna herþjónustu samvisku sinnar vegna.

Þann 7. júlí 2011 tilkynnti Mannréttindadómstóll Evrópu sögulegan úrskurð í máli Bayatyan gegn Armeníu sem tryggir þeim Evrópubúum sem neita að gegna herþjónustu vegna trúarskoðana sinna möguleika á borgaralegri þjónustu í staðinn. Stjórnlagadómstóll Suður-Kóreu fylgdi á eftir með úrskurði þann 28. júní 2018. Ef aðeins fáeinir af ungum bræðrum okkar hefðu ekki haldið fast í hlutleysi sitt hefðu þessir mikilvægu úrskurðir aldrei komið til.

Lögfræðideildin við aðalstöðvar okkar og þjónar Jehóva á deildarskrifstofum um allan heim vinna hörðum höndum að því að verja rétt okkar til að tilbiðja Jehóva og boða ríki Guðs. Það er okkur heiður að vera fulltrúar bræðra og systra sem standa frammi fyrir andstöðu yfirvalda. Hvort sem við vinnum mál fyrir dómstólum eða ekki er málareksturinn vitnisburður frammi fyrir landstjórum og konungum, og fyrir þjóðunum. (Matt. 10:18) Dómarar, fulltrúar yfirvalda, fjölmiðlar og almenningur þarf að taka til greina biblíuvers sem við notum í málskjölum og í málflutningi. Þeir sem eru einlægir fá að kynnast Vottum Jehóva og á hverju við byggjum trúarskoðanir okkar. Sumir þeirra hafa orðið trúsystkini okkar.

VIÐ ÞÖKKUM ÞÉR, JEHÓVA

Síðastliðin 40 ár hef ég haft þann heiður að vinna við lagaleg mál með deildarskrifstofum um allan heim og flytja mál fyrir mörgum æðri dómstólum og mörgum háttsettum embættismönnum. Ég elska og dái samstarfsfélaga mína í lögfræðideildinni við aðalstöðvarnar og í lögfræðideildum um allan heim. Ég hef notið mikillar blessunar og lífsfyllingar.

Philip og Elizabeth Brumley.

Elizabeth hefur stutt mig af trúfesti og ást síðustu 45 árin, á góðum tímum og erfiðum. Ég dáist að henni því að hún gerir þetta þrátt fyrir veikindi sem veikja ónæmiskerfi hennar og draga úr henni þrótt.

Við höfum sannreynt að styrkur og sigur fæst ekki vegna okkar eigin hæfileika. Það er eins og Davíð sagði: „Jehóva er styrkur þjóð sinni.“ (Sálm. 28:8) Það fer ekki á milli mála að „þetta er bardagi Jehóva“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila