NÁMSGREIN 39
SÖNGUR 54 „Þetta er vegurinn“
Verum fljót að hjálpa áhugasömu fólki
„Allir sem höfðu það hugarfar sem þurfti til að hljóta eilíft líf tóku trú.“ – POST. 13:48.
Í HNOTSKURN
Það er mikilvægt að bjóða fólki biblíunámskeið og að koma á safnaðarsamkomur.
1. Hvernig bregst fólk við fagnaðarboðskapnum? (Post. 13:47, 48; 16:14, 15)
MARGIR á fyrstu öld tóku við sannleikanum um leið og þeir heyrðu fagnaðarboðskapinn. (Lestu Postulasöguna 13:47, 48; 16:14, 15.) Nú á dögum taka líka sumir boðskapnum fagnandi í fyrsta sinn sem þeir heyra hann. Og sumir sem upphaflega sýndu boðskapnum um ríkið engan áhuga gætu opnað hjarta sitt síðar og tekið við honum. Hvað eigum við að gera þegar við hittum fólk í boðuninni sem vill kynna sér Biblíuna?
2. Hvernig er hægt að líkja því að gera fólk að lærisveinum við garðyrkju?
2 Tökum dæmi. Við getum líkt starfi okkar að gera fólk að lærisveinum við garðyrkju. Ef planta er tilbúin til uppskeru tekur garðyrkjumaðurinn líklega uppskeruna en heldur áfram að vökva og sinna öðrum plöntum annars staðar í garðinum sem eru ekki enn tilbúnar til uppskeru. Þegar við finnum fólk sem vill hlusta á fagnaðarboðskapinn viljum við á líkan hátt hjálpa því að verða lærisveinar Krists eins fljótt og hægt er. Á sama tíma höldum við áfram að glæða áhuga þeirra sem þurfa meiri tíma til að sjá gildi boðskaparins. (Jóh. 4:35, 36) Góð dómgreind hjálpar okkur að vita hvernig er best að hjálpa áheyrendum okkar. Í þessari námsgrein skoðum við hvað við getum gert til að hjálpa fólki sem er tilbúið að taka við boðskapnum þegar það heyrir hann í fyrsta skipti. Við skoðum líka hvernig við getum hjálpað því að taka framförum.
ÞEGAR FÓLK ER TILBÚIÐ
3. Hvað er gott að gera þegar við finnum áhugasama í boðuninni? (1. Korintubréf 9:26)
3 Þegar við finnum áhugasama í boðuninni viljum við leiðbeina þeim strax inn á veginn til lífsins. Við ættum ekki að halda aftur af okkur í fyrstu heimsókn að bjóða þeim biblíunámskeið og að koma á samkomur. – Lestu 1. Korintubréf 9:26.
4. Nefndu dæmi um einstakling sem var strax tilbúinn að kynna sér Biblíuna.
4 Bjóðum biblíunámskeið. Sumir sem við hittum eru tilbúnir að fara að kynna sér Biblíuna. Ung kona í Kanada kom á fimmtudegi að ritatrillu og tók eintak af bæklingnum Von um bjarta framtíð. Systirin sem stóð við ritatrilluna sagði henni að með bæklingnum fylgdi biblíunámskeið. Unga konan sýndi áhuga og þær skiptust á símanúmerum. Síðar sama dag sendi unga konan skilaboð til systur okkar og spurði hvenær þær gætu rætt saman um Biblíuna. Þegar systirin bauðst til að koma um helgina spurði konan: „Hvað með á morgun? Ég er laus þá.“ Biblíunámskeið hófst strax á föstudeginum. Konan sótti fyrstu samkomuna strax sömu helgi og tók hröðum framförum.
5. Hvernig getum við sýnt góða dómgreind þegar við bjóðum biblíunámskeið? (Sjá einnig myndir.)
5 Það eru að sjálfsögðu ekki allir jafn ákafir og þessi unga kona að kynna sér Biblíuna. Sumir þurfa lengri tíma. Við gætum fyrst þurft að tala um eitthvað sem vekur áhuga einstaklingsins. En ef við erum jákvæð og höldum áfram að sýna persónulegan áhuga gætum við hafið biblíunámskeið áður en langt um líður. Hvað getum við sagt þegar við bjóðum biblíunámskeið? Nokkrir bræður og systur sem hafa náð góðum árangri í að koma af stað biblíunámskeiðum voru spurð að því.
Hvernig gerum við biblíunámskeið áhugavert fyrir þessa einstaklinga? (Sjá 5. grein.)a
6. Hvernig gætum við lagt grunn að frekari samræðum við áhugasama manneskju?
6 Boðberarnir og brautryðjendurnir sem voru spurðir um góð ráð til að hefja biblíunámskeið bentu á að í sumum löndum væri best að forðast að segja „nám“, „biblíunámskeið“ og „kenna“ þegar námsfyrirkomulagið er útskýrt. Þeir sögðu að það væri betra að nota orðalag eins og „samræður“, „umræður“ og „að kynnast Biblíunni“. Þú gætir lagt grunninn að áframhaldandi samræðum með því að segja: „Það kemur mörgum á óvart að mikilvægum spurningum um lífið er svarað í Biblíunni,“ eða: „Biblían er ekki aðeins trúarrit heldur gefur hún okkur góð ráð fyrir daglegt líf.“ Og þú gætir bætt við: „Á fáeinum mínútum geturðu lært eitthvað sem hjálpar þér í lífinu.“ Og þú þarft ekki að nefna að hittast „reglulega“ eða „í hverri viku“ sem gæti gefið til kynna skuldbindingu.
7. Hvenær hafa sumir fyrst áttað sig á að þeir hafi fundið sannleikann? (1. Korintubréf 14:23–25)
7 Bjóðum þeim á samkomu. Á tíma Páls postula virðist sem sumir hafi fyrst áttað sig á að þeir hafi fundið sannleikann þegar þeir sóttu samkomu. (Lestu 1. Korintubréf 14:23–25.) Það sama er uppi á teningnum nú á dögum. Flestir taka hraðari framförum eftir að þeir fara að sækja samkomur. Hvenær ættum við að bjóða þeim? Í bókinni Von um bjarta framtíð í kafla 10 er fjallað um hversu mikilvægt er að koma á samkomur. En þú þarft ekki að bíða þar til þið eruð komin þangað í bókinni. Strax í fyrsta samtali gætirðu boðið viðmælanda þínum á samkomu helgina eftir. Þú gætir minnst á ræðustefið eða efnið sem fjallað er um í Varðturnsnáminu.
8. Hvað getum við bent nemandanum á þegar við bjóðum honum á samkomu? (Jesaja 54:13)
8 Þegar þú býður áhugasömum einstaklingi á samkomur skaltu útskýra hvernig þær eru ólíkar trúarsamkomum sem hann gæti verið vanur. Þegar kona sem var að kynna sér Biblíuna var fyrst með í Varðturnsnámi spurði hún: „Þekkir stjórnandinn alla með nafni?“ Systirin útskýrði að við reynum að þekkja alla í söfnuðinum með nafni, rétt eins og við þekkjum alla í fjölskyldunni okkar með nafni. Konunni fannst þetta mjög ólíkt því sem hún var vön í kirkjunni sinni. Markmiðið með samkomunum er líka nýtt fyrir mörgum. (Lestu Jesaja 54:13.) Við komum saman til að tilbiðja Jehóva, fá kennslu frá honum og til að hvetja hvert annað. (Hebr. 2:12; 10:24, 25) Fyrir vikið snúast þær ekki um helgisiði en eru fræðandi og fara fram á skipulegan hátt. (1. Kor. 14:40) Samkomusalir okkar eru látlausir og gerðir til að auðvelda okkur að hlusta og læra. Þar sem við erum hlutlaus tölum við aldrei um stjórnmál og deilum ekki um skoðanir. Það gæti verið gagnlegt að sýna biblíunemanda okkar fyrir fram myndbandið Hvernig fara samkomur okkar fram? Þá getur hann séð hverju hann á von á.
9, 10. Hvað getum við sagt til að nemandi sé ekki hræddur að koma á samkomu? (Sjá einnig mynd.)
9 Sumir hika við að koma á samkomu vegna þess að þeir eru hræddir um að þrýst verði á þá að ganga í söfnuðinn. Segðu viðkomanda að við tökum vel á móti gestum og að hann þurfi ekki að vera hræddur um að þurfa að segja eða gera eitthvað. Fjölskyldur eru velkomnar, þar á meðal þær sem eru með ung börn. Foreldrar og börn sitja og læra saman á samkomum. Þannig geta foreldrar haft auga með börnunum sínum og vitað hvað þeim er kennt. (5. Mós. 31:12) Engin samskot fara fram á samkomum. Við hlýðum fyrirmælum Jesú: „Gefins hafið þið fengið, gefins skuluð þið láta í té.“ (Matt. 10:8) Þú gætir líka nefnt við nemandann að hann þurfi ekki að mæta í dýrum fötum. Guð horfir á hjartalag fólks en ekki útlitið. – 1. Sam. 16:7.
10 Ef nemandinn mætir á samkomu skaltu gera það sem þú getur til að láta honum líða vel. Kynntu hann fyrir öldungunum og öðrum boðberum. Hann er líklegri til að vilja koma aftur ef hann finnur að andrúmsloftið er hlýlegt. Leyfðu honum að lesa með í þinni biblíu ef hann kemur ekki með sína eigin og hjálpaðu honum þannig að fylgjast með ræðunni eða námsefninu.
Því fyrr sem nemandi kemur á samkomur því meiri framförum tekur hann. (Sjá 9. og 10. grein.)
ÞEGAR BIBLÍUNÁMSKEIÐ ER STOFNAÐ
11. Hvernig geturðu sýnt að þú berir virðingu fyrir tíma viðmælanda þíns?
11 Hvað er gott að hafa í huga þegar kemur að sjálfu biblíunámskeiðinu? Sýndu virðingu fyrir tíma húsráðandans. Ef þið mælið ykkur mót skaltu vera stundvís, óháð því hvort fólk sé almennt stundvíst þar sem þú býrð. Það gæti verið best að hafa fyrstu námsstundina tiltölulega stutta. Sumir reyndir boðberar mæla með því að hafa námsstundirnar í styttri kantinum, jafnvel þegar nemandinn vill heyra meira. Og gættu þess að tala ekki of mikið. Leyfðu nemandanum að tjá sig. – Orðskv. 10:19.
12. Hvert ætti markmið okkar að vera alveg frá byrjun biblíunámskeiðs?
12 Alveg frá upphafi ætti markmið þitt að vera að hjálpa áheyranda þínum að kynnast Jehóva og Jesú og rækta með sér kærleika til þeirra. Þú gerir það með því að beina athygli hans að orði Guðs en ekki sjálfum þér eða biblíuþekkingu þinni. (Post. 10:25, 26) Páll postuli var okkur góð fyrirmynd. Þegar hann kenndi fólki beindi hann athygli þess að Jesú Kristi sem Jehóva hafði sent til að hjálpa okkur að kynnast sér og elska sig. (1. Kor. 2:1, 2) Páll benti líka á hversu mikilvægt það er að hjálpa áhugasömum að þroska með sér góða eiginleika sem er líkt við gull, silfur og eðalsteina. (1. Kor. 3:11–15) Þar á meðal eru dýrmætir eiginleikar eins og trú, viska, hyggindi og ótti við Jehóva. (Sálm. 19:9, 10; Orðskv. 3:13–15; 1. Pét. 1:7) Líktu eftir Páli með því að hjálpa nemanda þínum að þroska með sér sterka trú og eignast náið samband við kærleiksríkan föður sinn á himnum. – 2. Kor. 1:24.
13. Hvernig getum við sýnt þolinmæði og skilning þegar við hjálpum áhugasömum? (2. Korintubréf 10:4, 5) (Sjá einnig mynd.)
13 Sýndu þolinmæði og skilning eins og Jesús þegar þú kennir biblíunemanda. Forðastu spurningar sem gera hann vandræðalegan. Leggðu mál sem hann á erfitt með að meðtaka til hliðar og taktu frekar upp þráðinn síðar. Gefðu nemandanum tíma til að sannleikurinn geti skotið rótum í hjarta hans frekar en að hamra á einhverju sem hann á erfitt með að meðtaka. (Jóh. 16:12; Kól. 2:6, 7) Biblían líkir falskenningum sem fólk heldur fast í við vígi. (Lestu 2. Korintubréf 10:4, 5; sjá skýringu við „overturning strongly entrenched things“ í námsbiblíunni á tungumáli sem þú skilur.) Í staðinn fyrir að rífa niður vígi nemandans þannig að það hrynji yfir hann skaltu hjálpa honum að gera Jehóva að athvarfi sínu. – Sálm. 91:9.
Gefðu nemandanum tíma til að sannleikurinn geti skotið rótum í hjarta hans. (Sjá 13. grein.)
ÞEGAR ÁHUGASAMIR SÆKJA SAMKOMUR
14. Hvernig ættum við að koma fram við áhugasama sem koma á samkomur?
14 Jehóva væntir þess að við komum fram við alla á kærleiksríkan hátt, óháð menningu þeirra, þjóðfélagsstöðu eða uppruna. (Jak. 2:1–4, 9) Hvernig getum við sýnt áhugasömum sem koma á samkomur kærleika?
15, 16. Hvernig getum við stuðlað að því að áhugasömum líði vel á samkomum?
15 Sumir koma ef til vill á samkomu hjá okkur af forvitni eða þá að vinur eða ættingi sem býr annars staðar hefur hvatt þá til þess. Við ættum því ekki að hika við að tala við þá sem eru að koma í fyrsta skipti á samkomu. Bjóddu þá velkomna án þess að kæfa þá með áhuga. Spyrðu hvort þeir vilji sitja hjá þér og fylgjast með í þínum biblíunámsgögnum eða útvegaðu þeim eintök. Reyndu að hjálpa þeim að slaka á. Maður sem kom í ríkissalinn sagði við bróður sem bauð hann velkominn að honum fyndist hann ekki vera nógu fínn í tauinu. Bróðirinn hjálpaði honum að slaka á og sagði að vottar Jehóva væru bara venjulegt fólk. Maðurinn lét seinna skírast en gleymir aldrei hvernig bróðirinn brást við. En gætum þess samt þegar við tölum við gesti fyrir eða eftir samkomu að hnýsast ekki í einkamál þeirra þótt við sýnum þeim persónulegan áhuga. – 1. Pét. 4:15.
16 Við stuðlum líka að því að gestum okkar líði vel þegar við tölum af virðingu um þá sem eru ekki vottar og trúarskoðanir þeirra, til dæmis í svörum okkar, verkefnum og samræðum. Forðastu orðalag sem gæti hneykslað þá eða móðgað. (Tít. 2:8; 3:2) Við myndum til dæmis aldrei tala niðrandi um trúarskoðanir þeirra sem eru annarrar trúar en við. (2. Kor. 6:3) Bræður sem flytja opinbera fyrirlestra þurfa að huga sérstaklega að þessu. Þeir taka líka tillit til þeirra sem eru ekki vottar meðal áheyrenda með því að útskýra orð eða orðasambönd sem fólk almennt skilur ekki.
17. Hvert er markmið okkar þegar við finnum áhugasama í boðuninni?
17 Með hverjum deginum verður boðunin sífellt meira áríðandi og við höldum áfram að finna þá sem hafa ‚það hugarfar sem þarf til að hljóta eilíft líf‘. (Post. 13:48) Við hikum ekki við að bjóða þeim biblíunámskeið og á samkomur. Þannig hjálpum við þeim að stíga sín fyrstu skref á ‚veginum sem liggur til lífsins‘. – Matt. 7:14.
SÖNGUR 64 Vinnum glöð að uppskerunni
a MYND: Tveir bræður tala við hermann sem er kominn á eftirlaun og slappar af á veröndinni. Tvær systur tala stuttlega við móður sem hefur nóg að gera.