Spurningar frá lesendum
Ritari Orðskviðanna 30:18, 19 sagði „veg manns að ungri konu“ ofvaxinn skilningi sínum. Hvað átti hann við?
Margir hafa velt þýðingu þessara orða fyrir sér, þar á meðal sumir fræðimenn. Versið í heild hljómar þannig í Nýheimsþýðingunni: „Þrennt er ofvaxið skilningi mínum [of undursamlegt, neðanmáls] og fernt skil ég ekki: veg arnarins um himininn, veg höggormsins á kletti, veg skips á opnu hafi og veg manns að ungri konu.“ – Orðskv. 30:18, 19.
Áður skildum við þetta orðalag ‚vegur manns að ungri konu‘ sem eitthvað neikvætt. Hvers vegna? Samhengið fjallar um ýmislegt miður jákvætt sem segir aldrei: „Þetta nægir.“ (Orðskv. 30:15, 16) Og í versi 20 er talað um ‚ótrúa konu‘ sem segist ekki hafa gert neitt rangt. Þess vegna ályktuðum við að líkt og svífandi örn, höggormur á kletti eða skip á opnu hafi, kæmist maðurinn upp með að skilja enginn vegsummerki eftir sig. Þannig skildum við orðalagið „veg manns að ungri konu“ sem eitthvað slæmt – að ungi maðurinn væri slóttugur og tældi saklausa unga konu sem áttaði sig ekki á því hvað væri að gerast.
En það er ástæða til að skilja þetta vers í jákvæðu ljósi. Sá sem skrifaði það var einfaldlega að dást að því sem hann fjallaði um.
Hebreski frumtextinn styður þá skoðun að versið fjalli um eitthvað jákvætt. Samkvæmt biblíuorðabókinni Theological Lexicon of the Old Testament vísar hebreska orðið sem er þýtt „ofvaxið skilningi mínum“ í Orðskviðunum 30:18 „í eitthvað sem manni finnst … einstakt, ómögulegt, jafnvel dásamlegt“.
Prófessor Crawford H. Toy við Harvardháskóla í Bandaríkjunum komst líka að þeirri niðurstöðu að þetta vers lýsi ekki einhverju neikvæðu. Hann segir: „Hér er frekar verið að lýsa því hversu dásamlegir hlutir þetta eru.“
Það virðist því eðlilegt að fullyrða að það sem segir í Orðskviðunum 30:18, 19 lýsi hlutum sem eru svo dásamlegir að þeir séu jafnvel ofar skilningi okkar. Rétt eins og biblíuritarinn erum við heilluð að sjá örn svífa, fótalausan höggorm skríða yfir klett, stórt skip sigla yfir hafið og hvernig ungur maður og ung kona geta orðið ástfangin og verið hamingjusöm saman.