Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 október bls. 12-17
  • Kærleikur Guðs er varanlegur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kærleikur Guðs er varanlegur
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • EIN AF GRUNDVALLARKENNINGUM BIBLÍUNNAR ER AÐ JEHÓVA ELSKAR OKKUR
  • HUGLEIDDU ÞÁ STAÐREYND AÐ JEHÓVA ELSKAR ÞIG
  • HVAÐAN KOMA EFASEMDIR OKKAR?
  • VELDU AÐ VERA TRÚFASTUR
  • Jehóva ber innilega umhyggju fyrir þér
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Þiggjum kærleika Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Við getum sigrast á efasemdum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Hvaða þýðingu hefur tryggur kærleikur Jehóva fyrir þig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 október bls. 12-17

NÁMSGREIN 41

SÖNGUR 108 Elska Guðs er trúföst

Kærleikur Guðs er varanlegur

„Þakkið Jehóva því að hann er góður. Tryggur kærleikur hans varir að eilífu.“ – SÁLM. 136:1.

Í HNOTSKURN

Við getum varðveitt jákvætt hugarfar ef við munum að Jehóva elskar okkur og að það er ein af grundvallarkenningum Biblíunnar.

1, 2. Hvaða tilfinningar glíma margir þjónar Guðs við?

ÍMYNDAÐU þér bát í óveðri úti á hafi. Báturinn kastast til og frá í ölduganginum. Hann hendist þangað sem aldan ber hann, nema einhver varpi akkeri. Akkeri gefur bátnum stöðugleika svo að hann hrekist ekki fyrir stormi.

2 Ef þú gengur í gegnum mikla erfiðleika getur þér liðið eins og þú sért í stórsjó. Tilfinningarnar geta sveiflast upp og niður. Einn daginn er allt í himnalagi og þú ert viss um að Jehóva elski þig og styðji. Næsta dag efastu jafnvel um að hann taki eftir því sem þú ert að ganga í gegnum. (Sálm. 10:1; 13:1) Góður vinur uppörvar þig ef til vill og þér líður aðeins betur. (Orðskv. 17:17; 25:11) En síðan læðast efasemdirnar aftur að þér. Þú veltir kannski fyrir þér hvort Jehóva sé búinn að gefast upp á þér. Hvernig geturðu varpað akkeri, ef svo má segja, ef þú lendir í slíkum aðstæðum? Með öðrum orðum, hvernig geturðu verið viss um – og haldið áfram að vera viss um – að Jehóva elski þig og styðji?

3. Hvað segja Sálmur 31:7 og 136:1 um tryggan kærleika Jehóva og hvers vegna getum við sagt að hann sýni þennan eiginleika betur en nokkur annar? (Sjá einnig mynd.)

3 Ein leið til að vera staðfastur í erfiðleikum er að muna eftir tryggum kærleika Jehóva. (Lestu Sálm 31:7; 136:1.) Orðasambandið „tryggur kærleikur“ gefur til kynna djúpan og varanlegan kærleika til einhvers. Jehóva er besta dæmið um þetta. Biblían segir að hann sýni „tryggan kærleika í ríkum mæli“. (2. Mós. 34:6, 7) Biblían segir einnig: „Eins hátt og himinninn er yfir jörðinni, eins mikill er tryggur kærleikur hans til þeirra sem óttast hann.“ (Sálm. 103:11) Hvaða þýðingu hefur það? Jehóva yfirgefur aldrei trúfasta þjóna sína! Sú vitneskja að Jehóva er tryggur getur verið þér eins og akkeri þegar þú gengur í gegnum mikla erfiðleika. – Sálm. 23:4.

Akkeri sem er varpað í hafið kemur í veg fyrir að bátur úti á opnu hafi hrekist fyrir stormi.

Fullvissan um að Jehóva elski okkur veitir okkur öryggi þegar við glímum við erfiðleika, rétt eins og akkeri heldur báti stöðugum í stormi. (Sjá 3. grein.)


EIN AF GRUNDVALLARKENNINGUM BIBLÍUNNAR ER AÐ JEHÓVA ELSKAR OKKUR

4. Nefndu dæmi um grundvallarkenningar Biblíunnar og skýrðu hvers vegna við efumst ekki um þær.

4 Ef við skiljum að ein af grundvallarkenningum Biblíunnar er að Jehóva elskar okkur hjálpar það okkur að vera staðföst í erfiðleikum. Hvað kemur upp í hugann þegar þú heyrir orðalagið „grundvallarkenning Biblíunnar“? Kannski hugsarðu um trúarkenningar sem þú hefur lært í orði Guðs. Þú hefur til dæmis lært að nafn Guðs sé Jehóva, Jesús sé einkasonur Guðs, hinir dánu hafi enga meðvitund og jörðin verði paradís þar sem fólk lifir að eilífu. (Sálm. 83:18; Préd. 9:5; Jóh. 3:16; Opinb. 21:3, 4) Þegar þú skildir að þessar kenningar eru sannar var ekki auðvelt að telja þér trú um eitthvað annað. Hvers vegna ekki? Vegna þess að sterk rök liggja að baki þessum kenningum. Skoðum nú hvernig það að líta á kærleika Guðs sem grundvallarkenningu getur hjálpað þér að vísa þeirri hugsun á bug að Jehóva standi á sama um þig eða taki ekki eftir erfiðleikum þínum.

5. Lýstu hvernig er hægt að leiðrétta falskenningar.

5 Hvað hjálpaði þér að sjá í gegnum falskenningar þegar þú varst að kynna þér Biblíuna? Líklega fékkstu hjálp til að bera saman það sem þér hafði verð kennt í þinni trú og það sem Biblían kennir. Skoðum dæmi: Segjum að þér hafi verið kennt að Jesús sé almáttugur Guð. En þegar þú sást hvað Biblían segir um það veltirðu fyrir þér hvort sú kenning væri rétt. Eftir að hafa skoðað rök Biblíunnar sannfærðistu um að Jesús væri ekki Guð. Þess í stað fórstu að trúa því sem orð Guðs segir: Jesús er „frumburður alls sem er skapað“ og ‚einkasonur Guðs‘. (Kól. 1:15; Jóh. 3:18) Falskenningar geta vissulega verið eins og „sterkbyggð vígi“ sem er erfitt að brjóta niður. (2. Kor. 10:4, 5) En þegar það tókst fórstu ekki aftur að trúa þessum kenningum. – Fil. 3:13.

6. Hvers vegna geturðu verið viss um að tryggur kærleikur Jehóva vari að eilífu?

6 Þú getur notað svipaða aðferð þegar þú skoðar hvað Biblían segir um kærleika Jehóva. Þegar þú lendir í erfiðleikum og byrjar að efast um kærleika Jehóva geturðu hugsað um það sem segir í Sálmi 136:1 – lykilversi þessarar námsgreinar. Síðan geturðu spurt þig: Hvers vegna segir Jehóva að kærleikur sinn sé tryggur? Hvers vegna kemur orðalagið „tryggur kærleikur hans varir að eilífu“ 26 sinnum fyrir í þessum sálmi? Af þessu getum við séð að tryggur kærleikur Jehóva til þjóna sinna er ein af undirstöðukenningum Biblíunnar, eins og aðrar kenningar í orði Guðs sem þú hefur tileinkað þér fúslega. Hugmyndin um að Jehóva finnist þú einskis virði eða elski þig ekki er falskenning sem þú ættir að vísa á bug eins og öðrum falskenningum.

7. Nefndu biblíuvers sem sýna fram á að Jehóva elskar þig.

7 Í Biblíunni eru margar fleiri sannanir fyrir því að Jehóva elski okkur. Jesús sagði til dæmis við fylgjendur sína: „Þið eruð meira virði en margir spörvar.“ (Matt. 10:31) Jehóva sagði sjálfur: „Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“ (Jes. 41:10) Taktu eftir að þetta eru fullyrðingar. Jesús segir ekki: „Þið eruð kannski meira virði.“ Og Jehóva segir ekki: „Kannski hjálpa ég þér.“ Þeir segja: „Þið eruð meira virði“, og: „Ég hjálpa þér.“ Ef þú skyldir einhvern tíma efast um kærleika Jehóva þegar þú lendir í raunum geta slík vers hjálpað þér að líða betur. En þau gera meira, þau hjálpa þér að vita betur. Það sem versin segja eru staðreyndir. Þegar þú hugleiðir þetta í bænarhug geturðu tekið undir það sem segir í 1. Jóhannesarbréfi 4:16: „Við höfum kynnst kærleikanum sem Guð ber til okkar og trúum að hann elski okkur.“a

8. Hvað geturðu tekið til bragðs ef þú efast um að Jehóva elski þig?

8 En hvað ef þú efast enn þá um kærleika Jehóva? Berðu efasemdir þínar saman við það sem staðreyndirnar segja. Tilfinningar eru ekki jafn áreiðanlegar og staðreyndir. En kærleikur Jehóva er staðreynd samkvæmt Biblíunni. Ef við trúum því ekki að Jehóva elski okkur erum við að hunsa mikilvægasta eiginleika hans – kærleikann. – 1. Jóh. 4:8.

HUGLEIDDU ÞÁ STAÐREYND AÐ JEHÓVA ELSKAR ÞIG

9, 10. Í hvaða samhengi sagði Jesús „faðirinn sjálfur elskar ykkur“, eins og kemur fram í Jóhannesi 16:26, 27? (Sjá einnig mynd.)

9 Jesús segir við fylgjendur sína: „Faðirinn sjálfur elskar ykkur.“ Með því að hugleiða hvers vegna hann sagði þetta lærum við meira um kærleika Jehóva. (Lestu Jóhannes 16:26, 27.) Jesús sagði lærisveinunum þetta ekki fyrst og fremst til að láta þeim líða vel. Af samhenginu má sjá að það sem hann sagði við þetta tækifæri snerist ekki beint um þá og tilfinningar þeirra. Hann var að ræða um annað mál – bænina.

10 Jesús var nýbúinn að segja lærisveinum sínum að þeir ættu að biðja fyrir milligöngu hans en ekki til hans. (Jóh. 16:23, 24) Það var mikilvægt fyrir þá að vita það. Eftir upprisu Jesú gæti lærisveinunum hafa þótt freistandi að biðja til hans. Jesús var jú orðinn vinur þeirra. Þeir gætu hafa hugsað sem svo að þar sem hann elskaði þá svona mikið myndi hann hlusta á óskir þeirra og biðja síðan föður sinn um að hjálpa þeim. En Jesús sagði að þeir ættu ekki að hugsa þannig. Hann bendir á ástæðuna fyrir því þegar hann segir: „Faðirinn sjálfur elskar ykkur.“ Sú staðreynd að Jehóva elskar okkur er þáttur í undirstöðukenningu Biblíunnar um bænina. Hvað þýðir það fyrir þig? Með biblíunámi þínu hefurðu kynnst Jesú og lært að elska hann. (Jóh. 14:21) En rétt eins og lærisveinarnir á fyrstu öld geturðu beðið til Guðs í trausti þess að ‚hann sjálfur elski þig‘. Þú sýnir að þú trúir því í hvert skipti sem þú biður til Jehóva. – 1. Jóh. 5:14.

Innfelldar myndir: Bróðir situr á bekk og biður innilega um mál sem liggja honum á hjarta 1. Konan hans er lasin og hann færir henni matinn í rúmið. 2. Dóttir hans hefur gaman að biblíunámi þeirra feðgina. 3. Hann fer yfir bunka af reikningum.

Þú getur beðið til Jehóva í trúartrausti, vitandi að ‚hann sjálfur elskar þig‘. (Sjá 9. og 10. grein.)b


HVAÐAN KOMA EFASEMDIR OKKAR?

11. Hvers vegna gleður það Satan ef við efumst um að Jehóva elski okkur?

11 Hvaðan koma efasemdir um að Jehóva elski okkur? Þú telur þær kannski koma frá Satan og það er að hluta til rétt. Djöfullinn er „í leit að bráð“ og hann vill að við efumst um kærleika Jehóva. (1. Pét. 5:8) Kærleikur Jehóva knúði hann til að sjá fyrir lausnargjaldinu en Satan vill að okkur finnist við ekki eiga það skilið. (Hebr. 2:9) Hverjum erum við að hjálpa ef við efumst um kærleika Jehóva? Við erum að hjálpa Satan. Og hver yrði ánægður ef við gæfumst upp á að þjóna Jehóva? Satan verður ánægður. Hugsaðu þér hversu kaldhæðnislegt það er að Satan skuli reyna að fá okkur til að efast um kærleika Jehóva. Það er einmitt hann sem nýtur ekki kærleika hans. Ein af ‚slóttugustu árásum‘ Satans er að reyna að láta okkur finnast eins og Jehóva elski okkur ekki og fordæmi okkur. (Ef. 6:11) Þegar við skiljum hvað óvinurinn er að reyna að gera getum við ‚staðið gegn honum‘ af meiri festu. – Jak. 4:7.

12, 13. Hvernig getur meðfætt syndugt eðli okkar orðið til þess að við efumst um kærleika Jehóva?

12 Efasemdir um að Jehóva elski okkur geta líka komið úr annarri átt. Syndugt eðli okkar vinnur á móti okkur. (Sálm. 51:5; Rómv. 5:12) Syndin hefur skemmt samband mannsins við skaparann. Hún hefur líka skaðað huga hans, hjarta og líkama.

13 Syndin hefur neikvæð áhrif á tilfinningalíf okkar. Við finnum til sektarkenndar, kvíða og óöryggis og fyrir skömm. Við upplifum kannski þessar tilfinningar þegar við drýgjum synd. En þær geta líka ásótt okkur vegna þess að við erum stöðugt meðvituð um syndugar tilhneigingar okkar. En það var ekki þannig sem Guð ætlaði manninum að vera í upphafi. (Rómv. 8:20, 21) Rétt eins og farartæki með sprungið dekk getur ekki gegnt því hlutverki sem því var ætlað eins getum við, ófullkomið fólk, ekki virkað eins og skaparinn ætlaði okkur. Það er því ekki að undra að við glímum stundum við efasemdir um að Jehóva elski okkur. Ef það gerist skaltu muna að hinn ‚mikilfenglegi Guð sýnir þeim tryggan kærleika sem elska hann og halda boðorð hans‘. – Neh. 1:5.

14. Hvernig getur það að hugleiða lausnargjaldið hjálpað okkur að hrekja burt þá hugsun að Jehóva geti ekki elskað okkur? (Rómverjabréfið 5:8) (Sjá einnig rammagreinina „Vertu á verði gegn ‚táli syndarinnar‘“.)

14 Stundum finnst okkur við ekki eiga skilið að njóta kærleika Jehóva. Og strangt til tekið eigum við það ekki skilið en það gerir kærleika hans einmitt svo einstakan. Við ávinnum okkur aldrei kærleika Jehóva. Samt friðþægir lausnarfórnin fyrir syndir okkar og Jehóva hefur gert þessa ráðstöfun vegna þess að hann elskar okkur. (1. Jóh. 4:10) Og mundu að Jesús kom til að bjarga syndurum en ekki fullkomnu fólki. (Lestu Rómverjabréfið 5:8.) Við gerum öll mistök og Jehóva ætlast ekki til fullkomleika af okkur. Við getum verið staðráðnari í að berjast gegn efasemdum um að Jehóva elski okkur ef við skiljum að syndugar tilhneigingar hafa sterk áhrif á okkur. – Rómv. 7:24, 25.

Vertu á verði gegn „táli syndarinnar“

Biblían talar um ‚tál syndarinnar‘. (Hebr. 3:13) Syndugt eðli okkar tælir okkur ekki bara til að gera það sem er rangt heldur getur fengið okkur til að hafa nagandi efasemdir um kærleika Jehóva. Syndin getur sannarlega blekkt okkur.

Við teljum okkur oft trú um að aðrir geti ekki blekkt okkur. Við trúum því kannski ekki að einhver geti svikið út úr okkur peninga. En það getur orðið okkur dýrkeypt ef við erum ekki á varðbergi gagnvart slíkum svikum.

Á líkan hátt þurfum við að vera meðvituð um það þegar syndugt eðli blekkir okkur og telur okkur trú um að Jehóva elski okkur ekki. Ófullkomleikinn fær okkur kannski til að hugsa of mikið um veikleika okkar, galla og mistök. En ‚tál syndarinnar‘ er þá að verki og við ættum að standa á móti því.

VELDU AÐ VERA TRÚFASTUR

15, 16. Hvað getum við verið viss um ef við erum trúföst Jehóva og hvers vegna? (2. Samúelsbók 22:26)

15 Jehóva vill að við veljum rétt með því að halda okkur „fast við hann“. (5. Mós. 30:19, 20) Þá getum við verið örugg um að hann verði okkur trúr. (Lestu 2. Samúelsbók 22:26.) Svo framarlega sem við erum Jehóva trúföst getum við treyst því að hann hjálpi okkur að takast á við hvaða aðstæður sem koma upp í lífi okkar.

16 Eins og við höfum rætt höfum við ríka ástæðu til að vera staðföst í raunum. Við vitum að Jehóva elskar okkur og styður. Það er það sem Biblían kennir. Ef við efumst um kærleika Jehóva getum við rifjað upp það sem við vitum að er satt frekar en að treysta tilfinningum okkar. Treystum þeirri grundvallarkenningu Biblíunnar að kærleikur Jehóva vari að eilífu.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Af hverju er gott fyrir okkur að muna að það er ein af undirstöðukenningum Biblíunnar að Jehóva elskar okkur?

  • Hvernig fær meðfædd synd okkur til að efast um kærleika Jehóva?

  • Hvernig getum við sigrast á efasemdum um að Jehóva elski okkur?

SÖNGUR 159 Lofgjörðarlag

a Önnur dæmi er að finna í 5. Mósebók 31:8; Sálmi 94:14 og Jesaja 49:15.

b MYNDIR: Bróðir biður um hjálp til að annast veika eiginkonu sína, taka góðar ákvarðanir varðandi fjármál og kenna dóttur sinni að elska Jehóva.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila