Tveir nýir bræður í stjórnandi ráði
ÞANN 5. október 2024 var lesin sérstök tilkynning á ársfundinum: Bræður okkar Jody Jedele og Jacob Rumph hafa verið útnefndir til að sitja í stjórnandi ráði Votta Jehóva. Báðir hafa þeir þjónað Jehóva af trúfesti í mörg ár.
Jody Jedele og Damaris, eiginkona hans.
Bróðir Jedele fæddist í Missouri í Bandaríkjunum og var alinn upp í sannleikanum. Fjölskylda hans bjó nálægt svæði þar sem fáir vottar Jehóva bjuggu. Fyrir vikið hitti hann marga bræður og systur af mismunandi bakgrunni sem komu til að hjálpa í boðuninni. Kærleikur þeirra og eining hafði mikil áhrif á hann. Hann lét skírast þegar hann var á táningsaldri, þann 15. október 1983. Hann hafði ánægju af boðuninni og eftir að hann lauk framhaldskóla gerðist hann brautryðjandi í september 1989.
Þegar bróðir Jedele var krakki heimsótti fjölskylda hans stundum Betel. Þessar heimsóknir höfðu þau áhrif á hann og systur hans að þau einsettu sér að þjóna á Betel og þau náðu bæði þessu markmiði. Bróðir Jedele kom á Betel í Wallkill í september 1990. Hann starfaði fyrst í ræstideildinni en síðar í deild sem sér um mál tengd læknisþjónustu.
Á þeim tíma voru spænskumælandi söfnuðir í nágrenninu að stækka og þar vantaði bræður. Bróðir Jedele fór í einn þeirra og byrjaði að læra spænsku. Stuttu síðar hitti hann Damaris, systur sem var brautryðjandi á sama farandsvæði. Þegar fram liðu stundir gengu þau í hjónaband og hún byrjaði að starfa á Betel með honum.
Árið 2005 hættu þau á Betel til að annast trúfasta foreldra sína. Á þeim tíma störfuðu þau sem brautryðjendur. Bróðir Jedele var leiðbeinandi í brautryðjendaskóla og var auk þess í spítalasamskiptanefnd og svæðisbyggingarnefnd.
Árið 2013 var bróður og systur Jedele boðið að koma aftur til starfa á Betel til að vinna við byggingarverkefni í Warwick. Síðan hafa þau líka unnið í Patterson og Wallkill. Bróðir Jedele hefur starfað í hönnunar- og byggingardeildinni og upplýsingaþjónustu um spítalamál. Í mars 2023 var hann gerður að aðstoðarmanni þjónustunefndar. Þegar hann lítur til baka og hugsar um verkefnin sem hann hefur fengið segir hann: „Þegar maður fær nýtt verkefni getur það virst yfirþyrmandi. En þá er gott að minna sig á að treysta á Jehóva vegna þess að hann er sá sem lætur verða.“
Jacob Rumph og Inga, eiginkona hans.
Bróðir Rumph fæddist í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þegar hann var barn var móðir hans óvirk en hún reyndi að kenna honum sannleika Biblíunnar. Á hverju ári heimsótti hann ömmu sína sem var trúfastur vottur. Hún hjálpaði til við að vekja áhuga hans á sannleikanum og þegar hann var 13 ára bað hann um biblíunámskeið. Hann lét skírast þegar hann var unglingur þann 27. september 1992. Það gladdi hann að móðir hans varð aftur virk í trúnni og hinir í fjölskyldunni tóku líka framförum og létu skírast.
Bróðir Rumph sá strax sem unglingur hversu ánægðir brautryðjendurnir voru. Eftir að hann lauk framhaldskóla byrjaði hann sem brautryðjandi í september 1995. Árið 2000 flutti hann til Ekvador til að starfa þar sem þörf var á fleiri boðberum. Þar kynntist hann Ingu, brautryðjandasystur frá Kanada, og þau giftu sig þegar fram liðu stundir. Eftir það störfuðu þau í bæ í Ekvador þar sem fyrir var lítill hópur boðbera. Þar er nú blómstrandi söfnuður.
Með tímanum voru bróðir og systir Rumph útnefnd sem sérbrautryðjendur og síðar til að vera í farandstarfinu. Árið 2011 var þeim boðið að sækja 132. bekk Gíleaðskólans. Eftir útskriftina fengu þau verkefni í mismunandi löndum og tóku þátt í ýmis konar þjónustu, eins og á Betel, í trúboðsstarfi og farandstarfi. Bróðir Rumph fékk líka það verkefni að kenna í Skólanum fyrir boðbera Guðsríkis.
Bróðir og systir Rumph sneru aftur til Bandaríkjanna þegar COVID-19 faraldurinn skall á. Þeim var boðið að koma á Betel í Wallkill þar sem bróðir Rumph fékk þjálfun í þjónustudeildinni. Á endanum voru þau send aftur á deildarskrifstofuna í Ekvador þar sem hann starfaði í deildarnefndinni. Árið 2023 fengu þau nýtt verkefni í Warwick. Í janúar 2024 var bróðir Rumph útnefndur til að starfa sem aðstoðarmaður í þjónustunefndinni. Þegar hann rifjar upp mismunandi þjónustuverkefni segir hann: „Það sem gerir verkefni sérstakt er ekki staðurinn heldur fólkið sem þú vinnur með.“
Við kunnum að meta dugnað þessara bræðra og við ‚metum menn eins og þá mikils‘. – Fil. 2:29.