Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • ijwyp grein 19
  • Hvers vegna skaða ég sjálfa(n) mig?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvers vegna skaða ég sjálfa(n) mig?
  • Ungt fólk spyr
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvað felst í sjálfsskaða?
  • Hvers vegna skaða sumir sjálfa sig?
  • Hvernig geturðu hætt ef þú átt í slíkum vanda?
  • Hvers vegna skaða ég sjálfa mig?
    Vaknið! – 2006
  • Hvernig get ég hætt að skaða sjálfa mig?
    Vaknið! – 2006
  • Er ástæða til að halda áfram að lifa?
    Vaknið! – 2014
  • „Hinn réttláti gleðst yfir Drottni“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
Sjá meira
Ungt fólk spyr
ijwyp grein 19

UNGT FÓLK SPYR

Hvers vegna skaða ég sjálfa(n) mig?

  • Hvað felst í sjálfsskaða?

  • Hvers vegna skaða sumir sjálfa sig?

  • Hvernig geturðu hætt ef þú átt í slíkum vanda?

  • Viðtal

  • Spyrðu þig

  • Minnisbókin mín fyrir biblíuvers

Hvað felst í sjálfsskaða?

Sjálfsskaði birtist með mismunandi hætti. Sumir brenna sig, skera sig eða veita sér áverka með öðrum hætti. Þeir sem skera sig eru haldnir áráttu að gera sér mein með beittum hlutum. Þessi grein fjallar um það að skera sig en efnið á við sjálfsskaða í öllum myndum.

Hverju svarar þú? Rétt eða rangt.

  1. Það eru aðeins stelpur sem skera sig.

  2. Þeir sem skera sig brjóta í bága við fyrirmæli Biblíunnar í 3. Mósebók 19:28: ,Þið skuluð ekki rista sár í húð ykkar.‘

Svör:

  1. Rangt. Þótt vandamálið virðist vera algengara hjá stelpum skera sumir strákar sig líka eða skaða sig með öðrum hætti.

  2. Rangt. Í 3. Mósebók 19:28 er vísað til heiðins helgisiðar til forna en ekki þeirrar áráttu að skaða sjálfan sig sem hér er rætt um. Það er samt rökrétt að ætla að kærleiksríkur skapari okkar vilji ekki að við gerum sjálfum okkur mein. – 1. Korintubréf 6:12; 2. Korintubréf 7:1; 1. Jóhannesarbréf 4:8.

Hvers vegna skaða sumir sjálfa sig?

Hverju svarar þú? Hvaða staðhæfingu telur þú eiga best við?

Fólk sker sig til að ...

  1. reyna að takast á við tilfinningalega vanlíðan.

  2. reyna að svipta sig lífi.

Rétt svar: A. Fæstir, sem skera sig, vilja deyja. Þeir vilja bara binda enda á örvæntingu sína.

Taktu eftir hvað nokkur ungmenni segja um áráttu sína að skera sig.

Celia: „Ég fann fyrir ákveðnum létti.“

Tamara: „Þetta var eins konar flóttaleið. Líkamlegur sársauki var betri en tilfinningaleg vanlíðan.“

Carrie: „Mér fannst ömurlegt að líða illa. Þegar ég skar mig fann ég til líkamlegs sársauka og það dró úr tilfinningalegri vanlíðan.“

Jerrine: „Alltaf þegar ég skar mig var eins og ég missti tengslin við veruleikann og þá þurfti ég ekki að takast á við vandamálin mín. Það var góð tilbreyting.“

Hvernig geturðu hætt ef þú átt í slíkum vanda?

Bæn til Jehóva Guðs getur verið mikilvægt skref í átt að bata. Biblían segir: „Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ – 1. Pétursbréf 5:7.

Tillaga: Byrjaðu á því að fara með stuttar bænir. Þú gætir einfaldlega sagt: „Ég þarf hjálp.“ Með tímanum geturðu opnað þig og úthellt tilfinningum þínum fyrir Jehóva sem er „Guð allrar huggunar“. – 2. Korintubréf 1:3, 4.

Bænin er ekki einhver tilfinningaleg hækja. Hún felur í sér raunveruleg tjáskipti við föður okkar á himnum en hann hefur lofað þessu: „Ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni.“ – Jesaja 41:10.

Mörgum sem hafa verið að skera sig hefur líka fundist gott að tala við foreldri eða einhvern fullorðinn sem þeir treysta. Taktu eftir hvað þrjú ungmenni segja um reynslu sína af því.

Viðtal

  • Diana, 21 árs

  • Kathy, 15 ára

  • Lorena, 17 ára

Hvað varstu gömul þegar þú byrjaðir að skera þig?

Lorena: Ég var svona 14 ára þegar ég byrjaði.

Diana: Ég var 18 ára og það var misjafnt hversu oft ég skar mig. Stundum var það á hverjum degi í eina eða tvær vikur en svo gat liðið heill mánuður án þess að ég gerði það.

Kathy: Ég byrjaði þegar ég var 14 ára. Það kemur enn þá fyrir að ég sker mig.

Hvers vegna vildirðu skaða þig?

Kathy: Ég átti við sjálfshatur að stríða. Mér fannst eins og engan gæti langað til að eiga mig að vini.

Diana: Stundum magnaðist vanlíðan mín upp í vonleysi og vonleysið í örvæntingu. Örvæntingin óx og varð að lokum óbærileg. Hún var eins og ægilegt villidýr innra með mér og mér fannst ég þurfa að skera mig til að hleypa því út.

Lorena: Ég gat orðið mjög niðurdregin eða reið eða bara óánægð með sjálfa mig. Mér leið eins og ég væri úrhrak og ég vildi losa mig við allar þessar ömurlegu tilfinningar. Stundum fannst mér ég eiga skilið að finna fyrir líkamlegum sársauka.

Leið þér betur eftir að hafa skaðað þig?

Diana: Já. Mér leið betur við það, rétt eins og byrði hefði verið létt af mér.

Kathy: Þetta er næstum því eins og að gráta. Mér leið betur eftir að hafa skorið mig alveg eins og sumum líður betur eftir að hafa grátið almennilega.

Lorena: Þegar ég skar mig var eins og ég væri að gera lítið gat á blöðru innra með mér sem var full af neikvæðum tilfinningum. Hún sprakk ekki en neikvæðnin lak út hægt og rólega.

Varstu hrædd við að segja einhverjum frá þessu?

Lorena: Já. Ég var hrædd um að fólki fyndist ég skrýtin. Ég vildi líka halda einkamálum mínum fyrir mig.

Diana: Fólk sagði alltaf við mig að ég væri svo sterk og ég vildi að það héldi áfram að trúa því. Mér fannst það vera ósigur að biðja um hjálp.

Kathy: Ég var hrædd um að fólk héldi að ég væri eitthvað biluð, og þá hefði ég orðið enn þá ósáttari við sjálfa mig. Þar að auki fannst mér ég verðskulda sársaukann sem ég olli sjálfri mér.

Hvenær fóru málin að taka aðra stefnu?

Lorena: Ég sagði mömmu frá því sem ég var að gera. Ég fékk líka hjálp frá lækni sem kenndi mér að hafa stjórn á neikvæðum tilfinningum. Ég fékk bakslag nokkrum sinnum en ég tók mig á í biblíunámi mínu og það hjálpaði mér. Ég passaði líka upp á að vera virk í boðunarstarfinu. Sú tilfinning að finnast ég vera einskis virði á kannski eftir að láta á sér kræla öðru hverju. En þegar það gerist reyni ég að láta það ekki stjórna mér.

Kathy: Trúsystir, sem er um tíu árum eldri en ég, sá að eitthvað var að og á endanum trúði ég henni fyrir þessu. Það kom mér á óvart að hún hafði sjálf verið að skera sig áður. Það var ekki óþægilegt að tala við hana þar sem hún hafði sjálf upplifað þetta. Svo fékk ég líka hjálp frá lækni sem útskýrði fyrir mér og foreldrum mínum hvað ég væri að ganga í gegnum.

Diana: Eitt kvöldið var ég í heimsókn hjá hjónum sem ég treysti og maðurinn tók eftir að eitthvað var ekki með felldu. Hann hvatti mig hlýlega til að segja þeim hvað væri að. Konan hans hélt utan um mig og ruggaði mér alveg eins og mamma var vön að gera þegar ég var lítil. Ég byrjaði að gráta og hún líka. Það var erfitt að segja þeim frá því sem ég var að gera sjálfri mér en ég er fegin að hafa gert það.

Hvernig hefur Biblían hjálpað þér?

Diana: Biblían hefur sýnt mér fram á að ég get ekki barist við þetta upp á eigin spýtur. Ég þarf á hjálp Jehóva Guðs að halda. – Orðskviðirnir 3:5, 6.

Kathy: Mér finnst mjög hughreystandi að lesa í Biblíunni vitandi það að boðskapur hennar kemur frá Guði. – 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Lorena: Þegar ég les biblíuvers, sem höfða sérstaklega til mín, skrifa ég þau í bók svo að ég geti rifjað þau upp seinna. – 1. Tímóteusarbréf 4:15.

Er eitthvert vers sem hefur hjálpað þér sérstaklega?

Diana: Í Orðskviðunum 18:1 segir: „Sá sem einangrar sig leitar sinnar eigingjörnu þrár, hann illskast gegn allri skynsemi.“ (New World Translation) Stundum á ég erfitt með að vera innan um fólk en þessi ritningarstaður minnir mig á að það er hættulegt að einangra sig.

Kathy: Tvö vers eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Í Matteusi 10:29 og 31 segir Jesús að ekki einn einasti spörfugl deyi án þess að Jehóva taki eftir því. Síðan bætir hann við: „Verið ... óhræddir, þér eruð meira virði en margir spörvar.“ Í hvert sinn sem ég les þessi vers minna þau mig á að ég er verðmæt í augum Jehóva.

Lorena: Mér þykir vænt um orðin í Jesaja 41:9 og 10 þar sem Jehóva segir við fólk sitt: „Ég ... hafnaði þér ekki. Óttast eigi því að ég er með þér ... Ég styrki þig.“ Þegar ég hugsa um eitthvað sem er sterklegt hugsa ég um eitthvað sem ekki er hægt að brjótast í gegnum, eins og rammgerða byggingu. Þessi ritningarstaður styrkir mig því að hann segir mér að Jehóva elskar mig og verður mér alltaf við hlið.

Spyrðu þig

  • Hverjum geturðu trúað fyrir vandamáli þínu þegar þú ert tilbúin(n) að leita þér aðstoðar?

  • Hvað geturðu sagt í bæn til Jehóva Guðs um vandamál þitt?

  • Geturðu nefnt tvær aðferðir (sem fela ekki í sér sjálfsskaða) sem þú gætir notað til að losa um streitu og kvíða?

Minnisbókin mín fyrir biblíuvers

Tillaga: Þegar þú rekst á vers í Biblíunni, sem fullvissa þig um kærleika Jehóva eða geta hjálpað þér að sjá sjálfa(n) þig og veikleika þína í réttu ljósi, skaltu skrifa þau í minnisbók. Skrifaðu eina eða tvær setningar sem lýsa því hvers vegna þessi vers eru mikilvæg fyrir þig. Til að komast í gang gætirðu skoðað nokkur vers sem hafa hjálpað Diönu, Kathy og Lorenu.

  • Rómverjabréfið 8:38, 39

    „Þessi vers sýna mér að Jehóva elskar mig, jafnvel þegar mér finnst ég vera á botninum.“ – Diana.

  • Sálmur 73:23

    „Vers eins og þetta fullvissa mig um að ég er ekki ein. Það er eins og Jehóva sé hér við hliðina á mér.“ – Kathy.

  • 1. Pétursbréf 5:10

    „Betri líðan kemur kannski ekki eins fljótt og maður óskaði. Við gætum þurft að þjást ,um lítinn tíma‘. En Jehóva getur gert okkur nógu sterk til að þola hvað sem er.“ – Lorena.

Fleiri biblíuvers til að hugleiða

  • Sálmur 34:19

  • Sálmur 54:6

  • Sálmur 55:23

  • Jesaja 57:15

  • Matteus 11:28, 29

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila