Hvað er eldhafið? Er það hið sama og helja eða Gehenna?
Svar Biblíunnar
Eldhafið er táknmynd eilífrar eyðingar. Það er hið sama og Gehenna en ekki það sama og helja sem er sameiginleg gröf mannkyns.
Ekki bókstaflegt haf
Af þeim fimm biblíuversum sem nefna „eldhafið“ má sjá að það er táknrænt haf en ekki bókstaflegt. (Opinberunarbókin 19:20; 20:10, 14, 15; 21:8) Eftirfarandi verður kastað í eldhafið:
Djöflinum. (Opinberunarbókin 20:10) Bókstaflegur eldur getur ekki skaðað Djöfulinn þar sem hann er andavera. – 2. Mósebók 3:2; Dómarabókin 13:20.
Dauðanum. (Opinberunarbókin 20:14) Dauðinn er óhlutbundinn og táknar andstæðu lífs þar sem engin starfsemi er. (Prédikarinn 9:10) Það er ekki hægt að brenna dauðann í bókstaflegum skilningi.
‚Villidýrinu‘ og „falsspámanninum“. (Opinberunarbókin 19:20) Þar sem villidýrið og falsspámaðurinn eru táknmyndir er rökrétt að álykta að hafið sem þeim er kastað í sé líka táknrænt. – Opinberunarbókin 13:11, 12; 16:13.
Táknmynd eilífrar eyðingar
Biblían kennir að eldhafið ‚tákni hinn annan dauða‘. (Opinberunarbókin 20:14; 21:8) Dauðinn sem Biblían nefnir fyrst kom til sögunnar þegar Adam syndgaði. Þessi dauði þarf ekki að vera endanlegur þar sem Guð lofar að reisa fólk aftur til lífs. Guð gerir hann að lokum að engu. – 1. Korintubréf 15:21, 22, 26.
Enginn á afturkvæmt úr táknræna eldhafinu.
Eldhafið táknar annars konar dauða. Hann merkir líka algert aðgerðaleysi en er frábrugðinn fyrrnefndum dauða að því leyti að Biblían segir ekkert um að upprisa sé möguleg. Hún segir til dæmis að Jesús hafi „lykla dauðans og heljar“ en það sýnir að hann hefur vald til að leysa fólk undan dauðanum sem stafar af synd Adams. (Opinberunarbókin 1:18; 20:13, Biblían 2010) En hvorki Jesús né nokkur annar hefur lykil að eldhafinu. Þetta táknræna haf merkir eilífa refsingu, það er varanlega eyðingu. – 2. Þessaloníkubréf 1:9.
Samsvarar Gehenna, Hinnomsdal
Orðið Gehenna (á grísku geʹenna) kemur 12 sinnum fyrir í Biblíunni í upprunalega textanum. Það táknar eilífa eyðingu eins og eldhafið. Sumar biblíuþýðingar þýða þetta orð sem „helja“ eða „hel“ en Gehenna er annað en helja eða hel (á hebresku Sheol og á grísku Hades).
Hinnomsdalur.
Orðið Gehenna merkir bókstaflega Hinnomsdalur og vísar til dals rétt fyrir utan Jerúsalem. Á biblíutímanum notuðu borgarbúar þennan dal sem ruslahauga. Þar brann stöðugt eldur til að eyða sorpi. Maðkar sáu til þess að eyða öllu sem eldurinn náði ekki að granda.
Jesús notaði Gehenna sem tákn um eilífa eyðingu. (Matteus 23:33) Hann sagði um Gehenna: „Þar sem maðkurinn deyr ekki og eldurinn slokknar ekki.“ (Markús 9:47, 48) Hann vísaði með því í aðstæður í Hinnomsdal og einnig í spádóminn í Jesaja 66:24 sem segir: „Þeir ganga út og sjá lík þeirra sem gerðu uppreisn gegn mér. Maðkarnir í þeim deyja ekki, eldur þeirra slokknar ekki.“ Myndin sem Jesús dregur upp lýsir ekki pyntingum heldur algerri eyðingu. Maðkarnir og eldurinn eyða dánu fólki en ekki lifandi.
Biblían gefur engar vísbendingar um að það sé afturkvæmt úr Gehenna. „Eldhafið“ og ‚eldur Gehenna‘ tákna hvort tveggja eilífa eyðingu. – Opinberunarbókin 20:14, 15; 21:8; Matteus 18:9.
Hvernig „kvalin dag og nótt um alla eilífð“?
Fyrst eldhafið er tákn um eyðingu hvers vegna segir Biblían þá að Djöfullinn, villidýrið og falsspámaðurinn verði „kvalin dag og nótt um alla eilífð“? (Opinberunarbókin 20:10) Skoðum fjórar ástæður fyrir því að þessar kvalir eiga ekki við bókstaflegar pyntingar:
Djöfullinn þyrfti að lifa að eilífu til að kveljast að eilífu. En Biblían segir að hann verði gerður að engu og verður því ekki lengur til. – Hebreabréfið 2:14.
Eilíft líf er gjöf frá Guði, ekki refsing. – Rómverjabréfið 6:23.
Villidýrið og falsspámaðurinn eru táknmyndir sem ekki er hægt að pynta.
Samhengið í Biblíunni gefur til kynna að kvalir Djöfulsins séu eilíf eyðing.
Orðið sem er notað fyrir „kvöl“ í Biblíunni getur líka merkt ‚hamlandi ástand‘. Gríska orðið fyrir „kvalara“ í Matteusi 18:34 er þýtt „fangaverðir“ í mörgum biblíuþýðingum en það sýnir að orðin „kvöl“ og „hömlur“ á grísku eru skyld. Þegar talað er um að „kvelja“ og „undirdjúpið“ í hliðstæðum frásögum í Matteusi 8:29 og Lúkasi 8:30, 31 er í báðum tilfellum átt við táknrænan stað þar sem engin starfsemi er, það er að segja dauðann. (Rómverjabréfið 10:7; Opinberunarbókin 20:1, 3) Opinberunarbókin notar orðið „kvöl“ á táknrænan hátt á nokkrum stöðum. – Opinberunarbókin 9:5; 11:10; 18:7, 10.