BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?
Flugfimi bananaflugunnar
Allir sem hafa reynt að drepa flugu vita að það getur verið svolítið mál. Viðbrögð þessara skordýra eru eldsnögg og flestar tilraunir til að ná þeim reynast árangurslausar.
Vísindamenn hafa uppgötvað að ein tegund flugna, bananaflugan, getur breytt um stefnu á svipaðan hátt og herþotur en hún þarf aðeins sekúndubrot til þess. Frá því að bananaflugurnar skríða úr púpu „fljúga þær eins og reyndustu flugmenn“, segir prófessor Michael Dickinson. „Þetta er eins og að setja nýfætt barn undir stýri í herþotu og það væri með allt á hreinu undir eins.“
Rannsakendur tóku myndskeið af flugunum á flugi og komust að því að þær blaka vængjunum 200 sinnum á sekúndu. Þær þurfa þó ekki nema eitt vængjablak til að breyta um stefnu og forðast hættu.
En hver er viðbragðstíminn hjá þessum flugum? Rannsakendur hafa tekið eftir að þær geta brugðist við ógnum 50 sinnum hraðar en það tekur mann að depla augum. „Flugan gerir mjög flókna útreikninga á örstuttum tíma til að átta sig á hvar hættan er og hvert besta flóttaleiðin liggur,“ segir Dickinson.
Það hvernig örsmár heili bananaflugunnar getur reiknað þetta út er vísindamönnum mikil ráðgáta sem þeir eru enn að leita svara við.
Bananaflugan forðast hættur með því að breyta um stefnu á aðeins sekúndubroti.
Hvað heldur þú? Þróaðist flugfimi bananaflugunnar? Eða býr hönnun að baki?