TAPANI VIITALA | ÆVISAGA
Ósk mín um að hjálpa heyrnarlausum rætist
Þegar ég hitti votta Jehóva í fyrsta skipti sýndu þeir mér loforð Biblíunnar um að ‚eyru heyrnarlausra ljúkist upp‘. (Jesaja 35:5) En þar sem ég fæddist heyrnarlaus átti ég erfitt með að ímynda mér hljóð. Þar af leiðandi hafði þetta loforð ekki ýkja mikil áhrif á mig. Það snerti mig meira þegar þeir sýndu mér loforð Biblíunnar um að Guðsríki eigi eftir að uppræta ranglæti, stríð, veikindi og jafnvel dauðann. Með tímanum vaknaði hjá mér brennandi löngun til að segja öðru heyrnarlausu fólki frá því sem ég hafði lært.
Ég fæddist árið 1941 í Virrat í Finnlandi. Báðir foreldar mínir, yngri bróðir og systir auk margra ættingja okkar voru heyrnarlaus. Við töluðum saman á táknmáli.
Ég fræðist um frábær sannindi Biblíunnar
Í heimavistarskólanum sem ég sótti, 240 km frá heimili okkar, var stranglega bannað að tala táknmál. Á þessum árum fylgdu skólar fyrir heyrnarlausa í Finnlandi raddmálsstefnu. Við vorum neydd til að læra raddmál og að lesa af vörum. Ef kennararnir sáu okkur tala táknmál lömdu þeir okkur svo fast á fingurna með reglustiku eða kennarapriki að við vorum bólgin í marga daga.
Eftir skyldunám fór ég í landbúnaðarnám. Foreldar mínir áttu bóndabýli og ég þurfti að læra fagið svo að ég gæti hjálpað til. Þegar ég kom aftur heim sá ég Varðturninn og Vaknið! á borðinu. Pabbi sagði mér að í þessum blöðum væru dásamlegar upplýsingar úr Biblíunni og að þau mamma hefðu þegið biblíunámskeið hjá heyrandi hjónum. Samskipti þeirra fóru fram með því að nota blað og penna.
Pabbi sagði mér að þegar Guðsríki kemur verði jörðin að fallegri paradís og að dánir verði reistir til lífs á ný. En mér hafði verið kennt að þeir sem deyja færu til himna. Ég hélt að hann hlyti að hafa misskilið vottana af því að þeir töluðu ekki við hann á táknmáli.
Næst þegar hjónin heimsóttu foreldra mína spurði ég þau út í það sem pabbi hafði sagt mér. „Þetta er alveg rétt hjá pabba þínum,“ sögðu þau. Síðan sýndu þau mér hvað Jesús sagði um upprisuna í Jóhannesi 5:28, 29. Þau lýstu því hvernig Guð mun afmá illsku af jörðinni og sögðu mér að fólk muni lifa að eilífu við fullkomna heilsu og frið. – Sálmur 37:10, 11; Daníel 2:44; Opinberunarbókin 21:1–4.
Mig langaði að vita meira, þannig að ég fór að kynna mér Biblíuna með votti að nafni Antero. Hann kunni ekki táknmál þannig að ég svaraði spurningunum í námbókinni með því að skrifa þau á blað. Síðan las Antero svörin og skrifaði aukaspurningar og athugasemdir. Hann kenndi mér þolinmóður í tvær klukkustundir á viku.
Árið 1960 sótti ég mót Votta Jehóva þar sem dagskráin var túlkuð yfir á táknmál. Síðdegis á föstudag var tilkynnt að skírn færi fram daginn eftir. Á laugardagsmorguninn tók ég því sundskýlu og handklæði með mér og lét skírast.a Ekki leið á löngu þar til foreldrar mínir og systkini létu líka skírast.
Allir í fjölskyldunni minni létu skírast með tímanum.
Ég segi öðrum frá sannindum Biblíunnar
Mig langaði til að segja öðrum heyrnarlausum frá því sem ég hafði lært og besta leiðin til þess var að nota táknmál. Til að byrja með boðaði ég trúna meðal heyrnarlausra í heimabæ mínum.
Fljótlega flutti ég til Tampere sem er stór iðnaðarborg. Ég leitaði að heyrnarlausum þar með því að fara hús úr húsi og spyrja húsráðendur hvort þeir þekktu einhverja sem væru heyrnarlausir. Með þessu móti hóf ég mörg biblíunáskeið og eftir fáein ár voru meira en tíu heyrnarlausir boðberar í Tampere.
Ég kynntist yndislegri systur sem hét Maire árið 1965. Við giftum okkur ári síðar. Maire var fljót að læra táknmál og hún var trúr og duglegur félagi minn í þá fimm áratugi sem við þjónuðum Jehóva saman.
Brúðkaupið okkar 1966.
Við eignuðumst soninn Marko eftir tveggja ára hjónaband. Hann er heyrandi. Heima lærði hann bæði finnsku, móðurmálið sitt, og finnskt táknmál. Marko lét skírast 13 ára.
Með tímanum bættust margir nýir við í táknmálshópinn okkar í Tampere. Við fluttum þess vegna í aðra borg, Turku, árið 1974 þar sem engir heyrnarlausir vottar voru. Við byrjuðum aftur að fara hús úr húsi og leita að heyrnarlausum. Á þeim árum sem við vorum í Turku létu 12 af biblíunemendum mínum skírast.
Starf í Eystrasaltslöndunum
Árið 1987 var Marko boðið að starfa á Betel. Táknmálshópurinn okkar í Turku var orðinn sterkur þannig að við gerðum áætlanir um að flytja aftur.
Um þetta leyti voru svæði í Austur-Evrópu að opnast. Ég heimsótti því Tallinn í Eistlandi með öðrum heyrnarlausum bróður í janúar 1992.
Við komumst í samband við trúsystur sem átti heyrnarlausan bróður. Þó að hann hefði engan áhuga á boðskapnum um Guðsríki hjálpaði hann okkur að komast í samband við marga heyrnarlausa Eistlendinga. Síðasta kvöldið okkar þar fór hann með okkur á samkomu á vegum félags heyrnarlausra í Tallinn. Við komum snemma og hlóðum eistneskum og rússneskum bókum og ritum á borð. Við dreifðum um 100 bókum og 200 blöðum og fengum um 70 heimilisföng. Þetta kvöld var grunnur lagður að boðuninni á táknmáli í Eistlandi.
Í boðunarferð til eins af Eystrasaltslöndunum.
Stuttu síðar byrjuðum við Maire að fara reglulega í boðunarferðir til Eistlands. Við minnkuðum vinnuhlutfall okkar og gerðumst brautryðjendur. Árið 1995 fluttum við nær Helsinki til að eiga auðveldara með að taka ferjuna til Tallinn. Boðunin í Eistlandi fór fram úr björtustu vonum okkar!
Við stýrðum eins mörgum biblíunámskeiðum og við réðum við og 16 af biblíunemendum okkar náðu að láta skírast. Þar á meðal voru tvær systur sem voru bæði blindar og heyrnarlausar. Ég hélt biblíunámskeið með þeim með því að tákna í hendur þeirra en það er kallað snertitáknmál.
Það var krefjandi að halda biblíunámskeið með heyrnarlausum. Á þessum tíma voru ekki til nein rit á táknmáli á okkar svæði svo að ég nýtti mér aðlaðandi myndirnar í ritunum okkar eins mikið og ég gat. Ég bjó til úrklippubók með þeim.
Deildarskrifstofan í Finnlandi bað mig um að fara til Lettlands og Litáen til að kanna hvernig við gætum hjálpað til á táknmálssvæðinu þar. Við heimsóttum þessi lönd nokkrum sinnum og aðstoðuðum boðbera þar við að leita að heyrnarlausum. Næstum því hvert land á sitt eigið táknmál. Ég lærði þess vegna eistneska, lettneska og litáíska táknmálið auk þess að læra nokkuð í rússnesku táknmáli en heyrnarlausir Rússar sem búa í Eystrasaltslöndunum nota það.
Þegar við vorum búin að ferðast til Eistlands og hinna Eystrasaltslandanna í átta ár greindist Maire því miður með parkinsonsveiki og við þurftum að hætta ferðunum.
Hjálp fyrir heyrnarlausa skipulögð
Stofnaður var hópur á finnsku deildarskrifstofunni til að þýða yfir á táknmál árið 1997. Við Maire bjuggum nálægt og gátum þess vegna aðstoðað við að undirbúa rit á táknmáli – sem ég geri af og til enn þá. Við unnum með Marko syni okkar. Hann og Kirsi konan hans aðstoðuðu líka síðar við að þjálfa táknmálsþýðingateymi í öðrum löndum.
Að aðstoða við að búa til myndbönd á finnsku táknmáli.
Auk þess hefur deildarskrifstofan skipulagt táknmálsnámskeið fyrir heyrandi boðbera. Þar af leiðandi hafa margir bæst í hópinn í táknmálsstarfinu með því að styðja við boðunina og samkomurnar og taka á sig ábyrgð í söfnuðinum.
Ósk mín um að hjálpa er enn til staðar
Við Maire aðstoðuðum við að mynda fyrsta táknmálssöfnuðinn í Helsinki 2004. Á þrem árum varð hann sterkur og kappsamur söfnuður með mörgum brautryðjendum.
Við fórum aftur að gera áætlanir um að flytja þangað sem var meiri þörf. Árið 2008 fluttum við nær Tampere og í táknmálshópinn sem við höfðum flutt frá 34 árum áður. Ári síðar varð sá hópur annar táknmálssöfnuðurinn í Finnlandi.
Á þessum tíma var heilsu Maire farið að hraka. Ég sá um hana með glöðu geði þar til hún lést árið 2016. Ég sakna hennar mjög en hlakka til að hitta hana í nýja heiminum þegar veikindi verða ekki lengur til. – Jesaja 33:24; Opinberunarbókin 21:4.
Á meðan ég bíð eftir því held ég áfram að hafa sterka löngun til að boða fagnaðarboðskapinn heyrnarlausum nágrönnum mínum, en það hefur verið aðalstarf mitt síðastliðin 60 ár.
a Þetta var áður en safnaðaröldungar fóru að hitta væntanlega skírnþega áður en þeir létu skírast.