Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • lfs grein 12
  • Frá lægsta stað til hæstu hæða

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Frá lægsta stað til hæstu hæða
  • Ævisögur votta Jehóva
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ég þurfti að skríða á jörðinni
  • Ég hitti himneskan föður minn
  • Til hæstu hæða
  • Ég hef séð trúfasta þjóna Guðs dafna
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Biblían breytir lífi fólks
    Varðturninn: „Núna finnst mér ég heil, lifandi og hrein.“
  • Núna finnst mér ég geta hjálpað öðrum
    Varðturninn: Núna finnst mér ég geta hjálpað öðrum
  • Biblían breytir lífi fólks
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
Sjá meira
Ævisögur votta Jehóva
lfs grein 12
Jay Campbell situr brosandi á þríhjólinu sínu.

JAY CAMPBELL | ÆVISAGA

Frá lægsta stað til hæstu hæða

Ég var mjög feimin sem barn. Ég hélt mig innandyra til að fela mig fyrir fólki. Mér fannst ég oft einskis virði. Ég átti sjaldan samskipti við fólk á almannafæri þar sem ég óttaðist að litið yrði niður á mig. Mig langar að deila með ykkur sögu minni.

Einn góðan veðurdag í ágúst árið 1967, þegar ég var 18 mánaða gömul, fékk ég háan hita. Ég hafði verið heilbrigt barn fram að því. Morguninn eftir var ég máttlítil í fótunum. Ég fór í rannsóknir á spítala í Freetown í Síerra Leóne, þar sem ég bjó, og það kom í ljós að ég hafði fengið mænusótt. Það er smitsjúkdómur af völdum veirusýkingar sem getur haft í för með sér lömun, aðallega hjá börnum undir fimm ára aldri. Fæturnir styrktust ekki þrátt fyrir sjúkraþjálfun. Ástandið versnaði smám saman þar til ég gat ekki lengur staðið í fæturna. Vegna fötlunar minnar sagði faðir minn hvað eftir annað að ég væri ekki nema „hálft barn“. Ég komst bara um með því að skríða og hafði lágt sjálfsmat og þess vegna fannst mér ég vera á lægsta stað sem hægt var að vera á.

Ég þurfti að skríða á jörðinni

Við mamma bjuggum í húsaþyrpingu ásamt nokkrum öðrum bláfátækum fjölskyldum. Fólki líkaði vel við mig en ég þráði samt ást föður míns, en hann elskaði mig ekki. Sumir trúðu því að ástand mitt væri vegna galdra en ekki venjulegra veikinda. Aðrir sögðu að mamma ætti að skilja mig eftir fyrir utan heimili fyrir börn með fötlun og losna þannig við byrðina sem fylgdi því að sjá um mig. Það vildi mamma ekki gera heldur lagði hún hart að sér við að annast mig.

Jay á yngri árum situr á litlum kolli með hjólum.

Þar sem ég gat hvorki staðið né gengið þurfti ég að skríða. Ég meiddi mig á að toga mig áfram á jörðinni yfir ýmiss konar yfirborð. Ég klæddist þykkum fötum til að ég meiddi mig ekki eins mikið og notaði inniskó sem hanska til að vernda hendurnar. Seinna fékk ég u-laga viðarkubba sem vernduðu hendurnar enn betur. Til að komast á milli staða setti ég kubbana á jörðina, hallaði mér fram og sveiflaði svo fótunum með því að beygja bakið. Þegar ég hafði komist eitt „skref“ rétti ég aftur fram hendurnar til að taka næsta erfiða skref. Þetta olli miklu álagi á hendur og axlir. Það var svo óhemju mikil áreynsla að ferðast um með þessum hætti að ég fór sjaldan út fyrir húsaþyrpinguna. Ég gat hvorki sótt skóla né leikið við aðra krakka. Ég hafði áhyggjur af því hvað yrði um mig ef mamma félli frá.

Ég bað Guð um að hjálpa mér svo að ég þyrfti ekki að betla. Ég hugsaði með mér að ef ég yrði náin honum og þjónaði honum á réttan hátt myndi hann sjá um mig. Dag einn árið 1981 fór ég þess vegna með miklum erfiðismunum út fyrir húsaþyrpinguna í kirkju við götuna okkar. Mér fannst óþægilegt hvernig fólk horfði á mig. Presturinn bauð mig ekki velkomna og setti ofan í við mömmu vegna þess að ég sat á bekk sem aðrir höfðu greitt fyrir. Ég ákvað að fara ekki þangað aftur.

Ég hitti himneskan föður minn

Einn morgun árið 1984, þegar ég var 18 ára, fór ég upp til að setjast við gluggann þar sem ég var vön að sitja og fylgjast með því sem var að gerast úti. Ég ákvað hins vegar að fara niður á útisvæðið innan húsaþyrpingarinnar. Það var yfirleitt enginn á þessu svæði en þegar ég kom þangað hitti ég tvo menn sem voru að boða trú hús úr húsi. Þeir sögðu mér frá dásamlegri framtíð þar sem aðstæður mínar myndu lagast. Þeir lásu Jesaja 33:24 og Opinberunarbókina 21:3, 4. Þeir gáfu mér síðan litríkan bækling, Enjoy Life on Earth Forever!, og lofuðu að koma aftur til að kenna mér meira.

Þegar þeir komu næst sögðust þeir ætla að koma með Pauline til að halda samræðunum áfram, en hún var trúboði og nýkomin til landsins. Þeir gerðu það og Pauline varð mér eins og móðir. Mamma hvatti mig til að til kynna mér Biblíuna með „nýju mömmu minni“. Pauline sýndi mér óeigingjarnan kærleika, þolinmæði, góðvild og áhuga. Hún athugaði oft hvernig ég hefði það. Hún kenndi mér að lesa. Hún notaði Biblíusögubókina mína til að hjálpa mér smám saman að kynnast kærleiksríka föðurnum sem ég hafði alltaf þráð.

Trúboði að nafni Pauline aðstoðaði mig við að kynnast Biblíunni.

Það sem ég lærði af Biblíunni veitti mér mikla gleði. Eitt sinn spurði ég Pauline hvort ég mætti koma á samkomu hjá Vottum Jehóva sem kallaðist bóknám,a en það var haldið heima hjá votti Jehóva skammt frá heimili mínu. Pauline samþykkti það. Á þriðjudeginum á eftir kom hún og beið eftir mér meðan ég fór í bað og klæddi mig þannig að við gætum verið samferða. Einhver nefndi við mig að ég ætti að segja Pauline að borga fyrir leigubíl fyrir mig en ég sagði: „Ég ætla að ganga þangað á trékubbunum mínum.“

Þegar við fórum af stað fylgdust mamma og nágrannarnir áhyggjufullir með mér. Þegar ég fikraði mig áfram yfir garðinn hrópuðu einhverjir af nágrönnunum á Pauline: „Þú ert að neyða hana til að fara!“

Pauline spurði mig þá blíðlega: „Jay, langar þig til að fara?“ Þetta var tækifærið til að sýna að ég treysti á Jehóva. (Orðskviðirnir 3:5, 6) „Já,“ sagði ég. „Þetta er mín ákvörðun.“ Viðhorf nágrannanna breyttist og þeir horfðu þögulir á mig nálgast hliðið. Þegar ég var í þann mund að fara út úr garðinum heyrðust fagnaðaróp.

Samkoman var svo yndisleg og endurnærandi. Allir buðu mig velkomna. Enginn leit niður á mig. Mér leið vel á samkomunni og ég fór því að mæta reglulega. Stuttu síðar spurði ég hvort ég gæti ekki líka komið á stærri samkomurnar í ríkissal Votta Jehóva. Þar sem ég var fátæk átti ég aðeins tvo kjóla og eitt par af inniskóm. Ég var samt viss um að fólk Guðs myndi ekki hafna mér. Og auðvitað gerðist það ekki.

Til að komast í ríkissalinn þurfti ég að „ganga“ út götuna og taka svo leigubíl niður hæðina að ríkissalnum. Þegar þangað var komið báru bræðurnir mig upp í salinn.

Ég hafði fundið á eigin skinni hversu góður Jehóva er og því langaði mig að leita athvarfs hjá honum. Ég ákvað því að mæta reglulega á samkomur. (Sálmur 34:8) Ég mætti oft blaut og skítug á regntímabilinu og þurfti að skipta um föt í ríkissalnum. En það var vel þess virði!

Í árbók Votta Jehóva 1985 var fjallað um aðstæður mínar. Josette, vottur í Sviss, las sögu mína og það fékk hana til að senda mér handknúið þríhjól með brettum og litríkum endurskinsmerkjum að aftan. Nú gat ég ferðast um með meiri reisn. Börn voru spennt að sjá mig keyra um á þessu flotta farartæki. Mér hafði verið lyft upp af jörðinni. Mér leið eins og ég væri drottning sem fólk bar virðingu fyrir en leit ekki niður á.

Til hæstu hæða

Ég átti auðvelt með að taka framförum í trúnni þar sem ég lifði einföldu og siðferðilega hreinu lífi. Þríhjólið gerði mér kleift að taka þátt í boðuninni og 9. ágúst árið 1986 lét ég skírast. Eftir skírnina varð líf mitt betra en ég hefði nokkurn tíma getað ímyndað mér. Núna átti ég föður sem elskaði mig og var umkringd fólki sem bar einlæga umhyggju fyrir mér. Fyrir vikið upplifði ég innri gleði og ánægju. Mér fannst ég einhvers virði og hafði meira sjálfstraust.

Jay situr glöð í hjólastólnum sínum, ásamt nokkrum vinum sínum.

Ég fór að velta fyrir mér að gerast brautryðjandi til að endurgjalda Jehóva það sem hann hafði gert fyrir mig. En ég var ekki viss um hvort ég gæti það. (Sálmur 116:12) Ég lagði þetta fyrir Jehóva í bæn og ákvað að prófa. Ég byrjaði í brautryðjandastarfinu 1. janúar 1988 og hef haldið því áfram síðan. Það hefur verið mikil blessun. Ég á kærleiksrík trúsystkini sem hjálpa mér að ná markmiði mínu í hverjum mánuði. Og ég hef fundið fyrir því hvernig Jehóva styður mig með heilögum anda sínum. – Sálmur 89:21.

Ég hreyfði mig meira sem brautryðjandi og það örvaði fæturna, þótt þeir væru enn þá veikburða. Nokkru síðar fór ég á læknastofu sem hafði nýlega opnað. Ég vonaðist til að fá þar sjúkraþjálfun og æfingadagskrá. Hjúkrunarkona á staðnum sagði hins vegar að ég gæti alveg eins sleppt því þar sem ég myndi hvort sem er deyja fljótlega. Önnur hjúkrunarkona á staðnum sagði það sama og ég varð mjög niðurdregin. Þegar ég kom heim bað ég Jehóva að hjálpa mér að takast á við tilfinningar mínar og veita mér einhvers konar meðferð.

Boðunin reyndist vera ein besta meðferðin sem ég gat fengið enda fékk ég mikla hreyfingu. Nokkrum árum síðar átti önnur hjúkrunarkonan sem sagði að ég myndi bráðlega deyja leið fram hjá ríkissalnum. Hún var hissa að sjá að ég var enn þá lifandi.

Ég hef reynt að vera virk í þjónustu Jehóva þrátt fyrir ástand mitt. Bræður og systur hrósa mér fyrir kappsemina og fyrir að koma snemma á samkomur. Ég geri það alltaf því að þá fæ ég tækifæri til að heilsa trúsystkinum mínum og sýna þeim áhuga.

Ég hef fundið fyrir gæsku Jehóva og notið margra blessana. Ég hef upplifað þá gleði að hjálpa þrem til skírnar. Ein þeirra, Amelia, sótti 137. bekk Gíleaðskólans. Ég hef farið oftar en einu sinni í Brautryðjendaskólann, sem er dásamleg gjöf frá Jehóva. Jehóva hefur veitt mér gleði, sjálfsvirðingu og sjálfstraust. Núna ber fólk virðingu fyrir mér. Ég skammast mín ekki lengur fyrir sjálfa mig. Ég á góða vini í trúnni, ekki aðeins í Freetown, þar sem ég bý, heldur um allt land og um allan heim.

Jay Campbell situr brosandi á þríhjólinu sínu.

Núna eru liðin næstum 40 ár síðan ég lærði um loforð Guðs um nýjan heim þar sem enginn mun búa við fötlun. Þessi loforð eru áreiðanleg og það heldur áfram að hvetja mig. Ég hlakka til að þau verði að veruleika. Ég bíð þolinmóð vegna þess að ég veit að Jehóva, Guði mínum, mun ekki seinka. (Míka 7:7) Biðin hefur reynst blessun. Jehóva hefur hjálpað mér að glíma við mörg vandamál og krefjandi aðstæður. Hann hefur alltaf hjálpað mér á réttum tíma. Ég er svo hamingjusöm og glöð því að áður þurfti ég að skríða á jörðinni en hann lyfti mér hærra upp en ég hefði nokkurn tíma getað ímyndað mér.

a Núna kallast það safnaðarbiblíunám.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila