ASTER PARKER | ÆVISAGA
Mig langaði að líf mitt væri algerlega helgað Jehóva
Ég er þakklát fyrir að ástkærir foreldrar mínir kenndu mér sannleikann allt frá frumbernsku. Þau snertu hjarta mitt með myndunum og sögunum í bókinni Frá hinni týndu paradís til hinnar endurheimtu paradísar. Ég sagði krökkunum í næstu íbúð frá þessu með ákefð og eins afa mínum þegar hann kom í heimsókn. Foreldrar mínir höfðu góða andlega dagskrá sem hjálpaði okkur að aðlagast breytingunum þegar við fluttum frá Asmara í Eritreu til Addis Ababa í Eþíópíu.
Ég elskaði sannleikann frá unga aldri. Mig langaði að vígjast Jehóva og láta skírast og var mjög glöð þegar ég náði því marki 13 ára gömul. Þegar ég var 14 ára spurði bróðir Helge Lincka mig hvort ég hefði hugleitt það að þjóna sem brautryðjandi. Ég man vel eftir þessu augnabliki. Þó að pabbi og mamma hafi verið frítímabrautryðjendur (sem núna kallast aðstoðarbrautryðjendur) hafði ég ekki hugmynd um hvað fælist í því að vera reglulegur brautryðjandi. Spurning bróður Lincks gróðursetti fræ í hjarta mínu – löngun til að gera meira í þjónustu Jehóva.
Snemma á unglingsárum mínum ásamt Josiah bróður mínum.
Búin undir ofsóknir
Árið 1974 var mikil þjóðfélagsólga í Eþíópíu sem leiddi til handtaka, morða og upplausnar. Þar að kom að við gátum við ekki boðað trúna hús úr húsi og við gátum aðeins hist í litlum hópum. Foreldrar mínir fóru að undirbúa okkur systkinin undir aukna andstöðu. Meginreglur Biblíunnar hjálpuðu okkur að skilja hvað fælist í kristnu hlutleysi. Við skildum að Jehóva myndi hjálpa okkur að svara ef við yrðum yfirheyrð og að stundum mættum við ekki segja neitt. – Matteus 10:19; 27:12, 14.
AFP PHOTO
Meðan á ólgutímanum stóð árið 1974.
Þegar ég lauk námi mínu fór ég að vinna fyrir flugfélagið Ethiopian Airlines. Dag nokkurn þegar ég mætti til vinnu óskuðu starfsfélagar mínir mér til hamingju með að ég hefði verið valin til að fara fyrir skrúðgöngu til að minnast afmælis ríkisstjórnarinnar. Ég var fljót að segja yfirmanni mínum að ég gæti ekki tekið þátt í hátíðarhöldunum vegna kristins hlutleysis míns.
Daginn eftir þegar ég var að vinna á flugvellinum sá ég menn vopanða riflum nálgast miðasöluna. Ég hugsaði að þeir ætluðu að handtaka einhvern sem væri að flýja land. En þess í stað bentu þeir á mig. Hvað vildu þeir mér? Það sem hafði byrjað eins og hver annar vinnudagur breyttist í einu vetfangi.
Hjálp í fangelsinu
Hermennirnir fóru með mig á skrifstofu þar sem ég var yfirheyrð í margar klukkustundir. „Hver fjármagnar Votta Jehóva?“ spurðu þeir. „Vinnur þú fyrir Frelsishreyfingu Eritreu? Vinnur þú eða faðir þinn fyrir ríkisstjórn Bandaríkjanna?“ Þó að þetta hefði getað verið ógnandi fann ég innri ró sem Jehóva gaf mér. – Filippíbréfið 4:6, 7.
Að yfirheyrslu lokinni fóru hermennirnir með mig í hús sem hafði verið breytt í fangelsi og settu mig í 28 fermetra herbergi. Þar voru fyrir 15 ungar konur sem voru pólitískir fangar.
Sem starfsmaður flugfélags.
Þessa nótt lá ég á hörðu gólfinu og var enn þá klædd einkennisbúningi flugfélagsins. Ég hafði áhyggjur af angist foreldra minna og systkina. Þau vissu að ég hafði verið handtekin en höfðu enga hugmynd um hvar ég væri niðurkomin. Ég bað Jehóva að hjálpa fjölskyldu minni að finna út hvar ég væri í haldi.
Þegar ég vaknaði næsta morgun sá ég á ungan fangavörð sem ég þekkti. Hann horfði á mig ráðvilltur og sagði: „Aster, hvað ert þú að gera hér?“ Ég grátbað hann að fara heim til foreldra minna og segja þeim hvar ég væri. Seinna um daginn fékk ég matarsendingu og föt frá foreldrum mínum. Fangavörðurinn hafði sagt þeim hvar ég var. Jehóva hafði svarað bæn minni! Þessi reynsla fullvissaði mig um að ég væri ekki ein.
Ég mátti hvorki hafa biblíu né önnur rit og fjölskylda mín og vinir máttu ekki heimsækja mig. En Jehóva veitti mér samt uppörvun í gegnum samfanga mína. Ég prédikaði fyrir þeim á hverjum degi og þær voru snortnar af sannleikanum um Guðsríki. Þær sögðu oft við mig: „Við erum hér til að berjast fyrir mennskri ríkisstjórn en þú berst fyrir stjórn Guðs. Ekki láta undan, jafnvel þótt þeir hóti að drepa þig.“
Stundum yfirheyrðu verðirnir fangana og börðu þá. Kvöld eitt um ellefuleytið sóttu þeir mig. Þegar við komum í yfirheyrsluherbergið báru þeir á mig margar sakir. Þeir sögðu að ég styddi ekki ríkisstjórnina. Og þegar ég neitaði að fara með pólitískt slagorð börðu tveir verðir, sem voru karlmenn, mig. Farið var með mig í nokkrar slíkar yfirheyrslur. Í hvert skipti bað ég ákaft til Jehóva og ég fann hvernig hann styrkti mig.
Að þrem mánuðum liðnum kom einn varðanna til mín og sagði mér að ég væri frjáls ferða minna. Þó svo að ég væri undrandi og spennt var ekki laust við að ég yrði líka fyrir vonbrigðum vegna þess að ég hafði notið þess að segja ungu konunum í fangelsinu frá voninni um Guðsríki.
Fáeinum mánuðum eftir að mér var sleppt úr haldi komu hermenn, meðan ég var að heiman, og handtóku alla unglingana á heimilinu. Þeir handtóku tvær systur mínar og einn bróður. Þegar hér var komið sögu ákvað ég að það væri best fyrir mig að flýja land. Þó að það væri óbærilegt að yfirgefa fjölskylduna aftur hvatti móðir mín mig til að vera sterk og treysta Jehóva. Skömmu síðar fór ég um borð í flugvél til Bandaríkjanna. Sama kvöld komu hermenn heim til að handtaka mig öðru sinni. Þar sem ég var ekki heima, hröðuðu þeir sér út á flugvöll. En þegar þangað kom var flugvélin mín þegar komin í loftið.
Ég kom til Maryland og þar tóku þau Haywood og Joan Ward á móti mér, trúboðshjónin sem höfðu kennt foreldrum mínum. Fimm mánuðum síðar varð markmið mitt að veruleika þegar ég hóf starf sem brautryðjandi. Cyndi, dóttir Wards-hjónanna varð starfsfélagi minn og við áttum margar ánægjulegar stundir í boðuninni.
Ásamt brautryðjendafélaga mínum Cyndi Ward.
Í fullu starfi á Betel
Ásamt eiginmanni mínum meðan við þjónuðum á Betel í Wallkill í New York-fylki.
Sumarið 1979 heimsótti ég Betel í New York og hitti þar Wesley Parker. Ég kunni strax að meta góða eiginleika hans og andleg markmið. Við giftum okkur árið 1981 og ég flutti til Wallkill í New York-fylki til að þjóna á Betel ásamt Wesley. Ég vann í ræstingadeildinni og við þurrhreinsun og síðar í MEPS-teyminu í tölvudeildinni. Starfið á Betel gaf mér tækifæri til að einbeita mér algerlega að þjónustu Jehóva. Á þessu tímabili kynntumst við líka bræðrum og systrum sem hafa verið vinir okkar síðan.
En fjölskylda mín heima í Eþíópíu varð enn þá fyrir hörðum ofsóknum og það olli mér hugarangri. Systkini mín þrjú sem höfðu verið handtekin voru enn í fangelsi.b Móðir mín þurfti að útbúa handa þeim mat á hverjum degi og fara með hann í fangelsið, vegna þess að ekki var séð fyrir mat þar.
Meðan á þessum raunum stóð var Jehóva athvarf mitt og Betelfjölskyldan veitti mér huggun og stuðning. (Markús 10:29, 30) Dag nokkurn sagði bróðir John Booth við mig: „Við erum svo glöð að þú skulir þjóna hér á Betel. Það hefði ekki verið hægt ef Jehóva hefði ekki blessað þig.“c Þessi hlýlegu orð fullvissuðu mig um að Jehóva hefði blessað þá ákvörðun mína að yfirgefa Eþíópíu og að hann myndi annast fjölskyldu mína.
Í þjónustu Jehóva sem fjölskylda
Í janúar 1989 fengum við að vita að ég væri þunguð. Fyrst í stað vorum við slegin. En eftir nokkra daga breyttust tilfinningar okkar í gleði. En við veltum því fyrir okkur hvers konar foreldrar við myndum verða, hvar við myndum búa og hvernig við gætum séð fyrir okkur eftir að við færum frá Betel.
Þann 15. apríl 1989 pökkuðum við öllum eigum okkar í bílinn og lögðum af stað til Oregon fylkis, þar sem ætlunin var að halda áfram að þjóna í fullu starfi sem brautryðjendur. En skömmu eftir komuna sögðu nokkrir vinir okkar, sem vildu okkur vel, að það væri ekki skynsamlegt af okkur að fara út í brautryðjendastarf. Það var satt að við áttum lítið efnislega og barn var á leiðinni. Hvað áttum við að gera? Einmitt þá kom Guy Pierce farandhirðir okkar og Penny konan hans í heimsókn.d Þau hvöttu okkur til að halda okkur við markmið okkar. Við hófum því brautryðjendastarf og treystum því að Jehóva myndi hjálpa okkur. (Malakí 3:10) Við héldum áfram að þjóna sem brautryðjendur eftir að fyrsti sonur okkar, Lemuel, fæddist og líka eftir fæðingu annars sonar okkar, Jadons.
Það veitti okkur mikla gleði að hafa strákana okkar með í þjónustunni. Brautryðjendastarfið gaf okkur ekki einungis tækifæri til að útskýra andleg sannindi fyrir nágrönnum okkar heldur líka fyrir drengjunum okkar. (5. Mósebók 11:19) En eftir fæðingu þriðja sonarins, Japheths, þurftum við að hætta í brautryðjendastarfinu um tíma. – Míka 6:8.
Við kenndum sonum okkar að þjóna Jehóva
Við áttuðum okkur á að helsta ábyrgð okkar sem foreldar væri að gera hverjum strákanna ljóst að Jehóva er raunverulegur og hjálpa þeim að þroska sitt eigið samband við hann. Til að ná þessu markmiði reyndum við að gera tilbeiðslustund fjölskyldunnar að tilhlökkunarefni. Þegar þeir voru litlir lásum við saman úr bókunum Hlýðum á kennarann mikla og Biblíusögubókin mín. Við lékum meira að segja sumar sögurnar. Ég var eina konan á heimilinu þannig að þegar við lékum söguna um Jesebel, var ég í hennar hlutverki. Strákunum fannst gaman að þykjast ýta mér úr sófanum og látast síðan vera hundarnir. Auk fjölskyldunámsins kenndi Wesley hverjum strákanna fyrir sig.
Við elskuðum syni okkar og önnuðumst þá og við báðum Guð að gera fjölskyldu okkar samhenta. Þegar þeir uxu úr grasi kenndum við þeim hagnýt verk. Þeir vöskuðu upp, þrifu herbergin sín og lærðu að þvo þvott. Þeir lærðu líka að elda.
En það voru ekki bara börnin sem lærðu sínar lexíur, við foreldrarnir lærðum líka ýmislegt. Stundum brugðumst við of hart við og sögðum særandi orð við syni okkar eða hvort við annað. Þegar það gerðist sýndum við auðmýkt og báðumst afsökunar.
Við buðum reglulega bræðrum og systrum í söfnuðinum til okkar en líka Betelítum sem komu í heimsókn, trúboðum, farandhirðum og þeim sem þjónuðu þar sem þörfin er mikil. (Rómverjabréfið 12:13) Þegar gestir komu í heimsókn sendum við ekki drengina í annað herbergi til að leika sér. Þeir voru með okkur og nutu samræðnanna og frásagnanna. Oft mundu þeir fleiri atriði úr samtölunum en við Wesley.
Við Wesley lögðum okkur fram um að gera líf okkar í þjónustu Jehóva ánægjulegt. Til dæmis skipulögðum við fríin með góðum fyrirvara þannig að við söfnuðum peningum og áttum inni tíma til að geta farið til mismunandi landa. Í öllum ferðum okkur heimsóttum við deildarskrifstofu viðkomandi lands, fórum á samkomur og tókum þátt í boðuninni. Þetta dýpkaði kærleika okkar til alþjóðasafnaðar Jehóva og styrkti jafnframt fjölskyldutengslin.
Fjölskylda okkar í heimsókn á aðalstöðvunum í Brooklyn í New York árið 2013.
Hvernig við varðveittum hollustu okkar í þjónustunni
Við veittum því athygli að það var mikið um spænskumælandi fólk í kringum okkur en þeim var ekki boðuð trúin skipulega. Þannig að þegar strákarnir voru enn mjög ungir spurðum við bróður Pierce hvað honum fyndist um það að við flyttum í spænskumælandi söfnuð. Hann glotti góðlátlega og svaraði: „Ef þú ert veiðimaður, ferðu þangað sem fiskurinn er.“ Við fylgdum þessari hvatningu og fluttum í spænskumælandi söfnuðinn í Woodburn í Oregon. Við nutum þeirrar gleði að hefja nokkur biblíunámskeið sem tóku góðum framförum og leiddu til skírnar. Og við sáum lítinn spænskumælandi hóp verða að söfnuði.
Þar kom að Wesley missti vinnuna og við þurftum að flytja til Kaliforníu vegna nýju vinnunnar hans. Tveim árum seinna ákváðum við Lemuel og Jadon að gerast brautryðjendur. Árið 2007 naut ég þeirrar gleði að sækja Brautryðjendaskólann með þeim. Skömmu eftir það tókum við eftir því að mikið var um arabískumælandi fólk á svæði okkar. Þannig atvikaðist það að eftir að hafa starfað í 13 ár á spænskum akri ákváðum við að fara í arabískan söfnuð. Við höfum notið þess að segja arabískumælandi innflytjendum á svæði okkar frá sannleikanum og líka að taka þátt í átaksverkefnum erlendis. Við erum enn þá brautryðjendur á arabíska svæðinu í San Diego í Kaliforníu.
Wesley er frábær eiginmaður og höfuð fjölskyldunnar. Hann ber djúpa virðingu fyrir söfnuði Jehóva. Hann hefur aldrei sagt neitt neikvætt um Betel né fyrirkomulag safnaðarins. Þess í stað finnur hann alltaf eitthvað jákvætt að segja. Hann biður með mér og fyrir mér og þegar við stöndum andspænis aðstæðum sem reyna á okkur hughreysta bænir hans mig og hjálpa mér að halda ró minni.
Þegar ég lít yfir farinn veg er mér ljóst að við höfum notið þess að þjóna í fullu starfi, ala upp drengina okkar og þjóna í söfnuðum þar sem þörfin er meiri. Við höfum séð að Jehóva blessar þá sem setja hann í fyrsta sætið og okkur hefur aldrei skort neitt. (Sálmur 37:25) Ég er sannfærð um að þegar ég kaus líf sem væri algerlega helgað Jehóva tók ég bestu ákvörðunina sem hægt var að taka. – Sálmur 84:10.
Með mér á myndinni, frá vinstri: Japheth, Lemuel, Jadon og Wesley.
a Bróðir Helge Linck þjónaði við deildarskrifstofuna í Kenía sem hafði umsjón með starfinu í Eþíópíu.
b Systkinum mínum var sleppt úr fangelsi eftir fjögur ár.
c Bróðir John Booth þjónaði í hinu stjórnandi ráði uns jarðnesku lífi hans lauk árið 1996.
d Bróðir Guy Pierce þjónaði síðar í hinu stjórnandi ráði uns jarðnesku lífi hans lauk árið 2014.