IRMA BENTIVOGLI | ÆVISAGA
Í þjónustu gjafara ‚sérhverrar góðrar gjafar‘
Hljóðið frá loftvarnarflautunni var ærandi. Mamma var með litla bróður minn í fanginu þegar hún greip í handlegginn á mér og fór með okkur í nálægan ávaxtagarð svo við gætum falið okkur í skjóli trjánna. Ég var bara sex ára gömul þegar þetta gerðist.
Þegar sprengjuhríðin hætti fór ég með mömmu að leita að bestu vinkonu hennar. Við urðum fyrir algjöru áfalli þegar við fréttum að hún hafði fallið í árásinni. Í næstu árás, sem átti sér stað aðeins fáum dögum seinna, greip pabbi mig, setti mig á þverslána á hjólinu sínu og hjólaði með mig eins hratt og hann gat frá borginni.
Seinni heimsstyrjöldin hafði geisað um alla Ítalíu og minningar mínar frá þessum tíma eru ljóslifandi. En það sem mótaði líf mitt allt frá barnæsku er að ég var innan um fólk sem þekkti Jehóva og elskaði hann innilega.
Sannleikurinn var stórkostleg gjöf
Veturinn 1936, aðeins nokkrum mánuðum áður en ég fæddist, vann pabbi með Vincenzo Artusi hjá járnbrautunum. Vincenzo var enn ekki skírður vottur en hann elskaði sannindi Biblíunnar. Meðan þeir voru að moka snjó af járnbrautareinunum sagði Vincenzo pabba frá því sem hann var að læra.
Pabbi áttaði sig strax á að þetta væri sannleikurinn. Hann ásamt fáeinum öðrum í bænum okkar, Faenza, vildu vita meira. Á þessum tíma, meðan á ofsóknum fasista stóð, gátu Vottar Jehóva ekki haldið samkomur og það eitt að eiga biblíutengd rit gat kostað handtöku. Sumir vottar voru í fangelsi. Þess vegna hittust pabbi minn og vinir hans í afskekktum húsum uppi í sveit til að lesa Biblíuna og rannsaka þau rit sem þeir höfðu undir höndum. Einu sinni í viku hóaði pabbi saman fjölskyldunni til að við gætum átt saman biblíunámskvöld.
Góðar fyrirmyndir eru gjöf
Árið 1943 var flestum vottum sem verið höfðu í fangelsi vegna trúar sinnar sleppt. Á meðal þeirra var einhleyp systir sem hét Maria Pizzato. Á leið sinni heim til Norður-Ítalíu gisti hún hjá okkur eina nótt. Hún hafði gengt lykilhlutverki í að hjálpa vottunum að fá rit og halda sambandi við deildarskrifstofuna í Sviss, sem hafði umsjón með boðuninni á Ítalíu á þessum tíma. Þrátt fyrir að Maria virtist veikburða var hún sterk og hugrökk kona. Eftir stríðið kom hún stundum til Faenza og heimsóknir hennar voru alltaf eftirminnilegir viðburðir.
Ég á líka hlýjar minningar um Albinu Cuminetti. Þegar ég var á unglingsaldri bjó þessi aldraða ekkja í húsinu þar sem samkomur okkar voru haldnar. Hún hafði verið farandbóksali (boðberi í fullu starfi) við upphaf þriðja áratugarins. Albina sagði mér margar heillandi frásögur af því þegar boðunin var að hefja göngu sína á Ítalíu.
Albina átti safn af ritum okkar og aðrar sögulegar minjar. Dag nokkurn sá ég nælu með krossi og kórónu sem Biblíunemendurnir (gamla heitið á Vottum Jehóva) báru áður fyrr. Ég vissi að krossinn var heiðinn að uppruna og gat því ekki varist því að flissa af undrun. Þá sagði Albina nokkuð sem ég gat aldrei gleymt. Hún endurorðaði Sakaría 4:10 og sagði: ‚Gerðu ekki lítið úr hinni smávægilegu byrjun.‘
Þegar ég var 14 ára.
Þessi orð reyndust mér áhrifamikill lærdómur. Þó að Biblíunemendur frá fyrri tíð hafi ekki haft fullan skilning á sannleikanum verðskulduðu þeir virðingu mína. Og vegna þess að rit okkar voru ekki öll fáanleg á ítölsku tók það trúsystkini okkar sinn tíma að tileinka sér breyttan skilning. Engu að síður kunni Jehóva að meta það sem þeir lögðu á sig og það ætti ég líka að gera.
Þrátt fyrir aldursmuninn naut ég þess að tala við Albinu. Hún ásamt Mariu og öðrum duglegum systrum sem þjónuðu Jehóva þrátt fyrir ótrúlegar hindranir urðu fyrirmyndir mínar. Ég er þakklát fyrir að hafa notið samveru með þeim.
Betelþjónusta er gjöf
Sumarið 1955 fór ég til Rómar til að vera viðstödd mótið „Guðsríki hrósar sigri“. Við það tækifæri heimsótti ég Betelheimilið ásamt mótsgestum frá ýmsum löndum. Þá hugsaði ég með mér: Hér væri yndislegt að þjóna Jehóva.
Ég lét skírast 18. desember 1955. Ég var enn í skóla en staðráðin í að hefja þjónustu í fullu starfi. Þegar ég var viðstödd mót í Genóa árið 1956 heyrði ég tilkynningu um að það vantaði sjálfboðaliða á Betel. En fulltrúi deildarskrifstofunnar tók fram að það væri ekki þörf fyrir systur.
Síðar ræddi ég við farandhirði okkar, Piero Gatti, um markmið mín.a Þessi kraftmikli boðberi sannleikans svaraði: „Ég mun mæla með þér sem sérbrautryðjanda.“
Þar kom að ég fékk bréf frá deildarskrifstofunni. Ég þóttist viss um að þetta væri verkefni sem brautryðjandi. En sú var ekki raunin. Þetta var boð um Betelþjónustu.
Með Ilariu Castiglioni (standandi) sem vann með mér við þýðingar á Betel árið 1959.
Ég hóf þjónustu mína á Betel í janúar 1958. Á þeim tíma voru ekki nema 12 manns í Betelfjölskyldunni. Verkefni mitt var að hjálpa tveim þýðendum við deildarskrifstofuna. Vinnan var mjög mikil og ég hafði enga reynslu í þýðingarstörfum. En með hjálp Jehóva fór mér að þykja mjög vænt um verkefni mitt.
En það voru ekki liðin tvö ár þegar þýðingarvinnan var endurskipulögð og mér var falið að þjóna sem brautryðjandi. Þetta kom mér í opna skjöldu vegna þess að þegar hér var komið sögu var Betel orðið heimili mitt. En þegar fram liðu stundir fór ég að líta á nýja verkefnið mitt sem aðra gjöf frá Jehóva.
Kappsamir starfsfélagar eru gjöf
Þann 1. september 1959 hóf ég sérbrautryðjandastarf í borginni Cremona. Starfsfélagi minn var Doris Meyer sem hafði flutt frá Danmörku. Hún var bara fáeinum árum eldri en ég, en var samt reyndur brautryðjandi og ég leit upp til hennar. Doris sýndi frumkvæði, hún var ekki hræðslugjörn og hún var líka ákveðin. Við þurftum báðar á þessum eiginleikum að halda til að boða trúna á svæðinu okkar, við vorum nefnilega einu vottarnir í borginni.
Ég lærði heilmikið af Doris (til vinstri) og Brunilde (til hægri) en þær voru brautryðjandafélagar mínir í Cremona.
Doris kom á undan mér til Cremona og hafði skipulagt samkomuhald í leiguíbúð. Kaþólsku prestarnir á staðnum urðu fljótlega varir við starfsemi okkar og voru bálreiðir. Þeir héldu þrumuræður á móti okkur í messum sínum.
Dag nokkurn vorum við boðaðar á lögreglustöðina. Lögregluþjónarnir settu okkur ekki í varðhald en gerðu okkur ljóst að Doris, sem væri útlendingur, þyrfti að yfirgefa Cremona. Hún fór að lokum aftur til Danmerkur þar sem hún hélt áfram að þjóna Jehóva trúfastlega.
Áður en langt um leið var önnur ógift systir, að nafni Brunilde Marchi, send til Cremona. Brunilde var mild og þægileg í viðmóti og hún elskaði boðunina. Við hófum mörg biblíunámskeið og sumir nemenda okkar tóku góðum framförum.
Ég þakka Jehóva fyrir að leyfa mér að eiga þátt í hinni smávægilegu byrjun boðunarinnar í Cremona. Núna eru fimm söfnuðir í þessari borg.
Óvænt ánægja
Ég hafði aðeins verið í Cremona í tæp tvö ár þegar ég fékk upphringingu frá deildarskrifstofunni. Það var mikil þörf fyrir þýðendur í sambandi við undirbúning sex daga móts, „Sameinuð í tilbeiðslu“, sem átti að halda árið 1961. Mér var því boðið að snúa aftur á Betel. Ég stökk bókstaflega upp af gleði. Þann 1. febrúar 1961 kom ég aftur á Betel.
Vinnudagarnir voru langir en það voru forréttindi að vera önnum kafin á hverjum degi við biblíutengt efni. Þessir mánuðir liðu mjög hratt og fyrr en varði kom að mótinu.
Á mótinu heyrði ég tilkynningu um að Nýheimsþýðing kristnu grísku ritninganna yrði þýdd á ítölsku. Ég hugsaði með mér: Þetta þýðir að mikil vinna er fram undan. Og sú var líka raunin. Bræðurnir sögðu mér að ég gæti verið á Betel enn um stund. Og hér er ég enn þá – meira en 60 árum síðar.
Á þýðingardeildinni árið 1965.
Aðrar dýrmætar gjafir frá Jehóva
Það hefur líka verið mér gjöf á lífsleiðinni að vera einhleyp. Ég á ekki við að ég hafi ekki hugleitt það að ganga í hjónaband. Ef satt skal segja olli tilhugsunin um að vera einhleyp mér kvíða á tímabili. Þá sneri ég mér til Jehóva. Hann þekkir mig betur en allir aðrir. Ég bað hann að hjálpa mér að átta mig á hvað væri mér sjálfri fyrir bestu.
Þá fengu ritningarstaðir eins og Matteus 19:11, 12 og 1. Korintubréf 7:8, 38 dýpri merkingu fyrir mér og ég þakkaði Jehóva fyrir það hversu skýrt þetta var og líka fyrir friðinn sem hann gaf mér. Ég hef aldrei séð eftir ákvörðun minni og er þakklát fyrir að hafa getað notað einhleypið til að gefa Jehóva mitt besta.
Ég hef upplifað margar breytingar á starfsemi þýðingardeildarinnar í gegnum árin. Söfnuður Jehóva hefur verið framsækinn í notkun nýrrar tækni og nýtt sér þannig „mjólk þjóðanna“ með ýmsum hætti. (Jesaja 60:16) Þessar breytingar hafa styrkt eininguna í alþjóðlegu bræðralagi okkar. Árið 1985 byrjaði Varðturninn til dæmis að koma úr á ítölsku á sama tíma og enska útgáfan. Núna birtast greinar og myndbönd á mörgum tungumálum á jw.org og oftast nær samtímis ensku útgáfunni. Það er augljóst að Jehóva sér til þess að fólk hans er sameinað og fær tímabæra andlega fæðu.
Jehóva hefur verið mjög örlátur við mig. Hann gerði mér kleift að njóta ávaxtaríkrar þjónustu sem sérbrautryðjandi. Hann uppfyllti löngun mína að þjóna á Betel, þar sem ég hef eignast vini á öllum aldri sem eru mjög ólíkir. Svo veittist mér einstök blessun þegar móðir mín lét skírast þegar hún var orðin 68 ára gömul. Ég þrái að hitta hana og aðra í fjölskyldunni þegar þeir sem eru í minningargröfunum verða reistir upp. – Jóhannes 5:28, 29
Ég hlakka svo til að sjá hvað Jehóva á eftir að gera fyrir þjóna sína í framtíðinni þegar hann ‚gerir alla hluti nýja‘. (Opinberunarbókin 21:5) Þetta er ég alveg viss um: Jehóva mun aldrei hætta að gefa okkur ‚sérhverja góða og fullkomna gjöf‘ af örlæti. – Jakobsbréfið 1:17.
Í vinnunni á þýðingardeildinni um þessar mundir.
a Ævisaga Piero Gattis birtist í Varðturninum þann 15. júlí 2011 á bls. 20–23.