Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Heimiliserjur – hvað veldur þeim?
    Vaknið! – 2016 | Nr. 1
    • Örvæntingarfull börn heyra foreldra sína rífast.

      FORSÍÐUEFNI | VARÐVEITUM FRIÐINN Á HEIMILINU

      Heimiliserjur – hvað veldur þeim?

      „VIÐ rífumst vanalega út af fjármálunum,“ segir Saraha sem er frá Gana og hefur verið gift Jacob í 17 ár. Hún segir: „Ég verð reið vegna þess að Jacob talar aldrei við mig um fjármálin þó að ég leggi mitt af mörkum til heimilisins. Það veldur því að við tölumst ekki við svo vikum skiptir.“

      „Stundum tölum við reiðilega hvort til annars,“ samsinnir Jacob. „Það gerist yfirleitt vegna þess að við misskiljum hvort annað eða tölum ekki almennilega saman. Okkur greinir líka stundum á af því að við gerum of mikið úr hlutunum.“

      Nathan, sem er nýgiftur og býr á Indlandi, lýsir því sem gerðist dag einn þegar tengdafaðir hans öskraði á konuna sína. „Tengdamóðir mín móðgaðist og rauk út,“ segir hann. „Þegar ég spurði hann hvers vegna hann hefði öskrað svona á hana fannst honum ég vera að tala niður til sín. Áður en ég vissi af var hann farinn að öskra á okkur öll.“

      Þú hefur sennilega tekið eftir að óheppileg orð á röngum tíma geta valdið miklum erjum á heimilinu. Eðlilegar rökræður geta fljótt snúist upp í hörkurifrildi. Engum tekst að hafa svo fulla stjórn á tali sínu að hann segi aldrei neitt sem aðrir geta misskilið eða mistúlkað. Engu að síður er mögulegt að njóta friðar og einingar á heimilinu.

      Hvað er til ráða þegar hörkurifrildi er í uppsiglingu? Hvað geturðu gert til að koma aftur á friði og ró á heimilinu? Hvernig geta fjölskyldur viðhaldið friði á heimilinu? Næstu greinar fjalla um það.

      a Sumum nöfnum í þessum greinum er breytt.

  • Að stöðva erjur á heimilinu
    Vaknið! – 2016 | Nr. 1
    • Eiginmaður hlustar á konuna sína tjá sig þar sem þau sitja saman.

      FORSÍÐUEFNI | VARÐVEITUM FRIÐINN Á HEIMILINU

      Að stöðva erjur á heimilinu

      HVAÐ er til ráða ef fjölskyldan virðist stöðugt vera að rífast? Kannski er ósættið tíðara og verra en áður. Þú veist jafnvel ekki lengur hvers vegna deilurnar byrjuðu. En samt elskið þið hvert annað og viljið ekki særa hvert annað.

      Mikilvægt er að muna að þó að þið séuð ekki alltaf á sama máli þarf fjölskyldan ekki að vera að liðast í sundur. Ágreiningurinn sjálfur sker ekki úr um hvort heimilislífið er friðsælt eða fjandsamlegt heldur hvernig þið leysið hann. Skoðum nokkur ráð sem geta stuðlað að friði á heimilinu.

      1. SVARAÐU EKKI Í SÖMU MYNT.

      Það þarf að minnsta kosti tvo til að deila. En ef annar hættir og fer að hlusta á hinn getur deilan hjaðnað. Reyndu því að svara ekki í sömu mynt þegar þú reiðist. Haltu sjálfsvirðingunni með því að hafa stjórn á skapinu. Hafðu í huga að það er mikilvægara að varðveita friðinn heimilinu en að eiga síðasta orðið.

      „Þegar eldsneytið þrýtur slokknar eldurinn og þegar enginn er rógberinn stöðvast deilurnar.“ – Orðskviðirnir 26:20.

      2. VIRTU TILFINNINGAR ANNARRA Í FJÖLSKYLDUNNI.

      Ef þú hlustar vel og af hluttekningu án þess að grípa fram í eða dæma of snemma, eru meiri líkur á að reiðin hjaðni og að þið varðveitið friðinn. Í stað þess að væna hinn um illar hvatir skaltu virða tilfinningar hans. Ekki gera ráð fyrir að særandi orð séu sögð af illgirni. Við erum öll ófullkomin og segjum stundum særandi orð í hugsunarleysi eða vegna þess að við erum særð. Illgirni eða hefnigirni þarf ekki að liggja að baki.

      „Íklæðist ... hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ – Kólossubréfið 3:12.

      3. GEFÐU ÞÉR TÍMA TIL AÐ RÓA ÞIG NIÐUR.

      Ef þú ert í uppnámi getur verið skynsamlegt að fara afsíðis í smástund til að róa þig niður. Þú gætir til dæmis farið inn í annað herbergi eða í stuttan göngutúr til að ná tökum á tilfinningunum. Það þýðir ekki að þú viljir ekki ræða málin, sért ósamvinnufús eða neitir að hlusta. Þetta gæti verið góður tími til að biðja Guð um að gefa þér þolinmæði, visku og skilning.

      „Lát því af þrætunni, áður en rifrildi hefst.“ – Orðskviðirnir 17:14, Biblían 1981.

      4. HUGLEIDDU VANDLEGA HVAÐ ÞÚ ÞARFT AÐ SEGJA OG HVERNIG BEST SÉ AÐ SEGJA ÞAÐ.

      Það bætir ekki ástandið ef þú velur illkvittin orð sem særa. Reyndu frekar að segja eitthvað sem róar ástvin þinn. Biddu hann að útskýra fyrir þér hvernig honum líður í stað þess að reyna að ráðskast með hvernig honum ætti að líða. Vertu auðmjúkur og sýndu að þú kunnir að meta að ástvinur þinn treystir þér.

      „Vanhugsuð orð eru sem sverðalög en tunga hins vitra græðir.“ – Orðskviðirnir 12:18.

      5. FORÐASTU AÐ HÆKKA RÖDDINA OG TALAÐU Í FRIÐSAMLEGUM TÓN.

      Óþolinmæði þín getur auðveldlega reitt aðra á heimilinu til reiði. Gerðu þitt besta til að hljóma ekki kaldhæðinn, nota móðgandi orð eða hækka röddina, sama hversu særður þú ert. Forðastu særandi athugasemdir eins og: „Þér er alveg sama um mig“ eða „þú hlustar aldrei á mig“. Segðu maka þínum þess í stað rólega frá því hvaða áhrif orð hans eða hegðun hafa á þig, til dæmis með því að segja: „Það særir mig þegar þú ...“ Það er aldrei afsakanlegt að hrinda, lemja, sparka eða beita ofbeldi á nokkurn hátt. Það sama gildir um að kalla maka þinn illum nöfnum, koma með niðrandi athugasemdir eða hafa í hótunum.

      „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt.“ – Efesusbréfið 4:31.

      6. VERTU FLJÓTUR TIL AÐ BIÐJAST AFSÖKUNAR OG SEGÐU HVAÐ ÞÚ ÆTLAR AÐ GERA TIL AÐ BÆTA ÁSTANDIÐ.

      Láttu ekki neikvæðar tilfinningar verða til þess að þú missir sjónar á markmiðinu – að varðveita friðinn á heimilinu. Mundu að ef þú rífst við einhvern vinnur hvorugur en ef þú varðveitir friðinn vinna báðir. Taktu því ábyrgð á þínum hlut í deilunni. Jafnvel þótt þú sért viss um að þú hafir ekki gert neitt rangt geturðu beðist afsökunar á að hafa reiðst, brugðist illa við eða óviljandi stuðlað að ósættinu. Friður á heimilinu er mikilvægari en stolt þitt eða sigur í deilu. Og ef þú ert beðinn afsökunar skaltu vera fljótur til að fyrirgefa.

      „Keppum þess vegna eftir því sem til friðar heyrir.“ – Rómverjabréfið 14:19.

      Hvernig geturðu stuðlað að friði í fjölskyldunni þegar ósættinu linnir? Um það er rætt í næstu grein.

  • Hvernig geturðu stuðlað að friði í fjölskyldunni?
    Vaknið! – 2016 | Nr. 1
    • FORSÍÐUEFNI | VARÐVEITUM FRIÐINN Á HEIMILINU

      Hvernig geturðu stuðlað að friði í fjölskyldunni?

      HELDUR þú að hægt sé að stuðla að friði á heimilinu með því að fara eftir ráðum Biblíunnar? Lestu eftirfarandi ráð hennar og berðu þau saman við það sem hjálpað hefur viðmælendum blaðsins. Hugleiddu hvaða ráð geta hjálpað þér að forðast deilur, varðveita friðinn og styrkja hjónabandið.

      BIBLÍULEG RÁÐ SEM STUÐLA AÐ FRIÐI

      VERIÐ JÁKVÆÐ Í GARÐ HVORT ANNARS.

      Fjölskylda notar tíma saman á ströndinni.

      „Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ – Filippíbréfið 2:3, 4.

      „Það hefur reynst okkur vel að taka makann fram yfir sjálfan sig og aðra.“ – C. P., gift í 19 ár.

      HLUSTAÐU AF ATHYGLI OG MEÐ OPNUM HUGA.

      „Minn þau á að ... vera friðsöm, sanngjörn og sýna öllum mönnum vinsemd.“ – Títusarbréfið 3:1, 2.

      „Koma má í veg fyrir spennu með því að svara ekki makanum í nöldursömum tón. Það er mikilvægt að hlusta án þess að dæma fyrirfram og virða sjónarmið hans, jafnvel þó að þið séuð ekki sammála.“ – P. P., gift í 20 ár.

      RÆKTAÐU MEÐ ÞÉR ÞOLINMÆÐI OG MILDI.

      „Með þolinmæði má telja höfðingja hughvarf, mjúk tunga mylur bein.“ – Orðskviðirnir 25:15.

      „Öllum hjónum greinir á af og til en afleiðingarnar ráðast af því hvernig við bregðumst við. Það er nauðsynlegt að sýna þolinmæði. Þegar við gerum það leysast málin yfirleitt farsællega.“ – G. A., gift í 27 ár.

      GRÍPTU ALDREI TIL ANDLEGS EÐA LÍKAMLEGS OFBELDIS.

      „Nú skuluð þið segja skilið við allt þetta: reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.“ – Kólossubréfið 3:8.

      „Ég dáist af sjálfsstjórn mannsins míns. Hann heldur alltaf ró sinni og brýnir aldrei raustina við mig eða talar niðrandi til mín.“ – B. D., gift í 20 ár.

      VERTU FÚS TIL AÐ FYRIRGEFA OG ÚTKLJÁÐU DEILUR FLJÓTT.

      „Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum.“ – Kólossubréfið 3:13.

      „Það er ekki alltaf auðvelt að halda rónni undir álagi og þú gætir sagt eða gert eitthvað sem særir makann. Við þannig kringumstæður er aðdáunarvert að fyrirgefa. Það er ekki hægt að eiga gott hjónaband ef hjónin eru ekki fús til að fyrirgefa hvort öðru.“ – A. B., gift í 34 ár.

      TEMDU ÞÉR ÓEIGINGIRNI OG GJAFMILDI.

      „Gefið og yður mun gefið verða ... Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ – Lúkas 6:38.

      „Eiginmaður minn veit hvað gleður mig og hann kemur mér sífellt á óvart. Ég hugsa líka oft um hvernig ég geti glatt hann á móti. Þess vegna höfum við hlegið mikið saman og gerum enn.“ – H. K., gift í 44 ár.

      HALTU ÁFRAM AÐ STUÐLA AÐ FRIÐI Á HEIMILINU

      Milljónir manna um allan heim hafa notfært sér ráð Biblíunnar til að rækta með sér góða eiginleika sem stuðla að friðsælla fjölskyldulífi.a Viðmælendur Vaknið! eru aðeins örfá dæmi um það. Jafnvel þótt sumir á heimilinu virðast ekki leggja sig fram um að fylgja þessum ráðum hafa viðmælendur okkar komist að raun um að það sé þess virði að halda áfram að stuðla að friði vegna þess að Biblían lofar: „Sá gleðst sem stuðlar að friði.“ – Orðskviðirnir 12:20.

      a Nánari upplýsingar um hvernig hægt sé að gera fjölskyldulífið hamingjuríkt er að finna í 14. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Hún er gefin út af Vottum Jehóva og er fáanleg á www.jw.org/is. Sjá einnig BIBLÍAN OG LÍFIÐ > GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila