-
Að temja sér góðar venjurVaknið! – 2016 | Nr. 4
-
-
FORSÍÐUEFNI
Að temja sér góðar venjur
AUSTIN er þreyttur þegar vekjaraklukkan hringir. Hann fer samt strax fram úr, klæðir sig í æfingafötin sem hann tók til kvöldið áður og fer út að skokka. Þetta hefur hann gert þrisvar í viku í heilt ár.
Laurie var að rífast við manninn sinn. Reið og pirruð strunsar hún fram í eldhús, grípur poka af súkkulaði og hámar í sig alla bitana. Þetta er hún vön að gera í hvert sinn sem hún kemst í uppnám.
Hvað eiga Austin og Laurie sameiginlegt? Hvort sem þau gera sér grein fyrir því eða ekki gera þau hlutina af gömlum vana. Og það er erfitt að leggja af rótgróinn vana.
Hvað með þig? Langar þig til að koma þér upp einhverjum góðum venjum eins og til dæmis að hreyfa þig reglulega, fá meiri svefn eða hafa meira samband við vini og ættingja?
Eða langar þig til að leggja af slæman ávana, eins og að reykja, borða of mikið ruslfæði eða eyða óhóflegum tíma á Netinu?
Að vísu getur verið hægara sagt en gert að leggja af slæman ávana. Rétt eins og það er freistandi að skríða aftur upp í hlýtt rúmið á köldum degi er mun auðveldara að temja sér slæman ávana en að losa sig við hann.
Hvernig er hægt að temja sér venjur sem koma manni að gagni í stað ávana sem eru manni til ills? Skoðaðu eftirfarandi þrjár tillögur sem eru byggðar á ráðum Biblíunnar.
-
-
1 Settu þér raunhæf markmiðVaknið! – 2016 | Nr. 4
-
-
FORSÍÐUEFNI | AD TEMJA SÉR GÓÐAR VENJUR
1 Settu þér raunhæf markmið
Það getur verið freistandi að reyna að breyta öllu á einu bretti. Þú segir kannski við sjálfan þig: „Í þessari viku ætla ég að hætta að reykja, blóta og vaka fram eftir. Og ég ætla að byrja að hreyfa mig, borða hollari mat og vera duglegri að hringja í ömmu og afa.“ En að reyna að ná öllum markmiðum sínum samtímis er öruggasta leiðin til að ná engum þeirra.
RÁÐLEGGING BIBLÍUNNAR: „Hjá hinum hógværu er viska.“ – Orðskviðirnir 11:2.
Sá sem er hógvær er raunsær og gerir sér grein fyrir að hann hefur takmarkaðan tíma, krafta og fjármuni. Hann reynir því að breyta því sem þarf smám saman.
Að reyna að ná öllum markmiðum sínum samtímis er öruggasta leiðin til að ná engum þeirra.
ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT
Einbeittu þér að einhverju einu eða tvennu í einu sem þú ætlar að breyta. Eftirfarandi ráð geta hjálpað:
Búðu til tvo lista, annan yfir góðar venjur sem þú vilt temja þér og hinn yfir slæma ávana sem þú þarft að losa þig við. Skrifaðu allt sem þér dettur í hug á þessa lista.
Forgangsraðaðu því sem er á listunum eftir því hvað þér finnst mikilvægast.
Veldu fáein atriði af hvorum lista fyrir sig – jafnvel bara eitt eða tvö – og einbeittu þér að þeim. Síðan geturðu snúið þér að því sem er næst á listunum.
Þú getur tekið hraðari framförum með því að temja þér góða venju um leið og þú losar þig við slæman ávana. Segjum til dæmis að þú hafir skrifað á listann yfir slæma ávana að þú horfir of mikið á sjónvarp og á listann yfir góðar venjur að þú viljir hafa meira samband við vini og ættingja. Þá gætirðu haft samband við vin eða ættingja og spjallað við hann þegar þú kemur heim úr vinnunni í stað þess að kveikja strax á sjónvarpinu.
-
-
2 Skapaðu þér góðar aðstæðurVaknið! – 2016 | Nr. 4
-
-
FORSÍÐUEFNI | AD TEMJA SÉR GÓÐAR VENJUR
2 Skapaðu þér góðar aðstæður
Þú hefur ákveðið að taka á mataræðinu en ísinn í frystinum er bara allt of freistandi.
Þú ert búinn að ákveða að hætta að reykja en vinur þinn býður þér sígarettu eina ferðina enn – þó að hann viti að þú ert að reyna að hætta.
Þú ætlaðir í ræktina í dag en íþróttaskórnir eru einhvers staðar inni í skáp og það er allt of mikil fyrirhöfn að finna þá.
Sérðu eitthvað sameiginlegt með þessum dæmum? Reynslan hefur margoft sýnt að umhverfi okkar – þær aðstæður sem við komum okkur sjálf í og það fólk sem við umgöngumst – hefur áhrif á það hvernig okkur tekst að temja okkur góðar venjur eða losa okkur við slæma ávana.
RÁÐLEGGING BIBLÍUNNAR: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ – Orðskviðirnir 22:3.
Í Biblíunni erum við hvött til að hugsa fram í tímann. Þannig getum við varað okkur á aðstæðum sem myndu hindra okkur í að ná markmiðum okkar og reynt að skapa okkur betri aðstæður. (2. Tímóteusarbréf 2:22) Það er viturlegt að gera það.
Gerðu þér erfiðara fyrir að falla í freistni og auðveldara að ná markmiðum þínum.
ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT
Gerðu þér erfiðara fyrir að falla í freistni. Forðastu til dæmis að eiga mat heima sem þú ættir að varast ef þú ætlar að venja þig af að borða ruslfæði. Þá þarftu að hafa meira fyrir því að láta undan freistingu.
Gerðu þér auðveldara að ná markmiðum þínum. Settu til dæmis æfingafötin við hliðina á rúminu þínu á kvöldin ef þú ætlar að byrja daginn á hreyfingu. Því auðveldara sem það er að byrja, því líklegra er að þér takist það.
Vandaðu valið á vinum. Við höfum tilhneigingu til að líkja eftir þeim sem við umgöngumst. (1. Korintubréf 15:33) Takmarkaðu því sambandið við þá sem ýta undir það sem þú ert að reyna að venja þig af og sæktu í félagsskap þeirra sem styrkja þig í að fylgja góðum venjum.
-
-
3 Gefstu ekki auðveldlega uppVaknið! – 2016 | Nr. 4
-
-
FORSÍÐUEFNI | AD TEMJA SÉR GÓÐAR VENJUR
3 Gefstu ekki auðveldlega upp
Almennt er talið að það taki fólk þrjár vikur að temja sér nýja venju. En rannsóknir hafa sýnt að fólk er mislengi að gera breytingar á venjum sínum – sumir eru fljótir að því en það tekur aðra mun lengri tíma. Ætti það að draga úr þér kjarkinn?
Hugsaðu þér eftirfarandi aðstæður: Þig langar að koma því upp í vana að hreyfa þig þrisvar í viku.
Fyrstu vikuna tekst þér það.
Aðra vikuna missirðu úr einn dag.
Þriðju vikuna nærðu að halda áætlun.
Fjórðu vikuna rétt nærðu einu skipti.
Fimmtu vikuna nærðu aftur að halda áætlun og þaðan í frá er það komið upp í vana.
Það tók þig fimm vikur að koma á nýrri venju. Það virðist kannski vera langur tími en þegar þú hefur náð markmiðinu geturðu glaðst yfir að hafa tamið þér góða venju.
RÁÐLEGGING BIBLÍUNNAR: „Sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur upp aftur.“ – Orðskviðirnir 24:16.
Biblían hvetur okkur til að gefast ekki auðveldlega upp. Til lengri tíma litið skiptir ekki mestu máli hversu oft maður fellur heldur hversu oft maður stendur upp aftur.
Til lengri tíma litið skiptir ekki mestu máli hversu oft maður fellur heldur hversu oft maður stendur upp aftur.
ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT
Hugsaðu ekki að þú eigir þér ekki viðreisnar von ef þú fellur. Gerðu heldur ráð fyrir bakslagi inn á milli á meðan þú ert að vinna að markmiði þínu.
Hugsaðu um þau skipti sem þér tókst vel til. Ef þú ert til dæmis að reyna að bæta samskiptin við börnin þín skaltu spyrja þig: „Hvenær langaði mig síðast til að öskra á krakkana en tókst að halda aftur af mér? Hvað gerði ég í staðinn? Hvernig get ég endurtekið það?“ Slíkar spurningar geta hjálpað þér að komast aftur á rétt spor í stað þess að einblína á mistökin.
Langar þig að vita hvernig ráðleggingar Biblíunnar geta hjálpað á fleiri sviðum lífsins, eins og til dæmis að takast á við kvíða, gera fjölskyldulífið ánægjulegra eða finna sanna hamingju? Talaðu þá við einhvern af vottum Jehóva eða farðu inn á vefsíðu okkar jw.org/is.
-