Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w97 1.7. bls. 21-26
  • Jehóva — Guð sem opinberar leynda hluti

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jehóva — Guð sem opinberar leynda hluti
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Alvaldur en ástríkur
  • Tilhlýðileg virðing fyrir þeim sem Jehóva notar
  • Hreinskilni eða leynd
  • Að segja eða segja ekki?
  • Leyndardómur sem kristnir menn voga sér ekki að þegja yfir!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • ‚Viska Guðs sem er hulin í heilögum leyndardómi‘
    Nálgastu Jehóva
  • Höggormurinn afhjúpaður
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Gættu þín á óvini þínum, djöflinum!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
w97 1.7. bls. 21-26

Jehóva — Guð sem opinberar leynda hluti

„Sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti.“ — DANÍEL 2:28.

1, 2. (a) Að hvaða leyti er Jehóva ólíkur erkióvini sínum? (b) Hvernig endurspegla menn þennan mismun?

JEHÓVA, hinn æðsti og elskuríki Guð alheimsins, hinn eini og einasti skapari, er Guð visku og réttvísi. Hann þarf ekki að leyna því hver hann er, hvað hann gerir eða hvað hann ætlast fyrir. Og hann opinberar sig þegar hann álítur rétt og tímabært. Að þessu leyti er hann ólíkur óvini sínum, Satan djöflinum, sem reynir að leyna því hver hann sé í raun og veru og hvað hann hyggist fyrir.

2 Dýrkendur Jehóva og Satans eru jafnólíkir og þeir eru ólíkir. Tvöfeldni og svik einkenna þá sem láta Satan leiða sig. Þeir reyna að sýnast góðir en vinna verk myrkursins. Kristnum mönnum í Korintu var sagt að undrast þetta ekki. „Því að slíkir menn eru falspostular, svikulir verkamenn, er taka á sig mynd postula Krists. Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd.“ (2. Korintubréf 11:13, 14) Kristnir menn fylgja aftur á móti Kristi sem leiðtoga. Meðan hann var á jörðinni endurspeglaði hann fullkomlega persónuleika föður síns, Jehóva Guðs. (Hebreabréfið 1:1-3) Með því að fylgja Kristi eru kristnir menn því að líkja eftir Jehóva, Guði sannleikans, hreinskilninnar og ljóssins. Þeir þurfa ekki heldur að fela hverjir þeir séu, hvað þeir geri eða hvað þeir ætlist fyrir. — Efesusbréfið 4:17-19; 5:1, 2.

3. Hvernig getum við hrakið þá ásökun að fólk, sem gerist vottar Jehóva, sé þvingað til að ganga í „leynilegan sértrúarsöfnuð“?

3 Jehóva upplýsir menn um ýmislegt sem þeir hafa ekki vitað áður um fyrirætlanir hans og framtíðina, þegar hann veit að það kemur sér best. Í þeim skilningi er hann Guð sem opinberar leynda hluti. Fólki sem vill þjóna honum er því boðið — og reyndar er það hvatt — til að kynna sér það sem hann hefur opinberað. Könnun sem gerð var árið 1994 og náði til 145.000 votta í einu Evrópuríki, leiddi í ljós að til jafnaðar hafði hver og einn kynnt sér kenningar votta Jehóva persónulega í þrjú ár áður en hann ákvað að gerast vottur. Þeir tóku þessa ákvörðun af frjálsum vilja án þvingunar. Og þeir héldu áfram að hafa frjálsan vilja og athafnafrelsi. Fáeinir urðu til dæmis ósammála hinum háu siðferðisstöðlum kristinna manna og ákváðu síðar að þeir vildu ekki halda áfram að vera vottar. En það er athyglisvert að síðastliðin fimm ár hefur stór hluti þessara fyrrverandi votta gert ráðstafanir til að taka aftur upp samband við söfnuðinn og starfa með honum.

4. Hverju þurfa trúfastir kristnir menn ekki að hafa áhyggjur af og hvers vegna?

4 Það snúa auðvitað ekki allir fyrrverandi vottar aftur, og í þeirra hópi eru menn sem gegndu einu sinni ábyrgðarstöðum innan kristna safnaðarins. Það ætti ekki að koma á óvart því að jafnvel einn af nánustu fylgjendum Jesú, postulinn Júdas, sneri baki við honum. (Matteus 26:14-16, 20-25) En er það tilefni til að hafa áhyggjur af kristninni sjálfri? Ógildir það árangurinn af fræðslustarfi votta Jehóva? Engan veginn, ekkert frekar en sviksemi Júdasar Ískaríots stöðvaði framgang fyrirætlana Guðs.

Alvaldur en ástríkur

5. Hvernig vitum við að Jehóva og Jesús elska mennina, og hvernig hafa þeir sýnt þennan kærleika?

5 Jehóva er Guð kærleikans. Honum er annt um fólk. (1. Jóhannesarbréf 4:7-11) Þrátt fyrir háa stöðu sína hefur hann yndi af því að vingast við menn. Við lesum um einn af þjónum hans til forna: „‚Abraham trúði [Jehóva], og það var honum til réttlætis reiknað,‘ og hann var kallaður . . . vinur [Jehóva].“ (Jakobsbréfið 2:23; 2. Kroníkubók 20:7; Jesaja 41:8) Jehóva segir vinum sínum frá trúnaðarmálum eða leyndarmálum alveg eins og menn segja vinum sínum. Jesús líkti eftir föður sínum að þessu leyti, því hann var vinur lærisveina sinna og sagði þeim ýmis leyndarmál. „Ég kalla yður ekki framar þjóna,“ sagði hann þeim, „því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.“ (Jóhannes 15:15) Trúnaðarupplýsingarnar eða ‚leyndu hlutirnir,‘ sem Jehóva, sonur hans og vinir þeirra eiga sameiginlega, sameinar þá órjúfanlegu kærleiks- og hollustubandi. — Kólossubréfið 3:14.

6. Af hverju þarf Jehóva ekki að fela hvað hann hyggist fyrir?

6 Merking nafnsins Jehóva, „hann lætur verða,“ gefur til kynna að hann geti orðið hvaðeina sem þarf til að hrinda tilgangi sínum í framkvæmd. Ólíkt mönnum þarf Jehóva ekki að fela hvað hann hyggist fyrir af ótta við að aðrir geti hindrað hann í að framkvæma það. Hann getur einfaldlega ekki brugðist, þannig að hann opinberar í orði sínu, Biblíunni, margt af því sem hann ætlar að gera. Hann lofar: „Mitt orð, . . . það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ — Jesaja 55:11.

7. (a) Hvað sagði Jehóva fyrir í Eden og hvernig sannaði Satan að Jehóva færi með rétt mál? (b) Hvernig gildir meginreglan í 2. Korintubréfi 13:8 alltaf?

7 Skömmu eftir uppreisnina í Eden opinberaði Jehóva ágrip af því hvernig hinni langvinnu deilu milli hans og óvinar hans, Satans, myndi lykta. Guð lofaði sæði sem yrði marið illa en ekki til dauða, en Satan yrði að lokum marinn til bana. (1. Mósebók 3:15) Árið 33 marði djöfullinn sæðið, Krist Jesú, með því að valda dauða hans. Þannig uppfyllti Satan Ritninguna og sannaði um leið að Jehóva sé Guð sannleikans, enda þótt hann hafi vissulega ekki ætlað sér það. Hatur hans á sannleika og réttlæti, svo og dramb hans og iðrunarleysi, kom honum til að gera einmitt það sem Guð sagði fyrir að hann myndi gera. Já, sú meginregla gildir um alla andstæðinga sannleikans, meira að segja Satan, að „ekki megnum vér neitt gegn sannleikanum, heldur fyrir sannleikann.“ — 2. Korintubréf 13:8.

8, 9. (a) Hvað veit Satan, en stofnar þessi vitneskja tilgangi Jehóva í hættu? (b) Hvaða skýrri viðvörun sinna andstæðingar Jehóva ekki og af hverju?

8 Síðan ríki Guðs var stofnsett ósýnilega árið 1914 hefur Opinberunarbókin 12:12 verið í fullu gildi: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ En kemur vitneskja Satans um að hann hafi nauman tíma honum til að breyta um stefnu? Með því væri hann að viðurkenna að Jehóva sé Guð sannleikans og sé sem æðsti valdhafi einn þess verður að fá tilbeiðslu. En djöfullinn er ekki fús til að játa ósigur, ekki einu sinni þótt hann viti þetta.

9 Jehóva opinberar afdráttarlaust hvað gerist þegar Kristur kemur til að fella dóm yfir heimskerfi Satans. (Matteus 24:29-31; 25:31-46) Orð hans boðar um valdhafa heimsins: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu.“ (1. Þessaloníkubréf 5:3) Þeir sem láta Satan leiða sig virða þessa skýru viðvörun að vettugi. Þeir eru blindaðir vegna illsku hjarta síns, og það kemur í veg fyrir að þeir iðrist illrar stefnu sinnar og breyti aðferðum sínum og áætlunum sem eiga að ónýta tilgang Jehóva.

10. (a) Að hvaða marki kann 1. Þessaloníkubréf 5:3 að hafa uppfyllst en hvernig ætti fólk Jehóva að bregðast við? (b) Af hverju geta trúlausir menn gerst djarfari í framtíðinni í andstöðu sinni gegn fólki Guðs?

10 Mikið hefur verið talað um frið og öryggi í heiminum, einkum frá alþjóðlegu friðarári Sameinuðu þjóðanna árið 1986. Gerðar hafa verið ákveðnar ráðstafanir í þeim tilgangi að tryggja heimsfrið, að því er virðist með nokkrum árangri. Er þetta fullnaðaruppfylling spádómsins eða getum við búist við einhverri óvæntri yfirlýsingu í framtíðinni? Jehóva skýrir það þegar þar að kemur. En við skulum halda andlegri vöku okkar ‚meðan við bíðum og höfum stöðugt í huga návist dags Jehóva.‘ (2. Pétursbréf 3:12, NW) Er fram líða stundir og enn meira er talað um frið og öryggi getur svo farið að sumir, sem vita af þessari viðvörun en kjósa að virða hana að vettugi, verði enn vissari í sinni sök að Jehóva muni ekki eða geti ekki staðið við orð sitt. (Samanber Prédikarann 8:11-13; 2. Pétursbréf 3:3, 4.) En sannkristnir menn vita að Jehóva mun hrinda fyrirætlunum sínum í framkvæmd!

Tilhlýðileg virðing fyrir þeim sem Jehóva notar

11. Hverju kynntust Daníel og Jósef í sambandi við Jehóva?

11 Nebúkadnesar konung, stjórnanda nýbabýlonska heimsveldisins, dreymdi draum sem gerði honum órótt. En hann gat ekki munað drauminn svo að hann kallaði á hjálp. Prestar hans, spásagnamenn og særingamenn gátu ekki heldur sagt honum hver draumurinn væri né hvað hann merkti. Þjónn Guðs, Daníel, gat hins vegar gert það, enda þótt hann viðurkenndi fúslega að það væri ekki visku sjálfs hans að þakka að hann gæti endursagt drauminn og opinberað merkingu hans. Daníel sagði: „Sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti, og hann hefir kunngjört Nebúkadnesar konungi það, er verða mun á hinum síðustu dögum.“ (Daníel 2:1-30) Nokkrum öldum áður hafði Jósef, annar spámaður Jehóva, einnig fengið að reyna að Jehóva sé Guð sem opinberar leynda hluti. — 1. Mósebók 40:8-22; Amos 3:7, 8.

12, 13. (a) Hver var mesti spámaður Guðs og af hverju segir þú það? (b) Hverjir þjóna núna sem „ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs“ og hvernig ættum við að líta á þá?

12 Jesús var mesti spámaður Jehóva á jörðinni. (Postulasagan 3:19-24) Páll útskýrði: „Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna. En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört.“ — Hebreabréfið 1:1, 2.

13 Jehóva talaði til frumkristinna manna fyrir milligöngu sonar síns, Jesú, sem kunngerði þeim leynda hluti. Jesús sagði þeim: „Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis.“ (Lúkas 8:10) Páll talaði síðar um smurða kristna menn sem „þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.“ (1. Korintubréf 4:1) Smurðir kristnir menn þjóna sem slíkir enn þann dag í dag. Þeir mynda trúan og hygginn þjónshóp sem miðlar andlegri fæðu á réttum tíma fyrir atbeina hins stjórnandi ráðs. (Matteus 24:45-47) Ef við berum djúpa virðingu fyrir innblásnum spámönnum Guðs forðum, sérstaklega syni hans, ættum við þá ekki líka að virða þá menn sem hann notar núna til að opinbera biblíulegar upplýsingar sem eru svo nauðsynlegar fólki á þessum erfiðu tímum? — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13.

Hreinskilni eða leynd

14. Hvenær starfa kristnir menn með leynd og fordæmi hvers eru þeir þá að fylgja?

14 Merkir hreinskilni Jehóva í að opinbera leynda hluti að kristnir menn ættu alltaf og undir öllum kringumstæðum að segja frá öllu sem þeir vita? Kristnir menn fylgja ráðleggingu Jesú til postula sinna um að vera „kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur.“ (Matteus 10:16) Ef kristnum mönnum er bannað að tilbiðja Guð eins og samviska þeirra heimtar, þá halda þeir áfram að „hlýða Guði“ því að þeim er ljóst að enginn maður hefur rétt til að takmarka tilbeiðsluna á honum. (Postulasagan 5:29) Jesús sýndi sjálfur fram á að það væri viðeigandi. Við lesum: „Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans. Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin. Jesús sagði við þá [hálfbræður sína sem trúðu ekki á hann]: . . . ‚Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn.‘ Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu. Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun.“ — Jóhannes 7:1, 2, 6, 8-10.

Að segja eða segja ekki?

15. Hvernig gaf Jósef til kynna að það væri stundum kærleiksríkt að þegja yfir leyndarmáli?

15 Í sumum tilvikum er ekki aðeins viturlegt heldur líka kærleiksríkt að halda málum leyndum. Hvernig brást Jósef, fósturfaðir Jesú, til dæmis við þegar hann komst að raun um að María unnusta hans væri þunguð? Við lesum: „Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey.“ (Matteus 1:18, 19) Það hefði verið illa gert að gera henni opinbera smán!

16. Hvaða ábyrgð bera öldungar og allir aðrir safnaðarmenn í sambandi við trúnaðarmál?

16 Ekki ætti að segja óviðkomandi frá trúnaðarmálum sem gætu gert einhvern vandræðalegan eða valdið sársauka. Kristnir öldungar hafa það í huga þegar þeir þurfa að ráðleggja trúsystkinum sínum eða hughreysta þau, eða jafnvel aga þau fyrir að syndga alvarlega gegn Jehóva. Nauðsynlegt er að taka biblíulega á þessum málum; það er bæði óþarft og kærleikslaust að segja þeim sem ekki eiga hlut að máli frá trúnaðarupplýsingum. Safnaðarmenn reyna auðvitað ekki að veiða trúnaðarmál upp úr öldungunum heldur virða þá ábyrgð öldunganna að halda trúnaðarmálum leyndum. Orðskviðirnir 25:9 segja: „Rek þú mál þitt gegn náunga þínum, en ljósta eigi upp leyndarmáli annars manns.“

17. Af hverju þegja kristnir menn í flestum tilvikum yfir trúnaðarmálum, en af hverju geta þeir það ekki alltaf?

17 Þessi meginregla gildir einnig innan fjölskyldunnar og meðal náinna vina. Það er mikilvægt að halda sumum málum leyndum til að forðast misskilning og spennu í samskiptum manna. „Norðanvindurinn leiðir fram regn og launskraf reiðileg andlit.“ (Orðskviðirnir 25:23) Hollusta við Jehóva og réttlátar meginreglur hans, ásamt kærleika til villuráfandi einstaklinga, getur stundum útheimt að foreldrum, kristnum öldungum eða öðrum, sem bera ábyrgð, sé sagt frá vissum trúnaðarmálum.a En í flestum tilvikum þegja kristnir menn yfir persónulegum leyndarmálum annarra eins og sínum eigin.

18. Hvaða þrír kristnir eiginleikar geta hjálpað okkur að ákveða hvað við ættum að segja og hvað ekki?

18 Í stuttu máli líkir kristinn maður eftir Jehóva með því að halda sumum málum leyndum þegar nauðsyn krefur, og gera þau uppská aðeins þegar við á. Þegar hann ákveður hvað segja skuli og hvað ekki, hefur hann auðmýkt, trú og kærleika að leiðarljósi. Auðmýkt kemur í veg fyrir að hann geri of mikið úr mikilvægi sjálfs sín og reyni að sýnast fyrir öðrum með því annaðhvort að segja þeim allt sem hann veit eða erta þá með því að segja þeim að hann viti leyndarmál sem hann megi ekki segja frá. Trú á orð Jehóva og kristna söfnuðinn fær hann til að prédika biblíulegar upplýsingar, sem Jehóva hefur látið í té, en gæta þess að segja ekkert í kynningarorðum sínum sem gæti móðgað aðra. Já, kærleikur kemur honum til að segja opinskátt það sem vegsamar Guð og fólk þarf að vita til að öðlast líf. Hann þegir hins vegar yfir persónulegum trúnaðarmálum og gerir sér í flestum tilvikum ljóst að það væri kærleikslaust af honum að bera þau á torg.

19. Á hverju þekkjast sannkristnir menn og hvað hefur það í för með sér?

19 Þessi öfgalausa afstaða hjálpar okkur að bera kennsl á sannkristna menn. Þeir fela ekki Guð bak við grímu nafnleyndar eða dularfullrar, óskýranlegrar þrenningarkenningar. Ókunnir guðir eru einkenni falskra trúarbragða, ekki sannra. (Sjá Postulasöguna 17:22, 23) Smurðir vottar Jehóva meta mikils þau sérréttindi að vera „ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.“ Með því að opinbera öðrum þessa leyndardóma stuðla þeir að því að hjartahreinir menn sækist eftir vináttu Jehóva. — 1. Korintubréf 4:1; 14:22-25; Sakaría 8:23; Malakí 3:18.

[Neðanmáls]

a Sjá greinina „Vertu ekki hluttakandi í syndum annarra“ í Varðturninum 1. mars 1986.

Hvert er svar þitt?

◻ Af hverju þarf Jehóva ekki að leyna því hvað hann hyggist fyrir?

◻ Hverjum opinberar Jehóva leyndardóma sína?

◻ Hver er ábyrgð kristinna manna í sambandi við trúnaðarmál?

◻ Hvaða þrír eiginleikar hjálpa kristnum manni að vita hvað hann eigi að segja og hvað ekki?

[Mynd á blaðsíðu 24]

Jehóva opinberar leynda hluti í orði sínu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila