Endurreist paradís vegsamar Guð
„[Ég mun] gjöra vegsamlegan stað fóta minna.“ — JESAJA 60:13.
1, 2. (a) Hvað sagði Guð fyrir um jörðina fyrir munn spámannsins Jesaja? (b) Hvað sjáum við er við horfum þúsund ár fram í tímann?
JEHÓVA skapaði jörðina sem hnött undir fótum sér, sem táknræna fótskör sína. Fyrir munn spámannsins Jesaja sagði Guð fyrir að hann myndi ‚gera vegsamlegan stað fóta sinna.‘ (Jesaja 60:13) Með hjálp hinnar innblásnu Biblíu getum við horft, eins og með öflugum sjónauka, þúsund ár fram í tímann. Hvílík dýrðarsýn! Öll jörðin geislar af óaðfinnanlegri fegurð sem mesti garðyrkjumeistari alheimsins hefur skapað. Paradís hefur verið endurreist um alla jörðina handa mannkyni!
2 Já, hinn mikli Guð, sem setti fyrstu mennina í paradís, ber hamingju mannsins fyrir brjósti. Mannkynið á sér sannarlega elskuríkan skapara! Það eru alls engar ýkjur að segja um hann: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8, 16) Í endurreistri paradís munu þroskaðir karlmenn og konur ná mannlegum fullkomleika og búa saman sem ástríkir bræður og systur. (Jesaja 9:6) Knúin af kærleika munu þau vera fullkomlega undirgefin hinum dýrlega skapara himins og jarðar, Jehóva Guði.
3, 4. (a) Hvernig mun vera góð samsvörun milli himins og jarðar? (b) Hvernig munu englarnir bregðast við þegar paradís verður endurreist á jörð?
3 Þúsundum ára áður hafði Guð, í innblásinni lýsingu á ríki sínu, sagt þessi hrífandi orð við útvalda þjóð sína: „Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín.“ (Jesaja 66:1) „Fótskör“ hans, paradísarjörðin, ætti að samsvara ósýnilegu hásæti Guðs á himnum í dýrð sinni.
4 Um þær mundir er jörðin var sköpuð virtu þeir sem þjónuðu við hásæti Guðs á himnum hana fyrir sér. Þeir hljóta að hafa hrifist af fegurð hennar! Hvernig gátu þeir varist því að láta gleði sína brjótast fram í söng? (Samanber Sefanía 3:17; Sálm 100:2.) Hinn hamingjusami skapari innblés jarðneskum skrifara sínum að lýsa hinu himneska sjónarsviði þannig: „Morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu.“ (Jobsbók 38:7) Englasynir Guðs hljóta að æpa gleðióp af enn meiri fögnuði Guði til dýrðar er þeir sjá paradís endurreista!
5. Hvernig ber okkur að líta á það er upphaflegur tilgangur Guðs með jörðina fullnast?
5 Það yljar okkur um hjartarætur að Heilög ritning skuli fullvissa okkur um að það hafi allt frá upphafi verið markmið Jehóva Guðs að jörðin yrði paradís. Það er einmitt það sem vænta má af Guði sem fer frá dýrð til dýrðar og sýnir alltaf hátign sína. Við höfum ótal ástæður til að lofa hann og heiðra. — Sálmur 150:1, 2; Jesaja 45:18; Opinberunarbókin 21:3-5.
Hinir upprisnu taka þátt í endurreisn paradísar
6. Hvernig verður jörðin byggð mönnum eftir Harmagedón?
6 Þótt þeir sem lifa af Harmagedón verði tiltölulega fáir mun jörðin ekki fyllast fólki aðeins með barneignum þeirra. Jehóva mun einnig ‚gjöra vegsamlegan stað fóta sinna‘ með því að vekja aftur til lífs þá sem hvíla í minningargröfunum og lausnarfórn Krists nær til. Þeir munu síðan fá þau sérréttindi að taka þátt í því unaðslega starfi að breyta allri jörðinni í óviðjafnanlega fagra paradís. — Postulasagan 24:15.
7. Hvaða orð Jesú munu þeir sem lifa af Harmagedón hafa í huga?
7 Þeir sem lifa af Harmagedón munu alltaf hafa í huga hin hrífandi orð Drottins Jesú Krists: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Það verður stórkostleg stund er hinir dánu í minningargröfunum fara að heyra rödd sonar Guðs kalla, líkt og hann kallaði til Lasarusar sem lá í gröf í Betaníu: „Lasarus, kom út!“ — Jóhannes 11:43.
8, 9. Hverjir munu líklega rísa fyrstir upp til nýs lífs á jörðinni og hvernig mun það gleðja þá sem hafa lifað af Harmagedón?
8 Hverjir munu líklega rísa fyrstir upp til lífs í þúsundáraríki Jesú Krists? Rökrétt er að það verði ‚aðrir sauðir‘ hans sem dóu á síðustu dögum fyrir endalok þessa heimskerfis. Þeir munu rísa upp snemma í þúsundáraríkinu. (Jóhannes 10:16) Þeir eiga vafalaust auðveldast með að aðlaga sig lífinu í nýja heiminum. — Samanber Matteus 25:34; Jóhannes 6:53, 54.
9 Það verður unaðslegt fyrir þá sem lifa af Harmagedón að sjá hina „aðra sauði,“ sem dóu á tímum kynslóðarinnar fyrir ‚þrenginguna miklu,‘ rísa upp! (Matteus 24:21) Þeir sem lifa af Harmagedón munu þekkja þá, bjóða þá velkomna og sameinast þeim á ný í þjónustu við hinn hæsta Guð.
10. Hverju getur þú orðið vitni að með því að lifa af Harmagedón?
10 Ef þú lifir af Harmagedón getur þú orðið vitni að því er hinn fyrsti af jarðneskum ættingjum þínum rís upp. Viðbrögð þín verða vafalaust mikið til hin sömu og foreldranna sem sáu Drottin Jesú lífga við tólf ára dóttur sína. „Menn urðu frá sér numdir af undrun.“ (Markús 5:42) Já, gleði þín verður ólýsanleg er hinir dánu rísa upp úr Helju og hafinu. (Opinberunarbókin 20:13) Það er mikill dýrðardagur sem í vændum er, dýrðardagur sem er mjög nálægur!
‚Höfðingjar um alla jörðina‘
11, 12. (a) Hvað leggur Sálmur 45:17 áherslu á? (b) Úr hópi hverra getur konungurinn Jesús Kristur skipað ‚höfðingja um alla jörðina‘?
11 Jesús mun geta séð til þess að orðin í Sálmi 45:17 uppfyllist með því að beita mætti sínum til að reisa upp frá dauðum þá menn sem hann lagði fullkomið mannslíf sitt í sölurnar fyrir. Þessi sálmur er spádómur sem ávarpar Jesús Krist í hlutverki konungs: „Í stað [jarðneskra] feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.“ Sálmurinn undirstrikar að Jesús Kristur muni verða himneskur faðir barna hér á jörðinni og gera suma af þeim sonum sínum að „höfðingjum um land allt,“ um alla jörðina. Hægt er að telja jarðneska forfeður ‚sonar Davís‘ og frumgetins sonar meyjarinnar Maríu frá Júdeu allt aftur til hins fyrsta föður mannkynsins, Adams. — Lúkas 3:23-38.
12 Merkja orðin í Sálmi 45:17 að þeir sem áður voru forfeður Jesú að holdinu verði synir hans vegna upprisunnar frá dauðum? Já. Ber þá að skilja Sálm 45:17 þannig að Jesús muni, vegna þess að hann er af þeim kominn, sýna þeim sérstaka konungshylli og skipa þá eina ‚höfðingja um land allt‘ í paradís? Nei. Ef spádómurinn ætti að uppfyllast þannig yrðu ‚höfðingjarnir‘ um alla jörðina ekki ýkja margir. Auk þess voru ekki allir þessir forfeður hans svo einstakir að þeir verðskuldi sérstaka tignarstöðu á jörðinni í þúsundáraríkinu. Konungurinn Jesús Kristur mun skipa ótal fleiri en jarðneska forfeður sína til ‚höfðingja‘ — þá sem hæfir eru úr hópi þeirra sem lifa af Harmagedón og af hinum upprisnu ‚öðrum sauðum,‘ svo og trúaða menn fyrir daga kristninnar. Úr hópi allra þeirra getur hann skipað hæfa og verðuga menn í höfðingjastöður, sem jarðneska fulltrúa sína.
13, 14. Hvaða upprisna menn munu þeir sem lifa af Harmagedón fá að sjá með eigin augum?
13 Reynum að sjá fyrir okkur hverjir eiga í vændum upprisu í Messíasarríkinu. Getum við trúað okkar eigin augum? Þarna er Abel, fyrsti píslarvotturinn og Enok sem gekk með hinum sanna Guði. Þarna eru einnig Nói, arkarsmiðurinn. Þarna eru Abraham, Ísak og Jakob, forfeður Ísraelsþjóðarinnar. Þarna eru Móse (af prestaætt Leví) og Davíð sem gerður var eilífur sáttmáli við um ríki. Og þarna eru Jesaja, Jeremía, Esekíel, Daníel og allir hinir hebresku spámennirnir og biblíuritararnir allt til Malakís sem síðastur var í röðinni. Að sjálfsögðu er þar einnig Jóhannes skírari og Jósef, stjúpfaðir Jesú.
14 Einu sinni sagði Jesús Gyðingum að þeir myndu ‚sjá Abraham, Ísak og Jakob og alla spámennina í Guðsríki en sjálfa sig útrekna.‘ (Lúkas 13:28) Hinn ‚mikli múgur,‘ sem lifir af ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ á jörð, mun hljóta þau sérréttindi að sjá bókstaflega „Abraham, Ísak og Jakob og alla spámennina“ upprisna á jörð sem verður paradís og í þjónustu konungsins Jesú Krists sem kallast „Eilífðarfaðir.“ — Opinberunarbókin 7:9, 14; 16:14; Jesaja 9:6.
15. Hvaða óviðjafnanleg sérréttindi bíða þeirra sem lifa af Harmagedón?
15 Hugsaðu þér hve hrífandi það verður fyrir þig að lifa af endalok hins núverandi, illa heims og geta borið saman bækur þínar við Nóa og fjölskyldu hans, þær ‚átta sálir‘ sem lifðu af endalok hins fyrsta heims í heimsflóðinu árið 2370 f.o.t.! Aldrei framar munu menn verða fyrir sömu lífsreynslu og þú og geta þjónað sem vottar um Jehóva á þennan einstæða hátt. — 1. Pétursbréf 3:20; Markús 13:19; 2. Pétursbréf 3:5-7.
Samúðarfulla illvirkjans minnst
16, 17. (a) Hvaða sérréttinda munu þeir sem lifa af Harmagedón og aðrir þálifandi menn njóta er Jesús minnist hins samúðarfulla illvirkja? (b) Hvaða von getur hinn upprisni illvirki öðlast?
16 Þegar þar er komið sögu mun endurreisn paradísar á jörð vafalaust vera vel á veg komin. Afbrotamaðurinn, sem var líflátinn á Golgata við hlið Jesú og viðurkenndi áletrunina yfir höfði hans er hann bað: „Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt,“ mun rísa upp til lífs í endurreistri paradís á jörð. (Lúkas 23:42) Það verða sérréttindi þeirra sem lifa af Harmagedón og annarra, sem þá verða á lífi, að taka á móti honum og bjóða velkominn. Þeir munu kenna honum það sem hann þarf enn að fá að vita um hinn ríkjandi konung, Jesú Krist, sem hann sýndi svo djúpa samúð þann 14. nísan árið 33.
17 Drottinn Jesús Kristur mun minnast hans einhvern tíma í þúsundáraríki sínu. Vafalaust mun þessi samúðarfulli, upprisni illvirki meta mjög mikils hinn ríkjandi konung, Jesú Krist, sem hann á upprisu sína að þakka, og sýna það með því að vera trúfastur drottinvaldi alheimsins, Jehóva Guði. Þá mun hann verða talinn þess verður að öðlast líf í hinni nýju paradísarveröld og lifa þar eilíflega ásamt öðrum upprisnum, hlýðnum mönnum.
Lífið í endurreistum Edengarði um allan heim
18. Hvernig mun lífið verða í endurreistri paradís?
18 Í endurreistri paradís eru allir vinir. Hver og einn finnur greinilega fyrir þeim fjölskylduböndum sem ríkja út um allan heiminn. Allir skilja hver annan. Allir tala sama heimstungumálið. Líklega verður það hið upphaflega tungumál mannkyns sem allir jarðarbúar töluðu fyrstu 1800 ár mannkynssögunnar — allt frá sköpun Adams árið 4026 f.o.t. fram til daga Pelegs (2269 til 2030 f.o.t.), því að „á hans dögum greindist fólkið á jörðinni.“ (1. Mósebók 10:25; 11:1) Allir njóta þeirra sérréttinda að fá að lifa og eru þakklátir fyrir hvern nýjan dag. Líkaminn verður ekki hrumari og þróttminni með árunum heldur styrkist og slitnar ekki. — Samanber Jobsbók 33:25.
19. Hvað mun gerast hjá þeim sem áður voru fatlaðir?
19 Sjá! Sá sem haltur var gengur nú lýtalaust og hoppar af einskærri gleði. Á undraverðan hátt hafa líkamslimir, sem menn höfðu misst, verið endurnýjaðir. Þeir sem áður voru blindir hafa fengið sjón, daufir heyra, mállausir mæla og syngja af einskærri gleði. (Samanber Jesaja 35:5, 6.) Enginn verður framar ófríður. Karlmennska og kvenleiki verða í fögru, innbyrðis jafnvægi. (1. Mósebók 2:18) Fullkomleiki mannsins vegsamar Jehóva Guð, skapara hins fullkomna mannslíkama.
20. Hvað mun gerast í sambandi við náttúruöflin, matvæli, dýraríkið og notkun jarðar?
20 Jörðin verður fagur staður í alheiminum. Aldrei framar munu fregnir berast af þurrkum eða úrfellum sem valda tjóni, né fellibyljum, hvirfilbyljum, skýstrokkum eða fárviðrum. (Samanber Markús 4:37-41.) Öll náttúruöflin verða samræmd í fullkomið jafnvægi þannig að öll jörðin verður að unaðslegum bústað. Hvergi verður matarskortur því að jörðin gefur ríkulega af sér. (Sálmur 72:16) Friður og öryggi ríkja um allan heim, bæði meðal manna og dýra, alveg eins og Jehóva segir: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra.“ (Jesaja 11:9; sjá einnig vers 6-8.) Þannig verður jörðin gerð að unaðslegum dvalarstað þar sem menn munu halda áfram að tilbiðja Jehóva Guð, skapara og eiganda jarðarinnar, og þjóna honum. Hún er hans eign af því að hann hefur skapað hana og verðskuldar því að hún sé notuð þannig að það þóknist honum og vegsami hann. — Samanber Jesaja 35:1, 2, 6, 7.
21. Hvernig mun endurreist mannkyn líta á allt á jörðinni og hvaða tónlist mun óma?
21 Nýtt og endurnærandi — þannig verður allt á jörðinni fyrir hið endurleysta mannkyn sem aldrei hefur verið inni í paradísinni Eden þar sem mannlífið hófst í fegurð og fullkomnun. (Opinberunarbókin 21:5) Þá mun óma fögur tónlist, bæði hljóðfæra og radda, til lofs Jehóva. — 1. Kroníkubók 23:4, 5; Sálmur 150:3-6.
22. Hvernig tilfinning verður það að búa í paradís nýja heimsins?
22 Það verður unaðslegt að búa á jörð þar sem menn njóta lífsins til hins ýtrasta og öll stig hrörnunar og dauða vegna Adamssyndarinnar verða horfin. (Samanber Jóhannes 10:10.) Allir þálifandi menn munu endurspegla mynd og líkingu Jehóva Guðs sem Adam var skapaður í! (1. Mósebók 1:26, 27) Þá mun jörðin ekki lengur vera hryggðarmynd í augum serafanna, kerúbanna og englanna á himnum. Er þeir renna augum til jarðar og virða fyrir sér paradísarfegurð hennar, þá munu þeir þakka og lofa hann sem þeir hafa þau sérréttindi að sjá augliti til auglitis — Jehóva, drottinvald alheimsins. — Matteus 18:10.
Hamingjurík framtíð sem aldrei endar
23. Hvað kann að gerast í sambandi við smurða kristna menn og hvað mun það þýða fyrir þá sem búa í paradís á jörð?
23 Það er bæði mögulegt og sennilegt að einhvern tíma í framtíðinni muni nöfn allra hinna smurðu, kristnu manna sem gerðu ‚köllun sína og útvalningu‘ til ríkisins á himnum vissa, og hafa hlotið himneska upprisu, verða birt til fróðleiks hinni mannlegu fjölskyldu í paradís á jörð. (2. Pétursbréf 1:10; Sálmur 87:6, 7) Þannig munu allir skilja til fullnustu hvers vegna hinir 144.000 andagetnu lærisveinar Jesú Krists eru ekki í paradís á jörð og gleðjast af öllu hjarta vegna þeirra og með þeim.
24. (a) Hverju mun Jehóva hafa áorkað varðandi „fótskör sína“? (b) Hvernig vitum við að nýi heimurinn mun aldrei líða undir lok og hvaða spádómssöngur mun þá uppfyllast?
24 Allir sem varðveita órjúfanlega hollustu við Jehóva, hinn eina og sanna drottinvald alls alheimsins, eiga fyrir sér hamingju og framtíð sem aldrei endar. Þeir munu fylla paradís á jörð að þægilegu marki þannig að jörðin verði fögur og sæmandi „fótskör“ þar sem Guð getur í táknrænni merkingu hvílt fætur sína. Jehóva mun um alla eilífð hafa gert vegsamlegan ‚stað fóta sinna‘ og allt mannkyn verða honum fullkomið undirgefið. (Matteus 5:34, 35; Postulasagan 7:49) Hinn nýi heimur mun aldrei taka enda vegna þess að „mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ (Jesaja 9:7) Þá mun rætast hinn spádómlegi söngur sem sunginn var við fæðingu Jesú í Betlehem í Júdeu árið 2 f.o.t.: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ — Lúkas 2:13, 14.
25. (a) Hvað meta þeir sem tilheyra ‚miklum múgi‘ hinna ‚annarra sauða‘ núna? (b) Hver ætti að vera innileg þrá okkar?
25 Þeir sem tilheyra ‚miklum múgi‘ ‚annarra sauða‘ góða hirðisins meta mikils hið örvandi loforð um endurreista paradís. Það eru sérréttindi þeirra að vera tengdir skipulagi Guðs núna og taka kostgæfilega þátt í því starfi sem Drottinn Jesús Kristur sagði fyrir, prédikun fagnaðarerindisins um ríkið um alla heimsbyggðina til lokavitnisburðar. (Matteus 24:14; Markús 13:10) Það er einlæg, innileg þrá okkar, votta Jehóva, að varðveita ráðvendni okkar undir konungsstjórn hins eingetna sonar Guðs, Jesú Krists, drottinvaldi alheimsins, Jehóva Guði, til eilífrar dýrðar og upphefðar. „Hallelúja!“ — Opinberunarbókin 19:1, 3, 4, 6; Orðskviðirnir 10:9.
Hvert er svar þitt?
◻ Hverju hefur Jehóva lofað varðandi táknræna fótskör sína, jörðina?
◻ Hverjir munu taka þátt í endurreisn paradísar?
◻ Úr hópi hverra mun konungurinn Jesús Kristur skipa ‚höfðingja um alla jörðina‘?
◻ Hvaða hrífandi lífsreynslu getur þú orðið aðnjótandi þegar upprisan á sér stað?
◻ Hvaða framtíð bíður þeirra sem varðveita órjúfanlega hollustu við Jehóva?