Jehóva á að vera traust okkar
„Jehóva skal sannarlega reynast vera traust þitt.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 3:26, NW.
1. Hvað bendir til að margir treysti Guði ekki alltaf þótt þeir segist gera það?
EINKUNNARORÐIN „Guði treystum vér“ standa á bandarískum peningaseðlum. En skyldu allir þeir sem nota þennan gjaldmiðil þar í landi eða annars staðar treysta Guði í alvöru? Eða setja þeir traust sitt frekar á sjálfa peningana? Traust á gjaldmiðli þess lands eða einhvers annars getur aldrei samrýmst trausti á alvöldum Guði kærleikans sem misbeitir aldrei valdi sínu og er aldrei ágjarn. Reyndar fordæmir hann ágirnd skýrum orðum. — Efesusbréfið 5:5.
2. Hvernig líta sannkristnir menn á mátt peninganna?
2 Sannkristnir menn setja traust sitt á Guð, ekki peninga og „tál“ þeirra. (Matteus 13:22) Þeim er ljóst að peningar eru ósköp máttlitlir til að veita mönnum hamingju eða vernda líf þeirra. Alvaldur Guð er miklu máttugri. (Sefanía 1:18) Það er því viturleg áminning sem gefin er í Hebreabréfinu 13:5: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“
3. Hvernig varpar samhengi 5. Mósebókar 31:6 ljósi á heimfærslu Páls á versinu?
3 Þegar Páll postuli skrifaði orðin hér að ofan til kristinna Hebrea var hann að vitna í fyrirmæli Móse til Ísraelsmanna skömmu fyrir dauða hans: „Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi og hræðist þá eigi, því að [Jehóva] Guð þinn fer sjálfur með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (5. Mósebók 31:6) Samhengið sýnir að Móse var að hvetja Ísraelsmenn til að treysta Jehóva til að gera meira en aðeins að sjá fyrir efnislegum þörfum þeirra. Hvernig þá?
4. Hvernig sannaði Guð fyrir Ísraelsmönnum að sér væri treystandi?
4 Á 40 ára göngu Ísraelsmanna um eyðimörkina sá Guð þeim trúfastlega fyrir lífsnauðsynjum. (5. Mósebók 2:7; 29:5) Hann sá þeim líka fyrir forystu. Hún birtist meðal annars í skýstólpa að degi og eldstólpa að nóttu er leiddi þá til ‚lands sem flaut í mjólk og hunangi.‘ (2. Mósebók 3:8; 40:36-38) Þegar tíminn kom til að ganga inn í fyrirheitna landið valdi Jehóva Jósúa sem arftaka Móse. Búast mátti við mótspyrnu landsmanna. En Jehóva hafði gengið með fólki sínu í áratugi svo að það hafði ekkert að óttast. Ísraelsmenn áttu að vita að Jehóva væri Guð sem hægt væri að treysta.
5. Hvernig er staða kristinna manna nú á tímum lík stöðu Ísraelsmanna áður en þeir gengu inn í fyrirheitna landið?
5 Kristnir menn nú á tímum hafa þurft að ganga gegnum eyðimörk hins núverandi illa heimskerfis á leið sinni til nýs heims Guðs. Sumir þeirra hafa verið á þessari göngu í meira en 40 ár. Nú standa þeir við landamæri þessa nýja heims. En óvinir standa enn í vegi fyrir þeim, ráðnir í að hindra að þeir komist inn í eins konar fyrirheitið land, enn dýrlegra en landið sem flaut í mjólk og hunangi til forna. Orðin, sem Páll hafði eftir Móse, eru því mjög viðeigandi áminning fyrir kristna menn nú á tímum: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ Allir sem varðveita styrk sinn, hugrekki og trú og setja traust sitt á Jehóva eru öruggir um launin.
Traust byggt á þekkingu og vináttu
6, 7. (a) Hvernig reyndi á traust Abrahams til Jehóva? (b) Hvernig kann Abraham að hafa liðið á leiðinni til staðarins þar sem hann átti að fórna Ísak?
6 Ættföðurnum Abraham var einu sinni fyrirskipað að fórna Ísak, syni sínum, að brennifórn. (1. Mósebók 22:2) Hvernig gat þessi ástríki faðir haft svo órjúfanlegt traust á Jehóva að hann skyldi hlýða þegar í stað? Hebreabréfið 11:17-19 svarar: „Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum. Við hann hafði Guð mælt: ‚Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir.‘ Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju.“
7 Munum að það tók Abraham og Ísak þrjá daga að komast á staðinn þar sem fórnin átti að fara fram. (1. Mósebók 22:4) Abraham hafði nægan tíma til að íhuga betur það sem hann hafði verið beðinn að gera. Getum við gert okkur í hugarlund hvernig honum hefur verið innanbrjósts? Fæðing Ísaks hafði verið mjög óvænt gleðiefni. Abraham og Söru konu hans, sem hafði ekki getað eignast börn áður, hlýtur að hafa þótt enn vænna um Guð eftir að þau höfðu fundið fyrir mætti hans. Þau hljóta að hafa hugsað mikið um hvaða framtíð biði Ísaks og afkomenda hans. Voru draumar þeirra skyndilega brostnir vegna þess sem Guð ætlaðist til af þeim núna?
8. Hvað meira fólst í trausti Abrahams til Guðs en sú trú að hann gæti vakið Ísak upp frá dauðum?
8 Abraham hafði trúartraust byggt á persónulegri vitneskju náinna vina hver um annan. Abraham var „Guðs vinur“ og hann „trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað.“ (Jakobsbréfið 2:23) Traust Abrahams á Jehóva fólst ekki aðeins í þeirri vissu að hann gæti reist Ísak upp frá dauðum. Hann var jafnsannfærður um að það væri réttmætt sem Jehóva var að biðja hann um, jafnvel þótt hann þekkti ekki allar staðreyndir. Hann hafði enga ástæðu til að efast um að það væri réttlátt af Jehóva að fara fram á þetta. Það styrkti síðan traust Abrahams þegar engill Jehóva skarst í leikinn og kom í veg fyrir að Ísak væri drepinn sem fórn. — 1. Mósebók 22:9-14.
9, 10. (a) Hvenær hafði Abraham áður sýnt traust á Jehóva? (b) Hvaða mikilvægan lærdóm getum við dregið af Abraham?
9 Abraham hafði borið sams konar traust til réttlætis Jehóva um 25 árum áður. Þegar hann var varaður við að Sódómu og Gómorru yrði eytt var honum eðlilega annt um velferð réttlátra manna sem kynnu að búa þar, þeirra á meðal Lots bróðursonar síns. Abraham ákallaði Guð með þessum orðum: „Fjarri sé það þér að gjöra slíkt, að deyða hina réttlátu með hinum óguðlegu, svo að eitt gangi yfir réttláta og óguðlega. Fjarri sé það þér! Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?“ — 1. Mósebók 18:25.
10 Ættfaðirinn Abraham var sannfærður um að Jehóva gerði ekkert ranglátt. Sálmaritarinn söng síðar: „[Jehóva] er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.“ (Sálmur 145:17) Við ættum að spyrja okkur hvort við sættum okkur við það sem Jehóva leyfir að við verðum fyrir, án þess að draga réttlæti hans í efa. Erum við sannfærð um að hvaðeina sem hann leyfir verði okkur og öðrum til góðs? Ef við getum svarað því játandi, þá höfum við dregið mikilvægan lærdóm af Abraham.
Að treysta vali Jehóva
11, 12. (a) Hvaða traust hafa þjónar Guðs líka þurft að hafa? (b) Hvað gæti okkur stundum þótt erfitt?
11 Þeir sem treysta Jehóva treysta líka þeim mönnum sem hann velur að nota í framvindu tilgangs síns. Hjá Ísraelsmönnum merkti það að treysta Móse og síðar arftaka hans, Jósúa. Hjá frumkristnum mönnum merkti það að treysta postulunum og öldungunum í söfnuðinum í Jerúsalem. Hjá okkur merkir það að treysta hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ sem skipaður er til að veita okkur andlegan „mat á réttum tíma,“ og einnig þeim af þjónshópnum sem sitja í hinu stjórnandi ráði. — Matteus 24:45.
12 Í rauninni er það sjálfum okkur til góðs að treysta þeim sem fara með forystuna í kristna söfnuðinum. Okkur er sagt: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ — Hebreabréfið 13:17.
Véfengjum ekki val Jehóva
13. Hvaða ástæðu höfum við til að treysta þeim sem skipaðir eru til forystustarfa?
13 Biblían hjálpar okkur að varðveita jafnvægi og treysta þeim sem fara með forystuna meðal fólks Jehóva. Við gætum spurt okkur hvort Móse hafi ekki einhvern tíma gert mistök. Voru viðhorf postulanna alltaf eins og Jesús vildi? Svörin eru augljós. Jehóva hefur valið að nota dygga og drottinholla menn til að leiðbeina fólki sínu, þótt ófullkomnir séu. Enda þótt öldungarnir séu ófullkomnir ættum við samt að viðurkenna að „heilagur andi“ hefur falið þeim söfnuð Guðs „til umsjónar.“ Þeir verðskulda stuðning okkar og virðingu. — Postulasagan 20:28.
14. Af hverju er athyglisvert að Jehóva skyldi velja Móse til forystu en ekki Aron eða Mirjam?
14 Aron var þrem árum eldri en Móse en báðir voru þeir yngri en Mirjam systir þeirra. (2. Mósebók 2:3, 4; 7:7) Og þar eð Aron var mælskari en Móse var hann skipaður talsmaður bróður síns. (2. Mósebók 6:29–7:2) En Jehóva valdi ekki elsta systkinið, Mirjam, til að leiða Ísraelsmenn og ekki heldur það mælskasta, Aron. Hann valdi Móse í fullu samræmi við allar staðreyndir og þarfir augnabliksins. Aron og Mirjam sáu hlutina ekki í réttu ljósi um tíma og kvörtuðu: „Hefir [Jehóva] aðeins talað við Móse? Hefir hann ekki talað við okkur líka?“ Mirjam, sem hugsanlega var upphafsmaðurinn að þessu, var refsað fyrir að virða ekki þann sem Jehóva valdi, og þau hefðu bæði átt að viðurkenna að hann var „einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“ — 4. Mósebók 12:1-3, 9-15.
15, 16. Hvernig sýndi Kaleb að hann treysti á Jehóva?
15 Þegar njósnararnir 12 komu til baka eftir að hafa kannað fyrirheitna landið sögðu 10 þeirra slæma sögu. Þeir skutu Ísraelsmönnum skelk í bringu með því að tala um að Kanverjar væru „risavaxnir menn.“ Það kom Ísraelsmönnum síðan til að ‚mögla gegn Móse og Aroni.‘ En njósnararnir voru ekki allir tortryggnir í garð Móse og Jehóva. Við lesum: „Kaleb stöðvaði kurr lýðsins gegn Móse og mælti: ‚Förum þangað og leggjum það undir oss, því að vér munum fá unnið það.‘“ (4. Mósebók 13:2, 25-33; 14:2) Jósúa, njósnafélagi Kalebs, var jafneinbeittur. Báðir sýndu að þeir settu traust sitt á Jehóva er þeir sögðu: „Ef [Jehóva] hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi . . . Hræðist ekki landsfólkið . . . [Jehóva] er með oss! Hræðist þá eigi!“ (4. Mósebók 14:6-9) Þeim var umbunað traust sitt á Jehóva. Af þeirri kynslóð fulltíða manna, sem var uppi á þeim tíma, fengu einungis Kaleb, Jósúa og levítar að ganga inn í fyrirheitna landið.
16 Mörgum árum síðar sagði Kaleb: „Ég fylgdi [Jehóva] Guði mínum trúlega . . . Og sjá, nú hefir [Jehóva] látið mig lifa, eins og hann lofaði, í þessi fjörutíu og fimm ár, síðan [Jehóva] sagði þetta við Móse, meðan Ísrael hefir farið um eyðimörkina, og sjá, nú hefi ég fimm um áttrætt. Og enn í dag er ég eins hraustur og þegar Móse sendi mig. Orka mín er enn hin sama og hún var þá.“ (Jósúabók 14:6-11) Tökum eftir jákvæðri afstöðu Kalebs, trúfesti hans og líkamsþreki. Samt hafði Jehóva ekki valið Kaleb til að taka við af Móse. Þau sérréttindi veittust Jósúa. Við megum treysta að Jehóva hafði ástæðu fyrir þessu vali og að það var það besta.
17. Af hverju gæti Pétur hafa virst óhæfur til ábyrgðarstarfa?
17 Pétur postuli afneitaði meistara sínum þrívegis. Í hvatvísi hafði hann einnig tekið málin í sínar hendur og höggvið annað eyrað af þjóni æðstaprestsins. (Matteus 26:47-55, 69-75; Jóhannes 18:10, 11) Sumir gætu kannski sagt að Pétur hafi verið hræðslu- og öfgagjarn og óverðugur að hljóta sérstök sérréttindi. En hverjum höfðu verið fengnir lyklar himnaríkis til að opna þrem hópum manna leiðina til himneskrar köllunar? Pétri. — Postulasagan 2:1-41; 8:14-17; 10:1-48.
18. Hvaða mistök nefnir Júdas sem við viljum forðast?
18 Þessi dæmi sýna að við megum ekki dæma menn eftir ytra útliti. Ef við setjum traust okkar á Jehóva véfengjum við ekki val hans. Enda þótt ófullkomnir menn myndi jarðneskt skipulag hans, og þeir halda því alls ekki fram að þeir séu óskeikulir, notar hann þá til mikilla verka. Júdas, hálfbróðir Jesú, varaði kristna menn á fyrstu öld við mönnum sem ‚mátu að engu drottinvald og lastmæltu tignum.‘ (Júdasarbréfið 8-10) Við ættum aldrei að líkjast þeim.
19. Af hverju höfum við enga ástæðu til að véfengja val Jehóva?
19 Jehóva velur greinilega til vissra ábyrgðarstarfa menn sem hafa nauðsynlega hæfileika til að leiða fólk hans þann veg sem hann vill að það fari á hverjum tíma. Við ættum að gera okkur far um að viðurkenna það og ekki véfengja val Guðs heldur vera auðmjúk og ánægð með að þjóna því hlutverki sem hann hefur sett okkur í hvert og eitt. Þannig sýnum við að við treystum honum. — Efesusbréfið 4:11-16; Filippíbréfið 2:3.
Treystum á réttlæti Jehóva
20, 21. Hvað getum við lært af framkomu Guðs við Móse?
20 Ef okkur hættir til að treysta sjálfum okkur um of og Jehóva of lítið skulum við læra af Móse. Hann var fertugur þegar hann ætlaði sér upp á eigin spýtur að frelsa Ísraelsmenn úr ánauð Egypta. Hann vildi eflaust vel en hann frelsaði hvorki Ísrael né bætti hlutskipti sitt heldur neyddist til að flýja. Það var ekki fyrr en eftir 40 ára erfiða þjálfun í öðru landi sem hann var hæfur til að gera það sem hann hafði viljað gera áður. Núna gat hann treyst á stuðning Jehóva af því að núna voru aðferðir Jehóva notaðar og unnið eftir tímaáætlun hans. — 2. Mósebók 2:11–3:10.
21 Við gætum öll spurt okkur hvert og eitt: Hleyp ég stundum á undan Jehóva og öldungum safnaðarins og reyni að hraða málum eða beita mínum eigin aðferðum? Er ég fús til að þiggja áframhaldandi þjálfun í stað þess að láta mér finnast að ég hefði átt að hljóta ákveðin sérréttindi? Málið snýst um það hvort við höfum lært dýrmæta lexíu af Móse.
22. Hvernig leit Móse á Jehóva þótt hann yrði af miklum sérréttindum?
22 Og við getum lært aðra lexíu af Móse. Fjórða Mósebók 20:7-13 segir frá mistökum sem urðu honum dýrkeypt. Hann missti þau sérréttindi að leiða Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið. Fannst honum ákvörðun Jehóva í málinu ranglát? Skreið hann út í horn, ef svo má segja, og fór í fýlu yfir því að Guð skyldi fara svona illa með hann? Glataði Móse trausti sínu á réttlæti Jehóva? Svörin er að finna í orðum Móse sjálfs til Ísraels skömmu fyrir dauða hans. Hann sagði um Jehóva: „Fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ (5. Mósebók 32:4) Móse varðveitti greinilega traust sitt á Jehóva allt til enda. Hvað um okkur? Gerum við hvert og eitt ráðstafanir til að styrkja traust okkar á Jehóva og réttlæti hans? Hvernig getum við gert það? Athugum málið.
Hvert er svar þitt?
◻ Af hverju gátu Ísraelsmenn treyst Jehóva?
◻ Hvað getum við lært um traust af Abraham?
◻ Af hverju ættum við ekki að véfengja val Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Traust til Jehóva felur í sér að virða þá sem fara með forystuna í söfnuðinum.