„Ert þú einlægur við mig?“
„Kom með mér, þá skalt þú fá að sjá, hversu ég vandlæti vegna [Jehóva].“ — 2. KONUNGABÓK 10:16.
1, 2. (a) Hvernig fór Ísrael úr öskunni í eldinn í trúmálum? (b) Hvaða stórbrotnar breytingar vofðu yfir Ísrael árið 905 f.o.t.?
ÁRIÐ 905 f.o.t. var mikill breytingatími í Ísrael. Næstum 100 árum áður hafði Jehóva látið hið sameinaða Ísraelsríki skiptast vegna fráhvarfs Salómons. (1. Konungabók 11:9-13) Þá var suðurríkið Júda undir stjórn Rehabeams Salómonssonar en norðurríkið Ísrael undir stjórn Jeróbóams konungs sem var Efraímíti. Því miður fór norðurríkið af stað með ósköpum. Jeróbóam vildi ekki að þegnar sínir færu til suðurríkisins til að tilbiðja í musterinu því að hann óttaðist að þeim dytti þá í hug að ganga aftur undir konungsætt Davíðs. Hann kom því á fót kálfadýrkun í Ísrael og setti með því fordæmi um skurðgoðadýrkun sem fylgt var að einhverju marki í norðurríkinu meðan það stóð. — 1. Konungabók 12:26-33.
2 Ekki batnaði ástandið þegar Akab, sonur Omrís, varð konungur. Útlend kona hans, Jesebel, efldi Baalsdýrkun í landinu og drap spámenn Jehóva. Þrátt fyrir opinskáar viðvaranir spámannsins Elía gerði Akab ekkert til að stöðva hana. En árið 905 f.o.t. var Akab látinn og Jóram, sonur hans, tekinn við völdum. Nú var kominn tími til að hreinsa landið. Elísa, arftaki Elía, upplýsti herforingjann Jehú um að Jehóva smyrði hann til næsta konungs yfir Ísrael. Hann fékk það verkefni að útrýma syndugri ætt Akabs og hefna blóðs spámannanna sem Jesebel hafði úthellt! — 2. Konungabók 9:1-10.
3, 4. Hvernig sýndi Jónadab að hann væri ‚einlægur við Jehú‘?
3 Hlýðinn skipun Guðs lét Jehú drepa hina illu Jesebel og hófst síðan handa við að hreinsa Ísrael með því að eyða ætt Akabs. (2. Konungabók 9:15–10:14, 17) Þá varð stuðningsmaður á vegi hans. „Hitti hann Jónadab Rekabsson, er kom í móti honum. Hann heilsaði honum og sagði við hann: ‚Ert þú einlægur við mig, eins og ég er við þig?‘ Jónadab svaraði: ‚Svo er víst.‘ Þá mælti Jehú: ‚Ef svo er, þá rétt mér hönd þína.‘ Þá rétti hann honum hönd sína, og hann lét hann stíga upp í vagninn til sín og mælti: ‚Kom með mér, þá skalt þú fá að sjá, hversu ég vandlæti vegna [Jehóva].‘ Síðan lét hann hann fara með sér á vagni sínum.“ — 2. Konungabók 10:15, 16.
4 Jónadab var ekki Ísraelsmaður. Engu að síður tilbað hann Jehóva í samræmi við nafn sitt sem merkir „Jehóva er fús,“ „Jehóva er göfugur“ eða „Jehóva er örlátur.“ (Jeremía 35:6) Að minnsta kosti hafði hann óvenjulegan áhuga á því að ‚sjá hversu Jehú vandlætti vegna Jehóva.‘ Á hverju sjáum við það? Á því að fundur hans við smurðan konung Ísraels var engin tilviljun. Jónadab „kom í móti honum“ og það var á þeim tíma þegar Jehú var búinn að drepa Jesebel og aðra af ætt Akabs. Jónadab vissi hvað var að gerast þegar hann þáði boð Jehús um að stíga upp í vagninn. Hann stóð greinilega Jehús megin — og Jehóva — í þessum átökum sannrar og falskrar tilbeiðslu.
Jehú og Jónadab nútímans
5. (a) Hvaða breytingar eiga sér bráðlega stað hjá öllu mannkyni? (b) Hver er hinn meiri Jehú og hverjir eru fulltrúar hans á jörð?
5 Bráðlega verða jafnróttækar breytingar hjá öllu mannkyni og hjá Ísrael árið 905 f.o.t. Sá tími er nú nálægur að Jehóva hreinsar jörðina af öllum illum afleiðingum af áhrifum Satans, þar á meðal falstrúarbrögðum. Hver er Jehú nútímans? Enginn annar en Jesús Kristur sem er ávarpaður með þessum spádómsorðum: „Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd. Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis.“ (Sálmur 45:4, 5) Jesús á sér fulltrúa á jörð, „Ísrael Guðs“ eða smurða kristna menn sem „varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ (Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 12:17) Allt frá 1922 hafa þessir smurðu bræður Jesú varað óttalaust við komandi dómi Jehóva. — Jesaja 61:1, 2; Opinberunarbókin 8:7–9:21; 16:2-21.
6. Hverjir komu úr þjóðunum til stuðnings smurðum kristnum mönnum og hvernig hafa þeir eins og stigið upp í vagn hins meiri Jehús?
6 Smurðir kristnir menn hafa ekki verið einir. Líkt og Jónadab kom til móts við Jehú hafa margir menn af þjóðunum gengið fram sem talsmenn sannrar tilbeiðslu til stuðnings Jesú, hinum meiri Jehú, og jarðneskum fulltrúum hans. (Sakaría 8:23) Jesús kallar þá „aðra sauði“ og árið 1932 var á það bent að þeir samsvöruðu Jónadab fortíðar og var þeim boðið að „stíga upp í vagninn“ með Jehú nútímans. (Jóhannes 10:16) Hvernig? Með því að „varðveita boð Guðs“ og taka þátt með hinum smurðu í ‚vitnisburði um Jesú.‘ Nú á tímum felur það í sér að prédika fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs undir stjórn konungsins Jesú. (Markús 13:10) Árið 1935 var bent á að þessir „Jónadabar“ væru ‚múgurinn mikli‘ í Opinberunarbókinni 7:9-17.
7. Hvernig hafa kristnir menn nú á tímum sýnt að þeir séu ‚einlægir‘ við Jesú?
7 Allt frá fjórða áratug aldarinnar hafa múgurinn mikli og smurðir trúbræður hans stutt sanna guðsdýrkun dyggilega í verki. Í sumum löndum Austur- og Vestur-Evrópu, Austurlanda fjær og Afríku hafa margir þeirra dáið fyrir trú sína. (Lúkas 9:23, 24) Í öðrum löndum hafa þeir verið fangelsaðir, sætt skrílsárásum eða verið ofsóttir með öðrum hætti. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Þeir hafa sannarlega sýnt trúna í verki! Og þjónustuskýrslan um árið 1997 sýnir að þeir eru enn staðráðnir í að þjóna Guði, hvað sem á dynur. Þeir eru enn ‚einlægir‘ við Jesú. Það sýndi sig árið 1997 þegar 5.599.931 boðberi Guðsríkis, næstum allir „Jónadabar,“ varði alls 1.179.735.841 klukkustund í að bera vitni um Jesú.
Enn er prédikað af kostgæfni
8. Hvernig sýna vottar Jehóva kostgæfni sína gagnvart sannri tilbeiðslu?
8 Jehú var kunnur fyrir ofsalegan akstur á vagni sínum sem bar vitni um kostgæfni hans í því að ljúka verki sínu. (2. Konungabók 9:20) Jesú, hinum meiri Jehú, er svo lýst að kostgæfnin ‚uppeti‘ hann. (Sálmur 69:10) Það er því ekkert undarlegt að sannkristnir menn nú á tímum veki athygli fyrir kostgæfni sína. Bæði innan safnaðar og meðal almennings ‚prédika þeir orðið og gefa sig að því í tíma og ótíma.‘ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Kostgæfni þeirra sýndi sig sérstaklega vel snemma árs 1997 eftir að grein í Ríkisþjónustu okkar hvatti eins marga og gætu til að gerast aðstoðarbrautryðjendur. Markið var sett á ákveðinn fjölda aðstoðarbrautryðjenda í hverju landi. Og hver voru viðbrögðin? Frábær! Mörg útibú Félagsins fóru fram yfir markið. Í Ekvador var markið sett á 4000 en reyndin varð 6936 aðstoðarbrautryðjendur í mars. Japan skýrði frá alls 104.215 þessa þrjá mánuði. Í Sambíu, þar sem stefnt var að 6000 aðstoðarbrautryðjendum, skýrðu 6414 frá starfi í mars, 6532 í apríl og 7695 í maí. Hámarkstala aðstoðarbrautryðjenda og reglulegra brautryðjenda í heiminum var 1.110.251 sem er 34,2 prósenta aukning frá 1996! — Rómverjabréfið 10:10.
9. Hvernig finna vottar Jehóva fólk til að boða fagnaðarerindið, auk þess að starfa hús úr húsi?
9 Páll postuli sagði öldungum frá Efesus: „Ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum.“ (Postulasagan 20:20) Vottar Jehóva nú á tímum líkja eftir fordæmi Páls og prédika fagnaðarerindið kostgæfilega hús úr húsi. En það getur verið erfitt að finna fólk heima. Þess vegna hvetur hinn „trúi og hyggni þjónn“ boðbera Guðsríkis til að taka fólk tali á vinnustað þess, á götum úti, á ströndinni, í almenningsgörðum — já, hvar sem fólk er að finna. (Matteus 24:45-47) Árangurinn hefur verið frábær.
10, 11. Hvernig hafa boðberar í tveim löndum sýnt lofsvert framtak í að finna áhugasama sem ekki er hægt að ná sambandi við heima hjá sér?
10 Í Kaupmannahöfn hefur lítill hópur boðbera borið vitni á götunum fyrir utan járnbrautarstöðvar. Frá janúar fram til júní dreifðu þeir 4733 blöðum, áttu ágætis samtöl við fólk og fóru í margar endurheimsóknir. Allmargir boðberar í Danmörku hafa blaðaleiðir í verslunum. Í bæ einum er haldinn stór markaður á hverjum föstudegi og þangað koma þúsundir manna. Söfnuðurinn hefur því skipulagt reglulegan vitnisburð á markaðnum. Á einu svæði eru skólar heimsóttir og komið á framfæri upplýsingapakka með ritum sem eiga sérstakt erindi til skólakennara.
11 Á Hawaii hefur líka verið leitast við að ná til þeirra sem ekki eru heima. Af sérstökum starfssvæðum má nefna opin, almenn svæði (götur, almenningsgarða, bílastæði og viðkomustaði strætisvagna), miðbæjarsvæði, verslanamiðstöðvar og flugvelli, vitnisburði í síma, prédikun í strætisvögnum og á háskólasvæðum. Þess er gætt að senda hæfilega marga votta á hvert svæði og að þeir fái viðeigandi þjálfun. Vel skipulagt starf af svipuðu tagi fer fram víða um lönd. Þar af leiðandi næst til fólks sem hefur líklega aldrei tekist að finna í starfinu hús úr húsi.
Staðfesta
12, 13. (a) Hvaða aðferð beitti Satan gegn vottum Jehóva á árinu 1997? (b) Hvernig hafði falskur áróður þveröfug áhrif í einu landi?
12 Víða um lönd máttu vottar Jehóva sæta illskeyttum lygaáróðri árið 1997 sem virðist hafa haft það markmið að reyna að koma af stað lagalegum aðgerðum gegn þeim. En þeir létu ekki deigan síga! (Sálmur 112:7, 8) Þeir höfðu í huga bæn sálmaritarans: „Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.“ (Sálmur 119:69) Slíkt lygaumtal er aðeins merki þess að sannkristnir menn eru hataðir eins og Jesús spáði. (Matteus 24:9) Og stundum hefur það haft þveröfug áhrif við það sem ætlað var. Maður í Belgíu las rætna grein um votta Jehóva í velþekktu dagblaði. Stórhneykslaður á þessum rógi sótti hann samkomu í ríkissal næsta sunnudag. Hann gerði ráðstafanir til að fá biblíunámskeið hjá vottunum og tók hröðum framförum. Áður hafði maðurinn tilheyrt óaldarflokki. Námið hjálpaði honum að samræma líferni sitt Biblíunni og það vakti athygli þeirra sem til hans þekktu. Ljóst er að sá sem skrifaði rógsgreinina ætlaðist ekki til að árangurinn yrði þessi!
13 Sumt réttsinnað fólk í Belgíu hefur tekið upp hanskann fyrir votta Jehóva andspænis þessum villandi áróðri. Einn þeirra er fyrrverandi forsætisráðherra sem viðurkenndi að hann dáðist að því sem vottar Jehóva hefðu áorkað. Og þingmaður í neðri deild þingsins skrifaði: „Mér virðist ríkinu ekki stafa minnsta hætta af [vottum Jehóva], gagnstætt þeim aðdróttunum sem dreift hefur verið af og til. Þetta eru friðelskir, samviskusamir borgarar sem sýna yfirvöldum virðingu.“ Orð Péturs postula eru sannarlega viturleg: „Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.“ — 1. Pétursbréf 2:12.
Afbragðsaðsókn að minningarhátíðinni
14. Nefndu nokkrar skemmtilegar aðsóknartölur að minningarhátíðinni árið 1997.
14 Það er viðeigandi að þeir sem bera vitni um Jesú skuli líta á minningarhátíðina um dauða hans sem einn af hápunktum ársins. Árið 1997 voru 14.322.226 viðstaddir 23. mars til að halda hátíðina. Það voru rösklega 1.400.000 fleiri en árið áður. (Lúkas 22:14-20) Víða um lönd var aðsóknin langt umfram boðberafjölda sem ber vitni um góða vaxtarmöguleika í framtíðinni. Á Haítí var hámarkstala boðbera árið 1997 10.621 en 67.259 sóttu minningarhátíðina, svo dæmi sé tekið. Þú getur skoðað ársskýrsluna á bls. 18 til 21 og séð hve mikil aðsóknin var víða miðað við boðberatölu.
15. Hvernig sigruðust bræður okkar á alvarlegum vandamálum við að sækja minningarhátíðina í sumum löndum?
15 Það var ekki auðvelt fyrir alla að sækja minningarhátíðina. Í Albaníu var í gildi útgöngubann frá kl. 19:00 vegna ólgu í landinu. Minningarhátíðin hófst kl. 17:45 í 115 smáum hópum út um landið. Sólsetur var kl. 18:08 og þá hófst 14. nísan. Brauðið og vínið var borið fram um kl. 18:15. Á flestum stöðum var farið með lokabæn kl. 18:30 og viðstaddir flýttu sér síðan heimleiðis áður en útgöngubannið hófst. Samt voru 3154 viðstaddir minningarhátíðina en boðberahámarkið var 1090. Í einu Afríkulandi var ógerlegt að komast til ríkissalarins vegna ólgu þannig að tveir öldungar ákváðu að hittast á heimili þess þriðja til að leggja drög að því að halda hátíðina í smáhópum. Til að komast að húsinu urðu öldungarnir tveir að fara yfir afrennslisskurð. En bardagar voru á svæðinu og leyniskyttur skutu á alla sem reyndu að komast yfir skurðinn. Annar öldungurinn skaust yfir vandræðalaust. Hinn var á leið yfir þegar hann heyrði skothvell. Hann kastaði sér þá niður og skreið í skjól meðan kúlurnar þutu yfir höfðinu á honum. Öldungarnir héldu fundinn og þörfum safnaðarins var fullnægt.
„Af alls kyns fólki og kynkvíslum . . . og tungum“
16. Hvernig hefur hinn trúi og hyggni þjónshópur séð um að fagnaðarerindið nái til fámennra tungumálahópa?
16 Jóhannes postuli sagði að múgurinn mikli kæmi „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ (Opinberunarbókin 7:9) Þess vegna lætur hið stjórnandi ráð gefa út rit á æ fleiri tungumálum — meðal annars tungumálum afskekktra ættflokka og fámennra þjóðflokka. Í Mósambík var smáritið Líf í friðsömum nýjum heimi gefið út á fimm tungumálum aukalega, svo dæmi séu nefnd. Í Níkaragúa var bæklingurinn Öðlastu eilíft líf á jörðinni! gefinn út á miskító — fyrsta rit Varðturnsfélagsins á því máli. Margir Miskítóar þáðu bæklinginn og voru harla glaðir að sjá rit á eigin tungumáli. Félagið samþykkti útgáfu rita á 25 nýjum tungumálum árið 1997 og prentaði meira en einn milljarð tímarita.
17. Hvaða tungumálahópi var hjálpað í Kóreu og hvernig hafa myndbönd komið þessum þjóðfélagshópi að miklu gagni?
17 Í Kóreu fékk enn einn tungumálahópur hjálp. Árið 1997 var í fyrsta sinn haldið mót á kóresku táknmáli. Í Kóreu eru 15 söfnuðir táknmálstalandi manna með 543 boðberum, en 1174 sóttu mótið og 21 lét skírast. Til að hjálpa heyrnarlausum, sem skilja illa talað eða ritað mál, eru gefin út rit á myndböndum á 13 ólíkum táknmálum. Þannig er heyrnarlausum hjálpað að „lesa“ og jafnvel kynna sér fagnaðarerindið með góðum árangri. Í Bandaríkjunum gat það tekið allt að fimm árum fyrir heyrnleysingja að taka nægum framförum til að láta skírast. Nú eru svo mörg myndbönd fáanleg á bandarísku táknmáli að sumir heyrnleysingjar hafa náð að skírast eftir um það bil eitt ár.
‚Að halda sér í vagninum‘
18. Hvað tók Jehú sér fyrir hendur eftir að hann hitti Jónadab?
18 Árið 905 f.o.t. tók Jehú til við að eyða falskri tilbeiðslu eftir að Jónadab hafði gengið til liðs við hann. Hann lét boð út ganga til allra Baalsdýrkenda: „Boðið hátíðasamkomu fyrir Baal.“ Síðan gerði hann sendiboða út um allt landið til að tryggja að enginn Baalsdýrkandi yrði útundan. Þegar mannfjöldinn streymdi inn í mikilfenglegt musteri falsguðsins var þess gætt að enginn tilbiðjandi Jehóva væri þar. Að lokum brytjuðu Jehú og her hans Baalsdýrkendurna niður. „Þannig útrýmdi Jehú allri Baalsdýrkun í Ísrael.“ — 2. Konungabók 10:20-28.
19. Hvaða hugarfar ættum við að hafa í ljósi þess sem bíður mannkyns, og hvaða verki ættum við að vera upptekin af?
19 Lokadómur allra falstrúarbragða nútímans er rétt framundan. Undir handleiðslu engla boða kristnir menn öllu mannkyni fagnaðarerindið og hvetja fólk til að óttast Guð og aðgreina sig frá falstrúarbrögðunum. (Opinberunarbókin 14:6-8; 18:2, 4) Auðmjúkir menn eru hvattir til að lúta ríki Guðs undir stjórn hins krýnda konungs Jesú Krists. (Opinberunarbókin 12:10) Á þessum spennandi tíma megum við ekki leyfa kostgæfni okkar gagnvart sannri tilbeiðslu að dala.
20. Hvað ætlar þú að vera staðráðinn í að gera á þjónustuárinu 1998?
20 Davíð konungur bað einu sinni undir miklu álagi: „Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika. Ég vil lofa þig meðal lýðanna, [Jehóva].“ (Sálmur 57:8, 10) Megum við líka vera staðföst. Á þjónustuárinu 1997 ómaði öflugur lofsöngur til dýrðar Jehóva Guði, þrátt fyrir margs konar erfiðleika. Megi sams konar og enn öflugri lofsöngur óma á yfirstandandi þjónustuári. Og megi það gerast hvað sem Satan reynir til að letja okkur eða standa gegn okkur. Þá sýnum við okkur einlæg gagnvart hinum meiri Jehú, Jesú Kristi, og við tökum af allri sálu undir hina innblásnu hvatningu: „Gleðjist yfir [Jehóva] og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!“ — Sálmur 32:11.
Geturðu svarað?
◻ Hvaða breytingar áttu sér stað í Ísrael árið 905 f.o.t.?
◻ Hver er Jehú nútímans og hvernig hefur ‚múgurinn mikli‘ sýnt að hann er „einlægur“ gagnvart honum?
◻ Hvaða tölur ársskýrslunnar bera vitni um kostgæfni votta Jehóva á þjónustuárinu 1997?
◻ Hvaða hugarfar ætlum við að hafa á þjónustuárinu 1998, hvað sem Satan kann að gera okkur?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hin mikla aðsókn að minningarhátíðinni sýnir að vaxtarmöguleikar eru miklir.
[Mynd á blaðsíðu 16]
‚Múgurinn mikli‘ styður hinn meiri Jehú, Jesú Krist, og smurða bræður hans nú á tímum eins og Jónadab studdi Jehú.