Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.12. bls. 18-22
  • Jerúsalem sem rís undir nafni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jerúsalem sem rís undir nafni
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Unaðslegur mótsdagur
  • Önnur gleðisamkoma
  • Við ættum ekki að vanrækja hús Guðs
  • Gleðileg vígsla
  • Eilíft gleðiefni
  • Jerúsalem — er hún ‚allra besta yndið þitt‘?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Höfuðþættir Nehemíabókar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
  • Sönn guðsdýrkun hrósar sigri
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Múrar Jerúsalemborgar
    Biblíusögubókin mín
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.12. bls. 18-22

Jerúsalem sem rís undir nafni

„Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði.“ — JESAJA 65:18.

1. Hvað fannst Esra um útvalda borg Guðs?

ESRA prestur var áhugasamur nemandi orðs Guðs og lét sér annt um þau tengsl sem Jerúsalem hafði átt við hreina tilbeiðslu Jehóva. (5. Mósebók 12:5; Esrabók 7:27) Ást hans á borg Guðs kemur vel fram í biblíubókunum sem honum var innblásið að rita — Kroníukubókunum og Esrabók. Nafnið Jerúsalem stendur næstum 200 sinnum í þessum söguritum en alls rösklega 800 sinnum í allri Biblíunni.

2. Hvaða spádómlega merkingu getum við lesið út úr nafninu Jerúsalem?

2 Skilja má orðið „Jerúsalem“ á biblíuhebresku sem tvítölumynd. Tvítala er oftast notuð um tvennur eða samstæður svo sem augu, eyru, hendur og fætur. Í þessari tvítölumynd má líta á nafnið Jerúsalem sem spádóm um frið sem fólk Guðs ætti að njóta í tvennum skilningi — andlegum og líkamlegum. Ekki verður ráðið af Ritningunni hvort Esra skildi þetta að fullu. Sem prestur hefur hann þó gert sitt besta til að hjálpa Gyðingum að eiga frið við Guð. Og hann lagði sig fram til að Jerúsalem gæti risið undir merkingu nafns síns, það er að segja „að eiga tvöfaldan frið“ (eða grundvöllur að tvöföldum friði). — Esrabók 7:6.

3. Hve mörg ár líða uns aftur er getið um störf Esra og við hvaða aðstæður er það?

3 Biblían lætur ósagt hvar Esra var þau 12 ár sem liðu frá því að hann heimsótti Jerúsalem þangað til Nehemía kom þangað. Slæmt andlegt ástand þjóðarinnar á þeim tíma bendir til að hann hafi verið fjarverandi. En Esra var tekinn að þjóna á ný sem trúfastur prestur í Jerúsalem skömmu eftir að borgarmúrarnir voru endurbyggðir.

Unaðslegur mótsdagur

4. Hvað var sérstakt við fyrsta dag sjöunda mánaðarins?

4 Múrum Jerúsalem var lokið rétt í tæka tíð fyrir hinn mikilvæga hátíðarmánuð tísrí, sjöunda mánuðinn á trúarlegu almanaki Gyðinga. Fyrsti dagur tísrí var sérstakur hátíðisdagur í tilefni af nýju tungli, nefndur básúnublástrarhátíð. Þann dag blésu prestar í básúnur meðan Jehóva voru færðar fórnir. (4. Mósebók 10:10; 29:1) Dagurinn bjó Ísraelsmenn undir árlegan friðþægingardag þjóðarinnar hinn 10. tísrí og hina gleðilegu uppskeruhátíð frá 15. til 21. sama mánaðar.

5. (a) Hvernig notuðu Esra og Nehemía ‚fyrsta dag hins sjöunda mánaðar‘ vel? (b) Af hverju grétu Ísraelsmenn?

5 Á „fyrsta degi hins sjöunda mánaðar“ safnaðist „allur lýðurinn“ saman, líklega að hvatningu Nehemía og Esra. Karlar, konur og ‚allir þeir er vit höfðu á að taka eftir‘ komu saman. Lítil börn voru því viðstödd og fylgdust með þegar Esra stóð á palli og las lögmálið „frá birtingu til hádegis.“ (Nehemíabók 8:1-4) Með reglulegu millibili skýrðu levítarnir hið upplesna fyrir fólkinu. Ísraelsmenn grétu þegar þeim varð ljóst hve mikið vantaði á að þeir og forfeður þeirra hefðu hlýtt lögmáli Guðs. — Nehemíabók 8:5-9.

6, 7. Hvað gerði Nehemía til að stöðva grát Gyðinga og hvað geta kristnir menn lært af því?

6 En þetta var ekki rétti tíminn til að sýta og gráta. Þetta var hátíðisdagur og endurreisn borgarmúranna var nýlokið. Nehemía hvatti því fólkið til að hafa rétt hugarfar og sagði: „Farið og etið feitan mat og drekkið sæt vín og sendið þeim skammta, sem ekkert er tilreitt fyrir, því að þessi dagur er helgaður Drottni vorum. Verið því eigi hryggir, því að gleði [Jehóva] er hlífiskjöldur yðar.“ Fólkið hlýddi og fór „til þess að eta og drekka og senda skammta og halda mikla gleðihátíð, því að þeir höfðu skilið þau orð, er menn höfðu kunngjört þeim.“ — Nehemíabók 8:10-12.

7 Fólk Guðs nú á tímum getur lært margt af þessari frásögu. Þeir sem sjá um verkefni á samkomum og mótum ættu að hafa hana í huga. Auk leiðréttinga og ráðlegginga, sem stundum þarf að veita, benda þessar samkomur á blessunina sem fylgir því að uppfylla kröfur Guðs og gagnið af því. Safnaðarmönnum er hrósað fyrir góð verk og þeir eru hvattir til að vera þolgóðir. Fólk Guðs ætti að vera glatt í hjarta þegar það heldur heimleiðis eftir samkomur og mót, af því að það hefur þegið uppbyggjandi fræðslu frá orði hans. — Hebreabréfið 10:24, 25.

Önnur gleðisamkoma

8, 9. Hvaða sérstök samkoma var haldin á öðrum degi sjöunda mánaðarins og hvaða afleiðingar hafði hún fyrir fólk Guðs?

8 Annan dag þessa sérstaka mánaðar „söfnuðust ætthöfðingjar alls lýðsins, prestarnir og levítarnir saman hjá Esra fræðimanni til þess að gefa gaum að orðum lögmálsins.“ (Nehemíabók 8:13) Esra var vel í stakk búinn til að stýra þessari samkomu því að hann „hafði snúið huga sínum að því að rannsaka lögmál [Jehóva] og breyta eftir því og að kenna lög og rétt í Ísrael.“ (Esrabók 7:10) Eflaust hefur þessi samkoma lagt áherslu á þau svið þar sem fólk Guðs þurfti að fylgja lagasáttmálanum betur. Meðal annars var aðkallandi að undirbúa laufskálahátíðina sem framundan var.

9 Þessi vikulanga hátíð var haldin á réttan hátt þannig að allt fólkið bjó í bráðabirgðaskýlum úr greinum og trjálaufi. Laufskálarnir voru reistir á flötum húsþökum, í húsagörðum, í forgörðum musterisins og á torgum Jerúsalemborgar. (Nehemíabók 8:15, 16) Þetta var prýðistækifæri til að safna fólki saman og lesa upp lögmál Guðs. (Samanber 5. Mósebók 31:10-13.) Það var gert daglega „frá fyrsta degi til hins síðasta dags“ hátíðarinnar og varð þar „mjög mikil gleði“ meðal fólks Guðs. — Nehemíabók 8:17, 18.

Við ættum ekki að vanrækja hús Guðs

10. Af hverju var haldin sérstök samkoma hinn 24. dag sjöunda mánaðarins?

10 Það er réttur staður og stund til að leiðrétta alvarlega ágalla meðal fólks Guðs. Esra og Nehemía gerðu sér greinilega ljóst að nú væri rétti tíminn þannig að þeir boðuðu föstu 24. tísrí. Enn á ný var lögmál Guðs lesið og fólkið játaði syndir sínar. Síðan rifjuðu levítarnir upp miskunn Guðs við þverúðuga þjóð sína, lofuðu hann fögrum orðum og gerðu „fasta skuldbindingu“ með innsigli höfðingja, levíta og presta. — Nehemíabók 9:1-38.

11. Hvaða „fasta skuldbindingu“ gerðu Gyðingar?

11 Almenningur sór þess eið að halda þessa skriflegu ‚föstu skuldbindingu.‘ Menn ætluðu að „breyta eftir lögmáli Guðs“ og samþykktu að stofna ekki til hjúskapar við ‚heiðna íbúa landsins.‘ (Nehemíabók 10:28-30) Auk þess skuldbundu Gyðingar sig til að halda hvíldardaginn, leggja árlega fram fé til stuðnings sannri tilbeiðslu, sjá fyrir eldiviði á fórnaraltarið, gefa frumburði sauðfjár og nauta til fórnar og koma með frumgróða landsins í matsali musterisins. Þeir voru greinilega staðráðnir í að ‚yfirgefa ekki musteri Guðs síns,‘ það er að segja að vanrækja það ekki. — Nehemíabók 10:32-39.

12. Hvað er fólgið í því að vanrækja ekki hús Guðs nú á dögum?

12 Nútímafólk Jehóva þarf að gæta þess að vanrækja ekki þau sérréttindi að veita heilaga þjónustu í forgörðum hins mikla andlega musteris Jehóva. (Opinberunarbókin 7:15) Þessi þjónusta felur í sér að biðja reglulega og innilega um að tilbeiðslan á Jehóva eflist. Til að lifa í samræmi við slíkar bænir er nauðsynlegt að búa sig undir kristnar samkomur og taka þátt í þeim, leggja sitt af mörkum við að prédika fagnaðarerindið og hjálpa áhugasömum með því að heimsækja þá aftur og fræða þá um Biblíuna ef kostur er. Fjárframlög margra til prédikunarstarfsins og til viðhalds tilbeiðsluhúsa ber vitni um að þeir vilja ekki vanrækja hús Guðs. Við getum tekið þátt í að byggja nauðsynlegt samkomuhúsnæði og halda því hreinu og snyrtilegu. Við erum einnig að sýna að við elskum andlegt hús Guðs ef við stuðlum að friði meðal trúbræðra okkar og aðstoðum hvern þann sem þarfnast andlegrar eða efnislegrar hjálpar. — Matteus 24:14; 28:19, 20; Hebreabréfið 13:15, 16.

Gleðileg vígsla

13. Hvaða áríðandi máli þurfti að gefa gaum áður en hægt var að vígja borgarmúrana og hvaða gott fordæmi gáfu margir?

13 Hin ‚fasta skuldbinding,‘ sem innsigluð var á dögum Nehemía, bjó fólk Guðs undir vígsludag borgarmúranna. En það þurfti að sinna öðru aðkallandi máli. Jerúsalem var nú umlukin háum múrum með 12 hliðum en það þurfti að fjölga borgarbúum. Þótt sumir Ísraelsmenn byggju þar var borgin „víðáttumikil og stór, en fátt fólk í henni.“ (Nehemíabók 7:4) Til að leysa þetta vandamál „vörpuðu [menn] hlutkesti til þess að flytja einn af hverjum tíu inn, að hann tæki sér bústað í Jerúsalem, borginni helgu.“ Jákvæð viðbrögð manna urðu til þess að fólkið „blessaði alla þá menn, sem sjálfviljuglega réðu af að búa í Jerúsalem.“ (Nehemíabók 11:1, 2) Þetta er gott fordæmi fyrir sanna tilbiðjendur nú á tímum sem eru í aðstöðu til að flytja þangað sem meiri þörf er á aðstoð.

14. Hvað gerðist á vígsludegi borgarmúranna?

14 Innan skamms var hafist handa við að undirbúa hinn mikla vígsludag borgarmúranna. Tónlistarmönnum og söngvurum var safnað úr nærliggjandi borgum Júda. Þeim var skipað í tvo fjölmenna lofgerðarsöngflokka og átti skrúðsveit að fylgja hvorum. (Nehemíabók 12:27-31, 36, 38) Söngflokkarnir og skrúðsveitirnar lögðu af stað eftir múrnum þaðan sem lengst var til musterisins, sennilega frá Dalshliðinu, og gengu í gagnstæðar áttir uns þær mættust við hús Guðs. „Menn fórnuðu miklum fórnum þennan dag og glöddust, því að Guð hafði veitt þeim mikla gleði, og konur og börn glöddust líka, svo að gleði Jerúsalem spurðist víðsvegar.“ — Nehemíabók 12:43.

15. Af hverju reyndist vígsludagur borgarmúranna ekki varanlegt gleðiefni?

15 Biblían segir ekki hvaða dag þessi gleðihátíð var haldin. Eflaust var hún einn af hápunktum endurreisnarstarfsins eða jafnvel hámark. Mikið byggingarstarf var auðvitað framundan innan borgarinnar. En með tímanum glötuðu Jerúsalembúar hinu góða andlega hugarfari sínu. Þegar Nehemía heimsótti borgina öðru sinni komst hann að raun um að hús Guðs var aftur vanrækt og ísraelskir karlmenn voru enn á ný farnir að taka sér heiðnar konur. (Nehemíabók 13:6-11, 15, 23) Bók spámannsins Malakís vitnar einnig um þetta slæma ástand. (Malakí 1:6-8; 2:11; 3:8) Vígsla borgarmúranna var því ekki varanlegt gleðiefni.

Eilíft gleðiefni

16. Til hvaða stóratburða hlakkar fólk Guðs?

16 Fólk Jehóva þráir þann dag þegar hann sigrar alla óvini sína. Sigurinn hefst með eyðingu ‚Babýlonar hinnar miklu‘ — táknrænnar borgar sem merkir fölsk trúarbrögð í öllum myndum. (Opinberunarbókin 18:2, 8) Eyðing falstrúarbragðanna verður fyrsti áfangi þrengingarinnar miklu. (Matteus 24:21, 22) Framundan er líka afarmikilvægur atburður — himneskt brúðkaup Drottins Jesú Krists og brúðar hans, 144.000 íbúa hinnar ‚nýju Jerúsalem.‘ (Opinberunarbókin 19:7; 21:2) Við getum ekki tímasett með vissu hvenær þessu himneska brúðkaupi lýkur en það verður örugglega gleðilegur atburður. — Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. ágúst 1990, bls. 30-1.

17. Hvað vitum við um byggingu hinnar nýju Jerúsalem?

17 Við vitum að hin nýja Jerúsalem verður fullgerð mjög bráðlega. (Matteus 24:3, 7-14; Opinberunarbókin 12:12) Ólíkt hinni jarðnesku Jerúsalemborg verður hún aldrei til vonbrigða vegna þess að allir íbúar hennar eru andasmurðir, reyndir og fágaðir fylgjendur Jesú Krists. Með trúfesti sinni allt til dauða hefur hver og einn sýnt og sannað ævarandi hollustu við alheimsdrottin, Jehóva Guð. Það hefur mikla þýðingu fyrir alla aðra menn — lifandi og dauða.

18. Af hverju ættum við að ‚gleðjast og fagna ævinlega‘?

18 Skoðum hvað gerist þegar hin nýja Jerúsalem beinir athygli sinni að mönnum sem iðka trú á lausnarfórn Jesú. „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna,“ skrifaði Jóhannes postuli, „og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:2-4) Guð notar þessa ráðstöfun, sem líkt er við borg, til að lyfta mannkyni upp til fullkomleika. (Opinberunarbókin 22:1, 2) Það er ekki lítið tilefni til að ‚gleðjast og fagna ævinlega yfir því sem Guð skapar.‘ — Jesaja 65:18.

19. Hver er andlega paradísin sem kristnum mönnum hefur verið safnað í?

19 En iðrunarfullir menn þurfa ekki að bíða eftir hjálp Guðs þangað til. Árið 1919 tók Jehóva að safna þeim síðustu hinna 144.000 inn í andlega paradís þar sem ávöxtur andans fær að dafna, svo sem kærleiki, gleði og friður. (Galatabréfið 5:22, 23) Eitt áberandi einkenni þessarar andlegu paradísar er trú hinna smurðu sem byggja hana. Þeir hafa verið forystumenn í prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki og hafa náð frábærum árangri um heim allan. (Matteus 21:43; 24:14) Þar af leiðandi hafa næstum sex milljónir ‚annarra sauða‘ með jarðneska von líka fengið að ganga inn í andlegu paradísina og eiga þátt í gjöfulu starfi. (Jóhannes 10:16) Þeir hafa uppfyllt hæfniskröfurnar með því að vígjast Jehóva Guði vegna trúar sinnar á lausnarfórn sonar hans, Jesú Krists. Samband þeirra við væntanlega íbúa hinnar nýju Jerúsalem hefur reynst þeim mikil blessun. Með samskiptum sínum við smurða kristna menn hefur Jehóva því lagt traustan grundvöll að ‚nýrri jörð‘ — samfélagi guðhræddra manna sem erfa jarðneskan vettvang himnaríkis. — Jesaja 65:17; 2. Pétursbréf 3:13.

20. Hvernig mun hin nýja Jerúsalem rísa undir merkingu nafns síns?

20 Friðsældin, sem fólk Jehóva býr við í andlegu paradísinni, verður bráðlega að veruleika í bókstaflegri paradís á jörð. Það gerist þegar hin nýja Jerúsalem stígur niður af himni til blessunar mannkyni. Fólk Guðs býr þá í tvennum skilningi við þá friðsæld sem heitið er í Jesaja 65:21-25. Hinir smurðu, sem eiga eftir að fá bústað í hinni nýju Jerúsalem á himnum, og hinir ‚aðrir sauðir‘ tilbiðja Jehóva saman í andlegri paradís og njóta friðar hans þar. Og slíkur friður nær alla leið inn í hina bókstaflegu paradís þegar ‚vilji Guðs verður gerður um alla jörðu sem á himni.‘ (Matteus 6:10) Já, dýrleg borg Guðs á himni mun rísa undir nafninu Jerúsalem og reynast traustur ‚grundvöllur að tvöföldum friði.‘ Um alla eilífð verður hún sem lofgerð um hinn mikla skapara sinn, Jehóva Guð, og um konunginn og brúðgumann Jesú Krist.

Manstu?

◻ Hvað ávannst þegar Nehemía safnaði fólkinu saman í Jerúsalem?

◻ Hvað þurftu Gyðingar til forna að gera til að vanrækja ekki hús Guðs og hvað þurfum við að gera?

◻ Hvernig á „Jerúsalem“ þátt í varanlegri gleði og friði?

[Kort/Mynd á blaðsíðu 21]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

BORGARHLIÐ JERÚSALEM

Hæðartölur miðast við núverandi hæð í metrum yfir sjávarmáli.

FISKHLIÐIÐ

GAMLA HLIÐIÐ

EFRAÍMHLIÐIÐ

HORNHLIÐIÐ

Breiðimúr

Torg

DALSHLIÐIÐ

ANNAÐ BORGARHVERFI

Eldri norðurmúr

DAVÍÐSBORG

ÖSKUHLIÐIÐ (MYKJUHLIÐIÐ)

Hinnoms dalur

Kastali

SAUÐAHLIÐIÐ

DÝFLISSUHLIÐIÐ

Musterissvæðið

VARÐHLIÐIÐ (MÍFKAHLIÐIÐ)

HROSSAHLIÐIÐ

ÓFEL

Torg

VATNSHLIÐIÐ

Gíhonlind

LINDARHLIÐIÐ

Kóngsgarður

Rógel-lind

Miðdalur

Kídrondalur

740

730

730

750

770

770

750

730

710

690

670

620

640

660

680

700

720

740

730

710

690

670

Líkleg lega borgarmúranna þegar Jerúsalem var eytt og þegar Nehemía stýrði endurreisn þeirra.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila