Gerðu eilífa arma Jehóva að stuðningi þínum
„Hæli er hinn eilífi Guð, og hið neðra eru eilífir armar.“ — 5. MÓSEBÓK 33:27.
1, 2. Hvers vegna getur fólk Jehóva reitt sig á stuðning hans?
JEHÓVA ber umhyggju fyrir þjóð sinni. Ávallt þegar Ísraelsmenn voru í nauðum staddir „kenndi hann nauða“! „Hann tók þá upp og bar þá“ af elsku og samúð. (Jesaja 63:7-9) Ef við því sýnum Guði hollustu getum við reitt okkur á stuðning hans.
2 Spámaðurinn Móse sagði: „Hæli er hinn eilífi Guð, og hið neðra eru eilífir armar.“ (5. Mósebók 33:27) Önnur þýðing segir: „Þar er bústaður þess guðs, sem er frá upphafi, og þar fyrir neðan er hans eilífi armleggur.“ (Bi. 1859) En hvernig styðja armar Guðs þjóna hans?
Hvers vegna svona margir erfiðleikar?
3. Hvenær mun hlýðið mannkyn að fullu njóta „dýrðarfrelsis Guðs barna“?
3 Að þjóna Jehóva hlífir okkur ekki við þeim erfiðleikum sem mæta ófullkomnum mönnum. Þjónn Guðs, Job, sagði: „Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi.“ (Jobsbók 14:1) Um ‚ævidaga okkar‘ segir sálmaritarinn: „Dýrsta hnossið er mæða og hégómi.“ (Sálmur 90:10) Þannig verður lífið uns ‚sköpunin verður leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.‘ (Rómverjabréfið 8:19-22) Það mun eiga sér stað í þúsundáraríki Krists. Mennskir þegnar ríkisins munu þá upplifa það að verða leystir undan synd og dauða á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Við lok þúsund áranna hefur Kristur, ásamt prestkonungum sínum, hjálpað hlýðnu mannkyni að ná fullkomleika og þeir sem reynast Guði trúir í lokaprófraun Satans og illra anda hans munu fá nöfn sín rituð varanlega í „lífsins bók.“ (Opinberunarbókin 20:12-15) Þá munu þeir njóta að fullu dýrðarfrelsis Guðs barna.
4. Hvað ættum við að gera í stað þess að kvarta yfir hlutskipti okkar í lífinu?
4 Þangað til skulum við treysta á Jehóva í stað þess að kvarta yfir hlutskipti okkar í lífinu. (1. Samúelsbók 12:22; Júdasarbréfið 16) Verum líka þakklát fyrir æðsta prest okkar, Jesú, sem við getum nálgast Guð í gegnum „til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.“ (Hebreabréfið 4:14-16) Við skulum aldrei líkja eftir Adam. Í reynd ásakaði hann Jehóva ranglega um að hafa gefið sér vonda konu er hann sagði: „Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át.“ (1. Mósebók 3:12) Guð gefur góðar gjafir og veldur okkur ekki erfiðleikum. (Matteus 5:45; Jakobsbréfið 1:17) Erfiðleikar eru oft afleiðing vanvisku okkar eða mistaka annarra. Þeir geta líka komið yfir okkur vegna þess að við erum syndug og lifum í heimi sem er á valdi Satans. (Orðskviðirnir 19:3; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Samt sem áður styðja eilífir armar Jehóva ávallt trúfasta þjóna hans sem biðja til hans í trúartrausti og fara í lífi sínu eftir ráðleggingunum í orði hans. — Sálmur 37:5; 119:105.
Stuðningur í veikindum
5. Hvaða uppörvun geta þeir sem eru sjúkir fundið í Sálmi 41:2-4?
5 Flest okkar verða af og til að þola veikindi. En þó sagði Davíð: „Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar [Jehóva] honum. [Jehóva] varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans. [Jehóva] styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.“ — Sálmur 41:2-4.
6, 7. Hvernig hjálpaði Guð Davíð á sjúkrabeði hans, og hvernig getur það uppörvað þjóna Jehóva núna?
6 Nærgætinn maður hjálpar hinum nauðstadda. ‚Mæðudagurinn‘ getur verið ýmiss konar armæða eða lanvinnir erfiðleikar sem draga máttinn úr einstaklingnum. Hann treystir Guði til að varðveita sig þegar heilsan brestur, og aðrir segja hann njóta „sælu í landinu“ með því að láta það berast hve Jehóva er miskunnsamur við hann. Guð studdi Davíð „á sóttarsænginni,“ ef til vill á þeim streitutímum þegar Absalon sonur hans reyndi að sölsa undir sig hásætið í Ísrael. — 2. Samúelsbók 15:1-6.
7 Þar sem Davíð hafði gefið gaum að bágstöddum fannst honum að Guð myndi styðja hann er hann lá hjálparvana á sjúkrabeði. (Sálmur 18:25-27) Þótt hann hafi verið alvarlega veikur var hann viss um að Guð myndi ‚breyta beð hans,‘ ekki með því að lækna sjúkdóm hans með kraftaverki heldur styrkja hann með hughreystandi hugsunum. Það yrði eins og Jehóva breytti sóttarsæng hans í lækningarrúm. Á svipaðan hátt munu eilífir armar Jehóva styðja okkur ef við sem þjónar hans þjáumst vegna sjúkleika.
Hughreysting fyrir þunglynda
8. Hvernig sýndi lasburða kristinn maður traust sitt til Guðs?
8 Veikindi geta valdið mönnum þunglyndi. Bróðir, sem er alvarlega veikur og stundum svo máttfarinn að jafnvel lestur er honum um megn, segir: „Þetta vekur hjá mér ýmsa þunglyndisþanka, mér finnst ég einskis virði og fer jafnvel að gráta.“ Hann veit að Satan reynir að brjóta hann niður með því að draga úr honum kjarkinn og hann spyrnir við fótum, þess fullviss að með hjálp Jehóva muni hann ekki bugast. (Jakobsbréfið 4:7) Þessi maður er öðrum til uppörvunar sem vita að hann reiðir sig á Guð. (Sálmur 29:11) Jafnvel þegar hann er á sjúkrahúsi ræðir hann í síma við sjúklinga og aðra til að byggja þá upp andlega. Hann uppbyggir sjálfan sig með því að hlusta af snældum á ríkissöngvana og upplestur greina úr þessu tímariti og fylgiriti þess, Vaknið! Hann sækir einnig styrk í samvistir við trúbræður og bætir við: „Ég tala reglulega við Jehóva í bæn og bið hann að veita mér styrk, leiðsögn, hughreystingu og hjálp til að halda út.“ Ef þú ert kristinn maður og átt við alvarleg veikindi að stríða skaltu alltaf treysta Jehóva og gera eilífa arma hans að stuðningi þínum.
9. Hvaða dæmi sýna að þunglyndi þjáir stundum guðhrædda menn?
9 Þunglyndi er gamalkunnugt vandamál. Þegar prófraunir hvíldu á Job talaði hann eins og maður sem fannst Guð hafa yfirgefið sig. (Jobsbók 29:2-5) Áhyggjur af því að Jerúsalem og múrar hennar væru rústir einar gerðu Nehemía dapran í bragði, og Pétur varð svo niðurdreginn yfir því að hafa afneitað Kristi að hann grét beisklega. (Nehemía 2:1-8; Lúkas 22:62) Epafrodítusi leið illa út af því að kristnir menn í Filippí höfðu heyrt að hann hefði orðið sjúkur. (Filippíbréfið 2:25, 26) Sumir hinna kristnu í Þessaloníku þjáðust af þunglyndi, því að Páll hvatti bræður þar til að ‚hughreysta ístöðulitla.‘ (1. Þessaloníkubréf 5:14) En hvernig kemur Guð slíkum einstaklingum til hjálpar?
10. Hvað getur verið hjálplegt í baráttunni við þunglyndi?
10 Menn verða sjálfir að ákveða hvernig langvarandi þunglyndi skuli meðhöndlað.a (Galatabréfið 6:5) Næg hvíld og hæfileg athafnasemi getur hjálpað. Í stað þess að líta á mörg vandamál að eitt stórt gæti verið hjálplegt fyrir þunglyndan mann að takast á við þau eitt í einu. Huggunarrík hjálp safnaðaröldunga getur verið mjög gagnleg, sérstaklega ef þetta tilfinningavandamál skaðar andlega heilsu sjúklingsins. (Jakobsbréfið 5:13-15) Mikilvægast af öllu er að treysta á Jehóva, ‚varpa öllum áhyggjum á hann því að hann ber umhyggju fyrir okkur.‘ Staðföst og innileg bæn getur fært okkur ‚frið Guðs, sem mun varðveita hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú.‘ — 1. Pétursbréf 5:6-11; Filippíbréfið 4:6, 7.
Jehóva hjálpar okkur að rísa undir sorg
11-13. Hvað getur hjálpað við að lina sorg vegna dauða ástvinar?
11 Það fær einnig mjög á okkur þegar einhver okkur nákominn deyr. Abraham syrgði dauða konu sinnar, Söru. (1. Mósebók 23:2) Davíð varð harmi sleginn þegar Absalon sonur hans dó. (2. Samúelsbók 18:33) Já, jafnvel hinn fullkomni maður Jesús „grét“ vegna dauða vinar síns, Lasarusar! (Jóhannes 11:35) Það er því alltaf dapurlegt að missa ástvin í dauðann. En hvað getur hjálpað til að lina slíka sorg?
12 Guð hjálpar fólki sínu að bera hina miklu sorg sem fylgir slíkum missi. Orð hans segir að upprisa muni eiga sér stað. Þess vegna erum við ekki „hryggir eins og hinir, sem ekki hafa von.“ (1. Þessaloníkubréf 4:13; Postulasagan 24:15) Andi Jehóva hjálpar okkur að hafa frið og trú og hugleiða þá dásamlegu framtíð sem orð hans lofar okkur, svo að við látum ekki yfirbugast vegna sorglegra hugsana um látinn ástvin. Við fáum einnig hughreystingu með því að lesa Ritninguna og ræða í bæn við „Guð allrar huggunar.“ — 2. Korintubréf 1:3, 4; Sálmur 68:5-7.
13 Við getum fundið huggun í upprisuvoninni eins og hinn guðhræddi Job sem hrópaði: „Ó að þú [Jehóva] vildir geyma mig í dánarheimum, fela mig, uns reiði þinni linnir, setja mér tímatakmark og síðan minnast mín! Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? þá skyldi ég þreyja alla daga herþjónustu minnar, þar til er lausnartíð mín kæmi. Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:13-15) Yfirleitt erum við ekki mjög sorgmædd þegar náinn vinur fer í ferðalag því að við væntum þess að sjá hann aftur. Sorgina miklu vegna ástvinamissis má lina að einhverju marki ef við lítum svipuðum augum á dauða trúfasts kristins manns. Ef hann hafði jarðneska von verður hann vakinn af dauðasvefni hér á jörðinni í þúsundáraríki Krists. (Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 20:11-13) Og ef við vonumst til að lifa eilíflega á jörðinni getum við verið viðstödd til að bjóða upprisna ástvini okkar velkomna.
14. Hvernig tókust tvær kristnar ekkjur á við dauða eiginmanna sinna?
14 Systir missti eiginmann sinn en gerði sér ljóst að líf hennar í þjónustu Guðs þurfti að halda áfram. Hún gerði sér far um að vera ‚síauðug í verki Drottins,‘ en auk þess bjó hún til bútasaumsteppi úr 800 bútum. (1. Korintubréf 15:58) „Þetta var ágætis verkefni,“ segir hún, „vegna þess að allan tímann, meðan ég var að vinna, gat ég hlustað á ríkissöngvana og biblíusnældur sem hélt huga mínum uppteknum.“ Hún minnist með hlýhug heimsóknar reynds öldungs og eiginkonu hans. Öldungurinn benti á frá Biblíunni að Guð sýnir ekkjum sérstaka umhyggju. (Jakobsbréfið 1:27) Önnur kristin kona lét ekki sjálfsvorkunn ná tökum á sér þegar eiginmaður hennar dó. Hún kunni að meta stuðning vina sinna og fór að sinna velferð annarra meira en áður. „Ég bað oftar og byggði upp nánara samband við Jehóva,“ segir hún. Og hvílík blessun er það ekki að fá stuðning frá eilífum örmum Jehóva!
Hjálp þegar við gerum mistök
15. Hvert er inntak orða Davíðs í Sálmi 19:8-14?
15 Þótt við elskum lög Jehóva verða okkur stundum á mistök. Það fær án efa mjög á okkur eins og það kvaldi Davíð, en lögmál Guðs, vitnisburður, fyrirmæli og ákvæði voru honum dýrmætari en gull. Hann sagði: „Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér. En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum! Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér [„varðveittu og þinn þjón frá drambsemi, að hún ekki drottni yfir mér,“ Bi. 1859]. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti“. (Sálmur 19:8-14) Skoðum þessi orð aðeins nánar.
16. Hvers vegna ættum við að forðast drambsemi?
16 Drambsemi er miklu alvarlegri synd en yfirsjónir. Sál var hafnað sem konungi fyrir að færa drambsamur fórn og fyrir að hlífa Agag konungi Amalekíta ásamt því besta úr herfanginu, þó að Guð hefði boðið að Amalekítum skyldi tormímt. (1. Samúelsbók 13:8-14; 15:8-19) Ússía konungur var slegin líkþrá er hann réðst drambsamur inn á starfssvið prestanna. (2. Kroníkubók 26:16-21) Þegar verið var að flytja sáttmálsörkina til Jerúsalem og við lá að akneytin, sem drógu kerruna, veltu henni laust Guð Ússa til bana fyrir að grípa af virðingarleysi í örkina til að styðja hana. (2. Samúelsbók 6:6, 7) Ef við því vitum ekki hvað við eigum að gera eða hvað okkur er heimilt, ættum við að sýna hógværð og leita ráða hjá þeim sem hafa næma dómgreind. (Orðskviðirnir 11:2; 13:10) Ef við höfum einhvern tíma verið drambsöm ættum við tvímælalaust að biðja Guð um fyrirgefningu og hjálp til að forðast drambsemi í framtíðinni.
17. Hvaða áhrif geta leyndar syndir haft á einstaklinga en hvernig fæst fyrirgefning og hugarfriður?
17 Leyndar syndir geta íþyngt okkur. Samkvæmt Sálmi 32:1-5 reyndi Davíð að fela synd sína en hann sagði: „Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég, því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju.“ Tilraunir til að þagga niður í samviskunni gerðu Davíð magnþrota og sálarkvöl hans dró úr honum máttinn eins og tré sem missir lífsvökva sinn í þurrki eða sumarbreiskju. Honum leið greinilega mjög illa bæði andlega og líkamlega og var horfin gleðin af því að hann hafði ekki játað synd sína, en aðeins slík játning fyrir Guði gat fært fyrirgefningu og hugarfrið. Davíð sagði: „Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. . . . Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: ‚Ég vil játa afbrot mín fyrir [Jehóva],‘ og þú fyrirgafst syndasekt mína.“ Kærleiksrík hjálp kristinna öldunga getur stuðlað að andlegum bata. — Orðskviðirnir 28:13; Jakobsbréfið 5:13-20.
18. Hvað sýnir að synd getur haft langvarandi áhrif en hvað getur verið uppspretta huggunar við slíkar kringumstæður?
18 Synd getur haft langvarandi áhrif. Það gerðist hjá Davíð sem drýgði hór með Batsebu, olli með kænskubrögðum dauða manns hennar og kvæntist barnshafandi ekkjunni. (2. Samúelsbók 11:1-27) Þó að Guð hafi sýnt Davíð miskunn vegna sáttmála síns við hann um konungdóm, iðrunar Davíðs og miskunnsemi hans við aðra, kom yfir Davíð ‚ólán frá húsi hans.‘ (2. Samúelsbók 12:1-12) Hórdómsbarnið dó. Sonur Davíðs, Amnon, nauðgaði Tamar hálfsystur sinni og var drepinn að boði Absalons bróður hennar. (2. Samúelsbók 12:15-23; 13:1-33) Absalon svívirti Davíð með því að hafa kynmök við hjákonur hans. Hann reyndi að sölsa undir sig hásætið en mætti dauða sínum. (2. Samúelsbók 15:1-18:33) Syndir hafa enn þá eftirköst. Til dæmis gæti brottrekinn syndari iðrast og verið tekinn aftur inn í söfnuðinn, en það getur tekið mörg ár að hreinsa flekkað mannorð og komast yfir andlegt áfall sem syndin olli. En hvílík huggun að geta á meðan átt fyrirgefningu Jehóva og stuðning eilífra arma hans!
Bjargað úr nauðum okkar
19. Hvernig getur andi Guðs hjálpað þegar við lendum í erfiðum prófraunum?
19 Undir erfiðum prófraunum gæti okkur skort næga visku og styrk til að taka ákvarðanir og framkvæma þær. Í slíkum tilvikum „hjálpar og [andi Guðs] oss í veikleika vorum. Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið.“ (Rómverjabréfið 8:26) Ef Jehóva lætur kringumstæður okkar breytast ættum við að vera þakklát. Armur hans kann þó að koma okkur til bjargar á annan hátt. Ef við biðjum um visku gæti Jehóva með anda sínum sýnt okkur hvað við ættum að gera og veitt okkur nægan styrk til að framkvæma það. (Jakobsbréfið 1:5-8) Með hjálp hans getum við haldið út þegar við ‚hryggjumst í margs konar raunum‘ og komið úr þeim með reynda og styrkta trú. — 1. Pétursbréf 1:6-8.
20. Hvers munum við fá notið ef við raunverulega gerum eilífa arma Jehóva að stuðningi okkar?
20 Þreytumst aldrei á að leita til Jehóva í bæn. „Augu mín mæna ætíð til [Jehóva], því að hann greiðir fót minn úr snörunni,“ sagði Davíð. „Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður. Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum. Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.“ (Sálmur 25:15-18) Eins og Davíð munum við njóta þess að fá frelsun, velþóknun og fyrirgefningu frá Guði ef við í raun og veru gerum eilífa arma Jehóva að stuðningi okkar.
[Neðanmáls]
a Sjá greinar um þunglyndi í Vaknið! janúar-mars 1988, bls. 2-21.
Hvernig svarar þú?
◻ Hvernig hjálpar Jehóva þjónum sínum sem eru sjúkir?
◻ Hvað gæti verið hjálplegt í baráttu okkar við þunglyndi?
◻ Hvað getur hjálpað til að draga úr sorg vegna dauða ástvinar?
◻ Hvernig geta þeir sem leyna synd sinni fengið hugarfrið?
◻ Hvaða hjálp er möguleg þegar þjónar Jehóva verða fyrir miklum prófraunum?