‚Jehóva er minn hirðir‘
„[Jehóva] er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ — SÁLMUR 23:1.
1, 2. Nefndu nokkur af afrekum Davíðs. Hve marga sálma samdi hann?
SJÁÐU fyrir þér þessa stöðu: Herir Filista og Ísraelsmanna standa hvorir gegn öðrum. Golíat, filistínskur risi, ögrar þeim. Ungur maður, með aðeins slöngvivað og steina að vopni, hleypur fram til móts við hann. Hann miðar og kastar og steinninn hittir risann í ennið og drepur hann. Hver var þessi ungi maður? Fjárhirðirinn Davíð sem vann þennan ótrúlega sigur með hjálp Jehóva Guðs. — 1. Samúelsbók 17. kafli.
2 Síðar meir varð þessi ungi maður konungur Ísraels og ríkti í 40 ár. Hann var góður hörpuleikari og samdi mikið af ljóðum vegna innblásturs frá Guði. Davíð samdi einnig yfir 40 fagra sálma sem eru þjónum Jehóva nú á tímum til mikillar hvatningar og leiðsagnar. Enginn er jafnvel þekktur og Sálmur 23. Við leggjum til að þú opnir Biblíuna þína og fylgist með þegar við förum yfir sálminn vers fyrir vers.
Jehóva, kærleiksríkur hirðir
3. (a) Hvernig hætti Davíð lífinu til að vernda sauði sína? (b) Í hvaða skilningi er Jehóva hirðir okkar?
3 „[Jehóva] er minn hirðir.“ (Sálmur 23:1) Sem reyndur fjárhirðir kunni Davíð að leiða sauðina, næra þá og vernda. Einhverju sinni verndaði hann þá fyrir ljóni og öðru sinni fyrir birni. (1. Samúelsbók 17:34-36) Sauðir Davíðs treystu hirði sínum fyllilega. En gagnvart Jehóva var Davíð sjálfur eins og sauður. Þar eð honum fannst hann öruggur undir verndarhendi Guðs gat hann sagt: „[Jehóva] er minn hirðir.“ Finnur þú til þessarar öryggiskenndar með Jehóva sem hinn mikla hirði þinn? Svo sannarlega leiðir hann, nærir og verndar sauðumlíka dýrkendur sína núna. Þar að auki hefur hann skipað trúfasta, kærleiksríka undirhirða, öldungana í söfnuðum votta Jehóva, til að gæta sauða sinna. — 1. Pétursbréf 5:1-4.
4. Hvernig er líkt komið fyrir okkur og Ísraelsmönnum í eyðimörkinni?
4 „Mig mun ekkert bresta.“ Hugleiddu þessi orð. Veitir ástrík umhyggja Jehóva þér ekki stillingu og trúnaðartraust? Manstu hvernig Ísraelsmönnum vegnaði þau 40 ár sem þeir reikuðu um eyðimörkina? Guð fullnægði öllum frumþörfum þeirra. Eins er það nú á dögum. Margir geta tekið undir þessi innblásnu orð Davíðs: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.“ (Sálmur 37:25) Á okkar tímum er séð fyrir gnægð andlegrar fæðu fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 4:4; 24:45-47) Auk nokkurra samkoma í viku hverri höfum við Biblíuna, tímaritin Varðturninn og Vaknið! og fjölmörg önnur rit. Jafnvel í löndum þar sem prédikun votta Jehóva er bönnuð fá bræðurnir andlega fæðu reglulega. Sauði Jehóva skortir ekkert!
5. Hvers vegna búa sauðir Jehóva nú á dögum við hugarró og hvaða afleiðingar hefur það?
5 „Á grænum grundum lætur hann mig hvílast.“ (Sálmur 23:2) Í Ísrael til forna voru stórar, grænar grundir umhverfis margar af borgunum. Líkt og umhyggjusamur fjárhirðir þeirra tíma fór með sauði sína út á góð beitilönd, þar sem öllu var óhætt, eins annast Jehóva sauði sína núna. Sálmaritarinn segir: „Vér erum gæslulýður hans.“ (Sálmur 79:13; 95:7) Bókstaflegum sauðum líður vel þegar vel er hugsað um þá og þeir geta hvílst yfir daginn meðan heitast er. Nútímasauðum Jehóva er rótt í huga vegna þess að þeir treysta hinum þroskuðu hirðum sem gæta þeirra — umsjónarmönnum í söfnuðum og farandsvæðum. Af því leiðir að hin andlega hjörð fer stækkandi. Margir, sem falshirðar Babýlonar hinnar miklu höfðu vanrækt og farið illa með, eru núna mjög glaðir og hamingjusamir sem sauðir Jehóva.
6. Hvernig ‚leiðir Jehóva okkur að vötnum þar sem við megum næðis njóta‘?
6 „Leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.“ Fjárhirðir í Ísrael þurfti að leiða sauði sína að á eða vatni til að þeir gætu drukkið, en á þurrkatímanum var oft erfitt að finna vatn. Núna ‚leiðir Jehóva okkur að vötnum þar sem við megum næðis njóta‘ með því að sjá okkur fyrir sannleiksvatni í ríkum mæli. (Samanber Esekíel 34:13, 14.) Og spámaðurinn Jesaja gefur þetta hvetjandi boð: „Heyrið, allir þér sem þyrstir eruð, komið hingað til vatnsins.“ (Jesaja 55:1) Með því að teyga þetta andlega vatn eru sauðirnir verndaðir fyrir þeim eldi er kemur yfir þá „sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu.“ — 2. Þessaloníkubréf 1:8; Opinberunarbókin 7:16, 17.
7. Hvenær er andleg hressing frá Jehóva sérstaklega mikilvæg og við hvaða aðstæður geta ritningargreinar, sem við höfum lagt á minnið, verið til mikils gagns?
7 „Hann hressir sál mína.“ (Sálmur 23:3) Þegar við erum þreytt og kjarklaus, eigum í vandamálum og mætum alvarlegri andstöðu hressir Jehóva okkur með orði sínu. Þess vegna er gott fyrir kristinn mann að temja sér að lesa hluta af Biblíunni dag hvern. Gerir þú það? Sumum hefur reynst það vel að leggja ákveðna ritningarstaði á minnið, svo sem 2. Mósebók 34:6, 7 eða Orðskviðina 3:5, 6. Hvaða kostir fylgja því? Ef upp kæmi alvarleg staða og þú hefðir ekki biblíu við hendina gætir þú samt sem áður sótt styrk og hughreystingu í Ritninguna. Margir bræður, sem dæmdir hafa verið til vistar í fangelsum eða fangabúðum vegna fastheldni sinnar við réttlátar meginreglur, hafa fengið mikinn styrk og hressingu af því að rifja upp ritningarstaði sem þeir höfðu lagt á minnið. Já, orð Guðs getur ‚glatt hjartað‘ og ‚hýrgað augun‘! — Sálmur 19:8-11.
8. Er auðvelt að fylgja ‚réttri braut‘ en hvert leiðir hún okkur?
8 „Leiðir mig um rétta vegu.“ Það er erfitt að fylgja vegum réttlætisins en þeir liggja til lífsins. Eins og Jesús komst að orði: „Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins.“ (Matteus 7:14) Páll postuli lét í ljós áþekka hugsun með því að segja lærisveinunum í Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu: „Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar.“ Og Páll vissi svo sannarlega hvað hann var að tala um. Skömmu áður hafði hann verið grýttur í Lýstru og héldu menn hann dáinn! — Postulasagan 14:19-22.
9. (a) Hvernig ‚leiðir Guð okkur um rétta braut‘? (b) Á hvaða veg getur Sálmur 19:14 verið okkur til gagns? (c) Hvaða ritningarstaðir geta hjálpað okkur að forðast snöru siðleysisins?
9 Jehóva ‚leiðir okkur um rétta vegu‘ með því að leiðbeina okkur og fræða í gegnum orð sitt og skipulag. En flestir fylgja hinum breiða og víðáttumikla vegi „sem liggur til glötunar.“ (Matteus 7:13) Stjórnlaust siðleysi og ör útbreiðsla eyðni undirstrikar hve þýðingarmikið er fyrir kristinn mann að forðast slæman félagsskap. (1. Korintubréf 15:33) Við þurfum líka að gæta þess að hugsanir okkar fái ekki að reika inn á óhreinar brautir. (Sálmur 19:15) Til að svo megi verða skulum við alltaf fylgja þeim góðu ráðum sem orð Guðs gefur um kynferðismál og hvernig við getum forðast hinar mörgu gildrur siðleysisins. — 1. Korintubréf 7:2-5; Efesusbréfið 5:5; 1. Þessaloníkubréf 4:3-8.
10. (a) Hvaða ábyrgð hvílir á vottum Jehóva gagnvart nafni Guðs? (b) Hvers vegna gagnrýnir veraldlegt fólk okkur oft? (c) Við hvaða aðstæður mun Jehóva hjálpa okkur?
10 „Fyrir sakir nafns síns.“ Vottar Jehóva bera þá þungu ábyrgð að upphefja nafn Guðs og varast að setja á það nokkurn blett. (Matteus 6:9; 2. Mósebók 6:3; Esekíel 38:23) Margt fólk í heiminum er snöggt til að benda ásakandi á þjóna Jehóva. Ef það er gert vegna fastheldni okkar við meginreglur Biblíunnar, svo sem um hlutleysi eða heilagleika blóðsins, er samviska okkar hrein. En ef það myndi gerast vegna rangrar breytni af okkar hálfu værum við að vanheiðra Jehóva. (Jesaja 2:4; Postulasagan 15:28, 29; 1. Pétursbréf 4:15, 16) Því er mikilvægt að hata hið illa. (Sálmur 97:10) Ef við þurfum að þola ofsóknir mun Jehóva alltaf hjálpa okkur og vernda sakir nafns síns.
Jehóva verndar sauði sína
11. Hvað er átt við með ‚dimmum dal‘ og á hvað minnir það okkur um Jesú?
11 „Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt.“ (Sálmur 23:4) Í íslenskri útgáfu Biblíunnar frá 1859 stendur: „Þó eg ætti að gánga um dauðans skuggadal, skyldi eg samt einga ólukku hræðast.“ Þessi orð leiða hugann að djúpum gljúfrum og skorningum í fjöllunum í Júda vestanvert við Dauðahafið. Þröngir dalir eða gljúfur, þar sem rándýr liggja í leyni í skugganum, eru hættuleg fyrir sauði. Davíð fór um marga hættulega dali á ævinni þar sem hann horfðist í augu við dauðann. En þar eð Guð leiddi hann var hann öruggur og lét ekki stjórnlausan ótta ná tökum á sér. Við ættum að bera sams konar traust til Jehóva. Orðin um „dimman dal“ kunna líka að minna á spádóm Jesaja: „Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós.“ Matteus heimfærði þennan spádóm á Jesú Krist og sagði: „Sú þjóð, sem í myrkri sat, sá mikið ljós. Þeim er sátu í skuggalandi dauðans, er ljós upp runnið.“ Hvernig? Með hinni miklu prédikun sem Jesús stóð fyrir. — Jesaja 9:2; Matteus 4:13-16.
12. (a) Hvernig hafa þjónar Jehóva aðlagað sig ofsóknum í mörgum löndum og með hvaða árangri? (b) Hvernig uppörvaði Pétur frumkristna menn sem voru ofsóttir?
12 Davíð ‚óttaðist ekkert illt.‘ Hið sama má segja um þjóna Jehóva núna, jafnvel þótt þeir njóti ekki vinsælda í þessum illa heimi sem Satan stjórnar. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Margir hreinlega hata þá og þeir eru grimmilega ofsóttir í sumum löndum. En í þessum löndum halda þeir áfram að prédika fagnaðarerindið um ríkið, þótt ekki sé með jafnopinskáum hætti og þeir ella myndu gera. Þeir vita að Jehóva er með þeim og mun vernda þá. (Sálmur 27:1) Góð framför er í mörgum löndum þar sem starf Guðsríkis þarf að fara fram með leynd. Í þeim löndum enduróma vottar Jehóva orð sálmsins: „[Jehóva] er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?“ (Sálmur 118:6) Þessir vottar eru í líkri aðstöðu og frumkristnir menn sem Pétur postuli skrifaði þessi hvetjandi orð: „En þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir. Hræðist eigi og skelfist eigi fyrir neinum.“ — 1. Pétursbréf 3:14.
13. (a) Hvaða athyglisverð breyting verður í Sálmi 23:4 og hvers vegna? (b) Hvernig geta kristnir menn sigrast á ótta sínum?
13 „Því að þú ert hjá mér.“ Taktu eftir athyglisverðu atriði í þessari setningu. Sálmaritarinn hefur nú skipt úr þriðju persónu í aðra persónu. Í stað þess að tala um Jehóva sem „hann“ notar Davíð nú persónufornafnið „þú.“ Hvers vegna? Vegna þess að það er innilegra. Hætta færir okkur nær ástríkum föður okkar, Jehóva. Við njótum nánara sambands við hann. Í bænum okkar getum við ákallað hann til verndar og sigrast á ótta okkar. — Samanber Sefanía 3:12.
14. (a) Hvaða verkfæri höfðu fjárhirðar á dögum Davíðs og hvernig notuðu þeir þau? (b) Hvernig vernda kristnir hirðar hjörðina nú á dögum?
14 „Sproti þinn og stafur hugga mig.“ Hebreska orðið shevet, þýtt „sproti,“ getur einnig merkt hirðingjastafur. Hægt er að nota bæði hirðingjastaf og venjulegan staf til varnar og einnig til tákns um yfirvald. Slík verkfæri væru vissulega gagnleg til að hræða burt snáka og rándýr svo sem úlfa. Með hirðingjastafnum gæti hirðirinn einnig stjakað sauðum í rétta átt eða jafnvel dregið sauð frá stað þar sem hann kynni að detta og slasast. Á okkar dögum sér Jehóva fyrir trúföstum hirðum, öldungum safnaðarins, sem verja hjörðina fyrir andlegum rándýrum svo sem fráhvarfsmönnum. Stundum þurfa öldungarnir að ráða heilt þeim sem verða slakir í því að sækja samkomur eða víkja frá kristnum lífsstöðlum.
Veisluborð mitt á meðal óvina
15. (a) Hvaða aðra líkingu tekur Davíð í Sálmi 23:5? (b) Hvað sýnir að þjónar Jehóva eru vel nærðir andlega, ólíkt hverjum?
15 „Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum.“ (Sálmur 23:5) Hér grípur Davíð til annarrar líkingar: gestgjafa. Sem einkar örlátur gestgjafi sér Jehóva okkur fyrir gnægð andlegrar fæðu fyrir milligöngu hins smurða ‚þjóns.‘ (Matteus 24:45) Þótt við búum í fjandsamlegum heimi er vel fyrir okkur séð. Varðturninn kemur út á liðlega 100 tungumálum til að fólk á jafnólíkum stöðum og Suður-Afríku, Grænlandi, Salómonseyjum og Indlandi geti fengið andlega fæðu. Í söfnuðunum um allan heim, sem eru um 55.000, eru vel þjálfaðir ræðumenn og kennarar. Söfnuðirnir hafa góða samkomusali, meðal annars hundruð nýrra ríkissala. Yfir þrjár milljónir heimabiblíunáma eru haldin til hjálpar sauðumlíkum mönnum. Þeir sem búa í Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, eru hins vegar hungraðir. — Jesaja 65:13.
16. (a) Hvað gerði farísei einn ekki fyrir Jesú, ólíkt syndugri konu? (b) Hvers konar olíu sér Jehóva drottinhollum þjónum sínum fyrir?
16 „Þú smyr höfuð mitt með olíu.“ Örlátur gestgjafi í Forn-Ísrael sá gestum sínum fyrir olíu til að smyrja höfuð þeirra. Athyglisvert er í þessu sambandi að rifja upp að Jesús var einu sinni gestur hjá farísea sem smurði ekki höfuð hans með olíu og lét honum ekki í té vatn til að þvo fætur sína. Syndug kona þvoði fætur hans með tárum sínum og smurði hann með sérstakri ilmolíu. (Lúkas 7:36-38, 44-46) En Jehóva er afar örlátur gestgjafi. Hann sér drottinhollum þjónum sínum fyrir andlegri „fagnaðarolíu.“ (Jesaja 61:1-3) Já, þjónar Jehóva eru sannarlega fagnandi nú á tímum.
17. (a) Hvað táknar ‚barmafullur bikar‘? (b) Hvernig setur Jehóva ‚barmafullan bikar‘ fyrir nútímaþjóna sína ?
17 „Bikar minn er barmafullur.“ Hér segir í íslensku biblíunni frá 1859: „Út af mínum bikar rennur.“ Hér er átt við andlegar nægtir. Þótt ekki sé verið að gefa í skyn óhóflega drykkju minna orðin á bikar af góðu víni. Þessi drykkur er heilsusamlegur eins og sjá má af ráðleggingum Páls til Tímóteusar: „Ver þú ekki lengur að drekka vatn, heldur skalt þú neyta lítils eins af víni vegna magans og veikinda þinna, sem eru svo tíð.“ (1. Tímóteusarbréf 5:23) Í andlegum skilningi gleður vín einnig hjörtu okkar. (Sálmur 104:15) Ástríkur faðir okkar, Jehóva, býr drottinhollum þjónum sínum ríkulega veislu andlegra gæða, meðal annars ‚barmafullan‘ gleðibikar.
18. (a) Hverjir njóta gæsku og góðvildar Jehóva og hvernig sýnir Sálmur 103:17, 18 það? (b) Hvaða dýrlegar framtíðarhorfur eiga trúfastir þjónar Jehóva sér?
18 „Já, gæfa [gæska] og náð fylgja mér alla ævidaga mína.“ (Sálmur 23:6) Gæska er hluti af ávexti anda Jehóva. (Galatabréfið 5:22, 23) Þeir sem ganga á vegum Jehóva njóta gæsku hans og langlyndis. (Sálmur 103:17, 18) Í sterkri trú á Jehóva geta þjónar hans horfst í augu við hvaða prófraun sem mætir þeim. Þeir njóta alltaf blessunar hans og ástríkrar gæslu. Og trúfesti allt til enda mun hafa í för með sér eilíft líf í hinni nýju heimsskipan. Það eru stórfenglegar framtíðarhorfur!
19. (a) Hvað merkir það að ‚búa í húsi Jehóva‘? (b) Hverju hefur skipulag Jehóva komið á fót til að efla sanna guðsdýrkun nú á dögum, og hvers vegna telja þúsundir vígðra þjóna hans það sérréttindi að þjóna þar? (c) Hverjir aðrir eru staðráðnir í að þjóna Guði að eilífu?
19 „Og í húsi [Jehóva] bý ég langa ævi.“ Á dögum Davíðs var tjaldbúðin helgidómur Guðs, því að musterið var enn óbyggt. Þar eð sálmaritarinn hafði örlátan gestgjafa í huga merkti það að ‚búa í húsi Jehóva‘ að njóta góðs sambands við Guð sem gestur hans. (Sálmur 15:1-5) Þetta hús er núna tákn hins heilaga musteris Jehóva, ráðstöfunar hans til hreinnar guðsdýrkunar. Salómon konungur naut þeirra sérréttinda að reisa fyrsta bókstaflega musterið sem var ríkulega skreytt gulli og reist til heiðurs Jehóva. Það voru mikil sérréttindi að þjóna þar! Enda þótt slíkt musteri sé ekki lengur til á Guð sér heilagt skipulag sem heiðrar hann og eflir hreina guðsdýrkun. Með það að markmiði hefur skipulag Jehóva stofnsett Betelheimili í tugum landa. „Betel“ merkir „hús Guðs“ og þúsundir vígðra þjóna hans þjóna í þessum guðræðislegu miðstöðvum. Sumir þeirra hafa þjónað þar „langa ævi,“ hafa eytt stærstum hluta ævinnar í þjónustu á Betel. Milljónir annarra, sem ekki tilheyra Betelfjölskyldu, eru á sama hátt staðráðnir í að þjóna Jehóva að eilífu.
20. (a) Hvers vegna er Sálmur 23 verðmætur hluti Ritningarinnar og hvað hjálpar hann okkur að rækta? (b) Hvaða sérréttindi bíða trúfastra þjóna Jehóva?
20 Sálmur 23 er eins og gimsteinn með marga glitrandi fleti. Hann upphefur hið dýrlega nafn okkar ástríka föður á himnum, Jehóva, og leiðir í ljós hvernig hann leiðbeinir, verndar og nærir sauði sína. Af því leiðir að þjónar hans eru hamingjusamir, vel nærðir andlega og fer ört fjölgandi, jafnvel í löndum þar sem við harða mótspyrnu er að etja. Sálmur 23 hjálpar okkur líka að rækta hlýlegt og innilegt samband við skapara okkar. Og þegar við horfum á himininn þar sem stjörnurnar tindra, eins og Davíð gerði oft þegar hann gætti hjarðar sinnar, erum við þakklát fyrir að skapari þessa ógnþrungna alheims skuli annast okkur sem ástríkur hirðir. Í kærleika sínum býður hann okkur líka eilíft líf í nýjum heimi ef við varðveitum ráðvendni okkar við hann. Þá verður stórkostlegt að hitta trúfasta þjóna Guðs, svo sem Davíð, upprisna! Og hvílík sérréttindi að þjóna Jehóva, hirðinum mikla, um alla eilífð!
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig sannar Jehóva sig vera ástríkan hirði?
◻ Hvernig leiðir Jehóva okkur „um rétta vegu“?
◻ Hvernig verndar Jehóva sauði sína?
◻ Í hvaða skilningi hefur Guð búið okkur borð frammi fyrir óvinum okkar?