Jörðin — eilíf arfleifð hógværra manna
„HIMINNINN er hásæti mitt,“ segir Jehóva, „og jörðin er fótskör mín.“ Viðvíkjandi þessari fótskör lofar Jehóva: „[Ég vil] gjöra vegsamlegan stað fóta minna.“ (Jesaja 66:1; 60:13) Það mun hann gera til góðs auðmjúkum mönnum sem eiga að erfa jörðina. Þakklátir munu þeir annast hana og breyta henni í fagra paradís sem verður skapara sínum, Jehóva, til heiðurs og lofs.
En sumir telja kannski hógværa menn vera veikgeðja og efast um styrk þeirra til að ríkja yfir jörðinni. En orðið „hógvær“ á í Ritningunni við þann sem er blíður, góðviljaður og mildur að eðlisfari en býr þó yfir styrkleika stálsins. Þetta sama orð var notað um villta skepnu sem var sterk þótt hún væri tamin.
Grísk orðabók Vine’s skilgreinir orðið hógvær með þessum hætti: „Hógværð er dyggð samofin sálinni og birtist fyrst og fremst gagnvart Guði. Hún er það viðhorf hugans að viðurkenna samskipti hans við okkar sem góð, og því án andmæla eða mótþróa.“ Hógværir menn bæta engu við orð Guðs, draga ekkert frá því, útvatna það ekki eða rangsnúa — eins og sumir nútímamenn gera til að réttlæta siðleysi sitt. — 5. Mósebók 4:2; 2. Pétursbréf 3:16; Opinberunarbókin 22:18, 19.
„Maðurinn Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“ (4. Mósebók 12:3) En var hann veikgeðja? Hann gekk fyrir hinn volduga Faraó Egyptalands og krafðist þess að hann léti hina þrælkuðu Hebrea lausa. Faraó var ósveigjanlegur og svar hans nei! En Móse hélt ótrauður áfram að ganga fyrir hann aftur og aftur og tilkynna honum hvaða plágur myndu kom yfir Egypta. (2. Mósebók 7. til 11. kafli) Víst var Móse hógvær maður en það hefur tæpast verið hægt að kalla hann veikgeðja.
Kristur Jesús var hógvær en bauð þó trúarlegum hræsnurum samtíðar sinnar byrginn, þótt hann vissi að þeir myndu pynda hann og drepa. „Nú förum vér upp til Jerúsalem,“ sagði Jesús. „Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum. Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta.“ (Markús 10:33, 34) Þrátt fyrir þessa illu meðferð hvikaði hann aldrei í ráðvendni sinni við Guð. Jesús var hógvær maður en engum myndi detta í huga að kalla hann veikgeðja.
Jehóva Guð mun gefa jörðina þeim sem eru í biblíulegum skilningi hógværir. Og ólíkt því sem vísindamenn slá fram kenningum um og fölsk trúarbrögð halda fram mun jörðin standa „um aldur og ævi.“ (Sálmur 104:5) Jehóva skapaði hana ekki „til þess, að hún væri auðn.“ Hann myndaði hana „svo, að hún væri byggileg.“ (Jesaja 45:18) Og þá mun lífið verða stórkostlegt því að Guð „mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.
Þá verða horfnir allir þeir sem menguðu jörðina og spilltu henni. Þá munu „hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Orðskviðirnir 2:21, 22; Sálmur 37:11) Þú getur líka hlotið eilíft líf á jörð sem verður paradís ef þú býrð yfir nægum styrk til að vera auðmjúkur í biblíulegum skilningi.