Vandamál — fjölskyldunnar leyst með hjálp Biblíunnar
1, 2. (a) Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að fjölskyldur leysast upp. (b) Hvers vegna ættu vandamál fráskilinna foreldra og barna þeirra að varða okkur öll? (1. Korintubréf 12:26)
„KONUR kjósa skilnað og börn láta gera sig arflaus . . . frekar en að vera Kristi ótrú,“ skrifaði Arnóbíus á fjórðu öld en hann kallaði sig kristinn.a Já, jafnvel þá var fjölskyldum sundrað vegna megnrar andstöðu þeirra sem ekki voru í trúnni. Jesús sagði að sá sem bæri meiri ást til fjölskyldu sinnar en hans væri hans ekki verðugur. Þess vegna myndi kenning hans vera eins og „sverð“ og valda sundrung í einstaka fjölskyldu, vegna þess að hinn trúaði sýndi fjölskyldu sinni ‚og sínu eigin lífi‘ minni kærleika en honum. (Matteus 10:34-37; Lúkas 14:26) Enn þann dag í dag er fjölskyldum sundrað vegna mótstöðu gegn sannleikanum.
2 Þótt kristinn maður geri kannski allt sem í hans valdi stendur til að halda fjölskyldunni saman, láta sumir, sem ekki eru í trúnni, sér einfaldlega ekki „vel líka að búa saman“ með þeim sem eru í trúnni. Því kemur stundum til sambúðarslita eða hjónaskilnaðar. (1. Korintubréf 7:12-16) Stundum fara hjónabönd út um þúfur nú við ‚endalok veraldar‘ sökum þess að kærleikur til Guðs og laga hans, meðal annars þeirra er varða hjónaband, hefur ‚kólnað.‘ (Matteus 19:6, 9; 24:3, 12) Hjónaskilnaðir hér á Íslandi næstum þrefölduðust frá 1961 til 1984! Um 3 hjón af hverjum 5, sem skilja, eiga börn og þar er við sérstök vandamál að etja. Þegar fólk kynnist sannleikanum í orði Guðs hefur það að jafnaði mjög jákvæð áhrif á fjölskyldulífið, en stundum er skilnaður orðinn áður en það gerist. Stundum kemur jafnvel fyrir að kristinn maður leggur sig ekki alvarlega fram um að fylgja ráðum Biblíunnar á heimilinu, og það stuðlar að hjónaskilnaði. (Jóhannes 13:17) Hvað geta kristnir foreldrar í þessari aðstöðu gert til að ala börn sín þannig upp að þau elski Jehóva?
Samkennd er nauðsynleg
3. Hvaða þjáningar eru hjónaskilnaði samfara?
3 Á dögum Malakís var nokkuð um að ísraelskir karlmenn skildu við konur sínar með sviksamlegum hætti. ‚Grátur og andvörp‘ þessara kvenna, sem ákölluðu Guð um hjálp, ‚huldi altari Jehóva með tárum.‘ (Malakí 2:13-16) Hjónaskilnaðir eru ekkert síður sársaukafullir nú á dögum, jafnvel þótt þeir séu byggðir á biblíulegum forsendum. Þótt skilnaður valdi foreldrunum oft mikilli kvöl þjást börnin oftast meir.
4. (a) Á hvaða vegu þjást börnin þegar foreldrar þeirra skilja? (b) Hvað getur faðir eða móðir gert til að hjálpa barninu?
4 Jafnvel þótt skilnaður bindi stundum enda á illa meðferð getur barni virst sem heimurinn hrynji í rúst. Þess vegna þarf faðir eða móðir, sem er í trúnni, að sýna börnunum kærleika og skilning umfram það sem venjulegt er. „Ég var alltaf mitt á milli. Mér fannst ég sundurskiptur,“ sagði unglingur einn en kristinn faðir hans fékk skilnað á biblíulegum forsendum þegar drengurinn var fimm ára. „Ég byrgði tilfinningar mínar inni og það olli þunglyndisköstum.“ Það kallar á ‚samhug‘ og ‚hluttekningarsemi‘ hjá foreldrum að hjálpa barni að takast á við slíkar tilfinningar. (1. Pétursbréf 3:8) Barnið getur orðið innilokað vegna sektarkenndar, fundist það bera á einhvern hátt sök á skilnaðinum. Foreldrar verða því að hjálpa barninu með þolinmæði að skilja að það er ekki því að kenna hvernig fór.
5. Hvers vegna ætti kristið foreldri að reyna að halda frið við fyrrverandi maka sinn?
5 Beiskja getur orðið mjög megn milli hjóna, einkum þegar trúarleg atriði eiga í hlut. Í stað þess að ‚gjalda illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli‘ ætti það hjónanna, sem er í trúnni, að hugsa um velferð barnsins. (1. Pétursbréf 3:9) Í bók sinni Growing Up Divorced segir Linda Francke: „Foreldrar, sem sýna hvoru öðru fjandskap, gera þessi vandamál barnanna miklu erfiðari og jafnvel eyðileggjandi. Af ótta við óvináttu annars hvors foreldra sinna getur svo farið að barnið þori ekki að eiga jákvætt samband við þá.“ Já, ‚beiskur ofsi og eigingirni‘ er ekki aðeins rangur; hann getur líka hrint börnunum frá þér. (Jakobsbréfið 3:14, 16) Vanhugsaðar árásir með orðum á það foreldri, sem ekki er í trúnni, getur sært barn djúpu sári. (Orðskviðirnir 12:18) Ef fyrrverandi maki, sem ekki er í trúnni, vill halda bardaganum áfram skal hinn trúaði reyna að ‚hafa frið að því leyti sem það er unnt og á hans valdi.‘ — Rómverjabréfið 12:18-21.
Verndaðu hjarta barnsins
6. Hvað er stundum vandamál eftir að úrskurðað hefur verið um forræði?
6 Vandinn er yfirleitt ekki leystur þótt gert hafi verið út um forræði barns eða barna. „Eitt af stærstu vandamálunum,“ segir í skýrslu frá útibúi Varðturnsfélagsins í Ástralíu, „er sá að því foreldranna, sem hefur fengið forræði barnsins, hættir til að slaka á . . . jafnvel foreldri í sannleikanum getur misst sjónar á meginástæðu þess að það vildi fá forræði barnanna. Meginástæðan ætti að vera sú að ala þau upp sem sanna tilbiðjendur Jehóva.“ Slíkt krefst stöðugrar viðleitni. — Efesusbréfið 6:4.
7. (a) Hvers vegna ætti að kenna barni að virða það foreldra sinna sem ekki er í trúnni? (b) Hvernig getur þú rökrætt við barn þitt ef fyrrverandi maki þinn hegðar sér ókristilega?
7 Að sjálfsögðu nýtur það foreldranna, sem ekki hlýtur forræði barnanna, yfirleitt umgengnisréttar við þau. Hvernig getur það foreldranna, sem með forræðið fer, virt þennan rétt jafnframt því að vernda hjarta barnsins? Eins og viðeigandi er ætti barnið að sýna því foreldra sinna, sem ekki er í trúnni, tilhlýðilega virðingu. Ef sá sem ekki er í trúnni hegðar sér ókristilega meðan á heimsókninni stendur ætti hitt foreldranna ekki að reyna að kveikja hatur hjá barninu með því að vera hart í dómi. Betra er að skýra fyrir barninu að Guð hafi sett ákveðnar hegðunarreglur í Biblíunni og að ‚sérhver okkar þurfi að lúka Guði, hinum æðsta dómara, reikning fyrir sjálfan sig.‘ (Rómverjabréfið 14:12) Láttu þó skýrt í ljós að ekki beri að líkja eftir slíkri breytni. Með háttvísi má sýna barninu fram á að enda þótt sumt fólk lifi ekki eftir þessum reglum breyti margir afstöðu sinni með tímanum vegna góðs fordæmis barnsins og hins kristna foreldris. Með þeim hætti kann að vera unnt að hjálpa barninu að bera vissa virðingu fyrir því foreldri. Ágreiningur fráskilinna hjóna í trúarlegum efnum má ekki koma í veg fyrir að sá sem kristinn er reyni að hafa jákvæð áhrif á barnið. Hið kristna foreldri lætur ‚ljúflyndi sitt vera kunnugt öllum mönnum.‘ (Filippíbréfið 4:5) En hvað skal gera ef sá aðili, sem ekki er í trúnni, reynir að vinna gegn góðu og guðhræddu uppeldi hins?
8. Hvernig fóru tvær mæður að því að undirbúa börnin sín fyrir heimsóknir til feðra þeirra sem ekki voru í trúnni?
8 Þýðingarmikið er að búa börnin undir heimsóknina. Kristin móðir, sem lenti í þeirri aðstöðu að fyrrum eiginmaður hennar hvarf frá trúnni, segir: „Fyrir heimsóknina nam ég með börnunum efni varðandi það hvernig Jehóva myndi líta á breytni þeirra. Við lékum ýmsar aðstæður. Ég sagði kannski: ‚Hverju svarar þú ef faðir þinn segir þetta eða þetta?‘ “ Önnur kristin kona, sem skildi áður en hún varð vottur, bætir við: „Áður en [börn mín á unglingsaldri] fara í helgarheimsókn til föður síns, biðjum við Jehóva þess að hann verði með þeim og hjálpi þeim að bera vitni fyrir föður sínum, sér í lagi með góðri breytni sinni.“
9. Hvernig geta kristnir foreldrar líkt eftir móður Móse?
9 Foreldri, sem ekki er í trúnni, getur átt til að nýta sér umgengnisréttinn til að reyna að kaupa sér hylli barnsins með dýrum gjöfum, skemmtunum og annarri afþreyingu. Jókabed, móðir Móse, (og Amram hafi hann enn verið á lífi) vissu hvað myndi mæta Móse þegar hann yrði afhentur dóttur Faraós. Hún lagði sig því vafalaust fram um að móta verðmætamat hans meðan hann enn var hjá henni. (2. Mósebók 2:1-10) Þrátt fyrir hina freistandi „fjársjóðu Egyptalands“ kaus Móse af eigin dáðum að fylgja meginreglum Guðs. Hann mat sín andlegu sérréttindi sem sannan auð! (Hebreabréfið 11:23-26) Kristnir foreldrar ættu með viðlíka hætti að búa börnin sín undir slíkar freistingar, með því að ræða við þau biblíulegt efni sem snýst um andlega fjársjóði.b Börn sjá oft í gegnum hið yfirborðslega tilefni foreldris sem reynir að kaupa ást þess. — Orðskviðirnir 15:16, 17.
10. Hvað þarf sá sem fer með forræði barns að yfirvega undir sérstökum kringumstæðum?
10 Í sjaldgæfum tilvikum getur barninu stafað veruleg hætta af slíkum heimsóknum. Foreldri þess verður að ákveða hvað það skuli gera miðað við aðstæður, leggja málið fyrir Jehóva í bæn og vega og meta hversu alvarleg ógnin sé, hvaða möguleika lögin bjóði upp á og hugsanlegar afleiðingar þess að synja hinu foreldri barnsins um að neyta umgengnisréttar síns við það.c Forðastu fljótfærnisleg viðbrögð sem gætu vakið efasemdir um hæfni þína til að fara með forræði barnsins. — Galatabréfið 6:5; Rómverjabréfið 13:1; Postulasagan 5:29; 1. Pétursbréf 2:19, 20.
‚Varðveittu visku‘
11. Hvað þarf kristið foreldri að horfast í augu við ef það fær ekki forræði barna sinna?
11 Hvernig á kristinn faðir eða móðir að bera sig að ef hann eða hún fer ekki með forræðið heldur verður að láta sér lynda umgengnisrétt? Þegar barnið býr ekki lengur á kristnu heimili eru möguleikarnir á að vernda andlegt heilbrigði þess takmarkaðir. (1. Korintubréf 7:14) Hinn trúi ættfaðir Abraham hefði líklega krafist þess að sonur hans Ísmael veldi sér konu meðal tilbiðjenda Jehóva líkt og Ísak. En Ísmael var enn á unglingsaldri þegar hann varð, ásamt móður sinni, að fara af heimilinu, og Abraham gat því ekki hindrað Hagar í að taka honum egypska konu sem ekki tilbað Jehóva. — 1. Mósebók 21:14, 21; 24:1-4.
12. (a) Hvað þarf kristið foreldri, sem ekki fer með forræði barna sinna, að leggja sig fram um? (b) Sýndu fram á hvernig kristið foreldri getur sýnt visku og hagsýni.
12 Þrátt fyrir takmörkuð tækifæri foreldris, sem ekki fer með forræðis barns síns, getur það gert margt til að innprenta því djúpan kærleika til Jehóva. Til að svo megi verða þarf foreldrið að ‚varðveita visku og gætni.‘ (Orðskviðirnir 3:21) Atorkan ein saman nægir ekki. „Ef öxin er orðin sljó og eggin er ekki brýnd, þá verður maðurinn að neyta því meiri orku [með litlum árangri.] Það er ávinningur að undirbúa sérhvað með hagsýni.“ (Prédikarinn 10:10) Það foreldranna, sem ekki er í trúnni, getur hugsanlega fundið upp alls kyns fyrirslátt til að koma í veg fyrir að hitt foreldrið hafi aðgang að barninu. Í slíku tilviki skilar það vafalaust bestum árangri að fara eftir Orðskviðunum 25:15 frekar en að láta strax verða harða deilu úr: „Með þolinmæði verður höfðingja talið hughvarf, og mjúk tunga mylur bein.“ Þótt erfitt geti verið að sýna þolinmæði og mildi frammi fyrir ranglátum hömlum getur það mýkt þann sem jafnvel er harður eins og bein í andstöðu sinni. (Samanber 2. Tímóteusarbréf 2:23-25.) Oft má forðast rifrildi með því að vera stundvís og fara eftir uppástungum um umönnum barnsins frá því foreldri sem forræðið hefur — svo framarlega sem þær stríða ekki gegn Biblíunni. Ef þú hefur af því áhyggjur að fyrrverandi maki þinn, sem ekki er í trúnni, tali niðrandi um þig við barnið skalt þú hafa í huga 1. Pétursbréf 2:15: „Þér skuluð með því að breyta vel þagga niður vanþekkingu heimskra manna.“ Ef þú setur gott fordæmi mun barnið sjá hver hefur rétt fyrir sér. — Orðskviðirnir 20:7.
13. Hvernig getur foreldri, sem er í trúnni, séð um að börnin hafi gagn af heimsókninni?
13 Þær stundir, sem þú hefur barnið, skaltu nota til að reyna að gróðursetja orð Guðs í hjarta þess með því að nema Biblíuna með því og taka það með á samkomur hvenær sem þú getur. Jafnvel þótt settar séu strangar lagahömlur getur foreldri minnst á sköpunarverk Guðs og hjálpað barni sínu með öðrum hætti að elska Guð. (Rómverjabréfið 1:19, 20; Matteus 6:28-30) Jesús tók mið af takmarkaðri hæfni áheyrenda sinna. Hann „flutti . . . þeim orðið, svo sem þeir gátu numið.“ (Markús 4:33, 34) Auk þess að ræða alvarleg, andleg efni er gott að gera ýmislegt annað umbyggjandi saman, svo sem að heimsækja góða vini sem eiga börn á svipuðu reki. (Orðskviðirnir 13:20) Njótið heilnæmrar afþreyingar saman. Gerið samveruna ánægjulega. Mundu að sanngjarn agi ber vott um kærleika. (Orðskviðirnir 13:24) Stundum geta vandamálin samt sem áður virst yfirþyrmandi og þrengt að þér á allar hliðar. Hvað er hægt að gera til að halda út?
Treystu á Jehóva
14. Hvaða trygging er okkur gefin í Sálmi 37:23, 24?
14 Davíð skrifaði um þann mann sem Jehóva „hefir þóknun á“: „Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að [Jehóva] heldur í hönd hans.“ (Sálmur 37:23, 24) Kristinn maður, sem berst við öll þau vandamál sem eru skilnaði samfara, getur stundum ‚fallið‘ í mynd vonbrigða, kjarkleysis og lagalegra eða fjárhagslegra erfiðleika en þó „liggur hann ekki flatur“ andlega. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva réttir honum hönd sína, til að reisa hann á fætur, í gegnum heilagan anda sinn og kærleiksríka þjóna. — Jakobsbréfið 1:27.
15, 16. Hvað hefur hjálpað sumum fráskildum foreldrum að halda út?
15 Kristin kona sagði eftir að fyrrum manni hennar, sem var á móti trúnni, var veitt forræði tveggja ungra barna þeirra: „Þegar málið var tekið algerlega úr mínum höndum lærði ég að reiða mig fullkomlega á Jehóva. Ég hef lært að taka því sem hann leyfir og reyna ekki að taka málin í mínar hendur. Ég er enn að læra og þetta er erfið lexía.“ Hún notar sér þó umgengnisrétt sinn til fulls og leitar styrks, bæði hjá núverandi eiginmanni sínum, sem er trúfastur kristinn öldungur, og öðrum í söfnuðinum.
16 Önnur kristin kona, sem varð fyrir því að fyrrverandi eiginmaður hennar, fráhvarfsmaður frá sannleikanum, hélt börnunum hjá sér í nokkra mánuði gegn úrskurðri dómstóls, sagði: „Ég var svo langt niðri að mér fannst ég vera að gefast upp. Það eina sem kom í veg fyrir að ég gengi af vitinu á þessu tímabili, var þjónustan á akrinum.“ Dóttir hennar, sem var sjö ára þegar þetta gerðist, tók skýra afstöðu með Jehóva og þoldi jafnvel þungar barsmíðar föður síns þegar hún neitaði að lesa fráhvarfsrit hans. Þegar hún kom aftur til móður sinnar var hún staðráðin í að halda sér enn fastar við Jehóva. Þessir og aðrir trúfastir þjónar Guðs hafa reynt uppfyllingu orðanna í Sálmi 54:4-9: „Guð, heyr þú bæn mína, . . . sjá, Guð er mé hjálpari, það er [Jehóva] er styður mig. . . . Því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð.“ Já, við getum reitt okkur á stuðning Jehóva! — 1. Korintubréf 10:13.
17. Hvernig geta fráskildir foreldrar hjálpað börnum sínum og hvaða umbun geta þeir uppskorið?
17 Ef þú ert fráskilinn faðir eða móðir skalt þú vera næmur fyrir tilfinningum barna þinna. Styrktu hjörtu þeirra með orði Guðs. Ef þú hefur aðeins umgengnisrétt við þau skaltu sýna „visku“ og nota þann rétt til hins ýtrasta. Treystu á mátt orðs Guðs sem gróðursett er í hjörtum þeirra. (1. Þessaloníkubréf 2:13) Að sjá barn sitt læra að elska Jehóva er erfiðisins virði.
[Neðanmáls]
a Against the Heathen, (Gegn heiðingjunum) 2. bindi, bls. 5.
b Sjá greinina „Besta tækifæri æskunnar“ í Varðturninum þann 1. febrúar 1986, svo og kaflann „How Do You View Material Possessions?“ í bókinni Your Youth — Getting the Best Out of It, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
c Í lögum um stofnun og slit hjúskapar nr. 60/1972 segir að það foreldri, sem ekki fær forræði barns, „skuli eiga rétt til umgengni við barn, nema sérstök atvik mæli gegn því.“
Manst þú?
◻ Hvernig getur „viska“ hjálpað foreldri í trúnni sem aðeins hefur umgengnisrétt við barn sitt?
◻ Hvað fullvissar Sálmur 37:23 og 24 okkur um og hvernig stendur Jehóva við þetta loforð?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Notaðu umgengnisrétt þinn til að gróðursetja sannleikann í hjarta barns þíns en láttu það vera samfara heilnæmri afþreyingu.