Vertu dyggur málsvari innblásins orðs Guðs
„Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð.“ — 2. KORINTUBRÉF 4:2.
1. (a) Hvað hefur þurft til að vinna verkið sem lýst er í Matteusi 24:14 og 28:19, 20? (b) Á hve mörgum tungumálum var Biblían til þegar hinir síðustu dagar hófust?
JESÚS Kristur sagði í hinum mikla spádómi um konunglega nærveru sína og endalok hins gamla heimskerfis: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ Jafnframt sagði hann fylgjendum sínum: „Gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 24:14; 28:19, 20) Uppfylling þessara spádóma felur í sér mikið starf við þýðingu og prentun Biblíunnar, við að kenna fólki hvað orð hennar merkja og hjálpa því að fara eftir þeim. Það eru mikil sérréttindi að taka þátt í slíku starfi. Árið 1914 var Biblían eða einhverjir hlutar hennar komnir út á 570 tungumálum. En síðan hafa hundruð tungumála og fjölmargar mállýskur bæst við, og á mörgum tungumálum er til fleiri en ein þýðing.a
2. Hvaða ólík tilefni hafa haft áhrif á verk biblíuþýðenda og útgefenda?
2 Það er krefjandi viðfangsefni fyrir hvaða þýðanda sem er að snúa efni af einu tungumáli á annað svo vel sé. Sumir biblíuþýðendur hafa nálgast verk sitt með sterkri vitund um að þeir væru að þýða orð Guðs. Aðrir hafa einfaldlega hrifist af hinni krefjandi fræðimennsku sem fylgir verkinu. Kannski hafa þeir aðeins litið á efni Biblíunnar sem verðmæta menningararfleifð. Hjá sumum er trúin eins og hvert annað starf og með því að koma út bók, þar sem þeir eru nefndir þýðendur eða útgefendur, eru þeir að sjá fyrir sér. Tilefni þeirra hefur augljóslega áhrif á hvernig þeir vinna verk sitt.
3. Hvernig leit þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar á verkefni sitt?
3 Í þessu sambandi eru orð þýðingarnefndar Nýheimsþýðingarinnar athyglisverð: „Að þýða Heilaga ritningu merkir að snúa hugsunum og orðum Jehóva Guðs á annað tungumál . . . Það er mjög alvarleg tilhugsun. Þýðendur þessa verks, sem óttast og elska höfund Heilagrar ritningar, finna til sérstakrar ábyrgðar gagnvart honum að koma hugsunum hans og yfirlýsingum til skila eins nákvæmlega og unnt er. Þeir finna líka til ábyrgðar gagnvart leitandi fólki sem reiðir sig á þýðingu innblásins orðs hins hæsta Guðs sér til eilífs hjálpræðis. Það var slík ábyrgðartilfinning sem þessi nefnd vígðra manna hafði að leiðarljósi um margra ára skeið er hún vann að Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar.“ Markmið nefndarinnar var að skila af sér skýrri og skiljanlegri biblíuþýðingu sem fylgdi hebreska og gríska frumtextanum svo náið að hún yrði undirstaða stöðugs vaxtar í nákvæmri þekkingu.
Hvað varð um nafn Guðs?
4. Hve mikilvægt er nafn Guðs í Biblíunni?
4 Eitt meginmarkmið Biblíunnar er að hjálpa fólki að kynnast hinum sanna Guði. (2. Mósebók 20:2-7; 34:1-7; Jesaja 52:6) Jesús Kristur kenndi fylgjendum sínum að biðja þess að nafn föður hans ‚helgaðist,‘ yrði álitið heilagt eða meðhöndlað sem slíkt. (Matteus 6:9) Guð lét einkanafn sitt standa meira en 7000 sinnum í Biblíunni. Hann vill að fólk þekki nafn hans og eiginleika þess sem ber það. — Malakí 1:11.
5. Hvernig hafa ýmsir þýðendur komið nafni Guðs á framfæri?
5 Margir biblíuþýðendur hafa sýnt einlæga virðingu fyrir nafni Guðs og notað það ríkulega í þýðingum sínum. Sumir þýðendur hafa notað myndina Jahve. Aðrir hafa valið einhverja mynd af nafni Guðs sem er löguð að því máli sem þeir þýða á en augljóslega tengd því sem stendur í hebreska textanum, kannski mynd sem er velþekkt sökum langrar notkunar. Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar notar Jehóva 7210 sinnum í meginmálinu.
6. (a) Hvernig hafa þýðendur farið með nafn Guðs á síðustu árum? (b) Hve útbreiddur er þessi siður?
6 Á síðustu árum hafa biblíuþýðendur í vaxandi mæli fellt einkanafn hins sanna Guðs niður úr þýðingum sínum á innblásnu orði hans, enda þótt þeir haldi eftir nöfnum heiðinna guða svo sem Baals og Móloks. (2. Mósebók 3:15; Jeremía 32:35) Í útbreiddri albanskri þýðingu eru grísku orðin, sem þýða „nafn þitt“ (það er að segja nafn Guðs) í ritningargreinum svo sem Matteusi 6:9 og Jóhannesi 17:6, 26, einfaldlega þýdd sem „þú,“ rétt eins og ekkert væri minnst þar á nafn. Í Sálmi 83:18 (vers 19 í íslensku biblíunni) fella The New English Bible og Today’s English Version bæði niður einkanafn Guðs og alla skírskotun til þess að hann hafi nafn. Enda þótt nafn Guðs hafi staðið í þýðingum Hebresku ritninganna á flestum tungumálum áður fyrr er það oft fellt niður í nýrri þýðingum eða aðeins nefnt í neðanmálsathugasemdum. Þannig er staðan með biblíuþýðingar á ensku, íslensku og mörgum öðrum Evrópumálum, og einnig mörgum tungum Afríku, Suður-Ameríku, Indlands og eyja Kyrrahafsins.
7. (a) Hvernig fara þýðendur Biblíunnar á sum Afríkumál með nafn Guðs? (b) Hvað finnst þér um það?
7 Þýðendur Biblíunnar á sum Afríkumál ganga skrefi lengra. Í stað þess að setja einfaldlega biblíulegan titil, svo sem Guð eða Drottinn, í stað nafns Guðs, setja þeir inn nöfn sem sótt eru í staðbundin trúarbrögð. Í Nýja testamentinu og Sálmunum á súlú (1986 útgáfunni) er titillinn Guð (uNkulunkulu) notaður jöfnum höndum og ákveðið sérnafn (uMvelinqangi) er Súlúmenn skilja sem ‚hinn mikla forföður sem tilbeðinn er fyrir milligöngu mennskra forfeðra.‘ Í grein í tímaritinu The Bible Translator í október 1992 er frá því greint að í fyrirhugaðri biblíu á chichewu, sem kölluð verður Buku Loyera, hafi þýðendurnir notað Chauta í stað nafnsins Jehóva. Greinin segir að Chauta sé „Guðinn sem þeir hafi alltaf þekkt og tilbeðið.“ En margt af þessu fólki tilbiður líka það sem það telur vera anda hinna dánu. Er það rétt að ef fólk ákallar „æðri veru“ sé hvert það nafn, sem það nefnir þessa „æðri veru,“ boðlegt jafngildi einkanafnsins Jehóva, hvað sem tilbeiðslan felur í sér að öðru leyti? Síður en svo! (Jesaja 42:8; 1. Korintubréf 10:20) Að setja eitthvað í stað nafns Guðs, sem gefur fólki þá tilfinningu að hefðbundnar trúarhugmyndir þess séu réttar þegar allt kemur til alls, hjálpar því ekki að eignast nánara samband við hinn sanna Guð.
8. Af hverju hefur sá tilgangur Guðs að gera nafn sitt kunnugt ekki farið út um þúfur?
8 Ekkert af þessu hefur breytt þeim tilgangi Jehóva að gera nafn sitt kunnugt né komið í veg fyrir það. Á tungumálum Evrópu, Afríku, Ameríku, Austurlanda fjær og eyja hafsins eru enn í umferð margar biblíur sem innihalda nafn Guðs. Og í 233 löndum og svæðum eru rúmlega 5.400.000 vottar Jehóva sem samanlagt verja meira en einum milljarði klukkustunda á ári í að segja öðrum frá nafni og tilgangi hins sanna Guðs. Þeir prenta og útbreiða biblíur — sem innihalda nafn Guðs — á tungumálum sem töluð eru af um það bil 3.600.000.000 jarðarbúa, þar á meðal ensku, kínversku, rússnesku, spænsku, portúgölsku, frönsku og hollensku. Þeir prenta líka hjálpargögn til biblíunáms á tungumálum sem töluð eru af yfirgnæfandi meirihluta jarðarbúa. Bráðlega lætur Guð sjálfur til sín taka með þeim hætti að hann uppfylli ótvírætt yfirlýsingu sína um að þjóðirnar ‚viðurkenni að hann sé Jehóva.‘ — Esekíel 38:23.
Þegar persónuleg trú litar þýðinguna
9. Hvernig gefur Biblían til kynna að það sé alvarleg ábyrgð að fást við orð Guðs?
9 Alvarleg ábyrgð hvílir á þeim sem þýða orð Guðs og þeim sem kenna það. Páll postuli sagði um þjónustu sína og félaga sinna: „Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.“ (2. Korintubréf 4:2) Að falsa merkir að spilla eða búa til svikinn hlut. Páll postuli var ekki eins og ótrúir hirðar Ísraels á dögum Jeremía sem Jehóva ávítaði af því að þeir prédikuðu eigin hugmyndir í stað þess sem hann sagði. (Jeremía 23:16, 22) En hvað hefur gerst á okkar tímum?
10. (a) Hvernig hafa aðrar hvatir en hollusta við Guð haft áhrif á suma þýðendur á okkar tímum? (b) Hvaða hlutverk tóku þeir sér ranglega?
10 Á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar vann nefnd guðfræðinga og presta með nasistastjórninni í Þýskalandi að endurskoðuðu „Nýja testamenti“ þar sem sleppt var öllum vinsamlegum ummælum um Gyðinga og öllum vísbendingum um að Jesús Kristur væri af gyðinglegu bergi brotinn. Þýðendur The New Testament and Psalms: An Inclusive Version hneigðust í aðra átt og freistuðu þess að eyða öllum vísbendingum um að Gyðingar hafi borið ábyrgð á dauða Krists. Þessir þýðendur álitu einnig að kvenréttindasinnar yrðu ánægðari ef ekki væri talað um Guð sem föður heldur sem föður-móður, og ef Jesús væri ekki sagður sonur Guðs heldur barn hans. (Matteus 11:27) Í leiðinni fjarlægðu þeir meginregluna um undirgefni eiginkvenna við menn sína og hlýðni barna við foreldra. (Kólossubréfið 3:18, 20) Þeir sem gerðu þessar þýðingar voru greinilega ekki jafnstaðráðnir og Páll postuli í að ‚falsa ekki Guðs orð.‘ Þeir misstu sjónar á hlutverki sínu sem þýðendur og tóku sér höfundarhlutverk. Þeir notfærðu sér orðstír Biblíunnar en gáfu út bækur þar sem þeir komu eigin skoðunum á framfæri.
11. Hvernig stangast kenningar kristna heimsins á við það sem Biblían segir um sálina og dauðann?
11 Kirkjur kristna heimsins kenna flestar að mannssálin sé ódauðlegur andi er yfirgefi líkamann við dauðann. Eldri biblíuþýðingar á flestum tungumálum segja greinilega að menn séu sálir, að dýr séu sálir og að sálin deyi. (1. Mósebók 12:5; 36:6; 4. Mósebók 31:28; Jakobsbréfið 5:20) Það hefur komið klerkastéttinni í vandræði.
12. Hvernig gera sumar nýlegar þýðingar grundvallarsannindi Biblíunnar óskýr?
12 Sumar nýlegar þýðingar fela þessi sannindi. Hvernig? Þær einfaldlega forðast að þýða hebreska nafnorðið nefes (sál) orðrétt í vissum ritningargreinum. Í 1. Mósebók 2:7 segja þær kannski að fyrsti maðurinn hafi orðið „lifandi vera“ (í staðinn fyrir „lifandi sál“). Þær tala kannski um „skepnur“ í staðinn fyrir „sálir“ þegar dýrin eiga í hlut. (1. Mósebók 1:21) Í ritningargreinum svo sem Esekíel 18:4, 20 tala þær um að „maðurinn“ eða „einstaklingurinn“ (frekar en „sálin“) deyi. Þýðandanum finnst kannski réttlætanlegt að þýða þetta þannig. En hversu mikil hjálp er það fyrir einlægan, sannleiksleitandi mann sem hefur þegar litast í hugsun sinni af óbiblíulegum kenningum kristna heimsins?b
13. Hvernig fela sumar biblíuþýðingar tilgang Guðs með jörðina?
13 Til að styðja þá trú sína að allir góðir menn fari til himna geta þýðendur — eða guðfræðingar sem endurskoða verk þeirra — einnig átt til að leyna því sem Biblían segir um tilgang Guðs með jörðina. Í Sálmi 37:11 er það orðað svo í mörgum þýðingum að hinir hógværu skuli fá „landið“ til eignar. Það má þýða hebreska orðið ʼeʹrets, sem er notað í þessum texta, sem ‚land.‘ En Today’s English Version (sem er grundvöllur þýðinga á mörg önnur tungumál) gengur skrefi lengra. Enda þótt hún þýði gríska orðið ge 17 sinnum sem „jörð“ í Matteusarguðspjalli segir hún „það sem Guð hefur lofað“ en ekki „jörðina“ í Matteusi 5:5. Sóknarbörnin hugsa eðlilega um himininn. Þau eru ekki upplýst hreinskilnislega um að Jesús Kristur sagði í fjallræðunni að hógværir, mildir eða auðmjúkir muni „jörðina erfa.“
14. Hvaða eigingjarnar hvatir birtast í vissum biblíuþýðingum?
14 Orðalagi sumra biblíuþýðinga er augljóslega ætlað að tryggja prédikurum góð laun. Víst segir Biblían: „Verður er verkamaðurinn launa sinna.“ (1. Tímóteusarbréf 5:18) En í 1. Tímóteusarbréfi 5:17, þar sem hún segir að öldungar sem veiti góða forstöðu skuli „hafðir í tvöföldum metum,“ virðast sumir biblíuþýðendur líta svo á að það snúist einvörðungu um peninga að hafa menn í metum. (Samanber 1. Pétursbréf 5:2.) Þannig segir The New English Bible að þessir öldungar „skuli álitnir verðugir tvöfaldra launa“ og biblíuþýðingin Contemporary English Version segir að þeir „verðskuldi að fá borgað tvöfalt meira.“
Dyggir málsvarar orðs Guðs
15. Hvernig getum við ákveðið hvaða biblíuþýðingar við ættum að nota?
15 Hvað þýðir allt þetta fyrir lesendur Biblíunnar og þá sem nota hana til að kenna öðrum? Á flestum útbreiddustu tungumálum heims er um nokkrar biblíuþýðingar að velja. Vertu skynsamur þegar þú velur þér biblíu. (Orðskviðirnir 19:8) Ef þýðing er ekki heiðarleg gagnvart því hver Guð sé — ef hún fellir niður nafn hans úr innblásnu orði hans undir einhverju yfirskini — er þá ekki hugsanlegt að þýðendurnir hafi falsað fleira í biblíutextanum? Sértu í vafa um hvort þýðingin sé rétt skaltu reyna að bera hana saman við eldri þýðingar. Ef þú kennir öðrum orð Guðs skaltu velja þá þýðingu sem fylgir hebreska og gríska frumtextanum best.
16. Hvernig getum við hvert og eitt sýnt innblásnu orði Guðs hollustu?
16 Við ættum öll að sýna orði Guðs hollustu. Við gerum það með því að láta okkur nógu annt um Biblíuna til að nota einhverja stund daglega til að lesa í henni ef við mögulega getum. (Sálmur 1:1-3) Við gerum það með því að fara fyllilega eftir henni og læra að nota meginreglur hennar og dæmin, sem hún segir frá, til að taka skynsamlegar ákvarðanir. (Rómverjabréfið 12:2; Hebreabréfið 5:14) Við sýnum að við erum dyggir málsvarar orðs Guðs með því að prédika það kostgæfilega fyrir öðrum. Við gerum það líka sem kennarar með því að nota Biblíuna vandvirknislega og rangsnúa aldrei eða hagræða orðum hennar til að styðja okkar eigin hugmyndir. (2. Tímóteusarbréf 2:15) Það sem Guð hefur sagt fyrir rætist örugglega. Hann uppfyllir orð sitt dyggilega. Megum við vera dyggir málsvarar þess.
[Neðanmáls]
a Árið 1997 höfðu Sameinuðu biblíufélögin á skrá hjá sér 2167 tungumál sem Biblían öll eða hlutar hennar höfðu verið gefnir út á. Þar eru meðtaldar margar mállýskur sumra tungumála.
b Í þessari umræðu er tekið mið af tungumálum sem gera skýran greinarmun á sál og anda en þýðendur kjósa að gera það ekki. Orðaforði sumra tungumála takmarkar verulega hvað þýðendur geta gert. Heiðarlegir trúfræðarar útskýra þá að jafnvel þótt þýðandinn hafi notað mismunandi orð eða jafnvel orð með óbiblíulegum undirtónum sé orðið nefes á frummálinu notað bæði um menn og dýr og tákni veru sem andar, matast og getur dáið.
Manstu?
◻ Hvaða hvatir hafa haft áhrif á störf biblíuþýðenda á okkar tímum?
◻ Af hverju hefur stefnan í biblíuþýðingum nú á tímum ekki ónýtt tilgang Guðs með nafn sitt?
◻ Hvernig gera sumar biblíuþýðingar sannleikann um sálina, dauðann og jörðina óskýran?
◻ Á hvaða hátt getum við sýnt að við séum dyggir málsvarar orðs Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hvaða biblíuþýðingu ættirðu að nota?