Líf í paradís — tilgangur Guðs með manninn
„Þá tók [Jehóva] Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.“ — 1. MÓSEBÓK 2:15.
1. Hver var upphaflegur tilgangur skaparans með hlýðna menn?
SÁ VAR upprunalegur tilgangur skaparans, og er enn, að hlýðnir menn skuli fá að njóta eilífs lífs, síungir og svellandi af æskuþrótti, lausir við leiðindi og finna að þeir hafi verðugu hlutverki að gegna. Þeir eiga að lifa í fullkominni paradís og bæði gefa og þiggja ósvikinn, óeigingjarnan kærleika. — 1. Mósebók 2:8; samanber Lúkas 23:42, 43.
2. (a) Hvað hlýtur að hafa gerst þegar fyrsti maðurinn vaknaði til meðvitundar? (b) Hvenær var hinn fyrsti maður skapaður, hvar og á hvaða árstíma?
2 Við gerum okkur grein fyrir þessu ef við hverfum aftur í tímann og virðum fyrir okkur hinn nýskapaða Adam er hann vaknaði til meðvitundar í fyrsta sinn, þegar hann virti fyrir sér líkama sinn og allt það sem hann sá og heyrði umhverfis sig, þegar hann gerði sér grein fyrir að hann væri lifandi! Það gerðist fyrir um það bil 6000 árum, árið 4026 fyrir okkar tímatal samkvæmt þeim tímareikningi sem finna má í heilagri Biblíu. Það átti sér stað á norðurhveli jarðar í suðvesturhluta Asíu, á landsvæði sem nú heitir Tyrkland. Það var einhvers staðar í grennd við fljótin Evfrat og Tígris. Þetta hefur verið einhvern tíma nálægt 1. október þar eð elstu dagatöl mannkyns byrja að telja tímann nálægt þeim degi.
3. (a) Í hvaða ástandi var hinn nýskapaði maður? (b) Hvert varð nafn hins fyrsta manns og hvað merkti það?
3 Fyrsti maðurinn vaknaði til lífs fullvaxta og fullkominn bæði líkamlega og siðferðilega. Nafnið, sem hann er aftur og aftur nefndur í frásögn Biblíunnar, leiðir hugann að því efni sem hann var myndaður úr. Nafn hans var Adham.a Jörðin eða jarðvegurinn, sem hann var myndaður úr, var kallaður adhamah. Nafn hans merkti því eiginlega „jarðneskur maður.“ Þetta nafn, Adam, varð síðan einkanafn hins fyrsta manns. Það hlýtur að hafa verið stórkostleg tilfinning fyrir Adam að vakna til lífs og meðvitundar sem skynsemigædd persóna!
4. Hvernig vaknaði maðurinn ekki til lífs og hvers sonur var hann því ekki?
4 Þegar hinn fyrsti maður Adam kom til lífs, vaknaði til meðvitundar og opnaði augun, lá hann ekki í löngum, loðnum og vöðvastæltum örmum apaynju, hjúfraði sig að henni, horfðist í augu við hana og hvíslaði: „Mamma.“ Hinn fyrsti maður kom ekki til lífsins með slíkum undarlegum hætti. Hann fann ekki til nokkurra holdlegra tengsla við apa, ekki einu sinni síðar þegar hann sá apa í fyrsta sinn. Á sköpunardegi hans var enga vísbendingu að finna um að hann væri fjarskyldur afkomandi apa eða einhverrar skepnu sem líktist apa. En gekk hinn fyrsti maður þess þá dulinn hvernig hann varð til? Nei.
5. Hvað vissi Adam um sjálfan sig og garðinn sem hann var í?
5 Skiljanlegt er að hann kunni að hafa undrast hvernig öll sú fegurð, sem umvafði hann, hafi orðið til. Hann var í garði, lystigarði, paradís sem hann hafði hvorki skipulagt né gróðursett. Hvernig hafði hann orðið til? Sem fullkominn, gáfaður, rökhugsandi maður hlýtur hann að hafa viljað vita það. Hann hafði enga fyrri reynslu til að byggja á. Hann vissi að hann hafði ekki skapað eða þróað sjálfan sig. Hann hafði ekki í eigin krafti gert sig að því sem hann var. — Samanber Sálm 100:3; 139:14.
6. Hvernig hefur Adam líklega brugðist við því að hann skyldi vera til í þessum fagra garði?
6 Í byrjun var hinn fyrsti maður Adam kannski of hrifinn og spenntur yfir því að vera til og búa í fullkominni paradís, til að leiða hugann að því hvernig hann hefði orðið til og hvers vegna. Hann hefur varla getað varist því að hrópa upp yfir sig af hrifningu. Hann heyrði orð koma af munni sér. Hann heyrði sig tala tungu mannsins, tala um allt hið undurfagra sem hann sá og heyrði. Hvílíkt yndi að vera til í þessum paradísargarði! En allt það unaðslega, sem hann sá, heyrði, fann ilminn af og snerti, hlýtur að hafa vakið með honum einhverjar hugsanir. Ef við hefðum staðið í hans sporum hefði okkur fundist allt þetta býsna dularfullt, svo dularfullt að við hefðum ekki getað ráðið það af eigin rammleik.
Enginn leyndardómur
7. Hvers vegna þurfti Adam ekki að vera lengi í óvissu um það hvers vegna hann var til og var í þessum garði?
7 Adam var ekki lengi í óvissu um hvers vegna hann væri til, einn sinnar tegundar í paradísargarðinum. Hann heyrði rödd; einhver var að tala. Maðurinn skildi það sem röddinn sagði. En hver talaði? Hann sá engan. Röddin kom af ósýnilegu tilverusviði og ávarpaði hann. Þetta var rödd skapara mannsins! Og Adam gat svarað honum á sama tungumáli. Hann var að tala við Guð, skaparann. Maðurinn þurfti engin háþróuð hjálpartæki, svo sem útvarpsviðtæki, til að heyra rödd Guðs. Guð talaði beint við sköpunarveru sína.
8, 9. (a) Hvaða spurningum gat Adam fengið svarað og hvaða föðurleg umhyggja var honum sýnd? (b) Hvaða svar fékk Adam frá himneskum föður sínum?
8 Nú vissi Adam að hann var ekki einn og honum hlýtur að hafa liðið betur. Hugur hans var fullur af spurningum sem hann gat spurt þessa ósýnilegu rödd sem talaði til hans. Hver hafði skapað hann og þennan unaðslega garð? Hvers vegna hafði hann verið settur í garðinn og í hvaða tilgangi? Guð sýndi þessum fyrsta manni föðurlega umhyggju og áhuga og svalaði fúslega fróðleiksfýsn hans. Það hlýtur að hafa veitt skapara mannsins, lífgjafa og himneskum föður mikla gleði að heyra manninn tala sín fyrstu orð. Sennilega hefur fyrsta spurningin, sem kom fram á varir Adams, verið: „Hvernig varð ég til?“ Himneskur faðir hans svaraði henni fúslega og viðurkenndi þannig þennan fyrsta mann sem son sinn. Adam var ‚sonur Guðs.‘ (Lúkas 3:38) Jehóva lýsti sér sem föður þessa fyrsta manns. Kjarni þess svars, sem Adam fékk frá himneskum föður sínum, og hann sagði síðar börnum sínum, er á þessa leið:
9 „Þá myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál. [Jehóva] Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað. Og [Jehóva] Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills. Fljót rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og þaðan kvíslaðist það og varð að fjórum stórám.“ — 1. Mósebók 2:7-10.b
10, 11. (a) Hvað fékk Adam að vita skýrt og greinilega en hvaða öðrum spurningum þurfti hann að fá svör við? (b) Hvernig svaraði himneskur faðir Adams honum?
10 Hugur Adams drakk í sig þessar upplýsingar með áfergju. Núna vissi hann að hann var ekki kominn frá hinu ósýnilega tilverusviði sem skapari hans talaði frá. Hann var myndaður á jörðinni sem hann lifði á og var því jarðneskur. Jehóva Guð var lífgjafi hans og faðir. Hann var „lifandi sál.“ Hann hafði fengið líf sitt frá Jehóva Guði og var því ‚sonur Guðs.‘ Trén, sem uxu í kringum hann í Edengarðinum, báru ávexti sem voru góðir til átu og hann gat nærst á til að viðhalda lífi sínu. En hvers vegna átti hann að viðhalda lífi sínu og hvers vegna hafði hann verið myndaður á jörðinni og settur í þennan Edengarð? Sem vitiborinn og fullskapaður maður verðskuldaði hann svar við þeirri spurningu. Hvernig gæti hann annars lifað samkvæmt tilganginum með sköpun sinni og þar með þóknast skapara sínum og föður með því að gera vilja hans? Svörin við þessum eðlilegu spurningum voru sem hér segir:
11 „Þá tók [Jehóva] Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans. Og [Jehóva] Guð bauð manninum og sagði: ‚Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.‘“ — 1. Mósebók 2:15-17.
12. Fyrir hvað hlýtur Adam að hafa þakkað skapara sínum og hvernig gat maðurinn vegsamað Guð?
12 Adam hlýtur að hafa þakkað skapara sínum fyrir að fá verðugt verk að vinna í þessum fagra Edengarði. Nú vissi hann hver var vilji föður hans og hann gat gert eitthvað á jörðinni fyrir hann. Nú hvíldi á honum sú ábyrgð að yrkja aldingarðinn Eden og annast hann. Það var ánægjulegt starf því að hann gat lofað og heiðrað skapara sinn, Jehóva Guð, með því að gæta garðsins vel og halda honum fögrum. Þegar Adam varð hungraður af verki sínu gat hann lesið ávexti af trjánum í aldingarðinum og etið að vild. Þannig gat hann endurnýjað krafta sína og lifað hamingjusamur að eilífu — endalaust. — Samanber Prédikarann 3:10-13.
Framtíðarhorfurnar — eilíft líf
13. Hverjar voru framtíðarhorfur fyrsta mannsins og hvers vegna?
13 Endalaust? Jafnvel fullkomnum manni hlýtur að hafa fundist hugmyndin nánast ótrúleg! En hví ekki? Skapari hans hafði ekki í hyggju að eyðileggja þetta meistaraverk sitt, Edengarðinn. Hvers vegna ætti hann að eyðileggja handaverk sitt úr því að það var svona gott og talandi dæmi um sköpunargáfu hans og snilli? Að sjálfsögðu áformaði hann ekki að eyðileggja það. (Jesaja 45:18) Og fyrst það átti að yrkja þennan óviðjafnanlega garð myndi þurfa til þess garðyrkjumann, líkt og hinn fullkomna Adam. Ef þessi gæslumaður garðsins æti aldrei af „skilningstrénu góðs og ills,“ sem honum var bannað, myndi hann aldrei deyja. Hann gat því lifað að eilífu!
14. Hvernig hefði Adam getað lifað eilíflega í paradís?
14 Adam átti fyrir sér eilíft líf í paradísinni Eden. Hann gat notið lífsins endalaust, svo framarlega sem hann væri fullkomlega hlýðinn skapara sínum og æti aldrei þann ávöxt sem honum var bannað að eta. Skaparinn vildi að hinn fullkomni maður væri hlýðinn og lifði eilíflega. Bannið við neyslu ávaxtarins af ‚skilningstrénu góðs og ills‘ hafði alls ekki dauða í för með sér. Það var eingöngu prófsteinn á hlýðni hins fullkomna manns við föður sinn. Það gaf manninum tækifæri til að sanna að hann elskaði Guð sinn og skapara.
15. Hvers vegna gat Adam átt sér bjarta framtíð og blessun skapara síns?
15 Maðurinn var þess fullviss að hann væri ekki afsprengi tilviljunar heldur ætti sér himneskan föður, og var upplýstur um tilganginn með sköpun sinni. Hann gat því horft fram veginn til bjartrar framtíðar — eilífs lífs í paradís. Hann át ávexti trjáa sem voru góð að eta af en forðaðist ‚skilningstréð góðs og ills.‘ Hann vildi fá að njóta þess sem gott var af hendi skapara síns. Hann hafði fengið gott og uppbyggilegt verk að vinna, það að yrkja Edengarðinn, og hinn fullkomni maður vann það með gleði.
Engin þörf á að leita skýringa
16-18. Hvaða svokallaða leyndardóma fann Adam enga hvöt hjá sér til að leysa og hvers vegna?
16 Dagsbirtan dvínaði er stóra ljósið, sem Adam gat séð færast yfir himininn, gekk til viðar. Það dimmdi, nóttin skall á og tunglið tók að skína. Adam var óhræddur; þetta var bara litla ljósið sem réði nóttu. (1. Mósebók 1:14-18) Trúlega flugu eldflugur um garðinn í myrkrinu með blikandi ljósum.
17 Er nóttin skall á og myrkrið hjúpaði veröldina fann Adam vafalaust fyrir þörfinni á að sofa líkt og dýrin í kringum hann. Hann var hungraður er hann vaknaði og át með góðri lyst ávexti af trjánum sem hann hafði aðgang að.
18 Adam var endurnærður eftir svefninn og sneri sér af nýjum krafti að verkefnum dagsins. Þótt hann virti fyrir sér allan gróðurinn í kringum sig fann hann enga þörf hjá sér til að rannsaka það sem menn áttu eftir að kalla ljóstillífun ársþúsundum síðar, þetta torskilda ferli þar sem blaðgræna jurtanna beislar orku sólarinnar til að mynda fæðu fyrir menn og skepnur, tekur til sín koldíoxíð sem menn og skepnur anda frá sér og gefur frá sér súrefni sem þeir anda að sér. Maðurinn gæti kallað þetta ferli leyndardóm en Adam hafði enga ástæðu til að reyna að ráða hann. Þetta var kraftaverk skaparans. Hann skildi það og lét það starfa til gagns sköpunarverum sínum á jörðinni. Það fullnægði þekkingarþörf hins fullkomna manns að Guð, skaparinn, lét gróðurinn vaxa og það var verkefni mannsins að annast jurtirnar sem uxu í Edengarðinum. — Sjá 1. Mósebók 1:12.
Einn en ekki óhamingjusamur
19. Hvað gerði Adam ekki þótt hann gerði sér ljóst að hann væri einn sinnar tegundar á jörðinni?
19 Uppfræðslu mannsins var ekki lokið. Hann annaðist Edengarðinn án þess að eiga sér til hjálpar nokkurn sinn líka. Hann var aleinn sinnar tegundar. Hann lagði ekki af stað til að leita að annarri mannveru er hann gæti átt fyrir félaga. Hann bað ekki Guð, himneskan föður sinn, að gefa sér bróður eða systur. Hann missti ekki vitið þótt hann væri einn og það rændi hann ekki gleðinni af lífi sínu og starfi. Hann átti samfélag við Guð. — Samanber Sálm 27:4.
20. (a) Hvað veitti Adam mesta gleði? (b) Hvers vegna hefði það ekki verið neitt kvalræði fyrir Adam að búa áfram við þessi skilyrði? (c) Hvað verður fjallað um í næstu grein?
20 Adam vissi að faðir hans á himnum fylgdist með honum og störfum hans. Ekkert veitti honum meiri gleði en að þóknast Guði sínum og skapara sem opinberaði mikilleik sinn í gegnum öll þau fögru sköpunarverk sem maðurinn sá í kringum sig. (Samanber Opinberunarbókina 15:3.) Það hefði ekki verið nein þjakandi sálarkvöl eða niðurdrepandi raun fyrir hinn fullkomna mann, sem gat talað við Guð sinn, að lifa þannig áfram. Guð hafði falið Adam áhugavert og hrífandi starf sem gat veitt honum mikla lífsfyllingu og ánægju. Í næstu grein fjöllum við meira um þá paradísarblessun og þær framtíðarhorfur sem Adam átti fyrir sér.
[Neðanmáls]
a Þetta er nafnið sem honum er gefið á frummálinu í sköpunarsögu Biblíunnar. — 1. Mósebok 1:26, New World Translation Reference Bible, neðanmáls.
b Spámaðurinn Móse, sem skráði þessa vitneskju í 1. Mósebók á 16. öld fyrir okkar tímatal, bætti eftirfarandi upplýsingum við um þetta fljót, í samræmi við það sem menn vissu á hans dögum:
„Hin fyrsta heitir Píson; hún fellur um allt landið Havíla, þar sem gullið fæst. Og gull lands þess er gott. Þar fæst bedolakharpeis og sjóamsteinar. Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland. Þriðja stóráin heitir Kíddekel. Hún fellur fyrir vestan Assýríu. Fjórða stóráin er Efrat.“ — 1. Mósebók 2:11-14.
Hverju svarar þú?
◻ Af hverju þurfti Adam ekki lengi að vera í óvissu um hvers vegna hann væri til?
◻ Hvaða verk fékk Guð Adam að vinna og hver hljóta að hafa verið viðbrögð hans?
◻ Hverjar voru framtíðarhorfur hins fullkomna manns og hvers vegna?
◻ Hvers vegna fann Adam ekki köllun hjá sér til að ráða leyndardóma?
◻ Hvers vegna rændi það Adam ekki lífsgleðinni að hann var einn?
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 7]
Ljósmynd: NASA