Hefurðu „hlýðið hjarta“?
SALÓMON fann til vanmáttar síns þegar hann varð konungur Ísraels til forna og bað Guð að gefa sér visku og þekkingu. (2. Kroníkubók 1:10) Hann bað einnig: „Gefðu þjóni þínum hlýðið hjarta til að dæma þjóð þína.“ (1. Konungabók 3:9, NW) Með því að hafa „hlýðið hjarta“ gat Salómon fylgt lögum Guðs og meginreglum og notið blessunar hans.
Hlýðið hjarta er ekki byrði heldur gleðigjafi. Jóhannes postuli skrifaði: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Við ættum vissulega að hlýða Jehóva Guði. Þegar allt kemur til alls er hann skapari okkar. Jörðin og allt sem á henni er tilheyrir honum, meira að segja allt silfrið og gullið. Við getum því eiginlega ekki gefið Guði neitt af efnislegu tagi þótt hann leyfi okkur að nota fjármuni okkar til að tjá kærleika okkar til sín. (1. Kroníkubók 29:14) Jehóva væntir þess að við elskum sig, göngum auðmjúk með sér og gerum vilja sinn. — Míka 6:8.
Þegar Jesús Kristur var spurður hvert væri mesta boðorð lögmálsins svaraði hann: „‚Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.‘ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.“ (Matteus 22:36-38) Ein leiðin til að sýna Guði þennan kærleika er að hlýða honum. Við ættum því að biðja Jehóva dag hvern að gefa okkur hlýðið hjarta.
Þau höfðu hlýðið hjarta
Biblían segir frá fjölmörgum sem höfðu hlýðið hjarta, til dæmis Nóa sem Jehóva sagði að smíða gríðarstóra örk til að bjarga lífi sínu og annarra. Þetta var óhemjuverk sem tók um 40 til 50 ár. Jafnvel með hjálp þeirra öflugu tækja og tóla, sem nú eru til, væri það verkfræðilegt afrek að smíða þetta ferlíki sem gat flotið. Auk þess þurfti Nói að vara fólk við því sem í vændum var og þetta fólk gerði eflaust gys að honum. En hann var hlýðinn í einu og öllu. Biblían segir: „Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ (1. Mósebók 6:9, 22; 2. Pétursbréf 2:5) Nói sýndi kærleika sinn til Jehóva með trúfesti sinni og hlýðni um langt árabil. Hann er okkur öllum góð fyrirmynd.
Ættfaðirinn Abraham er annað dæmi. Guð sagði honum að flytja frá velmegunarborginni Úr í Kaldeu til ókunnugs lands. Abraham hlýddi hiklaust. (Hebreabréfið 11:8) Hann bjó í tjöldum ásamt fjölskyldu sinni það sem eftir var ævinnar. Eftir margra ára búsetu þar blessaði Jehóva hann og Söru, hlýðna eiginkonu hans, með syninum Ísak. Abraham var þá orðinn tíræður og hlýtur að hafa þótt afar vænt um soninn sem hann eignaðist í ellinni. Allmörgum árum síðar bað Jehóva Abraham að færa Ísak að brennifórn. (1. Mósebók 22:1, 2) Tilhugsunin ein hlýtur að hafa verið kvalræði fyrir Abraham. Samt hlýddi hann af því að hann elskaði Jehóva. Hann treysti því að hið fyrirheitna sæði myndi koma af ætt Ísaks, jafnvel þótt Jehóva yrði að reisa hann upp frá dauðum til þess. (Hebreabréfið 11:17-19) En þegar Abraham var í þann mund að drepa son sinn stöðvaði Jehóva hann og sagði: „Nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn.“ (1. Mósebók 22:12) Vegna hlýðni sinnar var hinn guðhræddi Abraham kallaður vinur Jehóva. — Jakobsbréfið 2:23.
Jesús Kristur er besta fordæmi okkar um hlýðni. Áður en hann varð maður naut hann þess að hlýða og þjóna föður sínum á himnum. (Orðskviðirnir 8:22-31) Sem maður hlýddi Jesús Jehóva í einu og öllu og naut þess alltaf að gera vilja hans. (Sálmur 40:9; Hebreabréfið 10:9) Jesús gat því sagt með sanni: „Ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér. Og sá sem sendi mig, er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan, því ég gjöri ætíð það sem honum þóknast.“ (Jóhannes 8:28, 29) Að lokum þoldi Jesús niðurlægjandi og mjög kvalafullan dauða til að upphefja drottinvald Jehóva og endurkaupa hlýðið mannkyn, en hann gerði það fúslega. „Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“ (Filippíbréfið 2:8) Hvílíkt fordæmi um hlýðið hjarta!
Það er ekki nóg að hlýða aðeins sumu
Það hafa ekki allir hlýtt Guði sem sagst hafa gert það. Sál Ísraelskonungur er dæmi um það. Guð fyrirskipaði honum að útrýma hinum illu Amalekítum. (1. Samúelsbók 15:1-3) Þótt Sál hafi útrýmt þeim sem þjóð þyrmdi hann konunginum og hluta af sauðfénu og nautgripunum. Samúel spurði: „Hvers vegna hefir þú þá ekki hlýtt boði [Jehóva]?“ Sál svaraði: „Ég hefi hlýtt boði [Jehóva] . . . En fólkið [Ísraelsmenn] tók sauði og naut af herfanginu, hið besta af því . . . til þess að fórna því í Gilgal [Jehóva] Guði þínum til handa.“ Samúel lagði þá áherslu á að hlýðnin yrði að vera alger og svaraði: „Hefir þá [Jehóva] eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna. Þrjóska er ekki betri en galdrasynd, og þvermóðska er ekki betri en hjáguðadýrkun og húsgoð. Af því að þú hefir hafnað skipun [Jehóva], þá hefir hann og hafnað þér og svipt þig konungdómi.“ (1. Samúelsbók 15:17-23) Það reyndist Sál dýrkeypt að hafa ekki hlýðið hjarta.
Jafnvel hinn vitri Salómon konungur, sem bað Jehóva að gefa sér hlýðið hjarta, hélt ekki áfram að hlýða honum. Í trássi við vilja Guðs gekk hann að eiga útlendar konur sem fengu hann til að syndga gegn Guði. (Nehemíabók 13:23, 26) Salómon glataði velþóknun Guðs af því að hjarta hans var ekki hlýðið áfram. Þetta er alvarleg viðvörun til okkar.
En Jehóva krefst auðvitað ekki fullkomleika af þjónum sínum. Hann „minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:14) Okkur verður öllum eitthvað á af og til en Guð sér hvort okkur langar innst inni til að þóknast sér. (2. Kroníkubók 16:9) Ef við syndgum vegna mannlegs ófullkomleika en iðrumst getum við beðist fyrirgefningar vegna lausnarfórnar Krists, í trausti þess að Jehóva ‚fyrirgefi ríkulega.‘ (Jesaja 55:7; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Kærleiksrík hjálp kristinna öldunga getur líka reynst nauðsynleg til að við náum okkur andlega og höfum heilbrigða trú og hlýðið hjarta. — Títusarbréfið 2:2; Jakobsbréfið 5:13-15.
Hversu alger er hlýðni þín?
Flestum okkar, sem eru þjónar Jehóva, finnst við eflaust hafa hlýðið hjarta. Við hugsum kannski með okkur: Tek ég ekki þátt í að prédika Guðsríki? Er ég ekki staðfastur í stórum málum eins og hlutleysi? Og sæki ég ekki kristnar samkomur reglulega eins og Páll postuli hvatti til? (Matteus 24:14; 28:19, 20; Jóhannes 17:16; Hebreabréfið 10:24, 25) Fólk Jehóva í heild er hlýðið af öllu hjarta í þessum stóru málum.
En hvað um hegðun okkar í hversdagslegum málum, jafnvel þeim sem virðast smávægileg? Jesús sagði: „Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.“ (Lúkas 16:10) Við ættum því öll að spyrja okkur hvort við höfum hlýðið hjarta í hinu smáa eða í málum sem aðrir vita ekki einu sinni um.
Sálmaritarinn benti á að hann ‚gengi um í grandvarleik hjartans í húsi sínu‘ þar sem aðrir sæju ekki til. (Sálmur 101:2) Þú kveikir kannski á sjónvarpinu þegar þú ert heima og byrjar að horfa á kvikmynd. Þar gæti reynt á hlýðni þína. Hvað gerirðu ef myndin gerist siðlaus? Heldurðu áfram að horfa og segir við sjálfan þig að þetta séu nú myndirnar sem verið sé að sýna nú orðið? Eða fær hlýðið hjarta þig til að fara eftir þeim fyrirmælum Ritningarinnar að ‚frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eigi ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal okkar‘? (Efesusbréfið 5:3-5) Slekkurðu á sjónvarpstækinu, jafnvel þótt atburðarásin sé spennandi? Eða skiptirðu um rás ef sjónvarpsþáttur gerist ofbeldisfullur? „[Jehóva] rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega,“ söng sálmaritarinn, „og þann er elskar ofríki, hatar hann.“ — Sálmur 11:5.
Hlýðið hjarta er til blessunar
Að sjálfsögðu getum við haft gott af því að rannsaka sjálfa okkur á mörgum sviðum lífsins til að kanna hvort við hlýðum Guði raunverulega af öllu hjarta. Kærleikur okkar til Jehóva ætti að koma okkur til að þóknast honum og gera það sem hann segir okkur í orði sínu, Biblíunni. Hlýðið hjarta hjálpar okkur að viðhalda góðu sambandi við hann. Ef við erum hlýðin í öllu verða ‚orðin af munni okkar og hugsanir hjarta okkar Jehóva þóknanleg.‘ — Sálmur 19:15.
Jehóva elskar okkur og þess vegna kennir hann okkur hlýðni, sjálfum okkur til góðs. Og við gerum sjálfum okkur mikið gagn með því að gefa gaum að kenningu hans af öllu hjarta. (Jesaja 48:17, 18) Við skulum því þiggja fúslega þá aðstoð sem faðirinn á himnum veitir okkur í orði sínu og fyrir atbeina anda síns og skipulags. Okkur er kennt svo vel að það er eins og við heyrum rödd að baki okkur segja: „Hér er vegurinn! Farið hann!“ (Jesaja 30:21) Megum við gefa gaum að því sem Jehóva kennir okkur í Biblíunni, kristnum ritum og á safnaðarsamkomum, fara eftir því sem við lærum og vera ‚hlýðin í öllu.‘ — 2. Korintubréf 2:9.
Hlýðið hjarta veitir okkur mikla gleði og er til mikillar blessunar. Það veitir okkur hugarfrið því að við vitum að við þóknumst Jehóva Guði og gleðjum hjarta hans. (Orðskviðirnir 27:11) Hlýðið hjarta verndar okkur þegar okkar er freistað til að gera eitthvað rangt. Við ættum því að hlýða himneskum föður okkar og biðja: „Gefðu þjóni þínum hlýðið hjarta.“
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 28]
Úr Self-Pronouncing Edition of the Holy Bible með King James og Revised biblíuútgáfunum.