Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.1. bls. 27-30
  • Að greina á milli veikleika, vonsku og iðrunar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Að greina á milli veikleika, vonsku og iðrunar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Að vega og meta veikleika, vonsku og iðrun
  • Að axla ábyrgð og iðrast
  • Að ástunda hið illa
  • Hrokafull lítilsvirðing við Jehóva
  • Að vinna öðrum tjón
  • Að heimfæra meginreglur Guðs
  • Þiggjum alltaf ögun Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Vertu ekki hluttakandi syndum annarra
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Hvað geturðu gert ef þú drýgir alvarlega synd?
    Von um bjarta framtíð – biblíunámskeið
  • Hefur þú syndgað gegn heilögum anda?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.1. bls. 27-30

Að greina á milli veikleika, vonsku og iðrunar

KRISTNIR menn hata synd — það er að ná ekki að uppfylla réttláta staðla Jehóva. (Hebreabréfið 1:9) Því miður verður okkur öllum á að syndga af og til. Öll eigum við í baráttu við meðfæddan veikleika og ófullkomleika. Í flestum tilvikum getum við þó nálgast Jehóva með hreinni samvisku ef við játum syndir okkar fyrir honum og reynum einlæglega að endurtaka þær ekki. (Rómverjabréfið 7:21-24; 1. Jóhannesarbréf 1:8, 9; 2:1, 2) Við þökkum Jehóva að hann skuli á grundvelli lausnarfórnarinnar þiggja heilaga þjónustu okkar þrátt fyrir veikleika okkar.

Ef einhver syndgar alvarlega vegna veikleika holdsins er brýnt fyrir hann að fá hjálp í samræmi við þá aðferð sem lýst er í Jakobsbréfinu 5:14-16: „Sé einhver [andlega] sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins . . . Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar. Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir.“

Þegar vígður kristinn maður drýgir grófa synd er því ekki nóg bara að játa það einslega fyrir Jehóva. Öldungarnir verða að gera vissar ráðstafanir því að hreinleika eða friði safnaðarins er ógnað. (Matteus 18:15-17; 1. Korintubréf 5:9-11; 6:9, 10) Öldungarnir geta þurft að ganga úr skugga um eftirfarandi: Iðrast maðurinn? Hvað leiddi til syndarinnar? Stafaði hún af augnabliksveikleika? Er hann farinn að ástunda synd? Það er ekki alltaf einfalt eða auðvelt að ganga úr skugga um slíkt og getur kostað töluverða skarpskyggni og dómgreind.

En hvað nú ef syndin stafar af því að viðkomandi er búinn að temja sér ranga og óguðlega breyni? Þá liggur ábyrgð öldunganna ljós fyrir. Þegar Páll postuli leiðbeindi söfnuðinum í Korintu um hvernig taka ætti á alvarlegu máli sagði hann: „Útrýmið hinum vonda úr yðar hópi.“ (1. Korintubréf 5:13) Vondir eða óguðlegir menn eiga ekki heima í kristna söfnuðinum.

Að vega og meta veikleika, vonsku og iðrun

Hvernig geta öldungarnir vitað hvort einhver iðrast?a Við þessari spurningu er ekkert einfalt svar. Hugsaðu til dæmis um Davíð konung. Hann framdi hjúskaparbrot og síðan morð í reynd. Samt sem áður leyfði Jehóva honum að lifa. (2. Samúelsbók 11:2-24; 12:1-14) Hugsaðu síðan um Ananías og Saffíru. Þau reyndu með lygum að blekkja postulana og þóttust með hræsni vera örlátari en þau voru. Alvarlegt? Já. Jafnalvarlegt og morð og hjúskaparbrot? Varla! Eigi að síður guldu Ananías og Saffíra fyrir með lífinu. — Postulasagan 5:1-11.

Hvers vegna fengu þau ólíka dóma? Davíð syndgaði alvarlega vegna veikleika holdsins. Þegar það sem hann hafði gert var borið upp á hann iðraðist hann og Jehóva fyrirgaf honum — þótt hann fengi alvarlega ögun í mynd vandamála í fjölskyldunni. Ananías og Saffíra syndguðu af því að þau hræsnuðu og lugu og reyndu með úthugsuðum hætti að blekkja kristna söfnuðinn og ‚ljúga þannig að heilögum anda og Guði.‘ Það reyndist vera merki um vont hjarta. Þess vegna fengu þau þyngri dóm.

Í báðum tilvikum felldi Jehóva dóminn og dómur hans var réttur vegna þess að hann getur rannsakað hjörtun. (Orðskviðirnir 17:3) Mennskir öldungar geta það ekki. Hvernig geta öldungar þá komið auga á hvort alvarleg synd sé frekar merki veikleika en vonsku?

Í rauninni er öll synd vonska en hins vegar eru ekki allir syndarar vondir eða óguðlegir. Áþekkar syndir geta verið veikleikamerki hjá einum manni en vonskumerki hjá öðrum. Í rauninni felur synd yfirleitt í sér bæði veikleika og vonsku í fari syndarans. Meginmálið er það hvernig syndarinn lítur á það sem hann hefur gert og hvað hann ætlar að gera í málinu. Sýnir hann iðrunarhug? Öldungar þurfa góða dómgreind til að koma auga á það. Hvernig geta þeir öðlast slíka dómgreind? Páll postuli hét Tímóteusi: „Hugleiddu stöðugt það sem ég segi. Drottinn mun veita þér dómgreind í öllu.“ (2. Tímóteusarbréf 2:7, NW) Ef öldungar eru auðmjúkir og ‚hugleiða stöðugt‘ innblásin orð Páls og annarra biblíuritara öðlast þeir þá dómgreind sem þarf til að sjá safnaðarmenn, sem syndga, í réttu ljósi. Þá endurspegla ákvarðanir þeirra huga Jehóva, ekki þeirra eigin. — Orðskviðirnir 11:2; Matteus 18:18.

Hvernig er hægt að gera það? Ein leið er að skoða hvernig Biblían lýsir vondum og óguðlegum mönnum og sjá hvort lýsingin eigi við einstaklinginn sem verið er að fást við.

Að axla ábyrgð og iðrast

Fyrstu mennirnir, sem kusu veg vonskunnar, voru Adam og Eva. Þótt þau væru fullkomin og hefðu fulla þekkingu á lögum Jehóva gerðu þau uppreisn gegn drottinvaldi hans. Þegar Jehóva bar á þau sakir, voru viðbrögð þeirra eftirtektarverð — Adam kenndi Evu um og Eva höggorminum! (1. Mósebók 3:12, 13) Berðu þetta saman við hina miklu auðmýkt Davíðs. Þegar hann var látinn horfast í augu við alvarlegar syndir sínar viðurkenndi hann ábyrgð sína, sárbændi Guð um fyrirgefningu og sagði: „Ég hefi syndgað móti [Jehóva].“ — 2. Samúelsbók 12:13; Sálmur 51:6, 11, 12.

Öldungar ættu að íhuga þessi tvö dæmi þegar þeir þurfa að fjalla um alvarleg syndatilfelli, sérstaklega þegar fullorðnir eiga í hlut. Viðurkennir syndarinn sökina þegar í stað — líkt og Davíð þegar honum var sýnt fram á synd sína — og leitar iðrunarfullur hjálpar Jehóva og fyrirgefningar, eða reynir hann að gera sem minnst úr því sem hann hefur gert, kannski með því að kenna öðrum um? Að vísu vill sá sem syndgar kannski útskýra hvað leiddi til verknaðarins, og vera kann að öldungarnir þurfi að taka tillit til aðstæðna, annaðhvort í nútíð eða fortíð, þegar þeir ákveða hvernig eigi að hjálpa honum. (Samanber Hósea 4:14.) En hann ætti að viðurkenna að það er hann sem hefur syndgað og að það er hann sem er ábyrgur frammi fyrir Jehóva. Munum: „[Jehóva] er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ — Sálmur 34:19.

Að ástunda hið illa

Í Sálmum Biblíunnar er víða minnst á óguðlega og vonda menn. Slíkir ritningarstaðir geta hjálpað öldungum enn frekar að koma auga á hvort viðkomandi sé fyrst og fremst illur í sér eða veikur. Lítum til dæmis á innblásna bæn Davíðs konungs: „Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.“ (Sálmur 28:3) Tökum eftir að óguðlegir menn eru nefndir í sömu andránni og ‚illgjörðamenn.‘ Líklegt er að sá sem syndgar vegna veikleika holdsins hætti því jafnskjótt og hann kemur til sjálfs sín. En ef einhver ástundar það sem illt er þannig að það verður hluti af lífi hans, þá gæti það verið merki um vont hjarta.

Davíð nefndi annað einkenni vonskunnar í þessu versi. Líkt og Ananías og Saffíra talar óguðlegur maður vinsamlega með munni sínum en býr yfir vonsku í hjarta sér. Hann getur verið hræsnari — líkt og farísearnir á dögum Jesú sem ‚sýndust hið ytra réttlátir í augum manna, en voru hið innra fullir hræsni og ranglætis.‘ (Matteus 23:28; Lúkas 11:39) Jehóva hatar hræsni. (Orðskviðirnir 6:16-19) Ef einhver reynir með hræsni að þræta fyrir alvarlegar syndir sínar, jafnvel þegar hann talar við dómnefndina, eða viðurkennir treglega aðeins það sem aðrir vita nú þegar og neitar að játa fullkomlega, þá gæti það vel verið merki um vont hjarta.

Hrokafull lítilsvirðing við Jehóva

Sálmur 10 lýsir fleiru sem einkennir óguðlegan mann. Þar lesum við: „Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, . . . hann fyrirlítur [Jehóva].“ (Sálmur 10:2, 3) Hvernig eigum við að líta á vígðan kristinn mann sem er hrokafullur og lítilsvirðir Jehóva? Það ber sannarlega vott um óguðlegt viðhorf. Sá sem syndgar sökum veikleika iðrast og leggur hart að sér að breyta um lífsstefnu um leið og hann gerir sér grein fyrir synd sinni eða athygli hans er vakin á henni. (2. Korintubréf 7:10, 11) Hvað stöðvar hins vegar mann, sem syndgar vegna þess að hann ber enga virðingu fyrir Jehóva, í að snúa aftur og aftur út á syndabrautina? Ef hann er fullur hroka þótt honum sé leiðbeint mildilega, getur hann þá haft þá auðmýkt sem þarf til að iðrast í einlægni og sannleika?

Lítum nú á orð Davíðs örlitlu síðar í sama sálmi: „Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: ‚Þú hegnir eigi‘?“ (Sálmur 10:13) Á vettvangi kristna safnaðarins þekkir óguðlegur maður muninn á réttu og röngu en hikar ekki við að gera það sem rangt er ef hann heldur sig komast upp með það. Svo lengi sem hann óttast ekki að upp um hann komist gefur hann syndugum tilhneigingum lausan tauminn. Ólíkt Davíð upphugsar hann ráð til að forðast ögun ef upp um hann kemst. Slíkur maður sýnir Jehóva mjög mikla óvirðingu. „Enginn guðsótti býr í huga hans. . . . [Hann] forðast eigi hið illa.“ — Sálmur 36:2, 5.

Að vinna öðrum tjón

Venjulega hefur synd áhrif á fleiri en einn mann. Maður, sem til dæmis fremur hjúskaparbrot, syndgar gegn Guði; hann skaðar konu sína og börn; ef konan, sem tók þátt í synd hans, er gift skaðar hann fjölskyldu hennar og hann setur blett á góðan orðstír safnaðarins. Hvernig lítur hann á allt þetta? Sýnir hann djúpa hryggð ásamt sannri iðrun? Eða lætur hann í ljós þann anda sem lýst er í Sálmi 94: „Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast. Þeir kremja lýð þinn, [Jehóva], þjá arfleifð þína, drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa og segja: ‚[Jah] sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því‘“? — Sálmur 94:4-7.

Ólíklegt er að morð og dráp séu meðal þeirra synda sem teknar eru fyrir á safnaðargrundvelli. En hugarfarið sem birtist hér — það hugarfar að víla ekki fyrir sér að vinna öðrum tjón í eiginhagsmunaskyni — getur komið greinilega í ljós þegar öldungarnir rannsaka ranga breytni. Það er líka hroki sem er einkenni óguðlegs manns. (Orðskviðirnir 21:4) Það gengur algerlega í berhögg við anda sannrar kristni sem er að vera fús til að fórna sér fyrir bróður sinn. — Jóhannes 15:12, 13.

Að heimfæra meginreglur Guðs

Með þessum fáu viðmiðunum er ekki ætlunin að setja reglur. Þær gefa hins vegar hugmynd um sumt af því sem Jehóva álítur fullkomlega illt og óguðlegt. Neitar syndarinn að viðurkenna ábyrgð sína á hinu ranga sem hann hefur gert? Hefur syndarinn virt fyrri leiðbeiningar um þetta sama mál að vettugi með óskammfeilni? Er hin alvarlega ranga breytni orðin að rótgróinni venju? Sýnir syndarinn blygðunarlausa lítilsvirðingu fyrir lögum Jehóva? Hefur hann úthugsað leiðir til að fela synd sína og kannski spillt öðrum um leið? (Júdasarbréfið 4) Reynir hann slíkt enn meir þegar synd hans kemur í ljós? Sýnir syndarinn að honum sé algerlega sama um það tjón sem hann hefur unnið öðrum og nafni Jehóva? Hvað um viðhorf hans? Er hann drambsamur og hrokafullur eftir að honum hafa verið gefin vingjarnleg, biblíuleg ráð? Skortir hann einlæga löngun til að forðast að endurtaka hið ranga? Ef öldungarnir verða slíks áskynja, sem gefur sterklega til kynna skort á iðrun, gæti niðurstaða þeirra orðið sú að þær syndir, sem drýgðar hafa verið, beri vott um vonsku en ekki bara veikleika holdsins.

Jafnvel þegar öldungarnir taka á máli manns, sem virðist hafa illar tilhneigingar, hætta þeir ekki að hvetja hann til að stunda réttlæti. (Hebreabréfið 3:12) Óguðlegir menn geta iðrast og breytt sér. Ef svo væri ekki, hvers vegna hvatti Jehóva þá Ísraelsmenn: „Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til [Jehóva], þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.“ (Jesaja 55:7) Kannski sjá öldungarnir greinilega breytingu á hjartaástandi hans meðan dómnefndarfundur stendur yfir, sem endurspeglast í iðrunarfullri framkomu og viðhorfum.

Jafnvel um leið og öldungarnir gera mann rækan hvetja þeir hann sem hirðar til að iðrast og reyna að snúa aftur til velþóknunar Jehóva. Munum eftir ‚óguðlega manninum‘ í Korintu. Hann breytti greinilega um lífsstefnu og Páll mælti síðar með því að hann yrði tekinn inn í söfnuðinn aftur. (2. Korintubréf 2:7, 8) Minnumst einnig Manasse konungs. Hann var mjög svo óguðlegur, en þegar hann iðraðist að lokum tók Jehóva iðrun hans gilda. — 2. Konungabók 21:10-16; 2. Kroníkubók 33:9, 13, 19.

Sú synd er að vísu til sem ekki verður fyrirgefin — synd gegn heilögum anda. (Hebreabréfið 10:26, 27) Jehóva einn úrskurðar hver hefur drýgt þá synd. Menn hafa ekki vald til að gera það. Það er ábyrgð öldunganna að halda söfnuðinum hreinum og hjálpa iðrunarfullum syndurum að ná sér aftur. Ef þeir gera það með góðri dómgreind og auðmýkt og láta ákvarðanir sínar endurspegla visku Jehóva, þá blessar Jehóva þennan þátt í hirðastarfi þeirra.

[Neðanmáls]

a Nánari upplýsingar er að finna í Varðturninum 1. janúar 1982, bls. 14-16 og Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 772-4.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Ananías og Saffíra reyndu með hræsni að blekkja heilagan anda og sýndu að þau höfðu vont hjarta.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila