Þannig er hægt að stöðva skaðlegt slúður
„Set þú, [Jehóva], vörð fyrir munn minn.“ — SÁLMUR 141:3.
1. Hvað er heilinn sem Guð hefur gefið okkur fær um að gera?
JEHÓVA gaf okkur heilann og hann er stórfenglegt líffæri! Í bókinni The Incredible Machine segir: „Jafnvel fullkomnasta tölva, sem við getum ímyndað okkur, er frumstæð í samanburði við næstum óendanlega flókna gerð og sveigjanleika mannsheilans. . . . Þær milljónir boða, sem þjóta leiftursnöggt um heilann á sérhverju augnabliki, bera með sér ótrúlegt upplýsingamagn. Þær færa fréttir af hinu innra og ytra umhverfi líkamans . . . meðan önnur merki vinna úr og greina sundur upplýsingar framkalla þau vissar tilfinningar, minningar, hugsanir eða áætlanir sem geta leitt til ákvörðunar. Á augabragði segja merki frá heilanum öðrum líkamshlutum fyrir verkum . . . Samhliða öllu þessu stýrir heilinn öndun, samsetningu blóðsins, líkamshita og annarri nauðsynlegri líkamsstarfsemi án þess að maður taki eftir því.“ — Bls. 326.
2. Hvaða spurningu ber okkur nú að íhuga?
2 Að sjálfsögðu ætti aldrei að nota svona stórkostlega gjöf frá Guði sem ruslakörfu. Samt sem áður getum við misnotað heilann með því að hlusta á og breiða út skaðlegar slúðursögur. Hvernig getum við forðast slíkt tal og hjálpað öðrum að gera það líka?
Metum að verðleikum hugann sem Guð hefur gefið
3. Hvers vegna vill enginn sannkristinn maður fara með skaðlegt tal?
3 Ef við metum að verðleikum hugann, sem Guð hefur gefið okkur, þá mun það aftra okkur frá því að leggja eyru við skaðlegu slúðri og breiða það út. Andi Jehóva myndi ekki koma nokkrum manni til að fylla huga sinn slíkum hugmyndum og nota tunguna til að vinna öðrum tjón. Orð Guðs segir: „Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum.“ (Jesaja 55:7) Hugur óguðlegs manns er fullur af illum hugmyndum og hann er skjótur til að rægja guðrækna menn. Við eigum hins vegar aldrei von á slíku tali frá þeim sem meta að verðleikum hugann sem Guð hefur gefið þeim.
4. Hvernig munum við nota vitsmuni okkar og tungu ef við metum að verðleikum heila okkar og hæfni til að tala?
4 Jákvætt mat af því tagi aftrar okkur frá því að nota hugann og tunguna til að fullnægja syndugu holdi okkar. Þess í stað munum við halda hugsun okkar og tali sómasamlegu. Við getum forðast skaðlegt slúður með því að reiða okkur á þann sem er í hugsun sinni hátt yfir hugsanir okkar hafinn og leita til hans í bæn. Páll postuli ráðlagði: „Allt sem er satt [ekki ósatt eða rógsamt], allt sem er göfugt [ekki ómerkilegt], rétt [ekki óguðlegt og skaðlegt] og hreint [ekki óhreinn rógur eða illviljuð tortryggni], allt sem er elskuvert [ekki fjandsamlegt og niðurlægjandi] og gott afspurnar [ekki niðrandi], hvað sem er dyggð [ekki illska] og hvað sem er lofsvert [ekki gagnrýnisvert], hugfestið það.“ — Filippíbréfið 4:8.
5. Hvað höfðu trúbræður Páls séð og heyrt til hans?
5 Páll bætti við: „Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.“ (Filippíbréfið 4:9) Hvað höfðu aðrir heyrt og séð til Páls? Það sem var hreint og andlega uppbyggjandi. Hann fyllti þá ekki með nýjustu slúðursögunum af Lýdíu eða Tímóteusi. Við megum vera viss um að Páll hvorki hlustaði á né útbreiddi hviksögur um hina öldungana í Jerúsalem.a Trúlega hefur virðing Páls fyrir þeim vitsmunum, sem Guð hafði gefið honum, varnað honum þess að taka þátt í skaðlegu slúðri. Við munum líkja eftir fordæmi hans ef við metum að verðleikum þá vitsmuni og tungu sem Jehóva hefur gefið okkur.
Virðing fyrir Guði og orði hans
6, 7. (a) Hvernig lýsir Jakob áhrifum stjórnlausrar tungu? (b) Hvað mun ekki gerast ef við virðum Guð og orð hans?
6 Djúp virðing fyrir Guði og heilögu orði hans mun einnig hjálpa okkur að stöðva skaðlegt slúður. Slík virðing mun fá okkur til að fara eftir heilræðum lærisveinsins Jakobs um tunguna. (Jakobsbréfið 3:2-12) Ef maður gæti haft stjórn á tungu sinni gæti hann beislað allan líkama sinn líkt og hægt er að stjórna hesti með litlu beisli. Eins og lítill neisti getur kveikt í heilum skógi, eins getur tungan kveikt í hjóli lífsins þótt lítil sé. Maðurinn getur tamið villidýr, fugla, skriðdýr og sjávardýr, „en tunguna getur enginn maður tamið,“ sagði Jakob. Það er þó engin afsökun fyrir því að reyna ekkert til að stöðva skaðlegt slúður.
7 Jakob sagði einnig að tungan léti koma blessun og bölvun út af sama munni. Það væri ekki viðeigandi því að uppspretta gæfi ekki af sér bæði sætt og beiskt vatn. Fíkjutré gæti ekki borið ólífur og salt vatn gæti ekki orðið ferskt vatn. Að sjálfsögðu getur kristinn maður ekki tamið tungu sína fullkomlega, svo lengi sem hann er ófullkominn. Það ætti að koma okkur til að sýna miskunn þeim sem brjóta af sér en iðrast, en þó er það ekki afsökun fyrir skaðlegu slúðri. Ef við í raun og veru virðum Guð og orð hans munum við ekki leyfa okkur að misnota tungu okkar og eitra út frá okkur.
Hvernig bænin getur hjálpað
8. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að stöðva skaðlegt slúður?
8 Það getur verið mjög freistandi að hlusta á skaðlegt slúður og bera það síðan út. Ef þú hefur látið undan slíkri freistingu einhvern tíma áður, ættir þú þá ekki að biðja Guð fyrirgefningar og hjálpar? Jesús kenndi okkur að biðja: „Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá hinum vonda.“ (Matteus 6:13, neðanmáls) Kristnir menn, sem biðja Guð í einlægni að láta ekki freista sín með illviljuðu slúðri, munu ekki falla fyrir þessu herbragði Satans; þeir verða frelsaðir frá rógberanum mikla.
9. Hvernig getum við beðið ef við finnum fyrir freistingu til að rægja einhvern?
9 Ef við finnum fyrir freistingu til að slúðra um einhvern gætum við beðið: „Set þú, [Jehóva], vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.“ (Sálmur 141:3) Við gætum spillt tækifæri okkar til að hljóta eilíft líf með því að láta undan freistingu og líkja eftir djöflinum sem er hatursfullur lygari, rógberi og morðingi. (Jóhannes 8:44) Jóhannes postuli skrifaði: „Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:15.
Kærleikur rekur burt slúður
10. Hvað skuldum við öðrum í stað þess að slúðra um þá?
10 Öll skuldum við öðrum eitthvað en við skuldum ekki hatur sem er hvati skaðlegs slúðurs. „Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan,“ skrifaði Páll. (Rómverjabréfið 13:8) Við ættum að greiða af þeirri skuld daglega í stað þess að tala illa um aðra og spilla orðstír þeirra. Ef við segjumst elska Jehóva getum við ekki rægt trúbróður okkar „því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:20.
11. Hvernig getur dæmisaga Jesú um sauðina og hafrana verið okkur umhugsunarefni varðandi skaðlegt slúður?
11 Hugleiddu dæmisögu Jesú um sauðina og hafrana. Mönnum, sem líktust höfrum, var sagt að það sem þeir gerðu bræðrum Krists væri skoðað eins og þeir hefðu gert honum það. Myndir þú segja slúðursögur um Krist? Ef þú myndir ekki baktala Drottin þinn og herra, þá skaltu ekki gera smurðum bræðrum hans slíkt. Gerðu ekki sömu skyssu og hafrarnir sem „munu fara til eilífrar refsingar,“ gereyðingar. Ef þú elskar bræður Krists skaltu sýna það með því hvernig þú talar um þá. — Matteus 25:31-46.
12. Hver er kjarni Orðskviðanna 16:2 og hvaða áhrif ætti það að hafa á hugsanir okkar, verk og tal?
12 Ef aðrir vildu segja eitthvað neikvætt um okkur hefðu þeir af mörgu að taka, því að öll erum við syndarar og þörfnumst lausnarfórnar Jesú. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Að sjálfsögðu getur okkur fundist við standa okkur býsna vel. „Manninum þykja allir sínir vegir hreinir, en [Jehóva] prófar hugarþelið.“ Vogarskálar Guðs hallast ekki eftir vilfylgi eða hlutdrægni. (Orðskviðirnir 16:2; Postulasagan 10:34, 35) Hann vegur og metur hugarþel okkar og anda, veitir athygli viðhorfum og hvötum sem koma okkur til að hugsa, tala og framkvæma. Sannarlega viljum við ekki að Guð komist að raun um að við teljum okkur ranglega vera hreina en aðra óhreina og þess verðuga að illa sé talað um þá. Við verðum, líkt og Jehóva, að vera óhlutdræg, miskunnsöm og kærleiksrík.
13. (a) Hvernig getur sú staðreynd að ‚kærleikurinn er langlyndur og góðviljaður‘ hjálpað okkur að stöðva skaðlegt slúður? (b) Hvað mun forða okkur frá því að tala illa um einhvern sem hlýtur þjónustusérréttindi er við ekki höfum?
13 Orð Páls í 1. Korintubréfi 13:4-8 geta hjálpað okkur að stöðva skaðlegt slúður. Hann skrifaði: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.“ Systir, sem býr við andstöðu á trúarlega sundurskiptu heimili, getur stundum virst stutt í spuna. Sumir þurfa að fara sér hægt, ef til vill vegna bágrar heilsu. Ætti kærleikur ekki að koma okkur til að vera þolinmóð og vingjarnleg við slíka einstaklinga í stað þess að finna að þeim og slúðra? ‚Kærleikurinn öfundar ekki, er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.‘ Ef annar kristinn maður fær þjónustusérréttindi sem við njótum ekki, þá mun kærleikurinn koma í veg fyrir að við tölum illa um hann og gefum í skyn að hann sé óhæfur til verksins. Kærleikurinn mun einnig forða okkur frá því að gorta af afrekum okkar sem gæti gert niðurdregna þá sem ekki hafa sömu sérréttindi og við.
14. Hvaða aðrir eiginleikar kærleikans hafa áhrif á það sem við segjum um aðra?
14 Páll sagði enn fremur að ‚kærleikurinn hegðaði sér ekki ósæmilega, leitaði ekki síns eigin, reiddist ekki, væri ekki langrækinn.‘ Við ættum að láta kærleikann koma okkur til að tala vel um aðra og bera hag þeirra fyrir brjósti, í stað þess að segja eitthvað smánandi og ókristilegt um þá. Kærleikurinn kemur í veg fyrir að við reiðumst og tölum illa um fólk fyrir raunverulegar eða ímyndaðar sakir. Þar eð kærleikurinn „gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum,“ varnar hann okkur þess að gera okkur sek um skaðlegt slúður, jafnvel um andstæðinga sem eru órétti beittir.
15. (a) Hvaða áhrif ætti sú staðreynd að ‚kærleikurinn trúir öllu og vonar allt‘ að hafa á okkur? (b) Hvaða eiginleikar kærleikans geta hjálpað okkur að sýna skipulagi Jehóva hollustu, jafnvel þótt aðrir lasti það?
15 Kærleikurinn ‚trúir öllu og vonar allt‘ sem er að finna í orði Guðs og fær okkur til að meta að verðleikum þá andlegu fæðu sem hinn ‚trúi þjónn‘ lætur í té, í stað þess að hlusta á rógburð og lygar fráhvarfsmanna. (Matteus 24:45-47; 1. Jóhannesarbréf 2:18-21) Með því að kærleikurinn ‚umber allt og bregst aldrei‘ hjálpar hann okkur einnig að sýna skipulagi Guðs drottinhollustu, jafnvel þótt ‚falsbræður‘ eða aðrir lasti það eða meðlimi þess. — Galatabréfið 2:4.
Virðing stöðvar slúður
16. Hvernig komu falsbræður Páls í Korintu fram við hann?
16 Virðing fyrir trúbræðrum okkar stuðlar einnig að því að stöðva skaðlegt slúður. Með því að þeir eru velþóknanlegir Guði ættum við auðvitað ekki að baknaga þá. Við skulum aldrei vera eins og ‚falsbræðurnir‘ sem Páll hitti fyrir. Vafalaust töluðu þeir illa um hann. (2. Korintubréf 11:26) Fráhvarfsmenn hljóta líka að hafa baktalað hann. (Samanber Júdasarbréfið 3, 4.) Í Korintu sögðu sumir: „Bréfin . . . eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans.“ (2. Korintubréf 10:10) Fólk talar ekki þannig um þá sem því þykir vænt um.
17. Hvernig talaði Díótrefes um Jóhannes postula?
17 Hugsum um Jóhannes postula sem Díótrefes ófrægði. „Ég hef ritað nokkuð til safnaðarins,“ sagði Jóhannes, „en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi við oss. Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að minna á verk þau er hann vinnur. Hann lætur sér ekki nægja að ófrægja oss með vondum orðum.“ (3. Jóhannesarbréf 9, 10) Þetta tal var háalvarlegt mál og ef við leggjum eyrun við slíku eða tökum þátt í því ættum við að hætta því þegar í stað.
18. Hvað var ólíkt með Demetríusi og Díótrefesi og hvað getum við lært af því?
18 Jóhannes hvatti til virðingar gagnvart öðrum og sagði Gajusi: „Breyttu ekki eftir því, sem illt er, minn elskaði, heldur því, sem gott er. Sá sem gott gjörir heyrir Guði til, en sá sem illt gjörir, hefur ekki séð Guð. Demetríusi er borið gott vitni af öllum og af sannleikanum sjálfum. Það gjörum vér líka, og þú veist að vitnisburður vor er sannur.“ (3. Jóhannesarbréf 1, 11, 12) Við gætum, eitt og sérhvert, spurt okkur: Er ég lausmáll Díótrefes eða er ég trúfastur Demetríus? Ef við berum virðingu fyrir trúbræðrum okkar munum við ekki tala illa um þá og gefa öðrum ástæðu til að líta á okkur sem sögusmettur.
19. Hvernig reyndu falsbræður að ófrægja C. T. Russell?
19 Það var ekki aðeins á fyrstu öldinni sem falsbræður voru til. Á áratugnum sem hófst 1890 reyndu ófyrirleitnir einstaklingar, sem voru tengdir skipulagi Guðs, að ná stjórn Varðturnsfélagsins í sínar hendur. Þeir gerðu samsæri gegn Charles Taze Russell og reyndu að losna við hann sem fyrsta forseta Félagsins. Eftir að samsærið hafði verið að gerjast í um það bil tvö ár braust það fram árið 1894. Russell var borinn ýmsum upplognum sökum, einkum að hann væri óheiðarlegur í viðskiptum. Ýmsar af hinum ómerkilegu ásökunum afhjúpuðu hvað ákærendunum gekk til — að ófrægja C. T. Russell. Óhlutdrægir kristnir menn rannsökuðu málið og komust að raun um að Russell hafði ekkert til saka unnið. Þetta áform að „sprengja Russell og starf hans í loft upp“ mistókst því með öllu. Bróðir Russell varð þannig fyrir árás falsbræðra, líkt og Páll hafði orðið, en sýnt var fram á að þessi prófraun var runnin undan rifjum Satans. Samsærismennirnir voru eftir það álitnir óhæfir til að njóta samfélags kristinna manna.
Góð verk stöðva skaðlegt slúður
20. Hvað fann Páll að sumum ungum ekkjum?
20 Páll vissi að skaðlegt slúður stóð oft í tengslum við iðjuleysi, ekki gnægð góðra verka. Hann var ekki hrifinn af því að sumar ungar ekkjur höfðu tamið sér „iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar og [talandi] það, sem eigi ber að tala.“ Hvaða ráð var við því? Það að hafa eitthvað heilnæmt fyrir stafni. Því skrifaði Páll: „Ég vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn, stjórni heimili og gefi mótstöðumanninum ekkert tilefni til illmælis.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:11-14.
21. Hvernig getur 1. Korintubréf 15:58 hjálpað okkur að forðast skaðlegt slúður?
21 Ef kona stjórnar heimili, elur upp börn samkvæmt stöðlum Guðs og er upptekin af öðrum verðugum verkefnum hefur hún lítinn tíma aflögu til þess að masa og ef til vill fara með skaðlegt slúður. Karlmenn munu einnig hafa minni tíma til slíks ef þeir eru uppteknir af góðum verkum. Það að vera „síauðugir í verki Drottins“ mun hjálpa okkur öllum að forðast skaðlegt slúður. (1. Korintubréf 15:58) Einkum mun það hjálpa okkur að forðast iðjuleysi, slúður og afskipti af því sem okkur kemur ekki við ef við erum af huga og hjarta upptekin af hinni kristnu þjónustu, safnaðarsamkomum og öðrum andlegum störfum.
22. Hvað segja Orðskviðirnir 6:16-19 um viðhorf Guðs til rógbera?
22 Ef við erum upptekin af góðum verkum og leitumst við að vera öðrum til andlegrar blessunar, þá verðum við um leið traustir vinir, ekki ótraustir slúðurberar. (Orðskviðirnir 17:17) Og ef við forðumst skaðlegt slúður munum við eiga besta vin sem hugsast getur — Jehóva Guð. Við skulum muna að það eru sjö hlutir sem hann hatar: „Drembileg augu, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði, hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka, ljúgvottur sem lygar mælir, og sá er kveikir illdeilur meðal bræðra.“ (Orðskviðirnir 6:16-19) Slúðurberar ýkja og rangsnúa öllu og rógberar rápa um með lygatungu. Orð þeirra setja af stað fætur annarra sem hafa gaman af að hlaupa með slúðursögur. Í nálega öllum tilvikum hlýst af sundrung og árekstrar. En ef við hötum það sem Guð hatar munum við forðast skaðlegt slúður sem getur orðið ráðvöndum mönnum til miska og glatt rógberann mikla, Satan djöfulinn.
23. Hvernig getum við glatt Jehóva með tali okkar?
23 Við skulum því gleðja hjarta Jehóva. (Orðskviðirnir 27:11) Við skulum forðast það tal sem hann hatar, neita að hlusta á rógburð og gera okkar besta til að stöðva skaðlegt slúður. Þetta getum við gert með hjálp okkar heilaga Guðs, Jehóva.
[Neðanmáls]
a Það er ekki heldur hyggilegt nú á dögum að hlusta á og breiða út æsifengnar sögur (oft algerlega tilhæfulausar) um það hvað meðlimir hins stjórnandi ráðs eða fulltrúar þeirra eiga að hafa sagt eða gert.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig getur bænin hjálpað okkur að baknaga ekki aðra?
◻ Hvernig getur 1. Korintubréf 13:4-8 hjálpað okkur að stöðva skaðlegt slúður?
◻ Hvernig getur sjálfsvirðing hjálpað okkur að standast þá freistingu að slúðra um trúbræður okkar?
◻ Hvernig getur 1. Korintubréf 15:58 hjálpað okkur að forðast skaðlegt slúður?
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 27]
Ljósmynd: U.S. Forest Service