Sjónarmið Biblíunnar
Er hægt að bjarga hjónabandi eftir hjúskaparbrot?
„Ég segi yður: sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór.“ — Matteus 19:9.
MEÐ þessum orðum gaf Jesús Kristur kristnum körlum og konum færi á að skilja við ótrúan maka sinn.a En hvað nú ef saklausi makinn kýs að halda hjónabandinu áfram og hjónin ákveða að byggja samband sitt upp á nýjan leik? Hvaða vandamál þurfa hjónin að yfirstíga og hvernig geta þau leyst þau? Við skulum sjá hvernig Biblían hjálpar okkur að finna svör við þessum spurningum.
Niðurbrotið hús
Fyrst þurfum við að gera okkur grein fyrir því hve gríðarlegu tjóni ótryggð í hjónabandi veldur. Eins og Jesús Kristur útskýrði ætlaðist höfundur hjónabandsins til þess að hjón væru „ekki framar tvö, heldur einn maður.“ Hann bætti við: „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ Já, hjónabandinu var ætlað að tengja tvær manneskjur órjúfanlegum böndum. Þegar maður eða kona brýtur hjúskaparheitið með því að drýgja hór eru afleiðingarnar hrikalega kvalafullar. — Matteus 19:6; Galatabréfið 6:7.
Þjáningar saklausa makans bera þessu vitni. Líkja má áhrifum hjúskaparbrots við fellibyl sem eyðileggur hús og heimili. Dr. Shirley P. Glass segir: „Nokkrir sjúklinga minna hafa sagt mér að þeim hefði þótt auðveldara að missa maka sinn.“ Sumir, sem misst hafa maka sinn í dauðann, eru vafalaust ósammála, en það er ljóst að hjúskaparbrot veldur óbærilegum sársauka. Sumir ná sér aldrei að fullu eftir svikin.
Í ljósi þessarar angistar má spyrja hvort hjúskaparbrot bindi óhjákvæmilega enda á hjónaband. Svo þarf ekki að vera. Orð Jesú um hórdóm sýna að trúfasti makinn hefur þann biblíulega möguleika að geta skilið, en honum er ekki skylt að gera það. Sum hjón ákveða að gera nauðsynlegar breytingar til að endurbyggja og styrkja það sem brotið var niður — en ekkert afsakar þó hjúskaparbrot.
Auðvitað er betra að gera nauðsynlegar breytingar á sambandi hjónanna þegar þau eru hvort öðru trú. En jafnvel þegar eiginmaður hefur verið konu sinni ótrúr kýs hún stundum að viðhalda hjónabandinu.b En hún má ekki byggja slíka ákvörðun á óskhyggju heldur þarf hún að vega og meta afleiðingarnar. Hún tekur líklega mið af þörfum barnanna og andlegum, tilfinningalegum, líkamlegum og fjárhagslegum þörfum sjálfrar sín. Það er hyggilegt af henni að íhuga hvort hægt sé að bjarga hjónabandinu.
Er hægt að bjarga hjónabandinu?
Áður en húsasmiður reynir að endurbyggja hús, sem stórskemmst hefur í fellibyl, þarf hann að ganga úr skugga um að það sé hægt að gera það upp. Eins þurfa hjón — og þá sér í lagi það hjónanna sem saklaust er — að vega og meta af raunsæi hvort þau geti byggt aftur upp innilegt samband og traust sín á milli, áður en þau hefjast handa við að reyna að endurbyggja hjónaband sem skaddast hefur sökum ótryggðar.
Eitt sem athuga þarf er hvort sekur eiginmaður sýnir einlæga iðrun eða er enn að drýgja hór „í hjarta sínu.“ (Matteus 5:27, 28) Hann lofar kannski að breyta sér, en hikar hann við að binda tafarlaust enda á siðlaust samband sitt? (2. Mósebók 20:14; 3. Mósebók 20:10; 5. Mósebók 5:18) Heldur hann áfram að gefa öðrum konum auga? Kennir hann konunni sinni um hjúskaparbrotið? Ef hann gerir það er ólíklegt að það takist að byggja upp traust í hjónabandinu á nýjan leik. En ef hann bindur enda á siðlaust samband sitt við aðra konu, tekur ábyrgð á röngu athæfi sínu og sýnir að hann ætlar sér í alvöru að byggja hjónabandið upp að nýju, þá gæti konan hans talið grundvöll fyrir því að byggja upp traust aftur með tímanum. — Matteus 5:29.
Og getur hin trúa eiginkona fyrirgefið? Að fyrirgefa merkir ekki að hún eigi ekki að láta í ljós hve særð hún sé vegna þess sem gerst hefur eða að hún eigi að láta sem ekkert hafi breyst. Það merkir að hún reyni með tíð og tíma að eyða djúpstæðri gremju sinni. Slík fyrirgefning tekur tíma, en hún getur átt sinn þátt í að skapa góðan grundvöll til að byggja hjónabandið á að nýju.
Að hreinsa burt „brakið“
Hvað geta hjónin gert eftir að hin trúa kona hefur ákveðið að bjarga hjónabandinu? Líkt og fjarlægja þarf brak umhverfis hús sem skemmst hefur í fellibyl þarf að hreinsa burt „brakið“ umhverfis hjónabandið. Að nokkru leyti má gera það með því að hjónin tjái hvort öðru tilfinningar sínar. Orðskviðirnir 15:22 segja: „Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin.“ Hebreska orðið, sem hér er þýtt ‚ráðagerð,‘ lýsir innilegu sambandi. Það er þýtt „trúnaðarsamtal“ í Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar og ‚vinahópur‘ í Sálmi 89:7 samkvæmt sömu þýðingu. Það er því meira en yfirborðslegt samtal; það merkir heiðarleg og innileg tjáskipti þar sem bæði hjónin láta í ljós innstu tilfinningar sínar. — Orðskviðirnir 13:10.
Í sumum tilvikum gæti eiginkonan viljað spyrja ótrúan eiginmann sinn ýmissa spurninga. Hvernig hófst þetta samband? Hve lengi stóð það? Hverjir aðrir vita af því? Auðvitað er sársaukafullt fyrir hjónin að ræða þessi einstöku atriði. En trúfasta makanum gæti þótt nauðsynlegt að vita slíkt til að geta byggt upp traust á nýjan leik. Ef svo er, þá er best að ótrúi makinn sé heiðarlegur og nærgætinn í svörum. Hann ætti að útskýra málið í kærleiksríkum og vingjarnlegum tón og hafa hugfast að markmið samtalsins er að lækna, ekki særa. (Orðskviðirnir 12:18; Efesusbréfið 4:25, 26) Bæði hjónin þurfa að vera nærgætin, sýna sjálfstjórn og hlusta með samúðarskilningi á hvort annað lýsa tilfinningum sínum gagnvart því sem gerðist.c — Orðskviðirnir 18:13; 1. Korintubréf 9:25, NW; 2. Pétursbréf 1:6.
Þeir sem eru vottar Jehóva gætu viljað leita aðstoðar safnaðaröldunganna. Kristnir menn þurfa að sjálfsögðu að játa alvarlega synd eins og hjúskaparbrot tafarlaust fyrir öldungunum sem láta sér annt bæði um andlega velferð hjónanna og safnaðarins. Vera má að hinn brotlegi hafi sýnt ósvikna iðrun á fundi sínum með öldungunum og honum hafi þar með verið leyft að vera áfram í söfnuðinum. Þegar svo er geta öldungarnir veitt hjónunum áframhaldandi aðstoð. — Jakobsbréfið 5:14, 15.
Að endurbyggja
Eftir að hjónin hafa náð tilfinningajafnvægi að því marki sem þau geta eru þau í góðri aðstöðu til að byggja upp aftur mikilvæga þætti hjónabandsins. Einlæg og opin tjáskipti eru nauðsynleg áfram. Gera þarf viðeigandi breytingar þar sem veikleikar koma í ljós.
Það er fyrst og fremst hinn brotlegi sem gera þarf breytingar. En hin trúa eiginkona þarf líka að gera sitt til að styrkja þá þætti hjónabandsins sem veikir eru. Það merkir ekki að framhjáhald mannsins hafi verið henni að kenna eða að það sé afsakanlegt — það er engin gild afsökun fyrir slíkri synd. (Samanber 1. Mósebók 3:12; 1. Jóhannesarbréf 5:3.) Það merkir einfaldlega að það kunni að hafa verið vandamál í hjónabandinu sem leysa þurfi. Uppbygging er sameiginlegt verkefni. Þarf að styrkja sameiginleg gildi og markmið? Hafa andleg hugðarefni verið vanrækt? Að leita uppi alvarlega veikleika og gera nauðsynlegar breytingar er forsenda þess að hægt sé að byggja upp á nýjan leik hjónaband sem orðið hefur fyrir tjóni.
Að halda við
Jafnvel velbyggt hús þarfnast reglulegs viðhalds. Það er því þýðingarmikið að viðhalda sambandi sem búið er að byggja upp að nýju. Hjónin mega ekki láta tímann veikja þann ásetning sinn að framfylgja því sem þau hafa ákveðið. Í stað þess að missa kjarkinn við minni háttar bakslag, svo sem það að missa tökin á góðum tjáskiptum, ættu þau að gera ráðstafanir tafarlaust til að komast aftur inn á sporið og halda áfram á réttri braut. — Orðskviðirnir 24:16; Galatabréfið 6:9.
Umfram allt ættu hjónin að láta andlegar venjur ganga fyrir öðru, og láta hvorki þær né hjónaband sitt sitja á hakanum. Sálmur 127:1 segir: „Ef [Jehóva] byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis.“ Og Jesús varaði við: „Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið.“ — Matteus 7:24-27.
Já, ef meginreglur Biblíunnar eru ekki virtar sökum þess að erfitt er að fara eftir þeim, þá verður hjónabandið varnarlítið þegar reynir á tryggðina í næsta ‚stormi.‘ En ef hjónin halda sér við meginreglur Biblíunnar í öllu nýtur hjónabandið blessunar Guðs. Þá hafa þau líka sterkustu hvötina sem hugsast getur til að vera hvort öðru trú — löngunina til að þóknast höfundi hjónabandsins, Jehóva Guði. — Matteus 22:36-40; Prédikarinn 4:12.
[Neðanmáls]
a Ýmsar gildar ástæður gætu verið fyrir því að skilja við ótrúan maka. Ítarlegri umfjöllun um það mál er að finna í greininni „Sjónarmið Biblíunnar: Hjúskaparbrot — að fyrirgefa eða ekki fyrirgefa?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. ágúst 1995.
b Við tölum um hinn ótrúa í karlkyni. Samkvæmt einni skoðanakönnun eru karlmenn ótrúir helmingi oftar en konur. Þær meginreglur, sem hér eru ræddar, eiga hins vegar jafnt við bæði kynin.
c Sjá Vaknið! júlí-september 1995, bls. 26-29 og enska útgáfu blaðsins 22. janúar 1994, bls. 6-9, þar sem finna má nánari upplýsingar um að hlusta.