Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be bls. 27-bls. 32 gr. 4
  • Nám er auðgandi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Nám er auðgandi
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Rétt hugarástand
  • Námsaðferðir
  • Námsefnið
  • ‚Byggðu hús þitt‘
  • Umbunin
  • Bættu námsvenjur þínar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
  • Fjölskyldur, nemið orð Guðs reglulega saman
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • Hafðu yndi af orði Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Fjölskyldur, lofið Guð með söfnuði hans
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be bls. 27-bls. 32 gr. 4

Nám er auðgandi

HEFURÐU einhvern tíma horft á fólk velja ávexti? Flestir skoða lit og stærð til að ákvarða þroskann. Sumir lykta af ávöxtunum. Sumir snerta þá og jafnvel kreista. Og sumir vega tvo ávexti hvorn í sinni hendi til að velja þann safaríkari. Um hvað eru menn að hugsa á meðan? Þeir eru að sundurliða upplýsingar, meta mismun, rifja upp fyrra val og bera fyrirliggjandi staðreyndir saman við þekkingu sína. Og þeir eiga gómsæta umbun í vændum fyrir þessa nákvæmu athugun.

Nám í orði Guðs gefur auðvitað margfalt meiri umbun því að trú okkar styrkist, kærleikurinn dýpkar, boðunarstarfið verður árangursríkara og ákvarðanir okkar bera vott um betri dómgreind og um visku Guðs ef biblíunám skipar veigamikinn sess í lífi okkar. Orðskviðirnir 3:15 segja um þessa umbun: „Allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana.“ Þekkirðu þetta af eigin raun? Hér skipta námsvenjur þínar og námsaðferðir miklu máli. — Kól. 1:9, 10.

Mynd á blaðsíðu 30

Gefðu þér tíma til að hugleiða efnið.

Nám er meira en yfirborðslestur. Nám er það að einbeita huganum að rækilegri athugun á einhverju viðfangsefni, lesa og brjóta til mergjar, bera lesefnið saman við fyrri vitneskju og taka eftir röksemdum fyrir því sem haldið er fram. Þegar þú nemur skaltu hugsa vandlega um hugmyndir sem eru þér nýlunda. Þegar námsefnið er biblíulegt þarftu líka að ígrunda hvernig þú getur farið betur eftir biblíulegum ráðum. Vottur Jehóva veltir einnig fyrir sér hvernig hann getur notað efnið til gagns fyrir aðra. Nám og hugleiðing haldast greinilega í hendur.

Rétt hugarástand

Mynd á blaðsíðu 30

Þú þarft að undirbúa hjartað til að hafa fullt gagn af einkanáminu.

Þú býrð þig undir námsstund með því að taka til biblíu, þau námsrit sem þú hyggst nota, penna eða blýant og kannski minnisbók. En undirbýrðu hjartað líka? Biblían segir frá því að Esra hafi „snúið huga sínum að því [„undirbúið hjarta sitt,“ samkvæmt bókstaflegri merkingu frumtextans] að rannsaka lögmál Drottins og breyta eftir því og að kenna lög og rétt í Ísrael.“ (Esra. 7:10) Hvernig undirbýr maður hjartað?

Bænin auðveldar okkur að nálgast nám í orði Guðs með réttu hugarfari. Við viljum að hjartað, okkar innri maður, sé móttækilegt fyrir fræðslu Jehóva. Þess vegna skaltu biðja Jehóva einlæglega um hjálp anda hans í hvert sinn sem þú sest niður til náms. (Lúk. 11:13) Biddu hann að hjálpa þér að skilja námsefnið og sjá hvernig það tengist tilgangi hans, hvernig það getur hjálpað þér að greina gott fá illu, hvernig þú átt að fara eftir meginreglum hans og hvaða áhrif efnið á að hafa á samband þitt við hann. (Orðskv. 9:10) ‚Biddu Guð‘ um visku meðan á náminu stendur. (Jak. 1:5) Líttu í eigin barm og skoðaðu sjálfan þig heiðarlega með hliðsjón af því sem þú lærir og biddu Jehóva um hjálp til að losna við rangar hugsanir eða skaðlegar langanir. Og sýndu honum „þakklæti“ fyrir það sem hann opinberar þér. (Sálm. 147:7) Að nema í bænarhug stuðlar að innilegu sambandi við Jehóva því að það hjálpar okkur að bregðast rétt við því sem hann segir okkur í orði sínu. — Sálm. 145:18.

Þessi næmleiki greinir þjóna Jehóva frá öðrum nemendum. Meðal þeirra sem skortir guðrækni þykir fínt að efast og véfengja það sem ritað er. En við hugsum ekki þannig heldur treystum Jehóva. (Orðskv. 3:5-7) Ef við skiljum ekki eitthvað sýnum við ekki þann hroka að halda því fram að það hljóti að vera rangt heldur leitum og gröfum eftir svörum og bíðum svo eftir Jehóva. (Míka 7:7) Við höfum sama markmið og Esra, að fara eftir því sem við lærum og kenna öðrum það. Ef við temjum okkur þessa afstöðu megum við búast við að námið skili sér ríkulega.

Námsaðferðir

Áður en þú byrjar að þaullesa grein eða kafla, sem þú ætlar að fara yfir, er gott að skima efnið. Byrjaðu á því að brjóta titilinn til mergjar. Hann er eins konar stef þess námsefnis sem fyrir liggur. Skoðaðu síðan hvernig millifyrirsagnir tengjast þessu stefi. Athugaðu myndir, töflur, kort og rammatexta sem fylgja greininni eða kaflanum. Spyrðu þig: ‚Hvað má ég búast við að læra miðað við þetta yfirlit? Hvaða gildi ætli það hafi fyrir mig?‘ Þannig gerirðu námið markvissara.

Mynd á blaðsíðu 30

Lærðu að nota handbækur og hjálpargögn.

Nú geturðu snúið þér að meginmálinu. Í námsgreinum Varðturnsins og ýmsum bókum eru námsspurningar. Það er gott að merkja við svörin í hverri efnisgrein. Og þótt engar námsspurningar fylgi efninu geturðu samt merkt við mikilvæg atriði sem þú vilt leggja á minnið. Ef einhver hugmynd er ný fyrir þér skaltu gefa þér smástund til að fullvissa þig um að þú skiljir hana vel. Hafðu augun opin fyrir útskýringum, dæmum eða röksemdum sem gætu komið að góðum notum í boðunarstarfinu eða þú gætir notað í ræðu sem þú átt að flytja á næstunni. Veltu fyrir þér hvernig þú getur notað efnið, sem þú ert að kynna þér, til að styrkja trú ákveðinna einstaklinga. Merktu við atriði sem þú vilt nota og rifjaðu þau upp í lok yfirferðarinnar.

Flettu upp tilvísunum í Biblíuna um leið og þú ferð yfir efnið. Veltu gaumgæfilega fyrir þér hvernig ritningargreinin tengist kjarnanum í efnisgreininni.

Ef til vill rekst þú á eitthvað sem þér finnst torskilið eða þig langar til að kynna þér betur. Láttu það ekki setja þig út af sporinu heldur punktaðu það hjá þér til að athuga síðar. Margt skýrist þegar lesið er áfram, og ef ekki geturðu leitað og grúskað eftir að þú ert búinn að fara yfir námsefnið. Hvað gætirðu punktað hjá þér til nánari athugunar? Kannski er vitnað í ritningarstað sem þú skilur ekki vel eða þú kemur ekki auga á hvernig hann tengist umræðuefninu. Finnst þér þú skilja ákveðna hugmynd sem um er fjallað, en þó ekki nægilega vel til að geta útskýrt hana fyrir öðrum? Það getur verið skynsamlegt að skoða þess konar atriði nánar eftir að þú hefur farið yfir námsefnið, í stað þess að hlaupa hreinlega yfir þau.

Mynd á blaðsíðu 30

Flettu upp á ritningarstöðum.

Páll postuli skrifaði kristnum Hebreum ítarlegt bréf, en í miðjum klíðum staldraði hann við og sagði: „Höfuðinntak þess, sem sagt hefur verið, er þetta.“ (Hebr. 8:1) Minnirðu sjálfan þig á aðalatriðin af og til? Lítum á ástæðuna fyrir því að Páll gerði það í innblásnu bréfi sínu. Í köflunum á undan hafði hann sýnt fram á að Kristur hefði gengið inn í sjálfan himininn sem æðsti prestur Guðs. (Hebr. 4:14–5:10; 6:20) En með því að benda á þetta aðalatriði í byrjun 8. kaflans undirbjó hann lesendur sína fyrir það að hugleiða hvernig það tengdist lífi þeirra. Hann benti á að Kristur hefði gengið fram fyrir auglit Guðs í þeirra þágu og opnað þeim leiðina að ‚hinu heilaga‘ á himnum. (Hebr. 9:24; 10:19-22) Vissan um vonina myndi hjálpa þeim að fara eftir ráðleggingum hans í framhaldinu varðandi trú, þolgæði og kristilega breytni. Á sama hátt sjáum við betur hvernig unnið er úr stefinu og festum okkur í minni hvers vegna það er skynsamlegt að fara eftir því, ef við höfum aðalatriðin í huga þegar við nemum.

Verður einkanámið þér hvati til athafna? Þetta er mikilvæg spurning. Þegar þú lærir eitthvað ættirðu að spyrja þig: ‚Hvaða áhrif ætti þetta að hafa á viðhorf mín og markmið? Hvernig get ég notað þetta efni til að leysa vandamál, taka ákvörðun eða ná markmiði? Hvernig get ég notað það í fjölskyldunni, boðunarstarfinu eða söfnuðinum?‘ Hugleiddu þessar spurningar, gerðu þær að bænarefni og ígrundaðu undir hvaða kringumstæðum þekking þín getur komið að notum.

Eftir að hafa lokið við heilan kafla eða grein er gott að gefa sér stutta stund til upprifjunar. Kannaðu hvort þú manst aðalatriðin og rökin fyrir þeim. Þannig styrkir þú minnisgeymdina og getur nýtt þér efnið síðar.

Námsefnið

Fólk Jehóva hefur yfrið námsefni. En á hverju er best að byrja? Gott er að fara daglega yfir ritningartexta og skýringar við hann í bæklingnum Rannsökum daglega ritningarnar. Við sækjum vikulegar safnaðarsamkomur og höfum meira gagn af þeim ef við búum okkur undir þær. Og margir hafa varið tímanum viturlega með því að þaullesa sum af ritum Votta Jehóva sem gefin voru út áður en þeir kynntust sannleikanum. Sumir velja einhvern hluta hins vikulega lesefnis í Biblíunni og fara rækilega ofan í saumana á því.

Hvað er til ráða ef aðstæður bjóða ekki upp á að þú getir fyrir fram farið vandlega yfir allt það efni sem fjallað er um á hinum vikulegu safnaðarsamkomum? Gættu þín að falla ekki í þá gryfju að renna hratt og grunnfærnislega yfir efnið til þess eins að fara yfir það eða, það sem verra er, að sleppa því alveg fyrst þú kemst ekki yfir allt efnið. Reyndu heldur að ákvarða hve mikið þú kemst yfir og farðu rækilega yfir það. Temdu þér að gera þetta í hverri viku, og með tímanum geturðu kannski bætt við þig og undirbúið þig fyrir aðrar samkomur líka.

‚Byggðu hús þitt‘

Jehóva veit að fyrirvinna fjölskyldunnar þarf að leggja hart að sér til að sjá ástvinum sínum farborða. „Annastu verk þitt utan húss og ljúk því á akrinum,“ segja Orðskviðirnir 24:27. En andlegar þarfir fjölskyldunnar mega ekki sitja á hakanum. Þess vegna heldur versið áfram: „Síðan getur þú byggt hús þitt,“ og er þá átt við heimilisfólk. Hvernig er það gert? Orðskviðirnir 24:3 segja að ‚fyrir hyggni verði hús (eða heimili) staðfast.‘

Hvernig getur hyggni verið heimilinu til farsældar? Með hyggni er átt við þann hæfileika að geta skyggnst undir yfirborðið. Segja má að gott fjölskyldunám hefjist á því að líta gagnrýnum augum á fjölskylduna. Hvernig dafnar hún andlega? Hlustaðu vel á hina í fjölskyldunni tjá sig. Gætir kvörtunarsemi eða gremju hjá einhverjum? Skipa efnislegir hlutir veigamikinn sess í hugum þeirra? Eru börnin ófeimin að láta jafnaldra sína sjá sig í boðunarstarfinu og láta þá vita að þau séu vottar Jehóva? Njóta þau þess að nema Biblíuna og lesa í henni með fjölskyldunni? Eru þau að tileinka sér lífsveg Jehóva? Skarpskyggnir foreldrar sjá hvað gera þarf til að byggja upp andlega eiginleika hjá hverjum og einum.

Leitaðu að greinum í Varðturninum og Vaknið! sem fjalla um tilteknar þarfir fjölskyldunnar. Láttu hina síðan vita fyrir fram hvað verði á dagskrá þannig að þeir geti litið á efnið. Gættu þess að andrúmsloftið sé hlýlegt meðan námið fer fram. Dragðu fram gildi þess efnis, sem til umræðu er, og heimfærðu það miðað við þarfir fjölskyldunnar, án þess þó að ávíta nokkurn eða gera hann vandræðalegan. Dragðu alla inn í umræðurnar og sýndu þeim fram á að orð Jehóva sé „lýtalaust“ og fullkominn leiðarvísir í lífinu. — Sálm. 19:8.

Umbunin

Athugult fólk getur rannsakað alheiminn, fylgst með heimsmálunum og litið í eigin barm án þess að skilja raunverulega þýðingu þess sem það sér. Ástæðan er sú að það skortir andlegan skilning. En þeir sem nema Biblíuna reglulega koma auga á handbragð Guðs og sjá, með hjálp anda hans, hvernig biblíuspádómarnir rætast og hvernig ásetningi hans vindur fram til blessunar hlýðnum mönnum. — Mark. 13:4-29; Rómv. 1:20; Opinb. 12:12.

Þótt verðmætt sé megum við ekki láta þetta stíga okkur til höfuðs heldur ætti daglegur lestur í orði Guðs að vekja með okkur auðmýkt. (5. Mós. 17:18-20) Og lestur og nám veitir okkur vörn gegn „táli syndarinnar“ af því að syndin getur síður borið staðfestu okkar ofurliði ef orð Guðs er lifandi í hjörtum okkar. (Hebr. 2:1; 3:13; Kól. 3:5-10) Þá ‚hegðum við okkur eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáum borið ávöxt í öllu góðu verki.‘ (Kól. 1:10) Það er einmitt markmið okkar með því að nema orð Guðs og besta umbunin sem við getum hlotið.

AÐ HAFA SEM MEST GAGN AF NÁMI

  • Undirbúðu hjartað.

  • Skimaðu námsefnið til að fá yfirlit.

  • Komdu auga á mikilvægar staðreyndir.

  • Hugleiddu hvernig ritningarstaðirnir styðja það sem sagt er.

  • Rifjaðu upp aðalatriðin.

  • Ígrundaðu hvaða áhrif námsefnið ætti að hafa á líf þitt.

  • Leitaðu færis að nota efnið til að hjálpa öðrum.

AÐ SKIMA NÁMSEFNIÐ

  • Brjóttu orðalag titilsins til mergjar.

  • Skoðaðu hvernig millifyrirsagnir tengjast titlinum.

  • Athugaðu myndir, töflur, kort og rammatexta.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila