Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.9. bls. 4-7
  • Hvers vegna að óttast Guð, ekki menn?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvers vegna að óttast Guð, ekki menn?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Sú snara að óttast menn
  • Hvern ættum við að óttast?
  • Ber okkur að óttast Guð kærleikans?
  • Hvern óttast þú?
  • Glæddu hjá þér slíkt hugarfar að þú óttist Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Guðsótti — getur hann gagnað þér?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Lærum að hafa unun af ótta Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Óttist Jehóva og vegsamið heilagt nafn hans
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.9. bls. 4-7

Hvers vegna að óttast Guð, ekki menn?

„ÓTTI við menn leiðir í snöru, en þeim er borgið, sem treystir [Jehóva].“ (Orðskviðirnir 29:25) Með þessum orðum varar hinn forni orðskviður okkur við þeim ótta sem eitrar huga mannsins — óttanum við menn. Honum er líkt við snöru. Hvers vegna? Vegna þess að smádýr, líkt og kanína, er hjálparvana þegar það festist í snöru. Það vill forða sér en snaran heldur því föstu. Fórnarlambið er í reynd lamað.

Ef við erum gripin ótta við menn erum við harla lík kanínu í snöru. Við vitum kannski hvað við ættum að gera. Við viljum kannski líka gera það en óttinn heldur okkur fjötruðum. Við erum lömuð og getum ekkert gert.

Sú snara að óttast menn

Hugleiðum nokkur dæmi frá biblíutímanum um menn sem festust í snöru óttans. Á dögum Jósúa voru tólf menn sendir til að njósna í Kanaanlandi áður en Ísraelsmenn ætluðu að ráðast inn í það. Njósnararnir komu til baka og skýrðu frá því að landið væri frjósamt og gjöfult eins og Guð hafði sagt, en tíu þeirra óttuðust að landsmenn væru þeim yfirsterkari. Ótti við menn greip þá heljartökum og þeir ýktu stórlega styrk landsmanna fyrir Ísraelsmönnum þannig að öll þjóðin var gripin skelfingu. Ísraelsmenn neituðu að hlýða boði Guðs um að ganga inn í Kanaanland og taka það. Af því leiddi að með fáum undantekningum dóu allir karlmenn, sem voru fullvaxta á þeim tíma, í eyðimörkinni. — 4. Mósebók 13:21-14:38.

Jónas lét einnig ótta við menn ná tökum á sér. Þegar honum var falið að prédika í hinni miklu Níneveborg ‚lagði hann af stað í því skyni að flýja til Tarsis, burt frá augliti Jehóva.‘ (Jónas 1:3) Hvers vegna? Nínevemenn voru orðlagðir fyrir hrottaskap og grimmd og Jónas vissi það mætavel. Ótti við menn kom honum til að reyna að forða sér sem lengst burt frá Níneve. Að vísu tók hann við þessu verkefni sínu að lokum, en ekki fyrr en hann hafði hlotið óvenjulegan aga frá Jehóva. — Jónas 1:4, 17.

Jafnvel konungar geta þjáðst af ótta við menn. Einhverju sinni óhlýðnaðist Sál konungur vísvitandi skýru boði frá Guði. Hvað hafði hann sér til afsökunar? „Ég hefi brotið boð [Jehóva] og þín fyrirmæli, en ég óttaðist fólkið og lét því að orðum þess.“ (1. Samúelsbók 15:24) Nokkrum öldum síðar, þegar Babýloníumenn réðust á Jerúsalem, ráðlagði Jeremía, sem var trúfastur spámaður, Sedekía konungi að gefast upp og forða þannig Jerúsalem frá miklum blóðsúthellingum. En Sedekía neitaði. Hvers vegna? Hann viðurkenndi fyrir Jeremía: „Ég óttast þá Júdamenn, sem þegar hafa hlaupist yfir til Kaldea, að menn kynnu að selja mig þeim á vald og þeir draga dár að mér!“ — Jeremía 38:19.

Að lokum má nefna að meira að segja postuli gat orðið hræddur. Daginn sem Jesús dó hafði hann vakið athygli lærisveina sinna á því að þeir myndu allir yfirgefa hann. En Pétur hafði svarað djarfur í bragði: „Herra, reiðubúinn er ég að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“ (Lúkas 22:33; Matteus 26:31, 33) En svo sannarlega hafði Pétur rangt fyrir sér! Aðeins fáeinum klukkustundum síðar neitaði hann því óttasleginn að hafa verið með Jesú og sagðist ekki einu sinni þekkja hann. Ótti við menn hafði tekið af honum ráðin! Já, ótti við menn er sannarlega eitur fyrir hugann.

Hvern ættum við að óttast?

Hvernig getum við sigrast á ótta við menn? Með því að láta hann víkja fyrir miklum mun heilnæmari ótta. Þessi sami postuli, Pétur, hvatti til þess konar ótta er hann sagði: „Óttist Guð.“ (1. Pétursbréf 2:17) Engillinn, sem Jóhannes sá í opinberuninni, kallaði hárri röddu til mannkynsins: „Óttist Guð og gefið honum dýrð.“ (Opinberunarbókin 14:7) Hinn vitri konungur Salómon hvatti einnig til slíks ótta og sagði: „Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ (Prédikarinn 12:13) Já, við eigum að óttast Guð — það er skyldukvöð.

Ótti við Guð er gagnlegur. Sálmaritarinn söng: „Já, hjálp [Jehóva] er nálæg þeim er óttast hann.“ (Sálmur 85:10) Orðskviður í Biblíunni leggur áherslu á hið sama: „Ótti [Jehóva] lengir lífdagana.“ (Orðskviðirnir 10:27) Það er því bæði heilnæmt og gott fyrir okkur að óttast Jehóva. ‚En Jehóva er kærleiksríkur Guð,‘ andæfir þú kannski. ‚Hvers vegna ættum við að óttast Guð kærleikans?‘

Ber okkur að óttast Guð kærleikans?

Það má ekki rugla guðsótta saman við þann sjúklega og lamandi ótta sem grípur menn við vissar aðstæður. Guðsótti er þess konar ótti sem barn getur borið af föður sínum, enda þótt það elski hann og viti að sú ást er endurgoldin.

Guðsótti er í rauninni djúp lotning fyrir skaparanum sem er sprottin af þeirri vitneskju að hann er persónugervingur réttlætis, visku og kærleika. Guðsótti eða guðhræðsla felur í sér heilnæman ótta við að misþóknast Guði, vegna þess að hann er hinn æðsti dómari og hefur mátt til að umbuna og refsa. „Óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs,“ skrifaði Páll postuli. (Hebreabréfið 10:31) Það má ekki ganga að kærleika Guðs sem gefnum hlut og ekki heldur gera lítið úr dómum hans. Þess vegna áminnir Biblían okkur: „Ótti [Jehóva] er upphaf viskunnar.“ — Orðskviðirnir 9:10.

Við ættum þó að hafa hugfast að enda þótt Jehóva hafi vald og mátt til að refsa þeim sem ekki hlýða honum — og hafi oft gert það — þá er hann hvorki blóðþyrstur né grimmur. Hann er sannarlega Guð kærleikans, jafnvel þótt hann geti stundum réttilega reiðst líkt og kærleiksríkt foreldri. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Þess vegna er það heilbrigt að óttast hann. Það kemur okkur til að hlýða lögum hans sem eru sett okkur til góðs. Það veitir okkur hamingju að hlýða lögum Guðs, en óhlýðni við þau hefur alltaf slæmar afleiðingar. (Galatabréfið 6:7, 8) Sálmaritaranum var blásið í brjóst að lýsa yfir: „Óttist [Jehóva], þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.“ — Sálmur 34:10.

Hvern óttast þú?

Hvernig getur guðsótti hjálpað okkur að sigrast á ótta við menn? Menn geta hætt okkur eða jafnvel ofsótt fyrir að gera það sem rétt er og það getur verið mikið álag fyrir okkur. En djúp virðing og ótti við Guð mun fá okkur til að halda réttri stefnu þar eð við viljum ekki misþóknast honum. Kærleikur til Guðs mun enn fremur knýja okkur til að gera það sem gleður hjarta hans. Við munum líka að Guð umbunar okkur ríkulega fyrir að gera það sem rétt er, og það kemur okkur til að elska hann enn heitar og lætur okkur langa til að gera vilja hans. Öfgalaust viðhorf til Guðs hjálpar okkur þannig til að sigrast á sérhverjum ótta við menn.

Margt ungt fólk er til dæmis þvingað til að gera það sem rangt er vegna þess að það óttast hvað jafnaldrar þess kunni að hugsa um það. Mörg börn á skólaaldri reykja, fikta við áfengi og fíkniefni, viðhafa gróft málfar og segja gortandi frá reynslu sinni (raunverulegri eða ímyndaðri) af kynlífi. Hvers vegna? Ekki alltaf vegna þess að þau langi til að taka þátt í þessu heldur vegna þess að þau eru hrædd við hvað jafnaldrar þeirra segi ef þau hegða sér öðruvísi. Það getur verið jafnerfitt fyrir ungling að þola háð og spott og beinar, líkamlegar ofsóknir.

Fullorðnir geta líka fundið fyrir þrýstingi til að gera það sem rangt er. Yfirmaður á vinnustað getur til dæmis fyrirskipað starfsmanni að skuldfæra viðskiptamann fyrir hærri upphæð en rétt er eða að gefa rangar upplýsingar á skattskýrslu til að draga úr sköttum fyrirtækisins. Kristinn maður gæti óttast að hann missti vinnuna ef hann hlýddi ekki. Ótti við menn gæti þannig komið honum til að gera það sem rangt er.

Í báðum tilvikum myndi heilnæmur ótti við Guð og virðing fyrir boðum hans forða kristnum manni frá því að láta ótta við menn lama sig. Og kærleikur til Guðs myndi koma í veg fyrir að hann gerði nokkuð það sem Guð bannar. (Orðskviðirnir 8:13) Trú hans á Guð myndi enn fremur fullvissa hann um að Guð styðji hann ef hann hlýðir samvisku sinni sem þjálfuð er af Biblíunni, óháð því hvað fyrir kann að koma. Páll postuli lét trú sína í ljós með þessum orðum: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:13.

Biblían nefnir fjöldamörg dæmi um konur og karla sem voru Jehóva trúföst í erfiðustu prófraunum. Þessir menn máttu „sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi. Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði.“ (Hebreabréfið 11:36, 37) En þeir leyfðu ekki ótta við menn að verða heilbrigðri skynsemi yfirsterkari. Þeir fylgdu sömu viturlegu stefnunni og Jesús sem sagði síðar við lærisveina sína: „Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann [Guð], sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í [Gehenna].“ — Matteus 10:28.

Þegar frumkristnir menn fylgdu þessum leiðbeiningum Jesú gátu þeir þolað alls konar þrengingar, prófraunir og ofsóknir „vegna fagnaðarerindisins.“ (Fílemon 13) Páll postuli er eftirtektarvert dæmi um það. Í síðara bréfi sínu til Korintumanna lýsir hann því hvernig guðsótti gaf honum dirfsku og kraft til að þola fangavist, það að vera grýttur, skipbrot, ýmis konar hættur á vegum, svefnlausar nætur, hungur, þorsta, kulda og nekt. — 2. Korintubréf 11:23-27.

Ótti við Guð styrkti einnig frumkristna menn til að sýna úthald í hörðum ofsóknum Rómaveldis er sumum var jafnvel kastað fyrir villidýr á leikvanginum. Á miðöldum voru hugrakkir kristnir menn brenndir á báli opinberlega er þeir vildu ekki hvika frá trú sinni. Í síðari heimsstyrjöldinni kusu kristnir menn að þjást og deyja í fangabúðum frekar en að gera það sem misþóknaðist Guði. Guðhræðsla er sannarlega sterkt afl! Fyrst hún gat styrkt kristna menn til að sigrast á ótta við menn við erfiðar aðstæður eins og þessar, þá getur hún styrkt okkur undir hvaða kringumstæðum sem vera skal.

Satan djöfullinn gerir núna allt sem hann getur til að reyna að þvinga okkur til að misþóknast Guði. Sannkristnir menn ættu því að hafa sömu einbeitnina og Páll postuli lét í ljós er hann skrifaði: „Vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.“ (Hebreabréfið 10:39) Ótti Jehóva er uppspretta ósvikins kraftar og styrks. Megum við, með hans hjálp, ‚vera öruggir og segja: „[Jehóva] er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?“ — Hebreabréfið 13:6.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Guðsótti gaf Páli hugrekki til að þola alls kyns þrengingar, meðal annars barsmíð, fangavist og skipbrot. — 2. Korintubréf 11:23-27.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila