Starf sem getur veitt þér hamingju
„ÉG HAFÐI mikla ánægju af starfi mínu sem prentari,“ segir Antonio frá Genóa á Ítalíu. „Launin voru góð og þess vegna vann ég mikla yfirvinnu. Þrátt fyrri ungan aldur var ég orðinn hægri hönd vinnuveitanda míns eftir aðeins fáein ár.“ Antonio virtist hafa náð þeim markmiðum sem fá marga til að leggja hart að sér við vinnu: góð efni, virðingarstaða og ánægjulegt starf.
Naut Antonio ‚fagnaðar af striti sínu‘? (Prédikarinn 3:13) Veitti öll þessi vinna honum hamingju? Nei, hvorki Antonio né kona hans voru hamingjusöm, þótt þau væru bæði í ánægjulegum og krefjandi störfum. Antonio segir: „Spennan, sem orsakaðist af æðisgengnum lífsstíl okkar, hafði í för með sér vandamál í fjölskyldulífinu, og það gerði okkur óhamingjusöm.“ Hvað um þig? ‚Nýtur þú fagnaðar af öllu striti þínu‘? Veitir starf þitt þér raunverulega hamingju?
Af hvaða hvötum vinnur þú?
Flestir vinna til að sjá fyrir sér og sínum. Í sumum löndum heims verða menn að vinna langan vinnudag til að geta dregið fram lífið. Sumir þræla nótt sem dag til að tryggja börnum sínum betri tilveru en þeir sjálfir njóta. Aðrir keyra sig áfram til að verða ríkir.
Leonida á Filippseyjum var í tvöfaldri vinnu. Hún vann í banka yfir daginn og kenndi þrjá til fjóra tíma við framhaldsskóla á kvöldin. Var það peninganna virði? „Ég var alltaf að horfa á klukkuna,“ svarar hún. „Ég var dauðleið og hafði enga ánægju af vinnunni.“
Nei, það veitir manninum ekki sanna lífsfyllingu og hamingju að vinna aðeins peninganna vegna. „Streist þú ekki við að verða ríkur,“ ráðleggur hinn vitri Salómon konungur, „því að sannarlega gjörir [auðurinn] sér vængi eins og örn, sem flýgur til himins.“ (Orðskviðirnir 23:4, 5) Sagt er að sumar arnartegundir geti náð allt að 130 kílómetra flughraða miðað við klukkustund. Þessi líking Salómons lýsir því vel hve fljótt peningar, sem aflað hefur verið með striti og erfiði, geta flogið burt. Hinn ríki getur ekkert tekið með sér þegar hann deyr. — Prédikarinn 5:15; Lúkas 12:13-21.
Stundum getur það haft alvarlega hættu í för með sér að vera algerlega upptekinn af því að sjá sér farborða. Það getur leitt til fégræðgi. Sértrúarflokkur faríseanna á fyrstu öld var þekktur fyrir fégræðgi sína. (Lúkas 16:14) Hinn kristni postuli Páll hafði áður verið farísei og þekkti vel lífsstíl þeirra. (Filippíbréfið 3:5) „Þeir sem ríkir vilja verða,“ aðvarar Páll, „falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir . . . valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Já, „fégirndin“ fær menn til að gera hvað sem er til að eignast peninga og hún getur lagt líf manna í rúst. Slík lífsstefna er ekki til þess fallin að veita manninum hamingju.
Sumir vinna kappsamlega í því augnamiði að klífa virðingarstiga atvinnulífsins. En að því kemur að þeir þurfa að horfast í augu við veruleikann. Tímaritið Fortune segir: „Þeir sem fæddust eftir styrjöldina og færðu fórnir á þrítugsaldri og fram á fertugsaldurinn til að verða deildarstjórar neyðast núna til að horfast í augu við þá óþægilegu en óumflýjanlegu staðreynd, að þrátt fyrir endalaust strit tekst ekki öllum að komast á toppinn. Úrvinda af þreytu spyrja þeir sjálfa sig: Hvaða tilgangi þjónar þetta? Hvers vegna að leggja svona mikið á sig? Er ekki öllum sama?“
Mizumori hafði látið allt sitt líf snúast um það að komast áfram í heiminum. Hann streittist við að komast í stjórnunarstöðu hjá einum af stærstu bönkum Japans og hafði engan tíma til að sinna fjölskyldunni. Eftir að hafa stritað í 30 ár var hann farinn að heilsu og sannarlega ekki hamingjusamur. „Ég gerði mér ljóst,“ segir hann, „að samkeppni þeirra manna sem reyna að skara fram úr ‚er hégómi og eftirsókn eftir vindi.‘“ — Prédikarinn 4:4.
En hvað um þá sem líkt og Antonio hafa yndi af starfi sínu? Hann var svo hrifinn af starfi sínu að hann fórnaði fjölskyldulífinu á altari vinnunnar. Sumir fórna heilsunni og jafnvel lífinu, eins og sést á því hve margir útkeyrðir stjórnendur japanskra fyrirtækja hafa dáið skyndilega. Sett var á stofn ráðgjafarþjónusta fyrir eftirlifandi ættingja og fékk hún hvorki meira né minna en 135 upphringingar á einum degi.
Sumir helga líf sitt því að hjálpa öðrum. Jesús hvatti til slíks anda. (Matteus 7:12; Jóhannes 15:13) Það að vera önnum kafinn af starfi, sem þjónar því markmiði að hjálpa öðrum, veitir manninum sanna hamingju. — Orðskviðirnir 11:25.
Þó þurfa jafnvel þeir sem leggja sig fram af svo göfugu tilefni að gæta sín. Ússía Júdakonungur lagði til dæmis út í það mikla stórvirki að láta gera brunna í eyðimörkinni. Ússía hlýtur að hafa haft hag þjóðar sinnar í huga, því að á þeim tíma ‚leitaði hann Jehóva‘ og lifði bersýnilega eftir því boði Guðs að konungar skyldu vera óeigingjarnir. (2. Kroníkubók 26:5, 10; 5. Mósebók 17:14-20) Jafnhliða þessu jókst velgengni hans á sviði hernaðar með þeim afleiðingum að „frægð hans barst til fjarlægra landa.“ En er hann var orðinn voldugur varð hann einnig drembilátur og það varð honum að falli. (2. Kroníkubók 26:15-20; Orðskviðirnir 16:18) Sá sem leggur mikið á sig til að hjálpa öðrum getur einnig fallið skyndilega ef hann gerir það til að fullnægja sjálfum sér eða er drembilátur. Hvert á þá að vera tilefni þess manns sem leggur hart að sér?
Maðurinn er skapaður til að vinna
Við getum margt lært af þeim manni sem áorkaði meiru góðu en nokkur annar maður sem lifað hefur. Það er Jesús Kristur. (Matteus 20:28; Jóhannes 21:25) Þegar hann dó á kvalastaurnum hrópaði hann: „Það er fullkomnað!“ (Jóhannes 19:30) Ævi hans, sem var 331/2 ár, hafði verið innihaldsrík.
Það að kynna okkur ævi Jesú hjálpar okkur að fá svar við þeirri spurningu hvaða starf geti veitt okkur hamingju. Það veitti honum óviðjafnanlega hamingju að gera vilja föður síns á himnum. Það að gera vilja skapara okkar getur með sama hætti veitt okkur hamingju og lífsfyllingu. Hvers vegna? Vegna þess að hann þekkir eðli okkar og þarfir betur en við.
Þegar Guð skapaði fyrsta manninn, Adam, fékk hann honum verk að vinna sem gerði kröfur bæði til huga og líkama. (1. Mósebók 2:15, 19) Adam átti að gera sér allar aðrar, jarðneskar sköpunarverur undirgefnar og átti þannig einnig að fara með forystuhlutverk. (1. Mósebók 1:28) Svo lengi sem hann færi eftir þeim fyrirmælum var starf hans innihaldsríkt og ánægjulegt. Sérhvert smáverkefni var honum tækifæri til að þóknast skapara sínum.
En það stóð ekki lengi. Adam kaus að ganga gegn fyrirkomulagi Guðs. Hann hafði ekki lengur yndi af því að gera vilja Guðs heldur vildi gera það sem honum sjálfum þóknaðist. Hann syndgaði gegn skapara sínum. Sú ákvörðun varð til þess að Adam, kona hans og öll afkvæmi þeirra urðu „undirorpin fallvaltleikanum.“ (Rómverjabréfið 5:12; 8:20) Vinnan hætti að veita honum hamingju og breyttist í þjakandi þrældóm. Dómur Guðs gegn Adam hljóðaði meðal annars svo: „Þá sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga. Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar. Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar.“ (1. Mósebók 3:17-19) Vinnan, sem átti að göfgast við það markmið að vera skaparanum þóknanleg, varð nú strit og þrældómur sem þjónaði því markmiði einu að tryggja manninum daglegt viðurværi.
Hvaða ályktun getum við dregið af þessum staðreyndum? Þá að vinna veiti manninum varanlega hamingju og lífsfyllingu aðeins þegar þungamiðja lífsins er sú að gera vilja Guðs.
‚Njóttu‘ þess að gera vilja Guðs
Það að gera vilja Guðs var eins og matur fyrir Jesú Krist — hann naut þess og það nærði hann andlega. (Jóhannes 4:34) Hvernig getur þú notið slíkrar gleði af starfi þínu?
Þú þarft að skilja „hver sé vilji [Jehóva]“ með þig. (Efesusbréfið 5:17) Vilji hans er sá að mannkynið öðlist á ný ‚dýrðarfrelsi Guðs barna.‘ (Rómverjabréfið 8:21; 2. Pétursbréf 3:9) Núna er verið að safna saman fólki um allan heim í þessu augnamiði. Þú getur líka átt hlutdeild í þessu ánægjulega starfi. Það mun örugglega gera þig hamingjusaman.
Antonio, sem getið var í byrjun greinarinnar, öðlaðist síðar lífsfyllingu og hamingju. Þegar hann og kona hans létu sín ‚einskis verðu‘ veraldlegu störf ganga fyrir öðru í lífi sínu og sökktu sér niður í þau kom það niður á andlegu hugarfari þeirra. Það var þá sem þau fóru að eiga í erfiðleikum í hjónabandinu. Kona hans gerði sér grein fyrir hvað væri að hjá þeim og ákvað að segja upp starfi sínu og tók í staðinn að leggja sig kappsamlega fram í því að prédika ríki Guðs í fullu starfi. — Lúkas 13:24.
„Við tókum strax eftir mikilli breytingu,“ segir Antonio. „Við hættum að rífast og það varð aftur friður í fjölskyldunni.“ Konan hans uppskar þá gleði að hjálpa öðrum að öðlast þá þekkingu sem hefur í för með sér ‚eilíft líf.‘ (Jóhannes 17:3) Þegar Antonio veitti athygli hve hamingjusöm hún var kom það honum til að skoða á nýjan leik hvað skipti raunverulega máli í lífinu. Löngun hans til að þjóna Guði af allri sálu hafði vinninginn. Hann afþakkaði stöðuhækkun og sagði upp veraldlegu starfi sínu. Þessi breyting hafði í för með sér að hann þurfti að gera sér lítilmótlegra starf að góðu, en bæði hann og kona hans eru nú hamingjusöm yfir því að þau skuli geta notað stærstan hluta tíma síns til hinnar kristnu þjónustu, til þess að gera vilja Guðs.
Að sjálfsögðu eru ekki allir í aðstöðu til að gera svona stórar breytingar. Mizumori, japanski bankamaðurinn sem nefndur var hér á undan, hefur ánægju af því að geta þjónað sem öldungur í kristna söfnuðinum og sér fjölskyldu sinni farborða með starfi sínu í bankanum þar sem hann er í stjórnunarstarfi. En nú er veraldlegt starf hans ekki lengur þungamiðja lífsins heldur hitt að gera vilja Guðs. Með veraldlegu starfi sínu sér hann fyrir sér og getur gegnt skyldum sínum, og við það öðlast starf hans gildi.
Þegar þú þroskar með þér slíkt viðhorf til vinnu munt þú vafalaust leggja þig fram, „ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur í einlægni hjartans og í ótta [Jehóva].“ (Kólossubréfið 3:22) Sumir álíta kannski að slík einlægni dugi manninum skammt í þjóðfélagi sem einkennist svo mjög af samkeppni, en Mizumori bendir á að sá sem fylgi slíkum meginreglum njóti trausts og virðingar samverkamanna sinna. Og þótt Mizumori hafi hætt að sækjast eftir stöðuhækkun fékk hann hana samt. — Orðskviðirnir 22:29.
Já, þegar mikilvægasta atriði lífsins er það að gera vilja Guðs hafa menn ánægju af erfiði sínu. Þess vegna sagði Salómon konungur: „Ég komst að raun um, að ekkert er betra með þeim en að vera glaður og gæða sér meðan ævin endist. En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ — Prédikarinn 3:12, 13.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Það að nema Biblíuna með fjölskyldu sinni og einbeita sér að því að gera vilja Guðs gerir manninum fært að njóta fagnaðar af striti sínu.