Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w97 1.6. bls. 23-27
  • Fölskum boðberum enginn friður búinn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Fölskum boðberum enginn friður búinn
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Svokallaðir friðarboðberar
  • Eru Sameinuðu þjóðirnar friðarafl?
  • Ástæða til að „gráta beisklega“
  • Friður frá Guði — hvenær?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Sameinuðu þjóðirnar — leið Guðs til friðar?
    Vaknið! – 1986
  • Sameinuðu þjóðirnar – hafa þær sameinað þjóðirnar?
    Vaknið! – 1986
  • Hlutverk okkar sem friðarboðberar Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
w97 1.6. bls. 23-27

Fölskum boðberum enginn friður búinn

„Illvirkjarnir verða afmáðir . . . En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu [„friði,“ Biblían 1859].“ — SÁLMUR 37:9, 11.

1. Hvers vegna megum við búast við að finna bæði sanna og falska boðbera á ‚endalokatímanum‘?

BOÐBERAR, falskir eða sannir? Hvorir tveggja voru til á biblíutímanum. En hvað um okkar daga? Í Daníel 12:9, 10 lesum við að himneskur boðberi hafi sagt við spámann Guðs: „Orðunum er leyndum haldið og þau innsigluð, þar til er endirinn kemur. Margir munu verða klárir, hreinir og skírir, en hinir óguðlegu munu breyta óguðlega, og engir óguðlegir munu skilja það, en hinir vitru munu skilja það.“ Við lifum núna þann tíma þegar „endirinn kemur.“ Sjáum við skýran mun á ‚hinum óguðlegu‘ og ‚hinum vitru‘? Svo sannarlega!

2. Hvernig uppfyllist Jesaja 57:20, 21 nú á dögum?

2 Í 57. kafla, versi 20 og 21, lesum við orð Jesaja, boðbera Guðs: „Hinir óguðlegu eru sem ólgusjór, því að hann getur ekki verið kyrr og bylgjur hans róta upp aur og leðju. Hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.“ Þessi orð lýsa þessum heimi vel er hann nálgast 21. öldina. Sumir spyrja jafnvel hvort hann nái einu sinni að líta 21. öldina. Hvað hafa „vitrir“ boðberar að segja okkur?

3. (a) Hvaða andstæðum er stillt upp í 1. Jóhannesarbréfi 5:19? (b) Hvernig er ‚þeim sem hafa innsæi‘ lýst í Opinberunarbókinni 7. kafla?

3 Jóhannes postuli fékk innblástur frá Guði sem veitti honum visku. Í 1. Jóhannesarbréfi 5:19 segir: „Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ Andlegir Ísraelsmenn, 144.000 að tölu, stinga mjög í stúf við þennan heim, en aldraðar leifar þeirra eru enn meðal okkar. Til liðs við þá hefur gengið „mikill múgur . . . af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum,“ sem nú er orðinn yfir fimm milljónir manna, og þeir eru líka vitrir. ‚Þetta eru þeir, sem koma úr þrengingunni miklu.‘ Og hvers vegna er þeim umbunað? Vegna þess að þeir hafa líka „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins“ með því að iðka trú á lausnarfórn Jesú. Þeir eru líka boðberar ljóssins og „þjóna [Guði] dag og nótt.“ — Opinberunarbókin 7:4, 9, 14, 15.

Svokallaðir friðarboðberar

4. (a) Af hverju hlýtur hinum svokölluðu friðarboðberum í heimi Satans að mistakast? (b) Hvernig á Efesusbréfið 4:18, 19 við nú á dögum?

4 En hvað þá um hina svokölluðu friðarboðbera í heimskerfi Satans? Í Jesaja, kafla 33 og versi 7, lesum við: „Sjá, kapparnir kveina úti fyrir, friðarboðarnir gráta beisklega.“ Þessi orð lýsa vel þeim sem þeysast með látum milli höfuðborga heimsins til að reyna að koma á friði. Það er algerlega til einskis. Af hverju? Af því að þeir eru að glíma við sjúkdómseinkenni heimsins í stað þess að ráðast að rótum vandans. Fyrst er til að nefna að þeir eru blindir á tilvist Satans sem Páll postuli nefnir „guð þessarar aldar.“ (2. Korintubréf 4:4) Satan hefur sáð sæði illskunnar meðal manna með þeim afleiðingum að meirihluti þeirra, þar með taldir margir stjórnendur, falla undir lýsinguna í Efesusbréfinu 4:18, 19: „Skilningur þeirra [er] blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta. Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.“

5. (a) Hvers vegna mistekst stofnunum manna að stilla til friðar? (b) Hvaða hughreystandi boðskap flytur Sálmur 37?

5 Engin stofnun ófullkominna manna getur upprætt úr hjörtum manna græðgina, eigingirnina og hatrið sem er svo almennt nú á tímum. Aðeins skapari okkar, alvaldur Drottinn Jehóva, getur gert það. Þar fyrir utan eru aðeins hinir hógværu, sem eru minnihluti mannkyns, fúsir til að lúta leiðsögn hans. Sálmur 37:9-11 ber saman afleiðingarnar fyrir þá og hina illu í heiminum: „Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar. Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu [„friði,“ Biblían 1859].“

6, 7. Hvernig sýnir saga trúarbragða heims að þeim hefur mistekist friðarboðberahlutverkið?

6 Er þá hægt að finna friðarboðbera meðal trúarbragða þessa sjúka heims? Nú, hver er saga trúarbragðanna til þessa dags? Mannkynssagan sýnir að trúarbrögðin hafa tekið þátt í stórum hluta allra blóðsúthellinga í aldanna rás, jafnvel verið hvati þeirra. Til dæmis greindi vikuritið The Christian Century hinn 30. ágúst 1995 frá upplausnarástandinu í fyrrverandi Júgóslavíu og sagði: „Í Bosníu, sem er á valdi Serba, sitja prestar á fremsta bekk hins sjálfskipaða þings og eru einnig í framvarðarlínunum þar sem herdeildir og jafnvel vopn fá blessun fyrir bardaga.“

7 Aldarlangt starf trúboða kristna heimsins í Afríku hefur ekki borið betri árangur eins og Rúanda er gott dæmi um, en 80 af hundraði íbúa þar eru sagðir kaþólskir. Í frétt í dagblaðinu The New York Times 7. júlí 1995 sagði: „Golias, frjálslynt tímarit kaþólskra leikmanna gefið út í Lyon [í Frakklandi], hefur í hyggju að nafngreina 27 rúandíska presta til viðbótar og fjórar nunnur sem það segir hafa tekið þátt í drápunum í Rúanda í fyrra eða hvatt til þeirra.“ Mannréttindasamtökin African Rights, sem hafa aðsetur í Lundúnum, sögðu þetta: „Kirkjurnar þurfa bæði að svara fyrir þögn sína og ekki síður fyrir virka þátttöku sumra presta og nunna í þjóðarmorðinu.“ Þetta líkist ástandinu í Ísrael þegar Jeremía, sannur boðberi Jehóva, lýsti því hvernig Ísrael, ásamt höfðingjum sínum, prestum og spámönnum, mætti „skammast sín,“ og bætti svo við: „Á faldi klæða þinna sést blóð saklausra aumingja [„fátæklinga,“ NW].“ — Jeremía 2:26, 34.

8. Af hverju er hægt að segja að Jeremía hafi verið friðarboðberi?

8 Jeremía hefur oft verið kallaður dómsspámaður en það mætti líka kalla hann friðarboðbera Guðs. Hann nefndi heill eða frið jafnoft og Jesaja hafði gert á undan honum. Jehóva notaði Jeremía til að kveða upp dóm yfir Jerúsalem. Hann segir: „Þessi borg hefir verið mér tilefni til reiði og gremi frá þeim degi, er hún var reist, allt fram á þennan dag, svo að ég verð að taka hana burt frá augliti mínu, sökum allrar illsku Ísraelsmanna og Júdamanna, er þeir hafa í frammi haft til þess að egna mig til reiði, — konungar þeirra, höfðingjar þeirra, prestar þeirra og spámenn þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar.“ (Jeremía 32:31, 32) Þetta var fyrirboði þess hvernig Jehóva myndi dæma höfðingja og klerka kristna heimsins nú á tímum. Til þess að sannur friður megi ríkja þurfa þessir hvatamenn illsku og ofbeldis að víkja! Þeir eru sannarlega engir friðarboðberar!

Eru Sameinuðu þjóðirnar friðarafl?

9. Hvernig hafa Sameinuðu þjóðirnar þóst vera friðarboðberi?

9 En gætu Sameinuðu þjóðirnar ekki orðið sannur friðarboðberi? Þegar allt kemur til alls segir í formálanum að stofnskrá þeirra, sem lögð var fram í júní 1945, aðeins 41 degi áður en kjarnorkusprengjan lagði Hírósíma í rúst, að tilgangur samtakanna sé sá að „bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar.“ Hin 50 tilvonandi aðildarríki Sameinuðu þjóðanna áttu „að sameina mátt [sinn] til að varðveita heimsfrið og öryggi.“ Núna eru aðildarríki Sameinuðu þjóðanna 185 talsins og öll eiga þau að vera helguð þessum sama málstað.

10, 11. (a) Hvernig hafa trúarleiðtogar lýst yfir stuðningi við Sameinuðu þjóðirnar? (b) Á hvaða hátt hafa páfar gefið ranga mynd af ‚fagnaðarerindinu um ríki Guðs‘?

10 Á umliðnum árum hefur miklu lofsorði verið lokið á Sameinuðu þjóðirnar, einkum af hálfu trúarleiðtoga. Hinn 11. apríl 1963 undirritaði Jóhannes páfi 23. umburðarbréf sitt sem bar yfirskriftina „Pacem in Terris“ (Friður á jörð). Þar sagði hann: „Það er einlæg ósk vor að Sameinuðu þjóðirnar — bæði að uppbyggingu og meðulum — megi jafnt og þétt verða færari um að takast á við hið mikla og göfuga hlutverk sitt.“ Nokkru síðar, í júní 1965, komu trúarleiðtogar, sem sagðir voru fulltrúar helmings jarðarbúa, saman í San Francisco til að halda upp á 20 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna. Þetta sama ár heimsótti Páll páfi sjötti Sameinuðu þjóðirnar og lýsti þeim sem „síðustu von friðar og sameiningar.“ Árið 1986 vann Jóhannes Páll páfi annar með öðrum að alþjóðlegu friðarári Sameinuðu þjóðanna.

11 Enn á ný, í heimsókn sinni í október 1995, lýsti páfinn yfir: „Í dag höldum við upp á fagnaðarerindið um ríki Guðs.“ En er hann raunverulega boðberi Guðs og boðar fagnaðarerindið um ríkið? Hann ræddi um vandamálin í heiminum og sagði: „Er við stöndum andspænis þessum gríðarlegu og erfiðu verkefnum, hvernig getum við þá látið hjá líða að viðurkenna hlutverk Sameinuðu þjóðanna?“ Það eru Sameinuðu þjóðirnar en ekki ríki Guðs sem páfinn velur.

Ástæða til að „gráta beisklega“

12, 13. (a) Hvernig hafa Sameinuðu þjóðirnar hagað sér eins og lýst er í Jeremía 6:14? (b) Af hverju er forysta Sameinuðu þjóðanna innifalin í lýsingunni í Jesaja 33:7?

12 Hátíðahöldin í tilefni 50 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna leiddu ekki í ljós neinar raunverulegar horfur á ‚friði á jörð.‘ Eina ástæðu þess má greina af orðum manns sem sagði eftirfarandi í kanadíska dagblaðinu The Toronto Star: „Sameinuðu þjóðirnar eru tannlaust ljón sem öskrar þegar það stendur augliti til auglitis við villimennsku mannanna en getur ekki bitið fyrr en aðildarríkin hafa stungið gervitönnunum upp í það.“ Of oft hefur bitið verið of lítið og komið of seint. Friðarboðberarnir í núverandi heimskerfi, sérstaklega friðarboðberar kristna heimsins, hafa endurómað orðin í Jeremía 6:14: „Þeir reyna að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti og segja: ‚Það er friður! Það er friður!‘ þegar enginn friður er.“ — NW.

13 Framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna hafa hver á fætur öðrum unnið hörðum höndum, og vafalaust í fullri einlægni, að því að láta samtökunum heppnast ætlunarverk sitt. En þessi 185 sundurleitu aðildarríki hnakkrífast linnulaust um hvernig eigi að hemja styrjaldir, móta stefnu samtakanna og fara með fjármál þeirra og hafa þannig gert horfurnar á árangri litlar sem engar. Í ársskýrslu sinni fyrir árið 1995 skrifaði þáverandi framkvæmdastjóri samtakanna að dvínandi „hætta á allsherjarkjarnorkustyrjöld“ opni þjóðum leiðina „til að starfa saman að efnahagslegum og félagslegum framförum alls mannkyns.“ En hann bætti við: „Því miður hefur gangur heimsmálanna á allra síðustu árum brugðist þessum bjartsýnisvonum.“ Það má með sanni segja að friðarboðberarnir, sem svo eiga að heita, ‚gráti beisklega.‘

14. (a) Hvers vegna má segja að Sameinuðu þjóðirnar séu bæði fjárhagslega og siðferðilega gjaldþrota? (b) Hvernig er Jeremía 8:15 að rætast?

14 Blaðið The Orange County Register í Kaliforníu sagði í fyrirsögn: „Sameinuðu þjóðirnar eru fjárhagslega og siðferðilega gjaldþrota.“ Í greininni sagði að á árabilinu 1945 til 1990 hafi verið háðar yfir 80 styrjaldir sem kostuðu meira en 30 milljónir mannslífa. Hún vitnar í grein í Reader’s Digest frá október 1995 sem „lýsir hernaðaraðgerðum Sameinuðu þjóðanna á þann veg að þær einkennist af ‚óhæfum foringjum, agalausum hermönnum, bandalögum við árásaraðila, máttleysi til að koma í veg fyrir ódæðisverk og að stundum sé jafnvel stuðlað að hryllingnum.‘ Þar fyrir utan ‚er sóun, svik og misnotkun yfirþyrmandi.‘“ Í blaðauka dagblaðsins The New York Times, sem bar yfirskriftina „Sameinuðu þjóðirnar fimmtugar,“ stóð þessi fyrirsögn: „Óstjórn og sóun gerir bestu áform Sameinuðu þjóðanna að engu.“ Lundúnablaðið The Times hafði þessa greinarfyrirsögn: „Fimmtugar og veikburða — Sameinuðu þjóðirnar þurfa að fara í líkamsrækt til að ná aftur hreysti sinni.“ Það eru því sannmæli sem við lesum í Jeremía, 8. kafla og 15. versi: „Menn vænta hamingju [„friðar,“ NW], en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing!“ Og kjarnorkuógnin vofir enn yfir mannkyninu. Sameinuðu þjóðirnar eru greinilega ekki sá friðarboðberi sem mannkynið þarfnast.

15. Hvernig hafa trúarleg afkvæmi Forn-Babýlonar reynst bæði eyðileggjandi og sljóvgandi?

15 Hvernig endar þetta allt saman? Spádómsorð Jehóva gefur það skýrt til kynna. Hvað er í fyrsta lagi fram undan fyrir falstrúarbrögð heimsins sem hafa svo oft verið yfirmáta vingjarnleg við Sameinuðu þjóðirnar? Þau eru öll runnin frá sömu uppsprettulind, Babýlon til forna. Þeim er vel lýst í Opinberunarbókinni 17:5 sem ‚Babýlon hinni miklu, móður hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.‘ Jeremía lýsir örlögum þessa hræsnisfulla og sundurleita hóps. Eins og skækja hafa falstrúarbrögðin gert sér dælt við stjórnmálamenn jarðarinnar, skjallað Sameinuðu þjóðirnar og stofnað til óleyfilegra sambanda við aðildarríki þeirra. Þau hafa verið helstu þátttakendurnir í styrjöldum mannkynssögunnar. Fréttaskýrandi sagði í tengslum við trúarbragðastríð á Indlandi: „Karl Marx kallaði trúarbrögð ópíum fólksins. En sú fullyrðing getur ekki verið alveg rétt vegna þess að ópíum er deyfilyf, það sljóvgar fólk. Trúarbrögðin eru frekar eins og krakk. Þau leysa gríðarlegt ofbeldi úr læðingi og eru geysilegt eyðingarafl.“ En fréttaskýrandinn hefur ekki alveg rétt fyrir sér heldur — falstrúarbrögðin eru bæði sljóvgandi og eyðileggjandi.

16. Hvers vegna ætti heiðvirt fólk að flýja frá Babýlon hinni miklu núna? (Sjá einnig Opinberunarbókina 18:4, 5.)

16 Hvað ætti heiðvirt fólk þá að gera? Jeremía, boðberi Guðs, svarar: „Flýið út úr Babýlon og hver og einn forði lífi sínu. . . . Því að það er hefndartími [Jehóva].“ Það gleður okkur að milljónir skuli hafa flúið út úr Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Ert þú einn þeirra? Þá getur þú vel skilið hvernig Babýlon hin mikla hefur haft áhrif á þjóðir jarðarinnar: „Af víni hennar drukku þjóðirnar, fyrir því létu þjóðirnar sem þær væru óðar.“ — Jeremía 51:6, 7.

17. Hvaða dómi verður fullnægt á Babýlon hinni miklu innan skamms og hvað fylgir í kjölfarið?

17 Innan skamms mun Jehóva láta ‚óð‘ aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ráðast á falstrúarbrögðin eins og Opinberunarbókin 17:16 lýsir: „[Þau] munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ Með þessu hefst þrengingin mikla sem nefnd er í Matteusi 24:21 og nær hámarki í Harmagedón, stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda. Eins og Babýlon til forna fær Babýlon hin mikla þann dóm sem kveðinn er upp í Jeremía 51:13, 25: „Þú, sem býr við hin miklu vötn, auðug að fjársjóðum, endadægur þitt er komið, lífdagar þínir taldir. Sjá, ég ætla að finna þig, þú Skaðræðisfjall — segir [Jehóva] — þú sem skaðræði vannst allri jörðinni, og ég útrétti hönd mína gegn þér og velti þér ofan af hömrunum og gjöri þig að brenndu fjalli.“ Spilltar stíðsæsingaþjóðir fylgja falstrúarbrögðunum til tortímingar þegar hefndardagur Jehóva skellur líka yfir þær.

18. Hvenær og hvernig á Jesaja 48:22 enn eftir að uppfyllast?

18 Í 1. Þessaloníkubréfi 5:3 er sagt um hina illu og óguðlegu: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ Um þessa menn sagði Jesaja: „Sjá, . . . friðarboðarnir gráta beisklega.“ (Jesaja 33:7) Já, „hinum óguðlegu, segir [Jehóva], er enginn friður búinn,“ eins og við lesum í Jesaja 48:22. En hvaða framtíð bíður sannra friðarboðbera Guðs? Um það er fjallað í næstu grein.

Upprifjunarspurningar

◻ Hvernig hafa spámenn Guðs afhjúpað falska boðbera vægðarlaust?

◻ Hvers vegna mistekst stofnunum manna að koma á varanlegum friði?

◻ Hvernig eru sannir friðarboðberar ólíkir stuðningsmönnum Sameinuðu þjóðanna?

◻ Hvað verða hógværir menn að gera til að njóta hins fyrirheitna friðar Jehóva?

[Mynd á blaðsíðu 25]

Jesaja, Jeremía og Daníel sögðu allir fyrir að friðarviðleitni manna myndi mistakast.

[Mynd á blaðsíðu 26]

„Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ — Jóhannes postuli.

[Mynd á blaðsíðu 27]

‚Skilningur þeirra er blindaður.‘ — Páll postuli.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila