Kristni heimurinn afhjúpaður sem frumkvöðull falskrar guðsdýrkunar
„Þetta er þjóðin, sem eigi hlýðir raustu [Jehóva], Guðs síns, og engri umvöndun tekur.“ — JEREMÍA 7:28.
1, 2. Hvernig brást Jeremía við því verki sem Guð fól honum?
„SANNFÆRINGARELDUR brann innra með honum; hann fann fyrir geysisterku afli til að tala sannleikann, til að ávíta en líka styðja.“ Með þessum orðum lýsa tveir hebreskir fræðimenn hlutverki Jeremía. Jafnvel þótt hann hefði fengið afar erfitt verkefni frá Guði vissi hann að hann varð að axla ábyrgð sína gagnvart Júdaþjóðinni. Eins og hann sjálfur orðaði það: „Því að orð [Jehóva] hefir orðið mér til stöðugrar háðungar og spotts. Ef ég hugsaði: ‚Ég skal ekki minnast hans og eigi framar tala í hans nafni.‘“ Já, álagið og ofsóknirnar báru hann næstum ofurliði. En gafst hann upp? — Jeremía 20:8, 9a.
2 Jeremía hélt áfram: „Þá var sem eldur brynni í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum. Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki.“ (Jeremía 20:9b) Jeremía skaut sér ekki undan því hlutverki sínu að boða Júda dóma Guðs. — Jeremía 6:10, 11.
Jeremía nútímans
3. Hvernig litu Jesús og lærisveinarnir á það hlutverk sem þeim var falið?
3 Líkt og Jeremía boðuðu Kristur Jesús og frumkristnir lærisveinar hans Gyðingum og þjóðunum óttalaust hinn óvinsæla boðskap um Guðsríki. Þótt Pétur og hinir postularnir hefðu áður verið hnepptir í fangelsi fyrir prédikun sína svöruðu þeir trúarleiðtogum sínum hugrakkir í bragði: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ Að boði trúarlegra yfirvalda voru þeir húðstrýktir fyrir dirfsku sína. Hvernig brugðust þeir við því? „Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ — Postulasagan 5:29, 40-42; Matteus 23:13-33.
4. Hverjir hafa fylgt fordæmi Jeremía nú á 20. öldinni og hvernig hafa þeir gert það?
4 Smurðir kristnir menn fyrstu aldar höguðu sér líkt og Jeremía. Þótt þeir ættu við ofurefli og þrjóska, trúarlega óvini að etja boðuðu þeir dóma Guðs. Hverjir hafa núna á 20. öldinni fylgt þessu sama fordæmi? Hverjir hafa boðað opinberlega og hús úr húsi dóma Guðs yfir þessu heimskerfi, einkanlega yfir hliðstæðu Jerúsalem, kristna heiminum? Í meira en 68 ár hafa verið að hrannast upp sönnunargögn fyrir því að Jeremíahópur nútímans sé hinn litli en hugrakki hópur smurðra votta Jehóva. Frá 1935 hefur ört vaxandi ‚mikill múgur‘ fúsra félaga lagt þeim lið. Þeir skipta nú milljónum og eru einnig þekktir sem vottar Jehóva. Með samhljóða raustu hafa þeir gegnt Jeremíahlutverki sínu með því að fordæma falstrúarbrögðin sem snöru og svikamyllu. — Opinberunarbókin 7:9, 10; 14:1-5.
Hvers vegna er kristni heimurinn hliðstæða Jerúsalem?
5. Á hvaða vegu líkist kristni heimurinn Forn-Jerúsalem?
5 En hvað er hliðstætt með Forn-Jerúsalem og kristna heiminum? Ekki síst áþekk viðhorf og aðstæður. Kristni heimur nútímans er stærilátur, reiðir sig á sínar „helgu borgir“ og helgidóma, svo sem Róm, Jerúsalem, Kantaraborg, Fatíma, Guadalupe og Saragósa svo nokkrar séu nefndar. Kristni heimurinn elskar dómkirkjur sínar, basilíkur, musteri og kirkjur, stærir sig af aldri þeirra og byggingarlist rétt eins og það gefi þeim einhverja sérstöðu gagnvart Guði. Þeir segja jafnvel að trúarbyggingar sínar hafi verið reistar „Guði til dýrðar.“ En hversu margar þessara bygginga bera nafn Jehóva Guðs? Menn eru ekki minntir á það, heldur arkitektana sem teiknuðu þær, listamennina og myndhöggvarana sem skreyttu þær, hina auðugu velunnara sem kostuðu gerð þeirra eða „dýrlingana“ sem þær eru helgaðar. Traust kristna heimsins til fornra bygginga og erfðavenja er jafnórökrétt og traust Júdamanna til hins heilaga musteris. — Jeremía 7:4.
6. Hvernig á fordæming Jesú á klerkastétt Gyðinga við klerkastétt kristna heimsins?
6 Í samræmi við fordæmingu Jeremía á prestum og spámönnum Gyðinga, hvað má segja um trúarleiðtoga kristna heimsins núna? Með ámóta bersögli og Jeremía gaf Jesús lýsingu á klerkastétt Gyðinga sem hæfir vel klerkastétt kristna heimsins fram á þennan dag: „Þeir breyta ekki sem þeir bjóða. . . . Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum. . . . Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum.“ (Matteus 23:3-7) Hve oft sjáum við ekki hefðarklerka og prédikara blessa pólitíska og þjóðernislega fundi eða fjöldasamkomur með nærveru sinni — og baða sig í ljósi fjölmiðlanna með stjórnmálamönnunum!
7. (a) Hvernig leiða sumir prédikarar fólk á villigötur? (b) Hvaða krefjandi viðfangsefni hafa klerkarnir forðast?
7 Núna, á öld sjónvarpsins, ber mikið á sjónvarpsprédikurum sem notfæra sér þann miðil ásamt hvers kyns leikhúsa- og sálfræðibrellum til að tæla fjöldann og ginna fé út úr hjörðinni. Sannarlega á við enn þann dag í dag hin 2600 ára gamla fordæming Jeremía: „Bæði ungir og gamlir, allir eru þeir fíknir í rangfenginn gróða, og bæði spámenn og prestar, allir hafa þeir svik í frammi.“ Enginn þeirra vill takast á við það ögrandi viðfangsefni sem hin kristna þjónusta er, fara hús úr húsi og standa auglitis til auglitis við fólkið. Einungis vottar Jehóva — hinn smurði Jeremíahópur og ‚múgurinn mikli‘ — hafa axlað þá ábyrgð. — Jeremía 6:13; Postulasagan 20:20, 21.
Er kristni heimurinn hólpinn?
8. Hvers vegna trúir kristni heimurinn að Harmagedón nái ekki til hans?
8 Þessir sömu sjónvarpsprédikarar sefja almenning og veita honum falska öryggiskennd með því að nota í síbylju slagorð svo sem „endurfæddur“ og kenningafræðina „Einu sinni hólpinn, alltaf hólpinn.“ Milljónum manna úr svo til öllum kirkjudeildum og sértrúarflokkum kristna heimsins hefur verið talin trú um að þeir séu „endurfæddir“ og „frelsaðir.“ Óskammfeilnir stjórnmálamenn tala svo um sjálfa sig eins og ekkert sé. Uppáhaldsprédikarar þeirra segja þeim að þeir eigi frið við Guð vegna þess að þeir séu „frelsaðir“ — þrátt fyrir trúarlega, stjórnmálalega og þjóðernislega sundrungu sína! Og þetta fellur fólkinu vel í geð líkt og á dögum Jeremía! (Jeremía 5:31; 14:14) Því finnst það vera utan seilingar Harmagedóndóms Guðs. — Jeremía 6:14; 23:17; 1. Korintubréf 1:10; Opinberunarbókin 16:14, 16.
9. (a) Hverjir eru í raun ‚endurfæddir‘? (b) Hvað segir Biblían um sálina? (Gott væri að nota efni úr bókinni Reasoning From the Scriptures til að rökstyðja enn frekar svörin við báðum spurningunum.)
9 Nákvæm athugun á orði Guðs og kenningum Krists sýnir þó að einungis takmarkaður fjöldi fær hlut í þeim sérréttindum að endurfæðast, að ‚fæðast af vatni og anda‘ og eiga hlut í því að stjórna af himnum ofan með Kristi. (Jóhannes 3:3-5; Rómverjabréfið 8:16, 17; Opinberunarbókin 14:1-3) „Mikill múgur“ sannkristinna nútímamanna þarf ekki að endurfæðast, því að von þeirra um eilíft líf miðast við jörðina, ekki himininn. (2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:3, 4) Auk þess eru kenningar kristna heimsins byggðar á falskri forsendu — þeirri að maðurinn hafi ódauðlega sál er þarfnist hjálpræðis. Hvergi er að finna stuðning í Biblíunni fyrir slíkri kenningu sem er í raun komin úr forn-grískri heimspeki.a
Þeir hafa hvorki yndi af orði hans né nafni
10. Hvernig líta margir klerkar á Biblíuna?
10 Annað er það sem er líkt með Forn-Jerúsalem og kristna heiminum. Jeremía sagði: „Já, orð [Jehóva] er orðið þeim að háði. Þeir hafa engar mætur á því.“ (Jeremía 6:10) Klerkarnir kjósa frekar að vitna í heimspekinga og vísindamenn en orð Jehóva. Margir skammast sín fyrir Biblíuna, gera jafnvel gys að henni með sinni „æðri biblíugagnrýni.“ Þeir staðhæfa að hún sé goðsagnir og arfsögur í gervi góðra bókmennta. (Jeremía 7:28) Þeir hafa megna andúð á nafni höfundarins. Hvaða sönnun höfum við fyrir þessari staðhæfingu?
11. Hvað er ólíkt með Jeremía og kristna heiminum í því að nota nafn Guðs?
11 Enda þótt hið hebreska fjórstafanafn (יהוה) standi næstum 7000 sinnum í Hebresku ritningunum hefur nafnið „Jehóva“ eða „Jahve“ vikið í fjölmörgum biblíum fyrir hinum ópersónulega titli „Drottinn“ eða jafngildi hans á öðrum málum. Til dæmis er nafni Guðs með öllu sleppt úr núverandi þýðingum Biblíunnar á tungumálið afríkaans. Í upprunalegri útgáfu spönsku þýðingarinnar Franquesa-Solé var nafnið notað. Þegar endurskoðuð útgáfa hennar var gefin út var nafn Guðs horfið en í stað þess komið Señor (Drottinn). Og jafnvel þegar nafn Guðs stendur í biblíuþýðingum kristna heimsins nota prestar það sjaldan. En Jeremía notaði einkanafn Guðs 726 sinnum í innblásnum spádómsboðskap sínum!b
‚Himnadrottningin‘ og skurðgoðadýrkun
12-14. (a) Hverju tóku fjölskyldur meðal Gyðinga þátt í af miklu kappi? (b) Hvernig leit Jehóva á guðsdýrkun þeirra?
12 Við rekumst á aðra hliðstæðu þegar við skoðum boðskap Jeremía til Jerúsalem. Þegar Jehóva sagði spámanni sínum að biðja ekki í þágu þjóðarinnar lét hann ástæðuna fylgja. „Sér þú ekki hvað þeir hafast að í Júdaborgum og á strætum Jerúsalem? Börnin tína saman eldivið og feðurnir kveikja eldinn, en konurnar hnoða deig.“ Og hvað var það sem öll fjölskyldan vann að af slíku kappi? „Til þess að gjöra . . . fórnarkökur handa himnadrottningunni“! — Jeremía 7:16-18; 44:15, 19.
13 Eitt af orðskýringarritum Gyðinga segir: „‚Himnadrottningin‘ var dýrkuð af ákefð og fyrir opnum tjöldum.“ Svo ótrúlegt sem það var voru Júdamenn að iðka skurðgoðadýrkun; þeir voru að dýrka heiðna gyðju, ef til vill babýlonsku frjósemisgyðjuna Ístar, þriðja guðdóminn í guðaþrenningu Babýloníumanna. Einnig er hugsanlegt að þessi ‚drottning‘ hafi verið kanverska gyðjan Astarte er svaraði til hinnar áðurnefndu hjá Babýloníumönnum. — 1. Konungabók 11:5, 33.
14 Skurðgoðadýrkun Júdamanna einskorðaðist ekki við þessa gyðjudýrkun. Jehóva fordæmdi þá fyrir hana og sagði: „Hví egndu þeir mig til reiði með skurðmyndum sínum, með fánýtum, útlendum goðum?“ Ákæran hélt áfram: „Þeir hafa . . . ekki hlýtt minni raustu og ekki farið eftir henni, heldur farið eftir þverúð hjarta síns og elt Baalana, er feður þeirra höfðu kennt þeim að dýrka.“ (Jeremía 8:19; 9:13, 14) Hefur kristni heimurinn fallið í sömu gildru?
15. (a) Hver er staða kristna heimsins nú á tímum gagnvart skurðgoðadýrkun? Nefndu staðbundin dæmi. (b) Hvernig líta sannkristnir menn á Maríu? (Sjá einnig Reasoning From the Scriptures, bls. 254-61.)
15 Þér er óhætt að heimsækja nánast hvaða kirkju sem er — hjá mótmælendum, kaþólskum eða þá rétttrúnaðarmönnum — og þú munt finna að minnsta kosti kross í einhverri mynd. En hjá rómversk- og grískkaþólskum er að finna líkneski af „Heilagri Maríu, móður hins sanna Guðs“ í endalausri fjölbreytni og óteljandi stellingum.c Alls kyns hástemmdum titlum er hrúgað á hana, þar á meðal „himnadrottningin“ og „drottning alheimsins“!d Þótt Jeremíahópurinn virði Maríu sem móður Jesú og smurða systur í trúnni hefur hann hins vera gætt þess að fylgja vandlega hinni postullegu aðvörun: „Gætið yðar fyrir skurðgoðunum.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:21; Jeremía 10:14.
Hinn eini alvaldi Drottin Jehóva víkur fyrir þrenningu
16. Hvaða kenning ruddi Maríudýrkun brautina og hvernig?
16 En hvernig er þessi Maríudýrkun til komin? Hana má rekja til þess er kirkjan, þá orðin fráhverf uppruna sínum, tók heiðna guðsdýrkendur upp á arma sína. Hugmyndin um þrjá guði í einum var útbreidd í heiðni. Rómverjar til forna áttu musteri sem í voru þrír klefar „helgaðir guðaþrenningu sem trúarviðhorf og tilbeiðsla tengdu saman. Svo var um musteri Júpíters Optimus Maximus á Kapítólshæðinni, helgað kapítólínsku guðaþrenningunni Júpíter-Júnó-Minerva.“e
17, 18. (a) Hvað hefur verið reynt að fela til að þrenningarkenningin fengi að blómstra? (b) Færðu fram frekari rök úr bókinni Reasoning From the Scriptures.
17 Í þeim tilgangi að ýta undir kenninguna um „heilaga þrenningu,“ sem var að koma fram á þriðju og fjórðu öld, var nauðsynlegt fyrir kaþólsku kirkjuna að bæla niður hin hebresku viðhorf sem birtust svo greinilega í orðum Jeremía: „Enginn er þinn líki, [Jehóva]! Mikill ert þú og mikið er nafn þitt sakir máttar þíns. En [Jehóva] er sannur Guð. Hann er lifandi Guð og eilífur konungur.“ Jesús staðfesti þennan skilning þegar hann vitnaði í orð Móse: „Heyr, Ísrael! [Jehóva], Guð vor, hann einn er [Jehóva].“ — Jeremía 10:6, 10; Markús 12:29; 5. Mósebók 6:4.
18 Sú hjátrú Gyðinga að ekki mætti segja nafnið „Jahve“ eða „Jehóva“ hjálpaði hinum fráhverfa kristna heimi til að hætta með öllu að nota nafn Guðs. Við það myndaðist einhvers konar tómarúm sem ‚heilög þrenning‘ gat fyllt.f
19. (a) Hvaða afleiðingu hefur það haft að kristni heimurinn skuli hafa tileinkað sér þrenningarkenninguna? (b) Hvaða svik hafa menn haft í frammi í því skyni að halda fram þrenningarkenningunni?
19 Kristni heimurinn hefur þannig kosið að ‚elta annan guð,‘ þrenningarguðinn sem var með öllu ókunnur Gyðingum og Kristi og sannkristnum mönnum. Og til að styrkja í sessi leyndardóminn um þrjá guði í einum gripu þeir sem gerðu eftirrit til þess ráðs að falsa gríska textann eilítið.g Það er rökrétt afleiðing af þrenningarkenningunni að stór hluti kristna heimsins skuli einnig hafa farið út í þá villu að tilbiðja eða dýrka ‚himnadrottninguna.‘ — Jeremía 7:17, 18.
Klerkastéttin beitir sér fyrir ofsóknum
20, 21. Hvaða stefnu hafa klerkar kristna heimsins tekið og hvaða spurningar eru viðeigandi hér?
20 Í ljósi þess sem hér hefur komið fram á spurning Jeremía erindi til klerkastéttar kristna heimsins: „Hvernig getið þér sagt: ‚Vér erum vitrir og lögmál [Jehóva] er hjá oss‘? Víst er svo, en lygapenni fræðimannanna hefir gjört það að lygi. . . . Sjá, þeir hafa hafnað orði [Jehóva], hvaða visku hafa þeir þá?“ (Jeremía 8:8, 9) Þeir hafa hafnað Jehóva og fulltrúum hans, vottum hans. Líkt og prestar og spámenn ofsóttu Jeremía hafa klerkar kristna heimsins staðið að baki stærstum hluta hinna hrottalegu ofsókna sem vottar Jehóva hafa mátt þola á þessari öld.
21 En hvers vegna hafa þeir ýtt undir þessar ofsóknir? Hvað hafa vottarnir gert til að kalla yfir sig reiði þeirra og fjandskap? Síðasta greinin í þessari syrpu fjallar um þessar spurningar og fleiri þeim tengdar.
[Neðanmáls]
a Ítarlega umfjöllun um þessi atriði er að finna í bókinni Reasoning From the Scriptures, bls. 76-80, 356-61, 379-80. Útgefandi er Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Frekari upplýsingar um það hvernig reynt hefur verið að láta nafn Guðs hverfa er að finna í ritinu Nafn Guðs sem vara mun að eilífu, gefið út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
c The Image of Guadelupe — Myth or Miracle? eftir Jordy Brant Smith, bls. 6.
d The Glories of Mary eftir Alphonsus de Liguori, bls. 424.
e Las Grandes Religiones Illustradas, bls. 408.
f Ítarlegri upplýsingar um þrenningarkenninguna er að finna í bókinni Reasoning From the Scriptures, bls. 405-26.
g Í 1. Jóhannesarbréfi 5:7 er falsað innskot og í Matteusi 24:36 eru felld niður orðin „né sonurinn.“ Sjá The Emphatic Diaglott, neðanmálsathugasemd á bls. 803, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., og The Codex Sinaiticus and The Codex Alexandrinus, bls. 27, útgefið af stjórn The British Museum í Lundúnum.
Manst þú?
◻ Á hverju þekkist Jeremíahópur nútímans?
◻ Nefndu nokkrar hliðstæður með Forn-Jerúsalem og kristna heiminum.
◻ Hvernig hefur klerkastéttin talið fólki trú um að það eigi frið við Guð?
◻ Hvaða vanræksla og skurðgoðadýrkun hafa einkennt kristna heiminn?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Árið 1938 fordæmdu vottarnir fölsk trúarbrögð.
[Myndir á blaðsíðu 24]
Kristni heimurinn treystir á aldagamla helgidóma líkt og Gyðingar treystu á musterið.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Sjónvarpsprédikarar kristna heimsins telja fólki í milljónatali trú um að það sé „frelsað“ eða „endurfætt.“