Líkneski og fall þess – hvaða spádómlega merkingu hefur það?
FYRIR liðlega 25 öldum dreymdi hinn volduga konung Babýlonar, Nebúkadnesar, draum. Þótt hann hefði munað drauminn þegar hann vaknaði hefði hann tæpast skilið að þessi draumur lýsti í hnotskurn gangi mannkynssögunnar á ókomnum öldum.
Þegar Nebúkadnesar konungur vaknaði lét hann kalla til sín spekinga sína og vitringa. Hann skipaði þeim að segja sér draum sinn og þýðingu hans.
En hver getur þýtt það sem hann veit ekki? Spekingarnir voru ráðþrota. Jehóva gerði hins vegar hinum landflótta Gyðingi Daníel kleift að vita og þýða drauminn og segja konungi fyrir ókomna atburði. Við skulum rekja túlkun Daníels á draumnum því að hún varðar okkar tíma.
Dularfullt líkneski
Daníel byrjar á því að lýsa risastóru líkneski með höfði úr gulli, brjósti og handleggjum úr silfri, kviði og lendum úr eiri, fótleggjum úr járni og fótum úr járni og leir. Steinn lendir á fótum líkneskisins og molar það sundur. Síðan vex steinninn og verður að stóru fjalli sem fyllir alla jörðina. (Daníel 2:31-35) Þetta var hinn gleymdi draumur konungs! Hvað þýddi allt þetta?
Daníel segir konungi að hinir ýmsu hlutar líkneskisins tákni heimsveldin eins og þau muni taka við hvert af öðru. Margir biblíulærðir menn eru sammála því sem segir um þetta í biblíufræðibók: „Mikilvægasti sannleikurinn í (Daníel 2. kafla) er að dag einn muni Guð ryðja úr vegi öllum heimsveldum manna.“ Hvenær kemur sá dagur? Spádómur Daníels geymir mikilvægar upplýsingar sem tengjast þeirri spurningu.
Höfuðið og búkurinn
„Þú, konungur, yfirkonungur konunganna, sem Guð himnanna hefir gefið ríkið, valdið, máttinn og tignina, . . . þú ert gullhöfuðið.“ Höfuðið táknar því Nebúkadnesar og þá konungaætt sem hófst með honum. — Daníel 2:37, 38.
„En eftir þig mun hefjast annað konungsríki, minni háttar en þitt er, og því næst hið þriðja ríki af eiri, sem drottna mun yfir allri veröldu.“ (Daníel 2:39) Medísk-persneska heimsveldið tók við af Babýlon sem ráðandi heimsveldi biblíusögunnar. Á eftir því kom gríska heimsveldið sem náði, í höndum Alexanders mikla, yfirráðum yfir langtum stærra svæði en nokkurt annað heimsveldi á undan því.
„Fjórða ríkið“ — lausn gátunnar
Fyrstu ríkin þrjú komu og fóru sem heimsveldi alveg eins og Daníel hafði spáð vegna guðlegs innblásturs. Fyrir okkur skiptir þó meira máli að bera kennsl á „fjórða ríkið.“ Hvers vegna? Vegna þess að það er í valdatíð þess sem líkneskið á að falla, og við þurfum að vita hvað fall þess hefur í för með sér. Heyrum hvaða aðra vitneskju Daníel veitir okkur.
„Þá mun hefjast fjórða ríkið, sterkt sem járn, — því að járnið sundurbrýtur og mölvar allt —, og eins og járnið molar sundur, eins mun það sundurbrjóta og mola öll hin ríkin.“ (Daníel 2:40) Táknar þetta fjórða ríki einungis Rómaveldi sem tók við af Grikklandi sem heimsveldi? Af ýmsum ástæðum svörum við því neitandi.
Daníelsbók segir okkur sjálf hvaða tímabil þetta líkneski spannar því að hún segir: „Guð . . . hefir kunngjört Nebúkadnesar konungi það, er verða mun á hinum síðustu dögum.“ (Daníel 2:28) Þessi orð gefa til kynna að endanleg uppfylling sýnarinnar yrði í þá fjarlægri framtíð, eftir að gríska og rómverska heimsveldið væru horfin af sjónarsviðinu.
Jóhannes postuli, annar biblíuritari, gat líka um ‚konunga‘ eða heimsveldi. Hann sagði um þá: „Það eru líka sjö konungar. Fimm eru fallnir, einn er nú uppi, annar er ókominn.“ Áður en Guðsríki skærist í leikinn átti enn eitt heimsveldi að koma, (eftir Rómaveldi sem ‚var uppi‘ á dögum Jóhannesar). Það heimsveldi yrði líka hluti ‚fjórða ríkisins‘ í spádómi Daníels. (Opinberunarbókin 17:9-14; Daníel 2:40) Hvað segir mannkynssagan okkur um þetta?
Rómaveldi átti tilvist sína miklum hersigrum og landvinningum að þakka. Árið 476 steypti germanski leiðtoginn Odoaker síðasta keisaranum í Róm af stóli. Heimsveldið leið þó ekki undir lok við það heldur hélt Róm áfram að fara með pólitísk, en þó sér í lagi trúarleg yfirráð yfir Evrópu, því að lénsskipulagið gerði hverjum manni að lúta fyrst lénsherra sínum, síðan konungi og að síðustu páfanum. Páfinn dæmdi í mikilvægari málum eins og æðsti áfrýjunardómstóll og gat að vild knésett konunga með því að setja þá út af sakramentinu eða svipta rétti til kirkjulegrar þjónustu.a Sagnfræðiritið The Columbia History of the World segir: „Kirkjan var voldugasta stjórn Evrópu.“
Árið 1534 skipaði Hinrik VIII Englandskonungur sjálfan sig höfuð Englandskirkju í óþökk Rómar. Þar með reif hann ríki sitt undan valdi Rómar. En hann byrjaði líka að skapa hið helsta hertól Bretaveldis eins og Eric Delderfield segir í bók sinni Kings and Queens of England: „Hinrik hélt áfram því starfi föður síns að byggja upp öflugan sjóher. . . . Við dauða sinn hafði Hinrik bætt um 80 skipum í flotann og var farinn að ögra yfirráðum Spánar á hafinu.“
Þegar aldir liðu breyttist Bretaveldi í firnamikið heimsveldi sem Daníel Webster, kunnur amerískur stjórnmálamaður á 19. öld, lýsti sem „veldi sem ekki einu sinni Róm á hátindi dýrðar sinnar jafnaðist á við hvað hersigra og landvinninga áhrærði — veldi sem hafði stráð eigum sínum og herstöðvum um allt yfirborð jarðar.“ Brátt var breska heimsveldið nátengt fyrrverandi nýlendum sínum í Norður-Ameríku, bæði pólitískt og hernaðarlega. Þar með var sjöundi konungur Opinberunarbókarinnar 17:10 stiginn fram á sjónarsviðið, ensk-ameríska tvíveldið.
Að því er sagt var um líkneskið í draumnum myndi „afkvæmi mannkyns,“ hinn almenni maður, hafa meiri áhrif á stjórnvöld á tímum þessa síðasta heimsveldis en fyrr hefði verið. (Daníel 2:42, 43, NW) Nútímasaga staðfestir að sú hefur orðið raunin því að konungar, drottningar og aðrir einvaldar hafa margir hverjir mátt víkja fyrir lýðræði eða ‚alþýðustjórn.‘ Meðal þeirra stjórna, sem nú eru uppi, táknaðar með hinum tíu tám líkneskisins, eru sumar líkar járni, það er að segja alræðis- eða harðstjórnir. Aðrar, sósíalskar eða lýðræðislegar, eru sveigjanlegri líkt og leir.
Fallið
Eins og sýnt er í spádómi Daníels yrðu endalok líkneskisins í nánd þegar þær stjórnir, sem fæturnir tákna, væru við völd — og það er á okkar tímum. Líkneskið mun falla, ekki vegna þess að fæturnir úr leirblönduðu járni séu of veikir til að bera það, heldur vegna þess að táknrænn steinn skellur á því og molar það mélinu smærra. Hvað táknar þessi „steinn“? Messíasarríkið sem átti að „knosa og að engu gjöra öll þessi ríki“ og verða ‚að stóru fjalli er tæki yfir alla jörðina.‘ — Daníel 2:34, 35, 44.b
„Draumurinn er sannur og þýðing hans áreiðanleg,“ sagði Daníel. (Daníel 2:45) Uppfylling þessara tveggja spádóma — annars um eyðingu Babýlonar og hins um röð heimsveldanna — er okkur trygging fyrir því að það sem eftir er muni rætast á réttum tíma. Í þeirri uppfyllingu felst gereyðing líkneskisins í draumnum fyrir tilverknað Guðsríkis.
Aðrar biblíubækur geyma mikilsverða spádóma sem varða tilgang Guðs. Tölublað fyrir tölublað fjallar Varðturninn um marga þeirra og skýrir merkingu þeirra á okkar tímum. Sért þú ekki nú þegar farinn að lesa þetta tímarit reglulega hvetjum við þig til að byrja á því núna. Með þeim hætti getur þú kynnst betur Jehóva Guði, „sem opinberar leynda hluti,“ og þeim óteljandi blessunum sem ríki hans mun bráðlega úthella yfir jörðina. — Daníel 2:28.
[Neðanmáls]
a Svipting réttar til kirkjulegrar þjónustu fól í sér að hvorki mætti syngja messu, gefa saman hjón né veita kirkjulega greftrun á þeim svæðum sem hún náði til.
b Í síðustu þrem tölublöðum Varðturnsins hafa verið skoðuð önnur sönnunargögn fyrir því að við lifum nú þá ‚síðustu daga‘ þegar líkneskið í draumnum á að eyðileggjast.