Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w97 1.1. bls. 6-11
  • Við skulum öll lofa Jehóva!

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Við skulum öll lofa Jehóva!
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Jehóva allsherjar‘ talar
  • Hið dýrlega, andlega musteri
  • „Ég er með yður“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
  • „Verið hughraustir“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
  • Höfuðþættir bóka Haggaí og Sakaría
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • „Ég mun hræra allar þjóðir“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
w97 1.1. bls. 6-11

Við skulum öll lofa Jehóva!

„Vegsamið . . . [Jehóva] á austurvegum.“ — JESAJA 24:15.

1. Hvernig litu spámenn Jehóva á nafn hans en hvaða viðhorf einkennir kristna heiminn nú á tímum?

JEHÓVA er hið dýrlega nafn Guðs! Trúfastir spámenn fortíðar nutu þess að tala í nafni hans. Með fögnuði lofuðu þeir alvaldan Drottin sinn, Jehóva, en nafn hans lýsir honum sem hinum mikla Guði er hefur tilgang. (Jesaja 40:5; Jeremía 10:6, 10; Esekíel 36:23) Jafnvel minni spámennirnir, sem svo eru kallaðir, lofuðu Jehóva óspart. Haggaí var einn þeirra. Bók Haggaí er aðeins 38 vers en nafn Guðs stendur 35 sinnum í henni. Þessi spádómur verður líflaus þegar titillinn „Drottinn“ er settur í stað hins dýrmæta nafns Jehóva, eins og stórmiklir postular kristna heimsins gera í biblíuþýðingum sínum. — Samanber 2. Korintubréf 11:5.

2, 3. (a) Hvernig uppfylltist athyglisverður spádómur um endurreisn Ísraels? (b) Hvaða gleði áttu leifar Gyðinga og félagar þeirra hlutdeild í?

2 Í Jesaja 12:2 eru notaðar tvær myndir nafnsins.a Spámaðurinn lýsir yfir: „Sjá, Guð er mitt hjálpræði; eg er öruggur og óttast eigi, því að Jah, Jahve [eða Jehóva] er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði.“ (Biblían 1908, sjá einnig Jesaja 26:4.) Þannig fullvissaði Jah Jehóva þjóna sína um að hann væri máttugur frelsari þeirra. Jesaja spámaður flutti Ísraelsmönnum þennan boðskap um 200 árum áður en þeir voru leystir úr ánauð Babýlonar. Ánauðin átti að standa frá 607 til 537 f.o.t. Jesaja skrifaði einnig: „Ég er [Jehóva], sem allt hefi skapað . . . Ég er sá sem segi um Kýrus: ‚Hann er hirðir minn, og hann skal framkvæma allan vilja minn og segja um Jerúsalem: Hún skal endurreist verða og musterið grundvallað að nýju!‘“ Hver var þessi Kýrus? Þótt ótrúlegt sé var þetta Kýrus Persakonungur sem lagði undir sig Babýlon árið 539 f.o.t. — Jesaja 44:24, 28.

3 Í samræmi við orð Jehóva, sem Jesaja skráði, gaf Kýrus út þessa tilskipun til hinna ánauðugu Ísraelsmanna: „Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri [Jehóva], Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem.“ Yfir sig glaðar leifar Gyðinga sneru heim til Jerúsalem og komu þangað í tæka tíð til að halda laufskálahátíðina árið 537 f.o.t. og til að færa Jehóva fórnir á altari hans. Með í för voru musterisþjónarnir og niðjar þræla Salómons sem ekki voru Gyðingar. Næsta ár, í öðrum mánuðinum, lögðu þeir grunninn að síðara musterinu við hávær gleði- og lofgerðaróp til Jehóva. — Esrabók 1:1-4; 2:1, 2, 43, 55; 3:1-6, 8, 10-13.

4. Hvernig rættust 35. og 55. kafli Jesaja?

4 Endurreisnarspádómur Jehóva átti að rætast með dýrlegum hætti í Ísrael: „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. . . . Þau skulu fá að sjá vegsemd [Jehóva] og prýði Guðs vors.“ „Með gleði skuluð þér út fara, og í friði burt leiddir verða. Fjöll og hálsar skulu hefja upp fagnaðarsöng fyrir yður . . . Þetta mun verða [Jehóva] til lofs og eilífs minningarmarks, sem aldrei mun afmáð verða.“ — Jesaja 35:1, 2; 55:12, 13.

5. Hvers vegna var gleði Ísraels skammvinn?

5 En gleðin var skammvinn. Grannþjóðirnar reyndu að fá Gyðinga til trúarbandalags við sig um byggingu musterisins. Gyðingar voru óhagganlegir í fyrstu og sögðu: „Vér höfum ekkert saman við yður að sælda um bygginguna á húsi Guðs vors, heldur ætlum vér að reisa það einir saman [Jehóva], Ísraels Guði, eins og Kýrus konungur, konungur í Persíu, hefir boðið oss.“ Þessir grannar snerust þá gegn þeim af heift. Þeir „gjörðu . . . Júdalýð huglausan og hræddu þá frá að byggja.“ Þeir rangfærðu líka stöðuna fyrir Artaxerxesi (Artahsasta), arftaka Kýrusar, sem bannaði musterisbygginguna. (Esrabók 4:1-24.) Verkið lá niðri í 17 ár. Því miður urðu Gyðingar efnishyggjunni að bráð á því tímabili.

‚Jehóva allsherjar‘ talar

6. (a) Hvernig brást Jehóva við ástandinu í Ísrael? (b) Hvers vegna er líkleg merking nafnsins Haggaí viðeigandi?

6 En Jehóva sýndi styrk sinn og mátt í þágu Ísraels með því að senda spámennina Haggaí og Sakaría til að vekja Gyðingana til vitundar um ábyrgð sína. Nafnið Haggaí hefur hátíðarblæ því það virðist merkja „fæddur á hátíð.“ Það var vel við hæfi að hann skyldi byrja að spá á fyrsta degi laufskálahátíðarmánaðarins, en þá áttu Gyðingar að „gleðjast mikillega.“ (5. Mósebók 16:15) Jehóva flutti Gyðingum boðskap um 112 daga skeið fyrir munn Haggaí. — Haggaí 1:1; 2:1, 10, 20.

7. Hvernig ættu inngangsorð Haggaí að hvetja okkur?

7 Haggaí segir í inngangsorðum spádómsins: „Svo segir [Jehóva] hersveitanna.“ (Haggaí 1:2a, Biblían 1912) Hverjar skyldu þessar ‚hersveitir‘ vera? Þær eru englasveitir Jehóva sem Biblían kallar stundum hersveitir. (Jobsbók 1:6; 2:1; Sálmur 103:20, 21; Matteus 26:53) Er ekki hvetjandi fyrir okkur að alvaldur Drottinn Jehóva skuli nota þessar ósigrandi himnasveitir núna til að stýra starfi okkar við endurreisn sannrar tilbeiðslu á jörðinni? — Samanber 2. Konungabók 6:15-17.

8. Hvaða hugarfar hafði haft áhrif á Ísraelsmenn og með hvaða afleiðingum?

8 Hver var fyrsti boðskapur Haggaí? Ísraelsmenn höfðu sagt: „Enn er ekki tími kominn til að endurreisa hús [Jehóva].“ Endurreisn musterisins, sem táknaði endurreisn sannrar tilbeiðslu, var þeim ekki efst í huga lengur. Þeir voru farnir að reisa íburðarmikil hús handa sjálfum sér. Efnishyggja hafði dregið úr eldmóði þeirra gagnvart tilbeiðslunni á Jehóva. Þar af leiðandi var blessun hans frá þeim tekin. Akrar þeirra voru ekki lengur frjósamir og þeir voru fatalitlir í vetrarkuldanum. Tekjurnar voru orðnar rýrar, rétt eins og þeir settu peninga í götótta pyngju. — Haggaí 1:2b-6.

9. Hvaða sterka og uppbyggjandi áminningu veitti Jehóva?

9 Tvisvar áminnti Jehóva þá alvarlega: „Takið eftir, hvernig fyrir yður fer!“ Ljóst er að Serúbabel, landstjóri í Jerúsalem, og Jósúa æðstiprestur brugðust vel við og hugrakkir hvöttu þeir fólkið til að ‚hlýða röddu Jehóva Guðs þeirra og orðum Haggaí spámanns, þeim er Jehóva Guð þeirra hafði sent hann með, og lýðurinn óttaðist Jehóva.‘ Og „Haggaí, sendiboði [Jehóva], [sagði] við lýðinn, samkvæmt boðskap [Jehóva]: Ég er með yður! — segir [Jehóva].“ — Haggaí 1:5, 7-14.

10. Hvernig beitti Jehóva mætti sínum í þágu Ísraels?

10 Sumir gamlir menn í Jerúsalem, sem mundu tímana tvenna, bjuggust kannski við að dýrð endurbyggða musterisins yrði ‚einskisverð‘ í samanburði við dýrð fyrra musterisins. En 51 degi síðar lét Jehóva Haggaí boða annan boðskap sinn: „Ver . . . hughraustur, Serúbabel — segir [Jehóva] — og ver hughraustur, Jósúa Jósadaksson æðsti prestur, og ver hughraustur, allur landslýður — segir [Jehóva] — og haldið áfram verkinu, því að ég er með yður — segir [Jehóva] allsherjar . . . Óttist ekki.“ Jehóva, sem ætlaði með almætti sínu að „hræra himin og jörð“ þegar þar að kæmi, sá til þess að þjónar hans sigruðust á allri andstöðu, meira að segja konunglegu banni. Musterisbyggingunni lauk með glæsibrag innan fimm ára. — Haggaí 2:3-6.

11. Hvernig fyllti Guð síðara musterið ‚meiri dýrð‘?

11 Þá rættist eftirtektarvert fyrirheit: „Gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð — segir [Jehóva] allsherjar.“ (Haggaí 2:7) Þessar „gersemar“ reyndust vera menn af öðrum þjóðum sem komu til að tilbiðja í musterinu er endurspeglaði mikilfenglega dýrð og nærveru Guðs. Hvernig var endurreista musterið í samanburði við musterið á dögum Salómons? Spámaður Guðs boðaði: „Hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri verða en hin fyrri var — segir [Jehóva] allsherjar.“ (Haggaí 2:9) Í fyrri uppfyllingu þessa spádóms stóð endurbyggða musterið lengur en hið fyrra. Það stóð enn þegar Messías kom árið 29. Og Messías veitti því dýrð er hann prédikaði sannleikann þar áður en fráhvarfsmenn og fjandmenn létu myrða hann árið 33.

12. Hvaða tilgangi þjónaði fyrra og síðara musterið?

12 Fyrra og síðara musterið í Jerúsalem þjónuðu því þýðingarmikla hlutverki að vera fyrirboði mikilvægra þátta í prestsþjónustu Messíasar og halda hreinni tilbeiðslu Jehóva lifandi á jörðinni uns Messías kæmi. — Hebreabréfið 10:1.

Hið dýrlega, andlega musteri

13. (a) Hvað átti sér stað í sambandi við andlega musterið á árunum 29 til 33? (b) Hvaða mikilvægu hlutverki gegndi lausnarfórn Jesú í þessari framvindu?

13 Hefur endurreisnarspádómur Haggaí sérstaka þýðingu fyrir síðari tíma? Vissulega! Endurbyggða musterið í Jerúsalem varð miðpunktur allrar sannrar tilbeiðslu á jörðinni. En það var fyrirboði miklu dýrlegra, andlegs musteris. Það tók til starfa árið 29 þegar Jehóva smurði Jesú til æðstaprests við skírn hans í Jórdan, og heilagur andi kom yfir hann eins og dúfa. (Matteus 3:16) Eftir að Jesús lauk þjónustu sinni á jörð með fórnardauða var hann reistur upp til himna sem hið allra helgasta í musterinu táknaði, og þar bar hann verðgildi fórnar sinnar fram fyrir Jehóva. Fórn hans þjónaði sem lausnargjald, breiddi yfir syndir lærisveinanna og opnaði leiðina til að hægt væri að smyrja þá sem undirpresta í andlegu musteri Jehóva á hvítasunnudeginum árið 33. Eftir trúfasta þjónustu þeirra allt til dauða í forgarði musterisins á jörðinni fengju þeir síðar meir himneska upprisu til áframhaldandi prestsþjónustu.

14. (a) Hvaða gleði var samfara kostgæfnu starfi frumkristna safnaðarins? (b) Hvers vegna var þessi gleði skammvinn?

14 Þúsundir iðrunarfullra Gyðinga — og síðar manna af þjóðunum — streymdu til kristna safnaðarins og tóku þátt í að boða fagnaðarerindið um komandi stjórn Guðsríkis yfir jörðinni. Um 30 árum síðar gat Páll postuli sagt að fagnaðarerindið hefði verið prédikað „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ (Kólossubréfið 1:23) En eftir dauða postulanna brast á mikið fráhvarf frá trúnni svo að ljós sannleikans tók að flökta. Sönn kristni hvarf í skuggann af sértrú og kreddutrú kristna heimsins sem sótt var í heiðnar kenningar og heimspeki. — Postulasagan 20:29, 30.

15, 16. Hvernig rættust spádómar árið 1914? (b) Hvaða samansöfnun átti sér stað síðla á 19. öld og snemma á þeirri tuttugustu?

15 Aldir liðu. Þá tók hópur einlægra kristinna manna að rannsaka Biblíuna ítarlega á áttunda áratug nítjándu aldar. Með hjálp Ritningarinnar komust þeir að raun um að „tímar heiðingjanna“ áttu að enda árið 1914. Þá lauk sjö táknrænum ‚tíðum‘ (2520 ára dýrslegri stjórn manna) með krýningu Krists Jesú á himnum — hans er hafði „réttinn“ til að vera Messíasarkonungur jarðar. (Lúkas 21:24; Daníel 4:25; Esekíel 21:26, 27, neðanmáls) Þessir Biblíunemendur, sem nú eru kallaðir vottar Jehóva, hafa kröftuglega boðað fagnaðarerindið um hið komandi ríki út um alla jörðina, sérstaklega frá árinu 1919. Það ár svöruðu nokkur þúsund vottar hvatningunni til athafna sem veitt var á mótinu í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum. Árið 1935 voru þeir sem skýrðu frá boðunarstarfi orðnir 56.153. Það ár höfðu 52.465 tekið af brauðinu og víninu við hina árlegu minningarhátíð um dauða Jesú, og gefið með því tákn um þá von sína að verða prestar með Kristi Jesú í himneskum hluta hins mikla, andlega musteris Jehóva. Þeir eiga líka að þjóna sem meðkonungar Jesú í Messíasarríkinu. — Lúkas 22:29, 30; Rómverjabréfið 8:15-17.

16 En Opinberunarbókin 7:4-8 og 14:1-4 sýnir að þessir smurðu kristnu menn eru aðeins 144.000 að tölu, og mörgum var safnað á fyrstu öld fyrir fráhvarfið mikla. Frá lokum 19. aldar og á þeirri 20. hefur Jehóva verið að ljúka við að safna úr þjóðunum þessum hópi manna sem hreinsast í vatni orðs hans, eru lýstir réttlátir vegna trúar á friðþægingarfórn Jesú og fá loks innsigli smurðra kristinna manna til að fullna töluna 144.000.

17. (a) Hvaða samansöfnun hefur farið fram frá því á fjórða áratugnum? (b) Hvers vegna vekur Jóhannes 3:30 áhuga í þessu sambandi? (Sjá einnig Lúkas 7:28.)

17 Hvað kemur í kjölfarið þegar allir hinir smurðu hafa verið útvaldir? Á tímamóta-móti í Washington, D.C., í Bandaríkjunum árið 1935 var frá því greint að ‚múgurinn mikli‘ í Opinberunarbókinni 7:9-17 væri hópur sem kæmi fram „eftir“ samansöfnun hinna 144.000, og hann á fyrir sér að lifa eilíflega í paradís á jörð. Eftir að Jóhannes skírari hafði bent greinilega á hinn smurða Jesú sagði hann um hann: „Hann á að vaxa, en ég að minnka.“ Jóhannes hafði búið lærisveina sína undir komu Messíasar, og fær upprisu á jörð sem einn af ‚öðrum sauðum‘ hans. (Jóhannes 1:29; 3:30; 10:16; Matteus 11:11) Nú var því starfi hans að ljúka þegar Jesús tók við að útvelja þann vaxandi hóp sem verða skyldi 144.000. Á fjórða áratug þessarar aldar gerðist hið gagnstæða. Þeim fór fækkandi sem voru ‚kallaðir og útvaldir‘ í hóp hinna 144.000, en ‚miklum múgi‘ ‚annarra sauða‘ tók að fjölga gríðarlega. Þessum mikla múgi heldur áfram að fjölga nú er nálgast endalok hins illa heimskerfis í Harmagedón. — Opinberunarbókin 17:14b.

18. (a) Hvers vegna getum við óhikað vænst þess að ‚milljónir núlifandi manna muni aldrei deyja‘? (b) Hvers vegna ættum við að hlýða Haggaí 2:4 kostgæfilega?

18 Snemma á þriðja áratug aldarinnar fluttu vottar Jehóva opinberan fyrirlestur sem nefndur var „Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja.“ Hann kann að hafa borið vitni um óhóflega bjartsýni á þeim tíma. En núna má óhikað fullyrða þetta. Hið vaxandi ljós, sem skín á spádóma Biblíunnar, og stjórnleysi þessa deyjandi heims boðar háum rómi að heimskerfi Satans sé alveg að líða undir lok! Minningarhátíðarskýrslan frá 1996 sýnir að 12.921.933 voru viðstaddir, og þar af gáfu aðeins 8757 (0,068 prósent) merki um himneska von sína með því að neyta brauðsins og vínsins. Endurreisn sannrar tilbeiðslu er næstum lokið. En sláum aldrei slöku við verkið. Já, Haggaí 2:4 segir: „Ver hughraustur, allur landslýður — segir [Jehóva] — og haldið áfram verkinu, því að ég er með yður — segir [Jehóva] allsherjar.“ Megum við vera staðráðin í að láta ekki minnsta snefil af efnishyggju eða veraldarhyggju draga úr kostgæfni okkar í verki Jehóva! — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

19. Hvernig getum við átt hlutdeild í uppfyllingu Haggaí 2:6, 7?

19 Það eru gleðileg sérréttindi að eiga hlut í nútímauppfyllingu Haggaí 2:6, 7: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Eftir skamma hríð mun ég hræra himin og jörð, haf og þurrlendi. Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð — segir [Jehóva] allsherjar.“ Ágirnd, spilling og hatur er í algleymingi í heimi 20. aldar. Þessi heimur lifir sannarlega sína síðustu daga, og Jehóva er nú þegar byrjaður að „hræra“ hann með því að láta votta sína ‚boða hefndardag sinn.‘ (Jesaja 61:2) Þessi hræring nær hámarki með eyðingu heimsins í Harmagedónstríðinu, en áður dregur Jehóva til sín „gersemar allra þjóða“ — auðmjúka menn líka sauðum. (Jóhannes 6:44) Þessi ‚mikli múgur‘ veitir nú heilaga þjónustu í jarðneskum forgörðum tilbeiðsluhúss hans. — Opinberunarbókin 7:9, 15.

20. Hvar er dýrmætasta fjársjóðinn að finna?

20 Þjónusta í andlegu musteri Jehóva skilar dýrmætari arði en nokkur veraldlegur fjársjóður. (Orðskviðirnir 2:1-6; 3:13, 14; Matteus 6:19-21) Og Haggaí 2:9 segir: „Hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri verða en hin fyrri var — segir [Jehóva] allsherjar — og ég mun veita heill á þessum stað — segir [Jehóva] allsherjar.“ Hvað merkja þessi orð fyrir okkur? Um það er fjallað í næstu grein.

[Neðanmáls]

a Orðin „Jah Jehóva“ eru notuð í sérstöku áhersluskyni. Sjá Innsýn í Ritningarnar, 1. bindi, bls. 1248.

Upprifjunarspurningar

◻ Hvaða fordæmi spámannanna ættum við að fylgja í sambandi við nafn Jehóva?

◻ Hvernig er kröftugur boðskapur Jehóva til hins endurreista Ísraels okkur hvatning?

◻ Hvaða dýrlegt, andlegt musteri starfar nú á dögum?

◻ Hvaða tvenns konar samansöfnun hefur átt sér stað á 19. og 20. öldinni og hvaða fögur framtíðarsýn blasir við hópunum?

[Mynd á blaðsíðu 7]

Himneskar hersveitir Jehóva stjórna vottum hans á jörðinni og halda þeim uppi.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila