Tími prófunar og hreinsunar
„Og bráðlega mun hann koma til musteris síns, sá Drottinn er þér leitið, og engill sáttmálans . . . og hann mun sitja og bræða og hreinsa.“ — MALAKÍ 3:1, 3.
1, 2. (a) Hvaða ástand var meðal þjóna Guðs á fimmtu öld f.o.t.? (b) Hvers vegna ætti spádómur Malakís að vekja áhuga okkar?
„HVAR er sá Guð, sem dæmir?“ Þeir sem slógu fram þessari ögrandi spurningu á 5. öld f.o.t. sögðu jafnframt: „Það er til einskis að þjóna Guði.“ Sökum trúarlegrar og siðferðilegrar hnignunar meðal þjóðar Guðs, Gyðinganna, var tekið að gæta efasemda um réttvísi Guðs. En augu hins sanna Guðs, sem sefur ekki, hvíldu á þeim. Hann bauð hebreska spámanninum Malakí að gera þeim viðvart um að hreinsunarstarf, tími prófunar og hreinsunar, væri framundan. Þeir myndu vita hvar „sá Guð, sem dæmir,“ væri þegar hann kæmi skyndilega til að halda dóm! — Malakí 2:17; 3:1, 14, 15.
2 Spádómur Malakís ætti að hafa meira en aðeins sögulegt gildi fyrir okkur. Hvers vegna? Vegna þess að hann á sér bersýnilega uppfyllingu á okkar dögum. (Rómverjabréfið 15:4) Já, nútímaþjónar Jehóva hafa gengið í gegnum tíma prófunar og hreinsunar! Hvernig þá? Vandleg athugun á spádómi Malakís svarar því.
3. Hvernig fór málmhreinsun fram forðum daga?
3 En hvers vegna lætur Jehóva þjóna sína ganga í gegnum prófun og hreinsun? Hann er sá sem „prófar hjörtun“ og sá er tilgangur hans að hreinsa skipulag þjóna sinna. (Orðskviðirnir 17:3; Sálmur 66:10) Á biblíutímanum var málmur hreinsaður með því að bræða hann og fleyta síðan soranum ofan af. Við lesum: „Málbræðslumaðurinn fylgist einbeittur með verkinu, annaðhvort sitjandi eða standandi, . . . þar til [bráðinn] málmurinn er að sjá eins og gljáfægður spegill sem endurkastar mynd alls sem umhverfis er; jafnvel málmbræðslumaðurinn sér sjálfan sig sem í spegli þegar hann horfir yfir málmflötinn. Hann getur þá dæmt mjög nákvæmlega um hreinleika málmsins. Ef hann er ánægður með árangurinn er dregið niður í eldinum og málmurinn tekinn úr ofninum, en ef hann er ekki talinn hreinn er meira blýi bætt út í og verkið endurtekið.“ (Cyclopedia of Biblical, Theological and Ecclesiastical Literature eftir J. McClintock og J. Strong) Slík hreinsun jók verðmæti gulls og silfurs. — Samanber Opinberunarbókina 3:18.
4. Hvers vegna leyfir Jehóva að þjónar hans séu prófaðir og hreinsaðir?
4 Jehóva leyfir prófun og hreinsun í þeim tilgangi að fága og hreinsa þjóna sína, hjálpa þeim að endurspegla betur mynd hans. (Efesusbréfið 5:1) Hann fleytir soranum ofan af með því að hreinsa burt óhreinar kenningar og athafnir. (Jesaja 1:25) Hann greinir líka frá hópi þjóna sinna þá sem neita að láta hreinsa sig, „sem hneykslunum valda og ranglæti fremja.“ Með því opnast leið til að „börn ríkisins“ geti skinið eins og skært ljós, þannig að einnig sé hægt að safna saman jarðneskum hópi er standi með þeim í skipulaginu og bjargist. — Matteus 13:38, 41, 43; Filippíbréfið 2:15.
Köllun Malakís
5, 6. (a) Hverjir báru sérstaklega sök á andlegu ástandi Ísraelsmanna á dögum Malakís? Hvers vegna? (b) Hvaða slæm áhrif hafði það á Ísraelsmenn almennt?
5 Malakí spáði eftir árið 443 f.o.t., næstum öld eftir heimkomu Gyðinganna úr útlegðinni í Babýlon. Meira en 70 ár voru liðin frá vígslu musterisins sem Serúbabel endurbyggði. Andlegu ástandi Ísraelsmanna hafði hrakað og það var á lágu stigi. Hverjir báru sérstaklega ábyrgð á að svo var komið? Það voru prestarnir, því að þeir ‚óvirtu‘ nafn Jehóva með því að veita höltum og sjúkum skepnum viðtöku til fórnar. (Malakí 1:6-8) Þeir höfðu „leitt marga í hrösun“ með því að fræða ekki fólkið og vera hlutdrægir í dómum. — Malakí 2:6-9; Jakobsbréfið 3:1.
6 Af þessu leiddi að Ísraelsmenn almennt voru teknir að draga í efa gildi þess að þjóna Guði, þannig að þeir jafnvel neituðu að reiða af hendi tíundina sem lögmálið krafðist. (Malakí 3:6-10, 14, 15; 3. Mósebók 27:30) Svo fjarlægir voru þeir orðnir hollustu við lögmál Guðs að sumir höfðu „brugðið trúnaði“ við eiginkonur sínar, bersýnilega með því að skilja við þær til að ganga að eiga heiðnar konur. Meira að segja voru viðurstyggilegar iðkanir, svo sem særingar, hjúskaparbrot, lygar og svik, orðnar algengar meðal þjóðar Guðs! — Malakí 2:10-16; 3:5.
7, 8. Til hvaða verks var spámaðurinn Malakí kallaður?
7 Hlutverk Malakís var skýrt. Hann gekk hreint til verks og fletti ofan af vanrækslu prestanna og vakti þjóðina til vitundar um hvert andlegt ástand hennar væri. Um leið gaf hann til kynna að Guð miskunnar og kærleika væri fús til að fyrirgefa. „Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar,“ bað Jehóva. (Malakí 3:7) Malakí sagði fyrir að hinn sanni „Drottinn“ væri í þann mund að koma til musteris síns til að halda dóm. Prestarnir þyrftu að hreinsast til þess að ‚Jehóva hefði aftur þá menn, er bæru fram fórnir á þann hátt sem rétt er.‘ (Malakí 3:1-3) Auk þess var athygli þjóðarinnar vakin á að hinn sanni Drottinn myndi „skyndilega fram ganga sem vitni“ gegn þeim sem héldu áfram viðurstyggilegum athöfnum. — Malakí 3:5.
8 Malakí var trúr köllun sinni og lét aðvörunina hljóma. Það sem hann sagði var bæði prestum og öðrum samtíðarmönnum hans til góðs. Þó liðu nokkrar aldir áður en sumir þættirnir í spádómi hans hlutu sína fyrri uppfyllingu.
Uppfyllingin á fyrstu öld
9. Hver var ‚engillinn‘ eða ‚sendiboðinn‘ í uppfyllingu spádómsins? Hvers vegna svarar þú svo?
9 Frá hásæti sínu á himnum segir dómarinn mikli: „Sjá, ég sendi sendiboða minn, og hann mun greiða veginn fyrir mér.“ (Malakí 3:1a) Hver var þessi ‚sendiboði‘? Biblíuritarinn Markús tengir saman spádóminn í Malakí 3:1 og Jesaja 40:3 og heimfærir þá báða upp á Jóhannes skírara. (Markús 1:1-4) Jesús Kristur benti einnig á síðar að Jóhannes væri þessi ‚sendiboði.‘ (Matteus 11:10-14) Því var það að Jóhannes skírari hóf starf sitt sem ‚sendiboði‘ eða fyrirrennari vorið 29 að okkar tímatali. Hann átti að greiða veginn fyrir komu Jehóva sem dómara, með því að búa Ísraelsmenn undir komu hins mikla fulltrúa Guðs, Jesú Krists.
10. Hvernig ‚bjó Jóhannes skírari Jehóva altygjaðan lýð‘? (Lúkas 1:17)
10 Það að Jóhannes skyldi vera sendur á undan var merki um ást og góðvild Guðs gagnvart Gyðingum. Þeir voru í sáttmálasambandi við Jehóva og þurftu að iðrast synda sinna gegn lögmálinu. Jóhannes leiðrétti margt, sem farið hafði aflaga í trúarlegum efnum, og fletti ofan af trúhræsni. (Malakí 3:1-3, 7-12) Hann vakti með hjartahreinum Gyðingum eftirvæntingu eftir Kristi svo að þeir myndu fylgja honum. — Jóhannes 1:35-37.
11. Hvernig getum við borið kennsl á ‚hinn sanna Drottin‘ sem átti að koma skyndilega til musterisins?
11 Spádómur Malakís heldur áfram: „Og bráðlega [skyndilega, NW] mun hann koma til musteris síns, sá Drottinn er þér leitið, og engill sáttmálans, sá er þér þráið. Sjá, hann kemur — segir [Jehóva] allsherjar.“ (Malakí 3:1b) Hver var sá „Drottinn,“ „hinn sanni Drottinn“ (NW) sem átti að koma „skyndilega“ og óvænt til musteris síns? Hér er notað hebreska orðið haAdhohn. Að ákveðni greinirinn ha skuli standa fyrir framan titilinn Adhohn („Drottinn; húsbóndi“) takmarkar merkingarsvið hans við Jehóva Guð. Það var til „musteris síns“ sem Jehóva ætlaði að koma. — Habakkuk 2:20; Sálmur 11:4.
12. Hver er „sendiboði sáttmálans“ og fyrir hvaða ‚sáttmála‘ er hann sendiboði?
12 Eftir að hafa minnst á einn sendiboða gefur Malakí til kynna að hinn sanni Drottinn myndi koma til „musteris síns“ í fylgd annars sendiboða, ‚engils [eða sendiboða, NW] sáttmálans.‘ Hver skyldi það vera? Þegar mið er tekið af þróun mála er eðlilegt að ætla að „sendiboði sáttmálans“ sé Jesús Kristur sem Jóhannes skírari kynnti fyrir lærisveinum sínum sem „Guðs lamb.“ (Jóhannes 1:29-34) En fyrir hvaða ‚sáttmála‘ á Messías að vera ‚sendiboði‘? Með hliðsjón af Lúkasi 1:69-75 og Postulasögunni 3:12, 19-26 má ætla að það sé Abrahamssáttmálinn, en á grundvelli hans fengu Gyðingar fyrstir manna tækifæri til að verða erfingjar Guðsríkis.
13. Í hvaða skilningi átti „hinn sanni Drottinn“ Jehóva að koma til musterisins?
13 „Hinn sanni Drottinn“ Jehóva kom ekki í eigin persónu til hins bókstaflega musteris í Jerúsalem. (1. Konungabók 8:27) Hann lét annan koma fyrir sig, það er að segja ‚sendiboða sáttmálans,‘ Jesú Krist, en hann kom í nafni Jehóva og naut stuðnings heilags anda Guðs.a
14. (a) Hvers vegna var það aðeins tákn þess sem koma skyldi þegar Jesús hreinsaði musterið árið 30? (b) Hvernig og hvenær var musterið hreinsað til uppfyllingar Malakí 3:1?
14 Vorið 30 kom Jesús til musteris Jehóva í Jerúsalem og rak út þá sem gerðu það að „sölubúð.“ (Jóhannes 2:13-16) En það var aðeins tákn þess sem átti að gerast þegar spádómur Malakís uppfylltist. Eftir þennan atburð hélt Jóhannes, ‚sendiboðinn,‘ áfram að skíra og beina lærisveinum sínum til Jesú. (Jóhannes 3:23-30) En þann 9. nísan árið 33 reið Jesús sem sigurvegari inn í Jerúsalem og bauð sig fram til konungs. (Matteus 21:1-9; Sakaría 9:9) Jóhannes hafði lokið starfi sínu og Heródes hálshöggvið hann um það bil ári áður. Þegar Jesús kom til musterisins þann 10. nísan kom hann í embættiserindum sem ‚sendiboði sáttmálans,‘ sem fulltrúi ‚hins sanna Drottins‘ Jehóva, til uppfyllingar Malakí 3:1, og sem dómari hans. Jesús hreinsaði musterið, rak út þá sem stunduðu þar verslunarstörf og velti um borðum víxlaranna. Hann sagði hvað eftir annað: „Er ekki ritað [í Jesaja 56:7]: ‚Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir?‘ En þér hafið gjört það að ræningjabæli.“ — Markús 11:15-18.
15. Hvernig brugðust trúarleiðtogar Gyðinga sem stétt við hreinsuninni en hvað gerðu sumir prestar?
15 Trúarleiðtogum Ísraels var þannig gert viðvart um að þeirra tími væri upp runninn. Sem stétt höfðu þeir neitað að viðurkenna ‚sendiboða sáttmálans‘ sem Jehóva sendi. Þeir ‚afbáru ekki þann dag er hann kom,‘ því að þeir neituðu að beygja sig auðmjúkir undir hreinsun málmbræðslumannsins mikla. (Malakí 3:2, 3) Þeir verðskulduðu því að vera skildir frá sem verðugir tortímingar. Ljóst er þó að sumir ‚levítar‘ höfðu gott hjartalag, því að skömmu eftir dauða Jesú „snerist mikill fjöldi presta [levíta] til hlýðni við trúna.“ — Postulasagan 6:7.
16. Hvernig og hvenær kom „hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva]“ yfir Gyðingaþjóðina?
16 Þann 11. nísan, daginn eftir að Jesús hreinsaði musterið, afhjúpaði hann af miklum krafti hina trúhræsnu og sagði fyrir eyðingu musterisins og kerfis Gyðinganna. (Matteus 23. og 24. kafli) Sannarlega kom „sá Guð, sem dæmir,“ „skyndilega . . . sem vitni“ í gegn Gyðingaþjóðinni 37 árum síðar, árið 70, þegar ‚mikill og ógurlegur dagur Jehóva‘ rann upp yfir hana. (Malakí 2:17; 3:5; 4:5, 6) Þá var Ísrael í heild, skipulag líkt og tré sem ekki bar góðan ávöxt, „upp höggvið og í eld kastað“ í eyðingu af hendi Rómverja. (Lúkas 3:3-14) Allt kom þetta yfir Gyðingana ‚vegna þess að þeir þekktu ekki sinn vitjunartíma.‘ — Lúkas 19:44.
Nútímauppfylling
17. Hvað gefur til kynna að spádómur Malakís myndi fá frekari uppfyllingu á okkar tímum?
17 En hvað um síðari uppfyllingu spádóms Malakís, nútímauppfyllingu hans? Á fyrstu öldinni kom byrjunaruppfylling hans í kjölfar þess að Jesús var smurður heilögum anda til að verða væntanlegur konungur Guðsríkis. Rökrétt er því að spádómurinn hafi hlotið fyllri uppfyllingu eftir að Jesús Kristur var settur í hásæti á himnum árið 1914. Í spádóminum var gefið í skyn að hann myndi rætast „áður en hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva] kemur.“ (Malakí 4:5) Enda þótt ‚dagur Jehóva‘ hafi komið yfir gyðingakerfið árið 70 bendir Ritningin fram til annars ‚dags‘ Jehóva sem renna á upp meðan nærvera Krists stendur. — Matteus 24:3; 2. Þessaloníkubréf 2:1, 2; 2. Pétursbréf 3:10-13.
18. Hvernig var athygli þjóna Guðs vakin á því árið 1922 að dómstími stæði yfir?
18 Þegar árið 1922 var athygli þjóna Jehóva vakin á að þá stæði yfir dómstími til uppfyllingar spádómi Malakís. Þann 1. september það ár sagði í Varðturninum: „En spádómur Malakís horfir fram yfir takmarkaða uppfyllingu við fyrri komu Drottins vors, og fram til þess tíma er Messías skyldi koma í dýrð og mætti og halda dóm meðal þjóna sinna. . . . Núna er dómstíminn aftur runninn upp; enn á ný eru þeir sem játa sig fólk hans reyndir eins og í eldi og einlægum sonum Levís safnað saman til þjónustu.“
19. Á hvaða veg var ‚sendiboði‘ sendur á undan í nútímauppfyllingunni?
19 Eins og Malakí 3:1 gefur til kynna var sérstakur sendiboði sendur á undan honum. Það reyndist ekki vera einstaklingur heldur hópur manna sem þjónaði líku hlutverki og Jóhannes skírari. Allt frá 1881 hefur þessi hópur notað það sem nú er kallað Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn til að vinna að stórmerkri fræðslu og menntun um Biblíuna. Það hefur leitt til þess að mörg af frumsannindum Biblíunnar hafa aftur fest rætur í hjörtum manna sem unna Biblíunni. Má þar meðal annars nefna eftirfarandi: Maðurinn hefur ekki ódauðlega sál heldur er sál; ekkert brennandi helvíti er til; Jesús Kristur átti ekki að snúa aftur í holdi; Jehóva er einn Guð, ekki þrenning. Svo sannarlega ‚greiddi þetta starf veginn fyrir Jehóva‘ til að framkvæma dóm sinn.
20. (a) Hvenær kom Jehóva til musterisins? (b) Hvaða spurningar vekur það?
20 Skyndilega kom Jehóva, „hinn sanni Drottinn,“ til síns andlega musteris. Hvenær? Uppfylling spádómsins á fyrstu öld er fyrirmynd sem taka má mið af. Á þeim tíma kom Jesús og hreinsaði musterið þrem og hálfu ári eftir að hann var smurður sem konungur við Jórdanána. Ætla má, hliðstætt þeirri fyrirmynd, að Jesús myndi fylgja ‚hinum sanna Drottni‘ Jehóva til andlega musterisins þrem og hálfu ári eftir að hann settist í hásætið sem konungur haustið 1914. Hvað átti, samkvæmt spádóminum, að gerast síðan? Þá átti að fara fram prófun og hreinsun. En það vekur nokkrar mikilvægar spurningar: Hvaða merki eru um að þessi hreinsun hafi farið fram? Heldur hún áfram til þessa dags? Hvaða áhrif hefur allt þetta á þig persónulega? Við skulum athuga það.
[Neðanmáls]
a Við mörg tækifæri töluðu himneskir sendiboðar, englar, eins og þeir væru Jehóva Guð, því að þeir voru sendir sem fulltrúar hans. — 1. Mósebók 31:11-13; Dómarabókin 2:1-3; samanber 1. Mósebók 16:11, 13.
Manst þú?
◻ Hvers vegna leyfir Jehóva að þjónar hans gangi í gegnum prófun og hreinsun?
◻ Með hvaða hætti var Jóhannes skírari ‚sendiboði‘ eða fyrirrennari?
◻ Hvernig kom Jesús til musterisins sem „sendiboði sáttmálans“ á fyrstu öld?
◻ Hvernig vitum við að spádómur Malakís átti að uppfyllast nú á tímum?
[Mynd á blaðsíðu 11]
Jóhannes skírari var sendiboði sem bjó fólkið undir það að „sendiboði sáttmálans“ kæmi.