Kraftaverk Jesú — sannsöguleg eða skáldskapur?
„Er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu.“ — Matteus 14:25.
Í HUGUM milljóna manna um heim allan er sú trú að Jesús Kristur hafi unnið kraftaverk næstum jafnmikilvæg trúnni á Guð sjálfan. Guðspjallaritararnir — Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes — lýsa um 35 af kraftaverkum Jesú. En frásagnir þeirra benda til að hann hafi unnið mörg fleiri yfirnáttúrleg afrek. — Matteus 9:35; Lúkas 9:11.
Þessi kraftaverk voru ekki gerð til að skemmta fólki. Þau staðfestu að Jesús væri sonur Guðs eins og hann sjálfur hélt fram, hinn langþráði Messías. (Jóhannes 14:11) Móse hafði gert undraverð tákn er hann kynnti sig fyrir hinni þrælkuðu Ísraelsþjóð. (2. Mósebók 4:1-9) Rökrétt var að Messías, hann sem átti samkvæmt spádómi að vera meiri en Móse, myndi einnig gera einhver tákn til sannindamerkis um stuðning Guðs. (5. Mósebók 18:15) Biblían kallar Jesú þannig mann „sem Guð sannaði [Gyðingum] með kraftaverkum, undrum og táknum.“ — Postulasagan 2:22.
Hér áður fyrr viðurkenndi fólk lýsingar Biblíunnar á kraftaverkum Jesú yfirleitt efasemdalaust. Á síðustu áratugum hafa gagnrýnismenn hins vegar gert mjög harða hríð að frásögum guðspjallanna. Í bók sinni, Deceptions and Myths of the Bible, minnist Lloyd Graham á frásögn Biblíunnar af því er Jesús gekk á vatni og tekur svo djúpt í árinni að segja: „Það þarf mikla fáfræði til að trúa þessu bókstaflega, en þó trúa bókstaflega milljónir manna þessu. Og síðan veltum við fyrir okkur hvað ami að þessum heimi. Er hægt að búast við betri heimi þegar fáfræðin er slík?“
Óhugsandi?
En slík gagnrýni er ekki sanngjörn. The World Book Encyclopedia skilgreinir kraftaverk sem „atburð sem ekki er hægt að skýra með þekktum náttúrulögmálum.“ Samkvæmt þessari skilgreiningu hefðu litasjónvarp, farsími eða kjöltutölva verið talin kraftaverk fyrir aðeins einni öld! Er einhver skynsemi í því að vera kreddufastur og segja eitthvað vera óhugsandi aðeins vegna þess að við getum ekki skýrt það út frá núverandi vísindaþekkingu?
Annað umhugsunarvert atriði er að á frumgrískri tungu, sem „Nýjatestamentið“ var skrifað á, er notað orðið dyʹnamis fyrir „kraftaverk“ — en grunnmerking þess er „kraftur“ og það er oft þýtt þannig. Það er einnig þýtt „hæfni.“ (Lúkas 6:19; 1. Korintubréf 12:10; Matteus 25:15) Biblían fullyrðir að kraftaverk Jesú hafi verið merki um „veldi Guðs“ eða kraft. (Lúkas 9:43) Skyldi það vera alvöldum Guði, honum sem er „voldugur að afli,“ um megn að vinna slík verk? — Jesaja 40:26.
Merki um áreiðanleika
Nákvæm athugun á guðspjöllunum fjórum færir okkur frekari rök fyrir trúverðugleika þeirra. Meðal annars eru þessar frásagnir mjög ólíkar ævintýrum og þjóðsögum. Tökum sem dæmi skröksögurnar sem gengu um Jesú á öldunum eftir dauða hans. Hið apókrýfa „Tómasarguðspjall“ segir: „Er drengurinn Jesús var fimm ára . . . fór hann um þorpið og piltur hljóp og rakst í öxl hans. Jesú gramdist og sagði við hann: ‚Þú skalt ekki fara lengra áleiðis,‘ og þegar í stað féll barnið til jarðar og dó.“ Það er ekki erfitt að sjá þessa sögu í réttu ljósi — sem uppspunna skröksögu. Og þetta duttlungafulla og illskeytta barn, sem hér er lýst, á ekkert skylt við Jesú Biblíunnar. — Samanber Lúkas 2:51, 52.
Líttu nú á hinar ósviknu frásagnir guðspjallanna. Þær eru lausar við ýkjur og skáldsagnablæ. Jesús vann kraftaverk til að fullnægja raunverulegri þörf, ekki duttlungum. (Markús 10:46-52) Aldrei notaði hann mátt sinn í eigin þágu. (Matteus 4:2-4) Og hann beitti honum aldrei til að sýna sig. Þegar Heródes konungur, sem var forvitinn, vildi fá Jesú til að gera „tákn“ handa sér „svaraði [Jesús] honum engu.“ — Lúkas 23:8, 9.
Kraftaverk Jesú eru líka gerólík verkum atvinnusjónhverfingamanna, töframanna og trúarlækna. Máttarverk hans voru alltaf Guði til vegsemdar. (Jóhannes 9:3; 11:1-4) Kraftaverk hans voru laus við tilfinningalega helgisiði, töfraþulur, sýndarmennsku, brögð og dáleiðslu. Þegar Jesús hitti blindan beiningamann, Bartímeus að nafni, sem hrópaði: „Rabbúní, [gef mér] aftur sjón,“ sagði Jesús einfaldlega við hann: „‚Far þú, trú þín hefur bjargað þér.‘ Jafnskjótt fékk hann sjónina.“ — Markús 10:46-52.
Guðspjöllin sýna að Jesús vann máttarverk sín án hjálpartækja, sérstakrar sviðsetningar eða brellulýsingar. Þau voru unnin fyrir opnum tjöldum, oft að mörgum ásjáandi. (Markús 5:24-29; Lúkas 7:11-15) Lækningar hans mistókust aldrei og því borið við að suma hinna þjáðu hafi skort trú, eins og oft gerist hjá trúarlæknum nútímans þegar þeir reyna að lækna. Matteus 8:16 segir: „Alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann.“
Í bók sinni, „Many Infallible Proofs:“ The Evidences of Christianity, segir fræðimaðurinn Arthur Pierson um kraftaverk Krists: „Það er reginmunur á þessum kraftaverkum og hinum ímynduðu máttarverkum nútímans, og reyndar allra annarra tíma. Þessi munur er fólginn í fjölda kraftaverkanna, hinni snöggu og algeru lækningu og svo því að jafnvel tilraunir hans til að reisa upp dána skyldu aldrei mistakast.“
Staðfesting veraldlegra heimilda
Pierson færir fram enn önnur rök til stuðnings guðspjallafrásögunum er hann segir: „Engin staðfesting á kraftaverkum ritningarinnar er athyglisverðari en þögn óvinanna.“ Leiðtogar Gyðinga höfðu meira en nóg tilefni til að vilja gera Jesú tortryggilegan, en kraftaverk hans voru svo alþekkt að andstæðingar hans voguðu sér ekki að afneita þeim. Það eina sem þeir gátu var að eigna illum öndum kraftinn til að vinna slík afrek. (Matteus 12:22-24) Öldum eftir dauða Jesú héldu ritarar Talmúðs Gyðinga áfram að eigna Jesú undraverðan mátt. Að því er bókin Jewish Expressions on Jesus segir höfnuðu þeir honum sem „töframanni.“ Hefðu þeir komist svo að orði ef minnsti möguleiki hefði verið á að hafna kraftaverkum Jesú sem hreinum goðsögnum?
Kirkjusagnfræðingurinn Evsebíus frá fjórðu öld kemur með enn frekari sannanir. Í bók sinni, The History of the Church From Christ to Constantine, vitnar hann í Kvadratus nokkurn sem sendi keisaranum bréf til varnar kristninni. Kvadratus skrifaði: „Verk frelsara vors blöstu alltaf við því að þau voru ósvikin — fólkið, sem hafði verið læknað, og þeir sem reistir voru frá dauðum. Þeir höfðu ekki sést aðeins á því augnabliki er þeir voru læknaðir eða reistir upp, heldur voru alltaf sýnilegir, ekki aðeins meðan frelsari vor var á meðal oss, heldur einnig löngu eftir burtför hans; sumir lifðu meira að segja allt fram á minn dag.“ Fræðimaðurinn William Barclay segir: „Kvadratus er að segja að fram á hans dag væri raunverulega hægt að leiða fram menn sem kraftaverk hefðu verið unnin á. Ef það var ósatt hefði verið hægðarleikur fyrir rómversku stjórnina að stimpla það sem lygi.“
Það er í senn rökrétt, skynsamlegt og í fullu samræmi við staðreyndir að trúa á kraftaverk Jesú. En kraftaverk Jesú eru ekki bara dauð saga. Hebreabréfið 13:8 minnir okkur á að „Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.“ Já, hann er lifandi á himnum núna, fær um að beita undraverðum mætti sínum í margfalt stórkostlegri mæli en hann gerði meðan hann var maður á jörðinni. Og frásagnir guðspjallanna af kraftaverkum hans (1) kenna kristnum nútímamönnum hagnýtan lærdóm, (2) opinbera hrífandi hliðar á persónuleika Jesú og (3) beina athyglinni að rétt ókomnum tíma þegar jafnvel enn stórkostlegri atburðir munu eiga sér stað!
Næsta grein vekur athygli okkar á velþekktum biblíufrásögum sem sýna fram á þetta.