Barnsfæðing með fyrirheit um öryggi um allan heim
„Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“ — JESAJA 9:6.
1. Undir stjórn hvers er öryggi um allan heim tryggt og hvernig vitum við það?
ÖRYGGI um allan heim! Undir stjórn „höfðingja þessa heims,“ Satans djöfulsins, er það óhugsandi draumur. (Jóhannes 12:31) En öryggi um allan heim undir stjórn ‚Friðarhöfðingjans,‘ Jesú Krists, mun koma án minnsta vafa. Jehóva fullvissar okkur um það í spádóminum um fæðingu og lífsstarf ‚Friðarhöfðingjans.‘ Við lesum í Jesaja 9:6, 7: „Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu. Vandlæting [Jehóva] allsherjar mun þessu til vegar koma.“
2. (a) Við hvaða aðstæður var spádómurinn í Jesaja 9:6, 7 borinn fram? (b) Hvernig vitum við að Jehóva mun örugglega halda sáttmálann við Davíð um eilíft ríki í ætt hans?
2 Það verður spennandi að rannsaka þennan stórkostlega spádóm um mikilvægustu barnsfæðingu hér á jörð, en áður en við getum til fulls gert okkur grein fyrir og metið hann verðum við að skoða vandlega við hvers konar kringumstæður hann var borinn fram. Þetta var á þeim tímum er alþjóðlegt samsæri átti sér stað á dögum Akasar konungs í Júda. Þó að sá konungur sýndi Jehóva ótrúmennsku var honum leyft að sitja í hásæti Jehóva. Honum var sýnt þetta umburðarlyndi vegna sáttmálans sem Jehóva hafði gert við Davíð um að ríkið skyldi vera í höndum niðja hans að eilífu. Þótt Davíð væri neitað um þau sérréttindi að reisa Jehóva musteri veitti Guð honum annars konar blessun. Hún kom fram í orðum Natans spámanns: „Og [Jehóva] boðar þér, að hann muni reisa þér hús. Hús þitt og ríki skal stöðugt standa fyrir mér að eilífu. Hásæti þitt skal vera óbifanlegt að eilífu.“ (2. Samúelsbók 7:11, 16) Þetta loforð Guðs var Davíð konungi mikil uppörvun og hann hlakkaði til þess að það rættist.
3. (a) Á hverjum uppfyllist þessi sáttmáli við Davíð, og að hvaða leyti er hann einstæður? (b) Hvað einsetti djöfullinn sér í sambandi við ríkissáttmálann?
3 Þessi sáttmáli við Davíð uppfyllist í hinum mikla syni Davíðs, Jesú Kristi, ‚Friðarhöfðingjanum.‘ Engri annarri konungsætt á allri jörðinni hefur nokkru sinni verið gefinn slíkur sáttmáli um ríki þar sem kveðið er á um að höfðingjadómurinn verði mikill og varanlegur og friðurinn taki aldrei enda. Þessi sáttmáli um ríki var mikil áskorun til allra annarra ríkja heimsins sem Satan er höfðingi yfir eða stjórnandi. Djöfullinn og árar hans settu sér þess vegna það markmið að reyna að eyðileggja hús Davíðs og þar með gera að engu vonir þess um að þaðan kæmi varanlegur erfingi. Satan komst að raun um að Resín Sýrlandskonungur, Peka konungur tíuættkvíslaríkisins Ísraels, og Assýríukonungur voru viljug verkfæri í hendi hans.
Samsæri gegn sáttmálanum um ríkið
4. Hvernig reyndi djöfullinn að hindra að ríkissáttmáli Jehóva við Davíð héldi?
4 Hvert var ráðabrugg djöfulsins? Hann ætlaði sér að hræða Akas Júdakonung til að gera bandalag við Assýríukonung sem var rangt. Hvernig gæti djöfullinn gert það? Nú, hann fékk Peka Ísraelskonung og Resín Sýrlandskonung til að gera samsæri gegn húsi Davíðs. Þeir lögðu á ráðin um að bola Akasi burt úr hásæti Júda og setja þar sinn eigin mann, Tabelsson, sem leppkonung. Hver var þessi Tabelsson? Veitum athygli að hann var ekki af húsi Davíðs. Hann var því ekki maður sem sáttmáli Guðs um ríkið gat farið í gegnum uns fram kæmi hinn varanlegri erfingi, ‚Friðarhöfðinginn.‘ Hann átti að vera þeirra maður, ekki maður Guðs, á konungsstóli Júda. Þannig flettir Biblían ofan af viðleitni Satans til að stöðva framgang sáttmála Jehóva um ríkið sem gerður var við Davíð.
5, 6. Hvernig brást Akas konungur við samsærinu gegn húsi Davíðs, og hvaða hvetjandi boðskap sendi Jehóva honum?
5 Hvernig brást Akas konungur við þessari ógnun? Hann og fólk hans skalf af ótta. Þess vegna veitti Jehóva honum ýmsar hvetjandi upplýsingar til að snúa honum frá því að mynda varnarbandalag með konungi assýríska heimsveldisins sem færðist nú mjög í aukana. Jehóva sendi spámann sinn Jesaja til fundar við Akas og til að flytja þennan boðskap sem finna má í Jesaja 7:4-9:
6 „Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast . . . sökum þess að Sýrland, Efraím [helsti meðlimur Ísraelsríkisins] og Remaljasonur [Peka] hafa haft ill ráð með höndum gegn þér og sagt: ‚Vér skulum fara herferð á hendur Júda og skjóta mönnum skelk í bringu, taka landið herskildi og setja Tabelsson þar til konungs‘ — sökum þess segir hinn alvaldi [Jehóva]: Það skal eigi takast og það skal eigi verða . . . Ef þér trúið eigi, munuð þér eigi fá staðist.‘“
Tákn um að samsærið færi út um þúfur
7. (a) Hvert var tilefni hins einstæða spádóms í Jesaja 7:14? (b) Um hvað var fæðing Immanúels öruggt tákn og hvaða hlutverki þjónuðu synir Jesaja?
7 Þannig spáði Jehóva að samsærismennirnir yrðu brotnir á bak aftur. Á þeirri stundu kom tíminn fyrir spádóm frá Guði sem hafði þýðingu fyrir allan heiminn, af því hann benti til hins konunglega erfingja samkvæmt sáttmálanum við Davíð um ríkið. En hver var undanfari þessa merkilega spádóms? Jehóva var að tala við Akas konung. Hann sagði Akasi að biðja um hvert það yfirnáttúrlega tákn sem hann gæti látið sér detta í hug og þá myndi Jehóva gera það sem algera tryggingu fyrir því að hann myndi ónýta samsærið gegn húsi Davíðs. En Akas færðist undan að biðja um slíkt tákn. Hvað gerðist næst? Jesaja 7:14 segir okkur: „Fyrir því mun [Jehóva] gefa yður tákn sjálfur: Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.“ Það nafn þýðir „Guð með oss.“ Þar sem Immanúel og hinir tveir synir Jesaja áttu að vera sem tákn segir spámaðurinn í Jesaja 8:18: „Sjá, ég og synirnir, sem [Jehóva] hefir gefið mér, vér erum til tákns og jarteikna í Ísrael frá [Jehóva] allsherjar.“ Fæðing Immanúels var þess vegna öruggt tákn þess að allir samsærismennirnir og samsæri þeirra gegn ríkissáttmála Guðs og erfingja hans yrði að engu!
8. (a) Hvað sagði spádómurinn í Jesaja 7:15, 16 um drenginn Immanúel og hvernig rættist það? (b) Hver kann að vera ástæðan fyrir því að meira er ekki sagt um Immanúel á dögum Jesaja?
8 Frásaga Biblíunnar greinir ekki frá því hver fæddi soninn sem nefndur er Immanúel. Það kann að hafa verið gyðingamær sem varð önnur kona Jesaja spámanns. En hvernig sem það var sagði spádómurinn að áður en drengurinn næði þeim aldri að geta greint gott frá illu myndu konungarnir tveir, sem samsæri gerðu gegn húsi Davíðs, hljóta hörmuleg endalok. (Jesaja 7:15, 16) Þannig fór það líka. Vera má að ætlunin með því að segja ekki meira um það hver þessi Immanúel á dögum Jesaja var, hafi verið sú að draga ekki athygli síðari kynslóða frá hinum meiri Immanúel þegar hann myndi birtast sem yfirnáttúrlegt tákn frá himni.
9 (a) Hvað tryggði uppfylling táknsins og það að samsærið gegn ríkissáttmálanum var ónýtt? (b) Í hverju er mesta samsæri sögunnar fólgið?
9 Það sem átti sér stað á dögum Akasar var að sjálfsögðu aðeins minniháttar uppfylling táknsins og loforðsins um að kollvarpa hinu veraldlega samsæri gegn sáttmála Guðs um ríkið. Þessi fyrsta uppfylling gaf engu að síður tryggingu fyrir að táknið um að samsæri heimsins yrði kollvarpað myndi uppfyllast í meiriháttar skilningi á okkar örlagaríku tímum. Við stöndum núna augliti til auglitis við hið mesta alheimssamsæri sem nokkru sinni hefur verið gert. Í hvaða skilningi? Þeim að þjóðirnar hunsa algerlega ráðstafanir Jehóva til að koma á varanlegum friði og jafnvel standa gegn fulltrúum ‚Friðarhöfðingjans.‘ Samsærið er í raun gegn erfingja ríkissáttmálans, ‚Friðarhöfðingjanum.‘ Hvað má þá segja núna um endanlega uppfyllingu spádómsins? Ef við áttum okkur á tákninu þá eru örlög þessa heimssamsæris vitað mál.
Fæðing ‚Friðarhöfðingjans‘
10. (a) Hver fæddi í endanlegri uppfyllingu Jesaja 7:14 það barn sem vera átti tákn og erfingi ríkissáttmálans? (b) Hvernig tengir söguritarinn Matteus Immanúeltáknið við hús Davíðs?
10 Í hinni endanlegu uppfyllingu spádómsins var yngismærin, sem fæddi af sér barnið sem tákn og erfingja ríkissáttmálans, María, gyðingamær komin af Davíð konungi. Engillinn Gabríel sagði henni að hún myndi fæða son sem yrði látinn heita Jesús, að Jehóva Guð myndi „gefa honum hásæti Davíðs föður hans“ og að á ríki hans myndi „enginn endir verða.“ (Lúkas 1:26-33) Hinn innblásni söguritari Matteus tengir Immanúeltáknið við hús Davíðs. Við lesum í Matteusi 1:20-23: „Þá vitraðist honum [Jósef] engill [Jehóva] í draumi og sagði: ‚Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.‘ Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð [Jehóva] fyrir munn spámannsins: ‚Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel,‘ það þýðir ‚Guð með oss.‘“
11. Hvar og hvenær fæddist Immanúel?
11 Og hvar átti sér stað þessi fæðing Immanúels sem spáð hafði verið um? Augu allra Gyðinga beindust í rétta átt vegna orðanna í Míka 5:2, sem Matteus 2:6 vitnar í: „Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“ Það var á árinu 2 f.o.t. í bænum Betlehem sem ‚Friðarhöfðinginn‘ fæddist og hinn stórfenglegi spádómur í Jesaja 9:6, 7 tók að uppfyllast.
12, 13. Fyrir hvern var fæðing ‚Friðarhöfðingjans‘ mikill vegsauki og hvaða dýrðarljómi var tengdur fæðingunni?
12 Hver okkar myndi ekki telja það heiður og gleðiefni að verða foreldri þess sem fengi titilinn „Friðarhöfðingi“? Það færði þess vegna konunglegum föður þessa höfðingja mikla gleði. Aldrei áður hefur fæðing nokkurs manns verið tengd svo dýrlegum, hrífandi og stórfenglegum atburðum.
13 Skínandi engill Jehóva birtist fjárhirðum sem gættu hjarða sinna um nóttina í haganum fyrir utan Betlehem og „dýrð [Jehóva] ljómaði kringum þá.“ Engillinn tilkynnti þá fæðinguna er uppfyllti spádóm Guðs, og sagði: „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“ Og eins og þetta væri ekki nógu dýrlegt þá birtist á himnum fyrir ofan þá fjöldi engla sem lofuðu föður hins nýfædda barns og sögðu einróma: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ Hversu viðeigandi var ekki fyrir englana að tilkynna við fæðingu þess sem átti að verða ‚Friðarhöfðinginn,‘ að friður frá Guði myndi hlotnast öllum sem hann hefur velþóknun á. — Lúkas 2:8-14.
14, 15. (a) Við hvaða tækifæri hafa himneskir synir Guðs lofað hann? (b) Hvers vegna getur engin önnur barnsfæðing í sögu mannkynsins jafnast á við þessa?
14 Löngu fyrir fæðingu þess sem verða myndi ‚Friðarhöfðinginn,‘ höfðu englarnir lofað Guð við sérstakt tækifæri. Það var þegar hann, við sköpunina, grundvallaði jörðina. (Jobsbók 38:4) Hefur þú séð myndir sem geimfarar hafa tekið utan úr geimnum af jörðinni okkar? Þá sást þú það sem aðeins englarnir hafa séð þangað til núna nýlega. Og hver voru viðbrögð englanna? Jobsbók 38:7 segir okkur: „Morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu.“
15 Hin mesta fæðing, sem jörðin fengi nokkru sinni þann heiður að vera vettvangur fyrir, yrði alls ekki síðra tilefni fyrir syni Guðs til að sameina raddir sínar í hljómfögrum lofsöng. Á sama hátt og jarðneskum föður er óskað til hamingju þegar frumborinn sonur hans fæðist, á faðirinn á himnum, sem stendur að baki þessari fæðingu, skilið að himnesk fjölskylda hans mikli hann í söng. Þessi mikla himneska vera hlýtur að hafa notið hins undurfagra söngs er hann í fyrsta sinn varð faðir við algerlega nýjar kringumstæður! Aldrei áður í allri sögu alheimsins hefur átt sér stað barnsfæðing sem jafnast á við fæðingu þessa ‚Friðarhöfðingja‘ sem spáð hafði verið um.
„Mikið ljós“ skín
16. Hvenær og hvernig rættust fleiri smáatriði Jesaja 9. kafla?
16 Þegar Jesús hóf opinbert boðunarstarf sitt hér á jörð uppfylltist 9. kafli Jesajabókar enn frekar. Sú uppfylling lýtur að fyrstu tveimur versum kaflans þar sem spáð er að „mikið ljós“ myndi skína á þjóð sem „í myrkri gengur.“ Hinn innblásni söguritari Matteus útskýrir uppfyllingu þessara versa fyrir okkur í kafla 4, versunum 13-17: „Hann [Jesús] fór frá Nasaret og settist að í Kapernaum við vatnið í byggðum Sebúlons og Naftalí. Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: Sebúlonsland og Naftalíland við vatnið, landið handan Jórdanar, Galílea heiðingjanna. Sú þjóð, sem í myrkri sat, sá mikið ljós. Þeim er sátu í skuggalandi dauðans, er ljós upp runnið. Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: ‚Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.‘“
17. Hvers vegna gat Jesús tendrað ljós hjá Sebúlons- og Naftalíbúum, og hvað þýddi þetta ljós fyrir þá sem sátu í myrkri?
17 Sebúlonsland og Naftalíland lágu nyrst í Ísrael og í þeim var Galíleuhérað. Naftalíland lá meðfram endilangri vesturströnd Galíleuvatnsins. Með því að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki á þessum svæðum lét Jesús ásamt lærisveinum sínum ljósið skína til fólksins eða þjóðarinnar þar, sem svo lengi hafði setið í myrkri. Jesús sagði í Jóhannesi 8:12: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ Vegna Jesú var þeim „er sátu í skuggalandi dauðans“ gert kleift að eignast „ljós lífsins“ af því að hann gaf líf sitt „til lausnargjalds fyrir marga.“ Hann er sá sem Jehóva notaði til að upplýsa með hvaða hætti menn gætu öðlast lífið. — Matteus 4:23; 20:28.
18. (a) Hvers vegna átti þetta ‚mikla ljós‘ ekki aðeins að skína á Galíleubúa? (b) Hvað verður skoðað í greininni sem fylgir?
18 Hið ‚mikla ljós,‘ sem gaf fyrirheit um lausn frá dauða og kúgun, skein ekki aðeins á Galíleumenn. Hafði Jesaja ekki spáð að allsnægtir stjórnarinnar tækju engan enda? Og hafði hann ekki spáð að hlutverk ‚Friðarhöfðingjans‘ yrði geysilega umfangsmikið? Jú, því að Jesaja 9:6, 7 segir: „Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ Í greininni sem fylgir munum við íhuga hlutverk Jesú Krists sem ‚Undraráðgjafa, Guðhetju, Eilífðarföður og Friðarhöfðingja.‘
Manst þú?
◻ Hvaða samsæri var gert á dögum Akasar konungs?
◻ Hvernig hlaut táknið í Jesaja 7:14 sína fyrri uppfyllingu?
◻ Hvernig hlaut táknið lokauppfyllingu sína?
◻ Hvers vegna var fæðing ‚Friðarhöfðingjans‘ þýðingarmesta fæðing sem orðið hefur?