Spurningar frá lesendum
◼ Sumir fræðimenn halda því fram að í Matteusi 19:24 eigi að standa „reipi“ í stað „úlfalda.“ Versið hljóðar svo: „Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ Hvort orðið er hið rétta?
Vissir biblíufræðimenn halda ranglega fram að orð Jesú hér hafi upphaflega verið skráð á arameísku. Arameíska orðið í slíkum útgáfum Matteusarguðspjalls (gamla) getur merkt „úlfaldi.“ Ef samhengið gefur tilefni til má hins vegar einnig þýða það „svert reipi og bjálki.“ Að sögn Papíasar frá Híreapólis, sem kann að hafa verið samtíðarmaður Jóhannesar postula, skrifaði Matteus hins vegar guðspjall sitt upphaflega á hebresku, ekki arameísku, og þýddi það síðan á grísku. Hebreska orðið fyrir úlfaldi (gamal) er allsendis ólíkt orðum sem merkja reipi (chevel) eða strengur (avoth) og segja má með öruggri vissu að Matteus hafi valið rétt orð í grískri þýðingu sinni.
Elstu og áreiðanlegustu grísku handritin (Sinaiticus og Vatican nr. 1209) hafa orðið kamelos sem merkir úlfaldi. Þetta sama orð er notað í Matteusi 23:24 þar sem lítill vafi leikur á að verið er að tala um „úlfalda.“
Í aldanna rás hafa sumir reynt að mýkja eða milda hina nöpru ýkjulíkingu Jesú. Sumir leyfðu sér jafnvel að hagræða textanum. Frá því um það bil á fimmtu öld er að finna líkt orð, kamilos, í þessum texta í sumum grískum handritum. Þetta sjaldgæfa orð merkir „reipi, skipsreipi.“ Að sögn A Greek-English Lexicon of the New Testament eftir Arndt og Gingrich „á það alls ekki heima í Nýjatestamentinu.“ Grískufræðingarnir Westcott og Hort kenna Kýrilíusi frá Alexandríu um þessi skipti á orðum en hann var uppi á fimmtu öld og játaði kristna trú. Hann staðhæfði að orðið, sem Matteus notaði (kamelos), gæti merkt reipi og sagði: „Sú var venja þeirra sem þekktu vel til siglinga að kalla sver reipi ‚úlfalda.‘“ Westcott og Hort segja um þessa hugmynd: „Hún er örugglega röng.“
Sú hugmynd að reyna að troða úlfalda í gegnum örsmátt nálarauga „ber keim af austurlenskum ýkjum“ að sögn eins fræðirits. Meira að segja lýsir The Babylonian Talmud mönnum, sem voru kunnir fyrir slík klókindi að þeir virtust gera hið ómögulega, svo: „Þeir draga fíl í gegnum nálarauga.“ Jesús var hér að nota dæmigert myndmál Austurlandabúa og dró upp skýrar andstæður til að undirstrika að ákveðið atriði væri óhugsandi. Svo sannarlega er ógerlegt að troða stórum hlut í gegnum nálarauga — hvort heldur reipi, úlfalda eða fíl.
Jesús var ekki að segja að það væri óhugsandi fyrir auðugan mann að öðlast lífið, því að til voru auðmenn sem gerðust fylgjendur hans. (Matteus 27:57; Lúkas 19:2, 9; Jóhannes 19:38, 39) En rétt áður en Jesús mælti þetta hafði ungur auðmaður hafnað stórkostlegu tækifæri vegna þess að honum þótti of vænt um sínar ‚miklu eignir.‘ (Matteus 19:16-22) Það væri óhugsandi fyrir ríkan mann, er hefði þau viðhorf, að hljóta eilíft líf. Aðeins með hjálp Guðs gæti slíkur maður tekið stefnubreytingu og öðlast það hjálpræði sem fæst aðeins vegna máttar Guðs. — Matteus 19:25, 26.