Sjónarmið Biblíunnar
Veitir Guð umbun?
Já, það gerir hann. Er það þá eigingjarnt að þjóna Guði með umbun eða laun í huga? Nei, því að sjálfur heitir hann að umbuna trúföstum þjónum sínum. Sem Guð réttvísinnar og kærleikans skuldbindur hann sig í reynd til að umbuna þeim sem þjóna honum. Orð hans segir í Hebreabréfinu 11:6: „Sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“
Með því að sýna ósvikna trú á Guð ávinnum við okkur vináttu hans og þessi vinátta hefur umbun í för með sér. Guð blessar þá sem leita hylli hans í einlægni.
Umbun er kærleiksverk
Jehóva vill að við vitum að hann er Guð er umbunar þeim sem elska hann. Hugulsamir foreldrar eru til dæmis vakandi fyrir því hvernig umbuna megi barni sem vinnur fúslega sinn skerf af heimilisstörfunum vegna kærleika síns til foreldranna. Foreldrarnir sjá kannski fyrir meiru en aðeins lífsnauðsynjum og umbuna barninu með sérstakri gjöf. Stundum getur gjöfin jafnvel verið peningar til að leggja í banka í þeim tilgangi að veita barninu öryggi í framtíðinni. Guð er því ólíkur mönnum sem kunna ekki að meta eða taka tillit til þeirra sem gera margt vegna ástar eða hollustu. Jehóva er hjartahlýr og nálægir sig vinum sínum. Ef þú heldur þér fast við trúna á hann mun hann „ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ — Hebreabréfið 13:5.
Guð kann að meta jafnvel alla þá sem veita honum hina minnstu þjónustu. Hann er þeim velviljaður og gefur þeim færi á að kynnast sér nánar. Orð Jesú í Matteusi 10:40-42 lýsa því vel: „Sá sem tekur við yður, tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. Sá sem tekur við spámanni, vegna þess að hann er spámaður, mun fá spámanns laun, og sá sem tekur við réttlátum manni, vegna þess að hann er réttlátur, mun fá laun réttláts manns. Og hver sem gefur einum þessara smælingja svaladrykk vegna þess eins, að hann er lærisveinn, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum.“
Jesús var sendur af föður sínum, Jehóva. Þess vegna er sá sem tekur vinsamlega við lærisveinum Krists — hvort heldur þeir eru spámenn, réttlátir menn eða smælingjar — að taka við Kristi og jafnframt Guði sem sendi Krist. Sá maður hlýtur vissulega blessun; hann fer ekki á mis við laun sín. Andlegir fjársjóðir hans verða enn meiri. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva man jafnvel eftir minnstu þjónustu sem veitt er til stuðnings ríki hans og umbunar fyrir slíka þjónustu. — Hebreabréfið 6:10.
Athyglisvert er að Pétur, lærisveinn Jesú, spurði Jesú beint hvort hann og sampostular hans fengju einhverja umbun: „Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum vér hljóta?“ (Matteus 19:27) Jesús áleit þetta alls ekki óviðeigandi spurningu heldur svaraði henni jákvætt og sagði: „Hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf.“ — Matteus 19:29.
Umbun núna og í framtíðinni
Svar Jesú sýnir að fylgjendum hans er umbunað bæði núna og í framtíðinni. Ein umbunin núna er sú að þeir verða hluti af stækkandi, alþjóðlegri fjölskyldu andlegra bræðra og systra. Meðan kirkjur kristna heimsins andvarpa yfir fækkandi sóknarbörnum og stuðningsleysi eru samkomusalir votta Jehóva fullir út úr dyrum. Hundruð þúsundir nýrra votta skírast á ári hverju.
Önnur umbun er fólgin í þeim hugarfriði, ánægju og hamingju sem vinátta við Guð og þekking á honum hefur í för með sér. Já, „guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur.“ (1. Tímóteusarbréf 6:6) Það endurspeglar sannarlega gott hugarástand þegar við getum sagt líkt og Páll postuli: „Ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er,“ það að vera nægjusamur. Filippíbréfið 4:11.
Skömmu fyrir dauða sinn skrifaði Páll um framtíðarumbun ‚lítillar hjarðar‘ smurðra fylgjenda Jesú — þá umbun að rísa upp til lífs á himnum: „Nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans.“ — Lúkas 12:32; 2. Tímóteusarbréf 4:7,8.
Þær milljónir fylgjenda Jesú, sem eru ‚aðrir sauðir‘ hans, hlakka til þeirrar framtíðarumbunar að hljóta eilíft líf á jörð sem breytt verður í paradís. (Jóhannes 10:16) Og Jesús fullvissaði fylgjendur sína um að þeim sem deyja verði „endurgoldið í upprisu réttlátra.“ — Lúkas 14:14.
Sjáðu umbunina fyrir þér
Það er viðeigandi að reyna að sjá slíka blessun fyrir sér, enda þótt enginn viti nákvæmlega hvernig hún verður. Finnurðu fyrir þeirri hamingju sem lýst er í Jesaja 25:8: „Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu?“ Reyndu að sjá fyrir þér það sem Jesaja 32:17 lýsir: „Ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu.“ Já, allir menn munu vinna saman í ósvikinni vináttu. (Jesaja 65:21-25) Jafnvel nú á tímum er hægt með dugnaði að byggja upp bönduð hús og framleiða vörur í háum gæðaflokki. Í nýjum heimi Guðs verður heilbrigt fólk, sem býr við fullkomnar aðstæður, fært um að framleiða hvaðeina sem þarf til að gera lífið ánægjulegt. — Sálmur 37:4.
Guð er ekki að umbuna okkur af því að við höfum unnið til þess með þjónustu okkar, heldur er umbunin gjöf sprottin af kærleika hans þrátt fyrir syndugt eðli okkar. (Rómverjabréfið 5:8-10) Engu að síður er samband milli launanna, sem við væntum, og hegðunar okkar. Við verðum að leita Jehóva í einlægni, djörfung, trú og þolgæði. (Hebreabréfið 10:35-39) Með öðrum orðum, „hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og [Jehóva] ætti í hlut, en ekki menn. Þér vitið og sjálfir, að [Jehóva] mun veita yður arfleifðina að launum.“ Já, hann veitir sannarlega umbun! — Kólossubréfið 3:23, 24.